Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þegar allt fyllist af dóti

Þegar allt fyllist af dóti

Þegar allt fyllist af dóti

LÍTTU í kringum þig heima hjá þér. Ert þú búinn að safna að þér svo miklu dóti að tæpast er rúm fyrir sjálfan þig? Myndir þú skammast þín fyrir skápana þína ef vinur þinn kíkti inn í þá? Átt þú í basli með að finna ákveðinn hlut vegna þess að hann er grafinn undir haug af dóti sem þú hefur safnað að þér? Ef svo er, þá ert þú ekkert einsdæmi.

„Ég er forhertur safnari,“ viðurkennir Ralph. Leon bætir við: „Ég var að drukkna í fötum, dagblöðum og bókum sem ég hafði safnað í 15 ár.“ „Ég verð þreyttur bara við tilhugsunina um það að taka til,“ segir annað fórnarlamb í mæðutón.

Sum börn alast upp í umhverfi þar sem allt er fullt af dóti. Einn slíkur einstaklingur segir: „Svo lengi sem ég man eftir mér hef ég varað fólk við því sem mundi mæta því er það kæmi í heimsókn til okkar í fyrsta sinn. Ég sagði fólki að því væri óhætt að færa til dót svo að það gæti fundið sér sæti.“ Jafnvel fullorðnir kunna að hika við að bjóða nokkrum utan fjölskyldunnar í heimsókn vegna þess hve óframbærilegt heimilið er.

Oft gerir fólk sér ekki grein fyrir hve miklu það hefur safnað uns það stendur frammi fyrir búferlaflutningum. Fyrir þann sem ekki hefur tamið sér reglulegar tiltektir geta búferlaflutningar bæði verið kostnaðarsamir og tímafrekir.

En fyrir margan manninn er það að taka til snöggt um meira mál en aðeins að henda óþörfu dóti. Fyrst þarf að yfirstíga fjölmargar hindranir.

Hvers vegna getur fólk ekki bara hent draslinu?

Sálfræðingurinn Lynda W. Warren og félagsfræðingurinn Jonnae C. Ostrom höfðu talið að allir safnarar væru fólk af eldri kynslóðinni sem hefði kynnst kreppuárunum á fjórða áratugnum. Þær töldu að söfnunaráráttan væri „sjaldgæf og saklaus sérviska.“ En eftir að hafa kannað málið sögðu þær: „Það kom okkur á óvart að uppgötva yngri kynslóð safnara sem fædd var löngu eftir fjórða áratuginn. . . . Við teljum núna að slíkt atferli sé algengt og geti, einkum þegar það fer út í öfgar, valdið vandræðum fyrir safnarana og þá sem standa þeim nærri.“ a

Hve langt getur söfnunaráráttan gengið? „Ostrom hefur séð hjón skilja út af drasli og óreiðu,“ segir tímaritið Health. Sumir leita hjálpar sérfræðinga. Tímaritið Health segir að ráðgjafarþjónusta á sviði persónulegrar skipulagningar sé „ört vaxandi atvinnugrein sérfræðinga sem geta tekið allt upp í 1000 dollara [um 60.000 ÍSK] á dag fyrir að gera það sem mæður okkar nauðuðu á okkur að gera: að taka til í herberginu okkar.“

Það er ólíklegt að þú sért haldinn svo alvarlegri söfnunaráráttu að þú þurfir að leita hjálpar sérfræðinga. Vel má þó vera að þú eigir erfitt með að yfirstíga eftirfarandi fjórar hindranir sem standa á milli hlutanna, sem þú hefur safnað, og sorptunnunnar:

◻ Hugsanlegt notagildi síðar. („Það er betra að geyma þetta heldur en að sjá eftir því síðar að hafa hent því.“)

◻ Tilfinningasemi. („María frænka gaf mér þetta.“)

◻ Hugsanlegt verðmæti. („Kannski verður þetta einhvers virði einhvern tíma.“)

◻ Vöntun á sliti eða skemmdum. („Þetta er of gott til að fleygja því.“)

Hver er svo afleiðingin? Psychology Today segir: „Dótið heldur áfram að hlaðast upp og eins vandamálin sem það veldur.“

Hvernig getur þú haft stjórn á því hve mikið hleðst upp í kringum þig?

Hvar á að byrja?

Kona var beðin að gera sér í hugarlund hvernig henni myndi líða ef fellibylur skylli á og eyðilegði næstum allt sem hún ætti. Hún sagði: „Það sem ég fann mest fyrir við tilhugsunina um að missa allt var léttir — það að losna við draslið án þess að þurfa að kvíða því að flokka það og henda.“ Orð hennar lýsa því vel hve þung raun það getur verið að flokka og fleygja.

„Safnarar eiga við tvö vandamál að stríða,“ segir Daralee Schulman sem er ráðgjafi. „Dótið sem er fyrir í húsinu og dótið sem streymir inn.“ Hún leggur til að í stað allsherjartiltektar eyði fólk kannski 15 mínútum á dag í að skipuleggja eitt svæði í einu. Það er mun áhrifaríkari leið til að halda röð og reglu á hlutunum innan veggja heimilisins. En hvað um „dótið sem streymir inn“?

