Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ást við fyrstu sýn og æ síðan!

Ást við fyrstu sýn og æ síðan!

Ást við fyrstu sýn og æ síðan!

„EF HORFT er á börn eftir að þau fæðast eru þau glaðvakandi og áhugasöm um umhverfi sitt,“ segir dr. Cecilia McCarton við Albert Einstein College of Medicine í New York. „Þau bregðast vel við athygli frá mæðrum sínum. Þau snúa sér í átt að hljóðum. Og þau einblína á andlit móður sinnar.“ Og móðirin nær augnasambandi við barnið sitt. Þetta er ást við fyrstu sýn — fyrir þau bæði!

Þetta band milli móður og barns myndast eðlilega ef fæðingin er eðlileg, án lyfja sem slæva skilningarvit móður og barns. Grátur barnsins örvar mjólkurframleiðslu móðurinnar. Snerting þess við hörund hennar leysir úr læðingi hormón sem dregur úr blæðingum eftir fæðingu. Barnið fæðist með eins konar forskriftir í heilanum til að tryggja að náin tengsl myndist — þær stýra því að það grætur, sýgur, bablar og hjalar, brosir og baðar út öllum öngum í ofsakæti í þeim tilgangi að ná til sín athygli móður sinnar. Sterk tengsl, einkum við móðurina, gerir barninu kleift að þroska með sér tilfinningu ástar, umhyggju og trausts. Faðirinn fer fljótt að gegna þýðingarmiklu hlutverki sem persóna er barnið myndar tengsl við. Sambandið við hann er ekki eins náið og við móðurina en á móti kemur annað þýðingarmikið atriði: pot, kitl og örlítill ærslagangur sem barnið bregst við með dillandi hlátri og áköfu iði.

Dr. Richard Restak segir að það sé eins og næring fyrir nýfætt barn að haldið sé á því og það faðmað. „Snerting,“ segir hann, „er jafnnauðsynleg fyrir eðlilegan þroska ungbarns og matur og súrefni. Móðirin opnar faðminn fyrir barninu og þrýstir því að sér, og fjöldi sállíffræðilegra ferla eru samstillt.“ Við slíka meðferð þroskar heilinn meira að segja „öðru vísi skorur og fellingar“ en ella.

Varastu fáskiptni

Sumir hafa haldið því fram að ef þessi tengsl móður og barns nái ekki að myndast strax eftir fæðingu séu erfiðleikar í vændum. En svo er ekki. Ástrík móðir hefur hundruð tækifæra fyrstu vikurnar eftir fæðingu til að byggja upp náið band. Sé barninu neitað um þetta innilega samband um langan tíma getur það hins vegar haft skelfilegar afleiðingar. „Þótt við þörfnumst öll hvers annars alla ævi er þörfin langbrýnust á fyrsta árinu,“ segir dr. Restak. „Sé barninu neitað um ljós, tækifærið til að einblína á andlit annarrar mannveru, þann unað að láta taka sig upp, faðma, hjala blíðlega við sig, snúast um sig, snerta sig — þá þolir barnið ekki slíkan skort.“

Börn gráta af mörgu tilefni. Yfirleitt vilja þau fá athygli. Ef gráti þeirra er ekki svarað eftir nokkra stund hætta þau kannski að gráta. Þeim finnst að sá sem annast þau sinni þeim ekki. Þau byrja aftur að gráta. Ef þeim er ekki svarað enn finnst þeim þau vanrækt og finna til öryggisleysis. Þau leggja sig enn betur fram. Ef þessu heldur áfram um langt skeið og ef það endurtekur sig oft, þá finnst barninu það yfirgefið. Í fyrstu er það reitt, jafnvel bálreitt, en svo gefst það upp. Það verður fáskiptið. Það lærir ekki að elska af því að það er ekki elskað. Samviska þess verður vanþroska. Það treystir engum og er sama um alla. Það verður vandamálabarn og, þegar verst lætur, siðblindur persónuleiki sem er ófær um að sjá eftir illverkum.

Ást við fyrstu sýn er ekki endir málsins. Hún verður að halda áfram að eilífu eftir það, ekki bara í orði heldur líka í verki. „Elskum ekki með tómum orðum, heldur í verki og sannleika.“ (1. Jóhannesarbréf 3:18) Það þarf að faðma barnið og kyssa oft og mikið. Það þarf að byrja snemma, áður en það verður um seinan, að kenna og fræða í hinum sönnu verðmætum orðs Guðs, Biblíunnar. Þá mun fara fyrir börnum þínum eins og Tímóteusi: „Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki.“ (2. Tímóteusarbréf 3:15) Vertu með barninu daglega, út í gegnum barns- og unglingsárin. „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ — 5. Mósebók 6:6, 7.

