Hvernig sjónvarpið hefur breytt heiminum
Hvernig sjónvarpið hefur breytt heiminum
SÍÐASTLIÐIÐ sumar breytti sjónvarpið heiminum í einn allsherjar íþróttaleikvang. Götur Rómar voru auðar og yfirgefnar. Um 25 milljónir Ítala horfðu á heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu í sjónvarpinu. Götur Búenos Aíres í Argentínu voru einnig mannlausar af sömu ástæðu. Í Kamerún í Vestur-Afríku blikaði grábláa ljósið í gluggunum er milljónir manna sátu við skjáinn og ráku upp hvatningaróp sem einn maður væri. Í hinu stríðshrjáða Líbanon stilltu hermenn upp sjónvarpstækjum í skriðdrekunum til að horfa á leikina. Talið er að fimmtungur jarðarbúa hafi setið við sjónvarpið þegar keppnin náði hámarki, dregnir að fölu skini sjónvarpsskjásins eins og flugur að ljósi.
Þessi mikli sjónvarpsviðburður var þó engin nýlunda. Árið 1985 fylgdist nálega þriðjungur jarðarbúa — um 1.600.000.000 manna — með rokkhljómleikum sem kallaðir voru Live Aid. Tugur gervihnatta endurvarpaði dagskránni til um 150 landa allt frá Íslandi til Gana.
Sjónvarpið, sem nú er til á nánast hverju heimili, hefur gengið í gegnum hljóðláta byltingu. Tækniframfarirnar hafa verið miklar, frá hinum örsmáa skjá og flöktandi mynd þriðja og fjórða áratugarins til litsjónvarpstækja nútímans með sínum hnífskörpu myndum. Jafnhliða tækniframförunum hefur sjónvarpstækjum fjölgað jafnt og þétt. Árið 1950 voru innan við fimm milljónir sjónvarpstækja í heiminum. Núna eru þau um 750.000.000.
Fjölmiðlaviðburðir, svo sem heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu, sýna okkur glögglega hvílíkan mátt sjónvarpið hefur til að tengja heiminn saman í eitt upplýsinganet. Sjónvarpið hefur breytt því hvernig fólk aflar sér vitneskju um umheiminn. Það hefur stuðlað að flutningi frétta og útbreiðslu hugmynda, jafnvel menningar og verðmætamats, frá einu landi til annars, óháð þeim landamærum náttúrunnar eða stjórnmálanna sem áður hindruðu slíkt. Sjónvarpið hefur breytt heiminum. Sumir álíta að það geti líka breytt þér.
Jóhannes Gutenberg er þekktur fyrir þá byltingu í fjölmiðlun sem hann olli er fyrsta biblían var prentuð á prentvél hans árið 1455. Núna gat sami boðskapurinn skyndilega náð til margfalt fleiri en áður var, á skemmri tíma og mun ódýrar en þekkst hafði fram til þess tíma. Yfirvöld komu fljótt auga á áhrifamátt prentvélarinnar og reyndu að ná yfirráðum yfir henni með því að binda notkun hennar opinberum leyfum. En hið prentaða mál náði stöðugt til fleira fólks. Snemma á nítjándu öld lét sagnfræðingurinn Alexis de Tocqueville þau orð falla að dagblöðin hefðu þann óvenjulega áhrifamátt að geta gróðursett sömu hugmynd í hugum 10.000 manna á einum degi.
En lítum nú á sjónvarpið. Það getur gróðursett sömu hugmynd í hugum hundruða milljóna manna — á sama augnabliki! Og ólíkt prentuðu máli krefst það þess hvorki af áhorfendum sínum að þeir hafi tök á hinni flóknu lestrarlist né fer fram á að þeir dragi upp sínar eigin myndir í huganum. Sjónvarpið flytur boðskap sinn í myndum og hljóðum með öllu því ginningarafli sem slíku getur fylgt.
Stjórnmálamenn voru ekki lengi að koma auga á hina geysimiklu möguleika sem sjónvarpið bauð upp á. Í Bandaríkjunum notfærði Dwight D. Eisenhower sér sjónvarpið klókindalega
í baráttu sinni til forsetakjörs árið 1952. Að sögn bókarinnar Tube of Plenty — The Evolution of American Television sigraði Eisenhower í kosningunum vegna þess að hann reyndist frambærilegasta „söluvaran“ í sjónvarpinu. Í bókinni kemur fram að sjónvarpið hafi gegnt jafnvel enn stærra hlutverki í sigri Johns F. Kennedys yfir Richard M. Nixon í forsetakosninunum árið 1960. Þegar frambjóðendurnir háðu kappræður í sjónvarpi töldu áhorfendur Kennedy hafa staðið sig betur. Þeir sem hlýddu á sömu kappræður í útvarpi töldu frambjóðendurna hins vegar hafa staðið sig jafnvel. Í hverju lá munurinn? Nixon var fölur og gugginn að sjá en Kennedy hraustlegur og sólbrúnn og geislaði af sjálfstrausti og lífsþrótti. Eftir kosningarnar sagði Kennedy um sjónvarpið: „Ég hefði ekki haft minnsta möguleika án þessa apparats.“‚Þetta apparat‘ hélt áfram að láta finna fyrir áhrifum sínum á heimsmælikvarða. Sumir fóru að kalla það þriðja risaveldið. Gervihnattatækni gerði sjónvarpsfélögum kleift að beina útsendingum sínum út fyrir landamæri og jafnvel yfir höfin. Veraldarleiðtogar tóku að nota sjónvarpið til að afla sér fylgis á alþjóðavettvangi og fordæma andstæðinga sína. Sumar ríkisstjórnir beittu sjónvarpinu til að senda áróður til fjandríkja sinna. Og með sama hætti og yfirvöld höfðu reynt að ráða yfir uppfinningu Gutenbergs jafnskjótt og þau gerðu sér grein fyrir áhrifamætti hennar, eins tóku margar ríkisstjórnir sjónvarpið föstum tökum. Árið 1986 sendi næstum helmingur þjóða heims eingöngu út efni undir eftirliti ríkisins.