Áður en þú kaupir nokkurn hlut til heimilisins skaltu spyrja þig: ‚Vantar mig þetta í raun og veru? Hvar ætla ég að koma því fyrir? Á ég eftir að nota það?‘ Daralee Schulman fullyrðir að með slíkum spurningum megi koma í veg fyrir að „maður kaupi 75 prósent af því dóti sem maður ætlaði.“

Ætlast er til að þeir sem búa á aðalstöðvum Varðturnsfélagsins og útibúum þess safni ekki miklu dóti í herbergin sín og hafi ekki fleiri en tvo til þrjá skrautmuni á hverju húsgagni eða hillu. Það auðveldar ræstingu til muna og er langtum skemmtilegra fyrir augað. Blöð, tímarit, bækur, skjalatöskur, hljóðfæri, íþróttaáhöld, föt, leirtau og því um líkt á ekki að liggja eins og hráviði út um allt. Það á meira að segja ekkert að vera á gólfinu nema húsgögn. Þetta er vissulega góð fyrirmynd hverjum þeim sem vill draga úr dótinu sem hann hefur í kringum sig.

Úr sjónmáli — og inni í skáp

„Með eins dags fyrirvara gat ég komið á röð og reglu í íbúðinni,“ segir Joan, „en skáparnir voru alltaf alger hörmung.“ Sumir nota skápana sem nokkurs konar ruslageymslu og flytja draslið einfaldlega þangað sem það sést ekki. En vandamálið vex bara með tímanum eftir því sem meiru er troðið inn í skápa sem stækka ekki neitt.

Myndu skáparnir þínir þola ærlega tiltekt? Tímaritið Good Housekeeping leggur til eftirfarandi: „Hólfa- og hillukerfi fyrir skápa eru fáanleg í mörgum gerðum og stærðum sem hægt er að aðlaga nálega hvaða skápastærð sem er. Notaðu eitthvað slíkt til að forðast óreiðu á heimilinu.“ Gerðu ekki skápana þína að athvarfi fyrir drasl. Haltu röð og reglu í þeim.

Öfgalaust viðhorf til eigna

„Eigur mínar endurspegla hvað ég er, þær eru hluti af sjálfri mér,“ sagði kona. „Skartgripirnir mínir veita mér svo mikla hughreystingu,“ bætir önnur við. „Ég hreinlega elska hringina og hálsfestarnar mínar.“ Þriðja konan spyrnir við fótum og segir: „Þetta er ég — þetta greinir mig frá öðru fólki og slíku fleygir maður ekki!“

Jesús Kristur sagði hins vegar: „Engin þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“ — Lúkas 12:15.

Biblían hvetur þannig til öfgalausra viðhorfa til eigna okkar. Hún mælir líka með reglufestu og snyrtimennsku og gerir hana að kröfu til þeirra er þjóna sem öldungar í söfnuðinum. — 1. Tímóteusarbréf 3:2.

Væri ekki ráð að byrja nú þegar að notfæra þér einhverjar af tillögunum hér á undan á þeim stað á heimilinu þar sem varla er rúm fyrir sjálfan þig lengur? Með því að leggja þig fram daglega og hafa öfgalaust viðhorf til eigna getur þú náð tökum á dótinu sem allt er að fylla.

[Neðanmáls]

a Í þessari grein er orðið „safnari“ notað um mann sem safnar að sér alls konar, þarflausum hlutum sem hann notar nær aldrei en tímir þó ekki að henda. Ekki er átt við mann sem safnar ákveðnum hlutum til dæmis listmunum eða frímerkjum.

[Rammi á blaðsíðu 28]

Að flokka og fleygja

Hér fara á eftir nokkrar gagnlegar tillögur í sambandi við ákveðna hluti sem geta hæglega hrúgast upp heima hjá þér ef þú gætir þín ekki.

Lesefni: Átt þú erfitt með að henda gömlum tímaritum eða dagblöðum? Átt þú það til að reka augun í fyrirsögn og segja við sjálfan þig: ‚Ég ætla að lesa þetta einhvern daginn‘? Í stað þess að geyma allt tímaritið eða dagblaðið skaltu klippa út greinina sem þér finnst áhugaverð og setja hana í möppu fyrir efni sem þú ætlar að lesa. Ef þú ert ekki búinn að lesa hana að eðlilegum tíma liðnum — svo sem innan nokkurra vikna — skaltu henda henni.

Föt: Eignast þú meira og meira af fötum á hverju ári en notar ekki helminginn af þeim sem fyrir eru? Sumir segja við sjálfa sig: ‚Þessi flík fer mér nú ágætlega — eftir að ég er búinn að léttast um fimm kíló.“ Með þessum rökum er hægt að geyma hvað sem er í fataskápnum. Til að koma í veg fyrir að fataskápurinn fyllist skaltu setja þá flík, sem ekki er notuð í eitt ár, í kassa ætlaðan undir „vafahluti.“ Síðan skaltu gefa flíkina eða henda henni ef þú hefur enn ekki notað hana að skömmum tíma liðnum.

Póstur: Flokkaðu póstinn daglega. Þú ættir að geyma einkabréf og annan póst, sem þú vilt halda til haga, á ákveðnum stað. Gott væri að hafa sérstaka möppu undir póst hvers mánaðar og tæma svo hverja möppu að ári liðnu til að rýma fyrir nýjum pósti. Markmiðið er að hafa reglu á póstinum en ekki að láta hann safnast fyrir. Ef þú færð mikið af auglýsingum í pósti skaltu ákveða um leið og þær berast hvort þú hafir not fyrir þær. Ef ekki skaltu henda þeim. Ef þú ert óákveðinn skaltu setja þær í körfu eða kassa undir það sem er óákveðið og láta þær liggja þar í viku. Ef það er enn óvíst eftir viku hvort þær komi að notum skaltu henda þeim.