Verkfræðiafrek ísbjarnarins
Verkfræðiafrek ísbjarnarins
ÍSBJÖRNINN gæti kennt mannkyninu ýmislegt um beislun sólarorkunnar, að því er sumir vísindamenn benda á. Eðlisfræðingurinn Richard E. Grojean fékk áhuga á þessari hugmynd um miðjan áttunda áratuginn, eftir athyglisverða uppgötvun í sambandi við hvítu dýrin sem byggja heimskautasvæðin.
Kanadískir vísindamenn, sem fengust við talningu villtra dýra, komust að raun um að þeim nægði ekki að taka venjulegar loftmyndir til að telja þessar skepnur, vegna þess hve vel þær falla inn í hvítt landslagið. Innrauðar filmur, sem eru venjulega ákjósanlegar til að ljósmynda dýr með jafnheitt blóð, brugðust líka. Feldir dýranna veittu hreinlega betri einangrun en svo að þau gæfu frá sér nægan varma til að koma fram á filmunni. Þegar notaðar voru útfjólubláar filmur komu hvítir selir og ísbirnir hins vegar skýrt fram sem kolsvartir gegn hvítum bakgrunninum. „Snjórinn endurkastar útfjólubláum geislum en dýrin drekka þá í sig,“ segir í The Toronto Star.
Hvers vegna? Að sögn eðlisfræðingsins Grojeans og Gregorys Kowalskis, sem er aðstoðarprófessor í vélaverkfræði, er svarið að finna í feldi bjarnarins. Í hinum ósýnilega, útfjólubláa enda litrófsins drekka hár ísbjarnarfeldsins í sig 90 af hundraði útfjólubláa ljóssins og ylja birninum með því að leiða varmann frá því til dökkrar húðarinnar undir feldinum. Á heimskautasvæðunum, þar sem frostið fer oft niður í 30 gráður, getur feldurinn þrátt fyrir allt haldið hita á eiganda sínum. Venjulegir varmagleypar, sem menn koma fyrir á þökum uppi til að virkja sólarorkuna, eru ekki nándar nærri eins orkunýtnir. Kowalski áætlar að hægt væri að gera varmagleypa mannanna 50 af hundraði áhrifameiri með því að nota sömu aðferð og ísbjörninn.
Í hinum sýnilega hluta litrófsins hegða bjarnarhárin sér á gagnstæðan veg; þau endurkasta 90 af hundraði ljóssins. Það veldur því björninn er skjannahvítur að sjá þótt hin einstöku hár séu í reyndinni ekki hvít heldur gagnsæ og litlaus. Hinn skjannahvíti litur auðveldar birninum að stunda veiðar óséður á snæviþöktum ísbreiðum norðursins. Sumir hafa jafnvel séð ísbirni hylja svart nefið er þeir læddust að bráð sinni, rétt eins og þeir skildu að þeir þyrftu að felast í snjónum.
Feldur ísbjarnarins uppfyllir þannig tvær af helstu frumþörfum skepnunnar: Að vera sem hvítastur og halda á henni hita. Það er því ekkert undarlega að Richard Grojean skuli kalla ísbjarnarfeldinn „stórkostlegt verkfræðiafrek.“ Þegar allt er skoðað ber þessi einstæða og tignarlega skepna vitni um visku skapara síns.