Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Hollt að draga úr saltneyslu

Með því að minnka daglega saltneyslu sem nemur þrem grömmum má draga úr tíðni hjartasjúkdóma um 16 af hundraði og heilablæðinga um 22 af hundraði á Vesturlöndum, að sögn vísindamanna í Lundúnum. Minnkuð saltneysla myndi reynast áhrifaríkari en lyfjameðferð. Vísindamennirnir, sem starfa við St Bartholmew’s Hospital Medical School í Lundúnum, birtu niðurstöður sínar í læknatímaritinu British Medical Journal. Þeir ráðleggja matvælaframleiðendum að draga úr salti í matvælum. Ef engu salti væri bætt í unnar matvörur gæti hjartaáföllum fækkað um 30 af hundraði, að þeirra sögn, og dauðsföllum af völdum heilablæðingar um 39 af hundraði. Það myndi fækka dauðsföllum um 65.000 á ári á Bretlandseyjum einum. Fólki er ráðlagt að draga úr saltneyslu með því að bæta ekki salti í matinn við matborðið og forðast saltan mat.

Blekkingar námufélaga

Um 500 námufélög í Bandaríkjunum hafa gerst sek um blekkingar sem gætu stofnað lífi þúsunda námuverkamanna í hættu, að því er bandaríska vinnumálaráðuneytið upplýsti nýverið. Samkvæmt lögum er námufélögum skylt að skila inn síum úr litlum loftmælitækjum sem komið er fyrir í námum þeirra. Ráðuneytið rannsakar síurnar og getur látið loka námum þar sem er hættulega mikið kolaryk í lofti, en það getur valdið sjúkdómi, sem kallaður er kolalungu, og jafnvel dauða. Ráðuneytið staðhæfir að síðastliðið eitt og hálft ár hafi 847 námur sent inn 4710 síur er beri merki um tilraunir til blekkinga. Sumar síurnar höfðu verið húðaðar með efnum sem komu í veg fyrir að kolaryk settist í þær. Sumar höfðu verið ryksugaðar til að minnka kolarykið í þeim. Þúsundir námuverkamanna eru með kolalungu og ár hvert bugar þessi sjúkdómur allt að 4000 námuverkamenn, sem komnir eru á eftirlaun, og dregur þá til dauða.

Jafnlöng og Boeing 737

„Hvað svo sem þetta var þá eru leifar þess engin smásmíði. Einstakir hálsliðir eru 1,5 metrar í þvermál og rifbeinin þriggja metra löng. Vísindamenn áætla að skepnan öll hafi verið 27 til 30 metrar á lengd,“ segir The Vancouver Sun í Kanada. Sú lengd jafnast á við Boeing 737 þotu! Samstarfshópur kanadískra og kínverskra vísindamanna gróf steingerðan háls þessa ferlíkis úr jörð í Innri-Mongólíu árið 1986. Fjórum árum síðar fannst hauskúpan. „Hið raunverulega gildi þess að finna hauskúpuna er það að í fyrsta sinn getum við gengið úr skugga um hvort þessi risaeðla er skyld velþekktum risaeðlum í Norður-Ameríku,“ sagði Philip Currie við Royal Tyrell steingervingasafnið í Drumheller í Alberta í Kanada.

Önnur ástæða til að reykja ekki

Alkunna er að sígarettureykingar auka hættuna á hjartaáfalli. Rannsóknir sýna nú að þær geta „einnig deyft þau óþægindi sem eru merki um hjartasjúkdóm“ og dregið úr sársaukaskyni, að sögn tímaritsins Health. „Ef sígarettureykingar draga úr sársaukaskyni er hætta á stórfelldum hjartaskaða áður en læknishjálp berst,“ segir dr. Michael Crawford sem er formaður þess ráðs innan Bandarísku hjartasamtakanna er fæst við klíníska hjartasjúkdómafræði.

