Aðvörun til farfugla: Sneiðið hjá Evrópu!
Aðvörun til farfugla: Sneiðið hjá Evrópu!
„EINS og kötturinn sem gleypti kanarífuglinn brosir þjónninn sínu breiðasta er hann ber fram aðalréttinn stoltur í bragði. Við hliðina á skammti af rjúkandi maísmjöli standa þrír örsmáir, svartir fuglsgoggar upp í loftið og vísa á vansælan gestinn. Fuglarnir hafa verið reyttir og glóðarsteiktir en ekki tekið innan úr þeim. Sviðnir vængirnir og mjóir leggirnir líkjast skordýralöppum. Þeir glansa af ilmandi ólífuolíu.“
Þannig hófst grein sem birtist á síðasta ári í The Wall Street Journal. Verið er að lýsa dýrum hátíðamat sem borinn var fram á veitingahúsi á Ítalíu. Matargesturinn stingur fuglinum yfirleitt upp í sig í heilu lagi og bryður beinin með öllu saman. En í þetta sinn eru aðfarirnar öðruvísi. Matargesturinn, Piergiorgio Candela, embættismaður Fuglaverndarfélags Ítalíu, potar í hræin þrjú um leið og hann reynir að tegundargreina þau. Niðurstaða hans er: „Þessir fuglar eru ólöglegir.“ Í einni slíkri herför fann hann 1400 reytta glóbrystinga í eldhúsinu.
Greinin heldur áfram: „Leyfilegt er að veiða og selja fáeinar tegundir en flestar eru friðaðar. En allt kemur fyrir ekki. Ár hvert lenda 50 milljónir friðaðra glóbrystinga, lævirkja og annarra söngfugla á matarborði Ítala. . . . Samanlagt eru veiddir um 15 af hundraði farfugla sem fara um Miðjarðarhafssvæðið. Á Spáni bera bændur í Katalóníu lím á trjágreinar þar sem fuglarnir festast og þeir geta gengið að þeim. Síðan eru þeir súrsaðir. Í grennd við Bergamo á Ítalíu eru söngfuglar veiddir í gildrur og blindaðir til að menn geti átt sér syngjandi húsdýr. Og á Möltu leggst tíundi hluti hinna 300.000 íbúa í veiðar á hverju ári og veiða fjórar milljónir villtra fugla sem eru ýmist skotnir, stoppaðir upp eða lokaðir inni í búrum.“
Söngfuglar, sem eru jafnframt farfuglar, hafa ekki margt til að syngja um þessa dagana. Og sums staðar heyrist varla tíst frá þeim.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 32]
Ljósmynd: G.C. Kelley