Tækniframfarir hafa hins vegar valdið því að sífellt verður erfiðara fyrir yfirvöld að hafa eftirlit með sjónvarpinu. Gervihnettir senda nú orðið frá sér merki sem hægt er að ná með tiltölulega litlum gervihnattadiski sem menn geta sett upp heima hjá sér. Fyrirferðarlitlum sjónvarpsmyndatökuvélum í eigu áhugamanna hefur fjölgað svo mjög að varla gerist fréttnæmur atburður að hann sé ekki tekinn upp á myndband.
Bandaríska fréttastöðin Turner Broadcasting’s CNN (Cable News Network) safnar fréttaefni frá um það bil 80 löndum og sendir það síðan út um heim allan. Stöðugur fréttaflutningur hennar af heimsviðburðum allan sólarhringinn getur nánast á augabragði gert hvaða viðburð sem er að alþjóðlegu deilumáli.
Sjónvarpið er í vaxandi mæli að breytast úr fjölmiðli sem greinir frá viðburðunum í heiminum í fjölmiðil sem mótar þá. Sjónvarpið gegndi lykilhlutverki í þeirri byltingahrinu sem skók Austur-Evrópu árið 1989. Mannfjöldi gekk syngjandi um götur Prag og heimtaði „beina útsendingu“ í sjónvarpi. Áður fyrr úthelltu byltingarmenn blóði til að leggja undir sig stjórnarbyggingar, virki eða aðalstöðvar lögreglunnar en byltingarmenn ársins 1989 börðust fyrst og
fremst um að fá aðgang að sjónvarpsstöðvum. Hin nýja ríkisstjórn Rúmeníu stjórnaði meira að segja fyrst í stað frá sjónvarpsstöðinni! Það er því kannski alls ekkert langsótt að kalla sjónvarpið þriðja risaveldið.En sjónvarpið hefur haft áhrif víðar en á vettvangi stjórnmálanna. Það er líka að breyta menningu heimsins og verðmætamati. Bandaríkin eru oft sökuð um ‚menningarlega heimsvaldastefnu,‘ það er að segja að pranga sinni eigin menningu inn á heiminn gegnum sjónvarpið. Þar eð Bandaríkjamenn voru fyrstir þjóða heims til að byggja upp miklar birgðir ábatasamra sjónvarpsmynda gátu bandarískir framleiðendur selt öðrum þjóðum sjónvarpsefni síðla á fimmta áratugnum og þeim sjötta fyrir brot af því verði sem það hefði kostað þær að framleiða innlent efni.
Síðla á síðasta áratug fluttu Keníumenn inn allt að 60 af hundraði þess efnis sem sýnt var í sjónvarpi, Ástralir fluttu inn 46 af hundraði, Ekvadormenn 70 af hundraði og Spánverjar 35 af hundraði. Mest var flutt inn frá Bandaríkjunum. Bandaríski myndaflokkurinn Húsið á sléttunni var sýndur í 110 löndum. Framhaldsmyndaflokkurinn Dallas var sýndur í 96 löndum. Sumir kvörtuðu undan því að innlent svipmót sjónvarpsins væri að hverfa meðal þjóða heims og bandarísk neysluaukningarstefna og efnishyggja að taka völdin.
Margar þjóðir eru í uppnámi út af slíkri ‚menningarlegri heimsvaldastefnu.‘ Í Nígeríu hafa forráðamenn sjónvarpsstöðva kvartað undan því að stöðugur straumur erlends sjónvarpsefnis sé að grafa undan þjóðlegri menningu; þeir eru uggandi yfir því að nígerískir sjónvarpsáhorfendur virðast upplýstari um Bretland og Bandaríkin en um Nígeríu. Í Evrópu kveður við sama tón. Á fundi með bandarískri þingnefnd fyrir skömmu sagði fjölmiðlakóngurinn Robert Maxwell æstur í bragði: „Engin þjóð ætti að líða það að erlend menning undiroki innlenda menningu.“ Sumar þjóðir hafa þar af leiðandi sett því takmörk hve mikið erlent efni sjónvarpsstöðvum er heimilt að senda út.
‚Menningarleg heimsvaldastefna‘ getur valdið tjóni á meiru en menningu. Hún getur jafnvel valdið tjóni á umhverfinu. Neysluaukningarstefna Vesturlanda og það viðhorf að eignast alla hluti hér og nú hefur átt sinn þátt í því að menga loftið, eitra vatnið og valda öðrum almennum umhverfisspjöllum. Eins og einn dálkahöfundur Lundúnablaðsins The Independent komst að orði: „Sjónvarpið hefur fært heiminum hina lokkandi hugmynd um efnahagslegt frjálsræði, um vestræna velmegun. En þetta er tálsýn því að hún getur ekki orðið að veruleika nema með því að vinna óbætanlegt tjón á umhverfinu.“
Augljóst er að sjónvarpið er að breyta heimi nútímans og sú breyting er ekki að öllu leyti til batnaðar. En sjónvarpið hefur enn meiri og beinni áhrif á einstaklinginn. Ert þú í hættu?
[Innskot á blaðsíðu 4]
Dagblöð geta gróðursett hugmynd í hugum tíu þúsund manna á einum degi.
[Innskot á blaðsíðu 5]
Sjónvarpið getur gróðursett hugmynd í hugum hundruða milljóna manna í einu vetfangi.