Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þekktu sjálfan þig

Þekktu sjálfan þig

Þekktu sjálfan þig

HVAÐ sérðu þegar þú lítur í spegil? Spegilmynd af sjálfum þér. En segir spegilmyndin hver þú ert í raun og veru? Segir hún þér hvernig aðrir hugsanlega sjá þig sem persónu? Þekkir þú sjálfan þig í raun og veru? Veist þú hvernig persónulegt atferli þitt mótaðist í upphafi? Já, hvernig mótaðist þú sem persóna?

Er þú staldrar við í þeim tilgangi að brjóta til mergjar öll þau áhrif sem mótuðu persónuleika þinn uppgötvar þú kannski að mörgum áhrifum hefur verið þvingað upp á þig — annaðhvort af öðrum einstaklingum eða aðstæðum. Á fyrstu mótunarárunum höfðu flest okkar fremur lítil áhrif á mótun eigin hátta og vega. Við skulum líta nánar á sumt af því sem mótaði persónuleika þinn og var þröngvað upp á þig — sumt sem kom til löngu áður en þú hafðir tækifæri til að ráða nokkru um atferli þitt.

Erfðir gegna stóru hlutverki

Hvaða áhrif hafa erfðir haft á þig? Litningarnir geyma lýsingar og fyrirmæli um vöxt og þroska sérhvers einstaklings, eins konar „vinnuteikningar“ á hinu sérstaka merkjamáli arfberanna. Að hve miklu leyti ræðst hátterni þitt sem einstaklings af erfðum? Svo virðist sem menn eigi enn erfitt með að sýna fram á bein tengsl milli erfða og persónuleika. Sumt virðist þó benda til tengsla þar á milli. Til dæmis hafa fjölmörg arfgeng einkenni bein áhrif á atferli þitt. Þannig eru sumir hlédrægir að eðilisfari en aðrir mannblendnir.

Barnshafandi kona getur unnið ófæddu barni sínu gagn eða ógagn með hátterni sínu, hugsunum og tilfinningum. Hve mikils friðar eða ófriðar varðst þú aðnjótandi meðan þú varst í móðurkviði? Hve mikið lærðir þú af raddblæ foreldra þinna og tónlistinni sem þeir hlustuðu á? Hve mikil áhrif hafði mataræði móður þinnar á þig? Ef hún neytti áfengis eða lyfja, hve mikil áhrif hafði það á hana? Búið var að ákveða margar af eðlishneigðum þínum þegar þú fæddist og ef til vill er erfitt að breyta þeim.

Hvað um mataræði, ofnæmi og umhverfi?

Á bernskuárunum kunna viss efni í fæðunni að hafa haft áhrif á atferli þitt. Sætuefni, gervilitarefni og rotvarnarefni geta haft áhrif á atferli manna án þess að þeir geri sér grein fyrir því. Afleiðingarnar eru meðal annars ofvirkni, taugaspenna, skapstyggð, taugaverkir og öfgafull eða stjórnlaus hegðun. Mengun frá útblæstri bifreiða, loftmengun frá iðjuverum og önnur eiturefni í umhverfinu hafa líka áhrif á hegðun manna. Þú getur jafnvel haft ofnæmi fyrir efnum sem hafa mjög alvarleg áhrif á sjálfan þig þótt þau hafi engin áhrif á þá sem eru í kringum þig.

Auk þessara áhrifa hefur atferli foreldra þinna, smekkur og fordómar, sem þú hefur búið við frá blautu barnsbeini, haft áhrif á þig og mótað persónuleika þinn að einhverju marki. Afleiðingin er sú að margir af háttum þínum og almennum viðhorfum eru einfaldlega spegilmynd af háttum og viðhorfum þeirra. Þú hefur tilhneigingu til að komast í uppnám út af því sem kemur þeim í uppnám. Þú hefur tilhneigingu til að umbera það sem þeir umbera. Og þú tekur varla eftir því að þú líkir eftir atferli þeirra fyrr en einhver bendir þér á að þú hegðir þér alveg eins og faðir þinn eða móðir. Efnahagur þeirra og þjóðfélagsstaða hafði líka áhrif á þig, svo og nágrenni þitt og skóli. Vinir þínir og félagar hafa einnig haft mikil áhrif á þig. Vera má að alvarlegt slys (sem þú eða náinn vinur varðst fyrir), einhverjar hörmungar í byggðarlaginu eða jafnvel uggvænlegir atburðir í heiminum hafi haft áhrif á þig. Eins má vera að einhver harmleikur, svo sem skilnaður eða alvarleg veikindi, hafi skilið eftir sig ör á persónuleika þínum.

Kemur þú, við nánari umhugsun, auga á slík áhrif?

Hvaða hlutverki gegnir trúin?

Fræðilega ætti trú þín að gera þig að betri manni, bæta siðferði þitt, siðgæðisvitund og daglegt atferli. Hve mikil áhrif hefur trú haft á lífsgildi þín og athafnir? Þótt trú ætti að verka sem hemill á ábyrgðarlausa og glæpsamlega hegðun hafa tengsl manna við trúarbrögðin ólík áhrif á marga. Þeir skynja mikla hræsni hjá kirkjufélögum og áherslu á efnisleg frekar en andleg verðmæti og verða beiskir fyrir vikið. Sumir verða jafnvel trúlausir, rændir andlegu hugarfari og von.

Vera má að þér komi í hug önnur ytri áhrif sem móta atferli manna. Taktu þér örskamma stund til að rifja upp einhver af þeim atriðum sem kunna að hafa haft áhrif á þig fram til þessa. Getur þú talið upp nokkur þeirra? Það er ekki auðvelt að vera hlutlægur og hugsa eftir þessum nótum, en það er þess virði og getur verið gagnlegt fyrir þig. Hvernig þá?

Ef þú getur borið kennsl á viss áhrif eða orsök einhverrar neikvæðrar tilhneigingar, ef þú getur einangrað hana sérstaklega, þá ert þú betur í stakk búinn að ráða við hana og ef til vill jafnvel breyta henni. Ef þú getur stjórnað eða jafnvel losað þig við óæskileg áhrif, þá getur þú orðið breyttur maður og jákvæðari í framkomu gagnvart öðrum.

Þetta er að sjálfsögðu krefjandi viðfangsefni, en úr því að annað fólk eða aðstæður sem þú réðir engu um hafa haft svo margvísleg áhrif á atferli þitt, er þá ekki ráð að taka frumkvæðið og gera eitthvað í málinu sjálfur? Ef það hefur jákvæða breytingu í för með sér, hví ekki að breyta persónuleika þínum?

[Innskot á blaðsíðu 19]

Atferli og tilfinningalíf barnshafandi konu getur haft áhrif á ófætt barn hennar.

[Innskot á blaðsíðu 20]

Margir af háttum þínum og almennum viðhorfum eru spegilmynd af háttum og viðhorfum foreldra þinna.

[Innskot á blaðsíðu 20]

Ef þú getur einangrað sérstaklega orsök neikvæðrar tilhneigingar getur þú ef til vill ráðið við hana eða jafnvel breytt henni.