Skógarnir á hraðara undanhaldi

„Eyðing regnskóganna í heiminum er 50% hraðari en áður var talið,“ segir í Perspective, fréttatímariti Alþjóðaumhverfis- og þróunarstofnunarinnar. Í stað 11 milljóna hektara á ári, sem áður var talið, sýna nýleg gögn að 16 til 20 milljónir hektara af regnskógi kunni að eyðast á ári hverju.“

Glæpir án refsingar

Rannsókna- og hagdeild breska innanríkisráðuneytisins birti nýlega uggvænlegar tölur um afbrot þar í landi. Af hverjum 100 afbrotum eru 59 aldrei kærð. Þar af fylgir lögreglan eftir aðeins 26 kærum. Innan við þriðjungur þessara mála er til lykta leiddur — aðeins sjö eru leyst. Og þar af leiða aðeins fjögur til dóms eða aðvörunar! Þessar hagtölur ná yfir öll afbrot, meðal annars skemmdarverk og þjófnað. Breska lögreglan upplýsir hins vegar 70 af hundraði ofbeldisglæpa og 90 af hundraði morða.

Höfrungarnir að deyja

Nýlegar rannsóknir sýna að „af hinum 65 sjávarspendýrum í heiminum fer þeim fjölgandi sem eru í útrýmingarhættu,“ að sögn Perspective, fréttarits Alþjóðaumhverfis- og þróunarstofnunarinnar. Vísindamenn fullyrða að yfir 500.000 höfrungar séu drepnir árlega. Að sögn Umhverfisrannsóknastofnunarinnar, sem stóð fyrir rannsókninni, eru Japan, Mexíkó, Perú, Suður-Kórea, Srí Lanka og Taívan verstu sökudólgarnir, og „ganga Japanir lengst með því að drepa yfir 100.000 sjávarspendýr á ári.“ Reknet verða flestum sjávarspendýrum að fjörtjóni. En höfrungar eru líka „skotnir, stungnir, . . . veiddir á öngul, drekkt, reknir á land, drepnir með raflosti, veiddir með skutli, sprengdir og limlestir.“

Fíkniefnaneytendum fjölgar í Asíu

Heróínneysla hefur stóraukist í mörgum Asíulöndum. Sem dæmi má nefna að árið 1980 var vitað um innan við 50 heróínneytendur á Srí Lanka. Nú eru þeir um 40.000. Á sama tímabili fjölgaði heróínneytendum í Pakistan úr fáeinum þúsundum upp í 1,8 milljónir. Tímaritið Asiaweek segir að „harðari refsingar hafi ekki megnað að draga úr smygli og sölu fíkniefna. Á Srí Lanka eru einhver hörðustu viðurlög í heimi við því að eiga fíkniefni í fórum sínum: dauðarefsing eða ævilangt fangelsi liggur við því að eiga tvö grömm af heróíni eða kókaíni.“ Ábatavonin af fíkniefnasölu er óhemjusterkur hvati fyrir bændur til að taka upp valmúarækt, sem heróín er unnið úr, í stað annarrar ræktunar. Dr. Ravi Pereira við Fíkniefnavarnir Srí Lanka í Kólombó segir: „Ef það verður sykurskortur á morgun, þá það. En ef það verður heróínskortur, þá mun fólk koma klifrandi upp veggina. Menn borga hvað sem er til að ná í það.“

Kóralrifið mikla er ekki sérlega gamalt

Lengsta kóralrif í heimi — Kóralrifið mikla — er kannski ekki eins gamalt og áður var haldið. Þetta mikla kóralrif teygir sig um 2000 kílómetra veg meðfram norðausturströnd Ástralíu og hefur verið talið um 20 milljóna ára gamalt. Jarðfræðingar, sem hafa unnið að rannsóknum á rifinu, hafa nýverið borað gegnum kóralmyndunina. Uppgötvanir þeirra hafa komið vísindamönnum til að endurskoða hugmyndir sínar um aldur rifsins sem þeir telja nú kunna að vera á bilinu 500 þúsund til milljón ára gamalt. Terra Sauvage, franskt tímarit, segir að þessi uppgötvun eigi líklega eftir að valda uppnámi meðal vísindamanna vegna þess að hún virðist stríða gegn þeirri hefðbundnu þróunarkenningu að ólík lífsform hafi komið fram smám saman á milljónum ára. Vísindagögnin frá rifinu virðast benda til að lífið hafi komið fram í því sem Terra Sauvage kallar „gríðarlega þróunarsprengingu.“

