Fjölskyldur — eflið tengslin áður en það er um seinan
Fjölskyldur — eflið tengslin áður en það er um seinan
„Fjölskyldan er elsta stofnun mannkynsins. Á marga vegu er hún hin mikilvægasta. Hún er helsta grundvallareining þjóðfélagsins. Heilar menningarþjóðir hafa staðið af sér strauma tímans eða horfið eftir því hvort fjölskyldulífið hvíldi á sterkum grunni eða veikum.“ — The World Book Encyclopedia (1973).
FJÖLSKYLDAN er skjólgarður barnanna. Víða um lönd eru nú komin skörð í þennan skjólgarð; sums staðar hefur hann verið rifinn burt með öllu. Hin hefðbundna fjölskyldugerð er oft sett út af sporinu með því að halda fram að hún sé úrelt. Gamanmyndir í sjónvarpi lýsa feðrum gjarnan sem bjálfum, mæðrum sem töluvert betur gefnum, en börnin eru snjöllust.
Ótryggð í hjónabandi er daglegt brauð. Í sumum iðnríkjum heims endar annað hvort fyrsta hjónaband með skilnaði. Eftir því sem hjónaskilnaðir verða tíðari fjölgar jafnframt einstæðum foreldrum. Óvígð sambúð gerist æ algengari. Kynvillingar reyna að göfga samband sitt með hjúskaparheitum. Kynlíf, eðlilegt og óeðlilegt, er aðalaðdráttarafl kvikmynda og myndbanda. Skólar líta á skírlífi sem óhentugt og útbýta smokkum í því skyni að gera saurlífi hættulaust — sem þeir gera þó ekki. Samræðissjúkdómar og þunganir meðal unglinga verða sífellt algengari. Og það eru börnin sem eru fórnarlömbin — ef þeim er þá leyft að fæðast. Með hningnun hefðbundinnar fjölskyldugerðar eru það fyrst og fremst börnin sem tapa.
Fyrir mörgum árum gaf Nóbelsverðlaunahafinn Alexis Carrel þessa viðvörun í bók sinni Man, the Unknown: „Nútímaþjóðfélagi hafa orðið á alvarleg mistök með því að fela skólanum með öllu uppeldishlutverk fjölskyldunnar. Mæðurnar afhenda forskólanum börnin sín [og enn fyrr núna með tilkomu dagvistunarstofnana og leikskóla] í þeim tilgangi að sinna starfsframa sínum, félagslegum metnaðarmálum, kynferðisfullnægju, bókmenntum og listum, eða einfaldlega til að spila bridds, fara í bíó og sóa tímanum í að vera önnum kafnar við að gera ekki neitt. Þannig bera þær ábyrgð á hvarfi fjölskylduhópsins þar sem barninu var haldið í tengslum við fullorðna og það lærði heil ósköp af þeim. . . . Eigi einstaklingurinn að ná fullum styrk þarfnast hann þeirrar afstæðu einangrunar og athygli sem hinn takmarkaði þjóðfélagshópur, fjölskyldan, veitir.“ — Bls. 176.
Skemmra er síðan gamanleikarinn Steve Allen lét orð falla um árás sjónvarpsins á fjölskylduna, með öllu því klúra máli og siðleysi sem fylgir því. Hann sagði: „Straumurinn ber okkur með sér beina leið ofan í ræsið. Það eru ekki bara kapalsjónvarpsstöðvar, óvandar að virðingu sinni, sem hvetja börn til að nota mál sem foreldrar banna börnum, heldur líka sjónvarpsstöðvar sem áður voru vandar að virðingu sinni. Sjónvarpsefni, sem sýnir börn nota dónalegt mál, dregur einungis fram hrun hinnar bandarísku fjölskyldu.“
Hvers konar arf er þjóðfélagið að gefa börnum sínum? Lestu blöðin, horfðu á sjónvarpið, renndu augunum yfir myndböndin sem eru til leigu, hlustaðu á dægurlögin og líttu á fordæmi hinna fullorðnu alls staðar í kringum þig. Það er verið að troða hugarfarslegum og tilfinningalegum „sjoppumat“ í börnin. „Það er hægt að eyðileggja land með því að spilla gjaldmiðli þess,“ sagði sir Keith Joseph, fyrrum menntamálaráðherra Bretlands. Svo bætti hann við: „Leiðin til
að eyðileggja þjóðfélagið er að spilla börnunum.“ Og það er verið að spilla börnunum af fullum krafti núna. Margt hefur verið sagt um afbrot unglinga, en ef til vill ætti að tala meira um afbrot fullorðinna.Verk okkar eiga eftir að koma okkur í koll
Geneva B. Johnson, forseti og aðalframkvæmdastjóri stofnunarinnar Family Service America, sagði í fyrirlestri fyrr á þessu ári: „Fjölskyldan er fársjúk, ef til vill dauðsjúk.“ Hún talaði um „ófagra mynd fyrir mörg af börnum okkar“ og sagði síðan í aðvörunartón: „Það á eftir að koma okkur í koll að þjóðin skuli vera fús til að skáka svo mörgum af börnum okkar, sem búa við óviðunandi húsnæði, óviðunandi fæði, óviðunandi heilbrigðisþjónustu og óviðunandi menntun, í flokk útskúfaðra í auðugu þjóðfélagi.“ Það er þegar byrjað að koma þjóðfélaginu í koll. Það má lesa um það í dagblöðunum, heyra um það í útvarpsfréttum og sjá það í sjónvarpsfréttum. Hér koma nokkrar glefsur:
Judonne dregur fram byssu og skýtur Jermaine þrem skotum í brjóstið. Jermaine liggur örendur; hann var 15 ára. Judonne er 14 ára. Þeir höfðu verið bestu vinir. Þeir deildu út af stúlku.