‚Við grátum kannski en það er okkur fyrir bestu‘

Agi er viðkvæmt mál fyrir marga. Þegar honum er rétt beitt er hann samt sem áður nauðsynlegur þáttur ástríks uppeldis. Lítil stúlka gerði sér grein fyrir því. Hún útbjó kort handa móður sinni stílað „Til mömmu, til góðrar konu.“ Það var skreytt með vaxlitateikningu af gullroðinni sól, fuglum á flugi og rauðum blómum. Á kortinu stóð: „Þetta er handa þér af því að við elskum þig öll. Við gerum þetta kort til að sýna að okkur finnst vænt um þig. Þegar við fáum lágar einkunnir skrifar þú undir einkunnaspjaldið. Þegar við erum óþekk löðrungar þú okkur. Við grátum kannski, en við vitum að það er okkur fyrir bestu. . . . Við viljum bara segja þér að við elskum þig mjög, mjög heitt. Takk fyrir allt sem þú gerir fyrir mig. Kossar og ástarkveðjur. [Undirritað] Michele.“

Michele er sammála Orðskviðunum 13:24: „Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma.“ Vöndurinn, tákn agans, getur falið í sér flengingu, en oft þarf ekki að koma til hennar. Ólík börn og ólík óþekkt kallar á ólíkan aga. Vingjarnlegar ávítur duga stundum, en þverðmóðska getur kallað á kröftugri meðul: „Ávítur fá meira á hygginn mann en hundrað högg á heimskingja.“ (Orðskviðirnir 17:10) Hér á einnig við þessi orðskviður: „Þræll [eða barn] verður eigi agaður með orðum, því að hann skilur þau að vísu, en fer ekki eftir þeim.“ — Orðskviðirnir 29:19.

Í Biblíunni merkir sögnin „að aga“ að fræða, þjálfa, hirta — meðal annars flengja ef þess er þörf til að leiðrétta ranga hegðun. Hebreabréfið 12:11 sýnir hver er tilgangur hans: „Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.“ Foreldrar þurfa ekki að vera harðir úr hófi fram í ögun sinni: „Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.“ (Kólossubréfið 3:21) Þeir eru ekki heldur undanlátsamir úr hófi fram: „Vöndur og umvöndun veita speki, en agalaus sveinn gjörir móður sinni skömm.“ (Orðskviðirnir 29:15) Undanlátsemin segir: ‚Gerðu eins og þér sýnist; láttu mig bara í friði.‘ Aginn segir: ‚Gerðu það sem er rétt; mér er annt um þig.‘

Tímaritið U.S.News & World Report, frá 7. ágúst 1989, sagði réttilega: „Foreldrar, sem beita ekki harðneskjulegum refsingum heldur setja ákveðin takmörk og halda sér við þau, eru talsvert líklegri til að ala upp börn sem ná góðum árangri í skóla og lyndir vel við aðra.“ Í greinarlok sagði: „Athyglisverðasta meginstef, sem skín í gegnum öll vísindagögnin, er ef til vill það að mestu máli skiptir að byggja upp mynstur kærleika, trausts og boðlegra marka innan hverrar fjölskyldu, en ekki ótal tæknilegra smáatriða. Hið sanna markmið agans . . . er ekki að refsa óstýrilátu barni heldur kenna því og leiðbeina og hjálpa því að mynda með sér hemil hið innra.“

Þau heyra það sem þú segir en líkja eftir því sem þú gerir

Grein um aga í tímaritinu The Atlantic Monthly hófst með þessum orðum: „Búast má við að barn hegði sér vel aðeins ef foreldrar þess lifa eftir þeim lífsgildum sem þeir kenna.“ Greinin benti síðan á gildi þess að börnin hefðu hemil hið innra með sér: „Vel siðaðir táningar áttu yfirleitt foreldra sem voru sjálfir ábyrgir, ráðvandir og agaðir einstaklingar — sem lifðu í samræmi við þau lífsgildi sem þeir játuðu og hvöttu börnin sín til að gera það líka. Þegar góðu táningarnir voru, sem hluti rannsóknarinnar, látnir kynnast vandamálatáningum hafði það ekki varanleg áhrif á hegðun þeirra. Þeir höfðu tileinkað sér lífsgildi foreldra sinna langtum betur en svo.“ Það fór eins og orðskviðurinn segir: „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ — Orðskviðirnir 22:6.

Foreldrum, sem reyndu að innræta börnum sínum góð lífsgildi en fylgdu þeim ekki sjálfir, varð ekkert ágengt. Börnum þeirra „hafði ekki tekist að tileinka sér þessi lífsgildi.“ Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að „það sem skipti sköpum var hve nákvæmlega foreldrarnir lifðu eftir þeim lífsgildum sem þeir reyndu að kenna börnum sínum.“

Reynslan er sú sama og rithöfundurinn James Baldwin orðaði svo: „Börn hafa aldrei verið sérstaklega dugleg við að hlusta á þá sem eldri eru, en það hefur aldrei brugðist að þau líktu eftir þeim.“ Ef þú elskar börnin þín og vilt innræta þeim sönn lífsgildi, þá skaltu nota bestu aðferð sem völ er á: Vertu sjálfur fordæmi um það sem þú kennir. Vertu ekki eins og fræðimennirnir og farísearnir er Jesús fordæmdi sem hræsnara: „Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.“ (Matteus 23:3) Vertu ekki eins og þeir sem Páll postuli spurði í ávítunartón: „Þú sem þannig fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Prédikar þú, að ekki skuli stela, og stelur þó?“ — Rómverjabréfið 2:21.

Margir halda því fram nú til dags að Biblían sér úrelt og lífsreglur hennar henti ekki lengur. Jesús andmælir þeirri skoðun með eftirfarandi orðum: „Spekin hefur rétt fyrir sér, það staðfesta öll börn hennar.“ (Lúkas 7:35) Eftirfarandi frásagnir af fjölskyldum úr ýmsum löndum staðfesta orð hans.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Sterkt band milli móður og barns örvar tilfinningaþroska þess.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Sá tími, sem faðirinn eyðir með barninu, er líka mikils virði.