Verndun afrísku risanna

Vinnuhópur þýskra sérfræðinga tilkynnti nýverið að afríska fílnum hefði fjölgað í fyrsta sinn í áratug, að sögn suður-afríska dagblaðsins The Star. Vinnuhópurinn telur að nú séu 609.000 fílar í Afríku. Það er innan við helmingur þess sem var árið 1979, en vinnuhópurinn telur að það hafi að minnsta kosti dregið úr fækkun þeirra. Þeir þakka það víðtæku banni á verslun með fílabein sem olli því að fílabein snarlækkaði í verði og verslunin með það hrundi. Nú er einnig unnið kappsamlega að því að vernda afríska nashyrninginn. Í Namibíu fjarlægja dýraverndarmenn hornin af nashyrningunum til að veiðimenn hafi enga ástæðu til að drepa dýrin. En að sögn The Star spáir dýraverndarmaðurinn Ted Reilly í Svasílandi því að þetta örþrifaráð muni ekki duga, því að hann kveðst jafnvel hafa séð veiðimenn drepa nashyrningsunga til að ná örsmáum hornum þeirra.

Plastskógar

„Ef við gróðursettum gerviskóg yrðu eyðimerkurnar ræktanlegar eftir tíu ár,“ að því er uppfinningamaðurinn Antonio Ibáñez Alba segir. Þótt hugmyndin virðist langsótt hefur hún fengið góðar undirtektir í nokkrum ríkjum Norður-Afríku, að sögn dagblaðsins Diario 16 sem er gefið út í Madrid á Spáni. Hugmyndin er sú að gróðursetja milljónir plasttrjáa í því skyni að líkja eftir því náttúrlega hlutverki skógarins að fanga næturdöggina og sleppa henni svo aftur yfir daginn. Á tíu ára tímabili ættu þessi gervitré fræðilega að geta framkallað nægilega úrkomu til að náttúrleg tré geti tekið við. Hvernig líta pólýúretantrén út? „Hönnun náttúrunnar er best þannig að þau líkjast pálmatrjám sem eru kjörin að lögun til að fanga döggina og greiða fyrir uppgufun,“ segir uppfinningamaðurinn. Helstu kostir trjánna eru þeir að það þarf enga áveitu til að „rækta“ þau og ólíklegt er að þau verði höggvin til eldiviðar.

Hver ákveður?

Auglýsendur hafa lengi kunnað að höfða til barna í þeim tilgangi að fá foreldrana til að kaupa hinar og þessar vörur. Tímaritið Le Figaro Magazine segir að könnun á vegum frönsku Barnastofnunarinnar leiði í ljós að „skoðanir barna hafi úrslitaáhrif á eftirfarandi sviðum: matvæli (70%), orlof (51%), hreinlætis- og snyrtivörur (43%), heimilistæki (40%), sjónvarps- og hljómtæki (33%) og bifreiðar (30%).“ En framkvæmdastjóri stórrar auglýsingastofu kom með þessa einföldu áminningu: „Fullorðnir ættu ekki að láta börnin sín ráða yfir sér.“

Hákarlaætur

Hákarlar eru í útrýmingarhættu, einkum út af ströndum Ástralíu, Japans, Suður-Afríku og Bandaríkjanna. Hákarli fer mjög fækkandi á þessum slóðum vegna þess að hákarl verður æ vinsælli á matborðið. Að sögn tímaritsins Time „jókst hákarlaveiði í Bandaríkjunum úr tæplega 500 tonnum árið 1980 í 7144 tonn árið 1989.“ Hákarlauggar eru notaðir í súpu sem álitin er lostæti í Asíu. Sum veitingahús setja upp allt að jafnvirði 3000 króna fyrir skál af þessari hlaupkenndu súpu. Time nefnir að veiðimenn „beiti þeirri grimmilegu aðferð að veiða hákarla, skera af þeim uggana og henda svo limlestri skepnunni fyrir borð til að deyja.“