Hundrað manns fylgja 16 ára pilti, Michael Hilliard, til grafar. Hann var skotinn í hnakkann er hann gekk burt eftir rifrildi sem kom upp í körfuboltaleik.
Í Brooklyn í New York kveiktu þrír unglingar í heimilislausum hjónum. Þegar sótthreinsunarspritt dugði ekki til þess reyndu þeir bensín. Það dugði.
Í Flórída hrinti fimm ára krakki smábarni fram af stigapalli á fimmtu hæð. Barnið lést.
Í Texas náði tíu ára krakki í byssu, skaut leikfélaga sinn og faldi líkið undir húsinu.
Í Georgíu stakk fimmtán ára piltur skólastjórann sinn með hnífi er verið var að aga hann.
Í New York-borg gekk óaldarflokkur stálpaðra unglinga og liðlega tvítugra pilta, vopnaðir kylfum, rörum, öxum, hnífum og kjötöxi, berserksgang í grennd við skýli handa heimilislausum karlmönnum. Þeir særðu marga og skáru einn á háls. Af hvaða hvötum? Rannsóknarlögreglumaður sagði: „Þeir voru að ‚skemmta sér‘ við það að ráðast á hina heimilislausu.“
Í Detroit í Michigan gekk 11 ára piltur í lið með 15 ára pilti í að nauðga tveggja ára stúlku. Þeir eru sagðir hafa skilið fórnarlambið eftir í ruslagámi.
Í Cleveland í Ohio nauðguðu fjórir drengir, sex til níu ára gamlir, níu ára stúlku í barnaskóla. Í athugasemd um þetta atvik sagði dálkahöfundurinn Brent Larkin í blaðinu Plain Dealer sem gefið er út í Cleveland: „Þetta segir ósköpin öll um það sem er að gerast í þessu landi, um það hvernig siðferðisgildi okkar eru á hraðleið niður í ræsið“.
Dr. Leslie Fisher, prófessor í sálfræði við Cleveland State University, skellti skuldinni á sjónvarpið. Hann kallaði það „eina stóra kynlífsvél“ og sagði að „átta og níu ára krakkar væru að horfa á þetta.“ Hann kenndi einnig foreldrum um hnignun hinnar bandarísku fjölskyldu: „Mamma og pabbi eru of upptekin af sínum eigin vandamálum og geta ekki tekið sér tíma til að sinna börnum sínum.“
Sorp inn, sorp út
Ýmis öfl þjóðfélagsins, einkum fjölmiðlar, skemmtikraftar og skemmtanaiðnaðurinn — sem hagnast á því að höfða til lægstu hvata mannsins — spúa út kynlífi, ofbeldi og spillingu og stuðla þannig mjög að því að spilla börnum og fjölskyldunni. Hér gildir reglan: Sáðu spillingu og þú uppskerð spillingu. Sorp inn, sorp út. Menn eru að fá í hausinn það sem þeir hafa stofnað til — og afleiðingarnar eru hrikalegar.
Er þjóðfélagið að ala upp kynslóð samviskulausra barna? Þeirri spurningu var varpað fram eftir að nokkrir óknyttastrákar höfðu gengið berserksgang í Central Park í New York, misþyrmt 28 ára gamalli konu, nauðgað henni og skildið eftir dána, að þeir héldu. Lögreglan sagði að þeir hefðu verið „ánægðir með sig og iðrunarlausir“ og „gert að gamni sínu, rabbað saman og sungið“ er þeir voru handteknir. Þeir tiltóku ástæður fyrir athæfi sínu: „Þetta var gaman.“ „Okkur leiddist.“ „Okkur vantaði eitthvað að gera.“ Tímaritið Time kallaði þá „andlega aflimi“ sem hefðu „misst, eða ef til vill aldrei þroskað með sér, þann andlega eiginleika, eða „lim,“ sem við köllum samvisku.“
Tímaritið U.S.News & World Report hvatti: „Þessi þjóð verður að láta hendur standa fram úr ermum til að koma í veg fyrir að upp vaxi önnur kynslóð barna sem hafa enga samvisku.“ Dr. Ken Magid, kunnur sálfræðingur, og Carole McKelvey leggja áherslu á þessa hættu í bók sinni, High Risk: Children Without Conscience, sem valdið hefur miklu fjaðrafoki. Fjölmargar sjúkdómssögur og vitnisburður margra sálfræðinga og geðlækna styður eindregið staðhæfingu Magids: Undirrótin er sú að ekki hefur myndast sterkt band milli foreldra og barna við fæðingu og á mótunarárunum strax þar á eftir.
Svo sannarlega verða fjölskyldur að byggja upp sterk tengsl á þessum mótunarárum, áður en það er um seinan!