Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig þú getur breytt sjálfum þér

Hvernig þú getur breytt sjálfum þér

Hvernig þú getur breytt sjálfum þér

AÐ HVAÐA leyti er þeim aðferðum til að ná fram ákveðnu atferli, sem ræddar voru hér á undan, áfátt? Það vantar í þær áhugahvöt og viljastyrk einstaklingsins sjálfs, beitingu hins frjálsa vilja og sjálfstætt val byggt á þekkingu. Í stuttu máli þá er það sjálfstjórnin sem vantar!

Sérfræðingar í atferlislækningum hafa komist að raun um að horfurnar á varanlegum árangri eru betri ef komið er þannig fram við einstaklinginn, sem er til meðferðar, að hann finni að hann ráði sjálfur einhverju um það að setja sér sín eigin atferlismarkmið. Vance Packard segir í bók sinni The People Shapers: „Með örlítilli ráðgjöf getur sérhver meðalgreindur maður breytt atferli sínu.“ Menn hafa með öðrum orðum náð einstæðum árangri með því að beita svolítilli sjálfstjórn.

Kristnir menn eru vel á vegi staddir hvað sjálfstjórn varðar, því að hún er einn af hinum níu ávöxtum heilags anda Guðs sem þeir hafa lært að nota. (Galatabréfið 5:22, 23) Þetta þýðir að starfskraftur hins alvalda Guðs getur haft áhrif á atferli þitt og hjálpað þér að ná árangri.

Hvað vilt þú þá gera í sambandi við atferli þitt? Langar þig í raun og veru til að breyta þér? Hverju viltu breyta? Hvernig viltu breyta því? Og hvers vegna? Getur þú treyst þinni eigin sjálfstjórn? Hvar getur þú leitað hjálpar sem er örugglega til góðs?

Við skulum líta á nokkur hagnýt ráð sem geta hjálpað þér að breyta atferlismynstri þínu.

1. skref: Lærðu að þekkja sjálfan þig.

Þú ert sjálfur hráefni hins nýja persónuleika sem þú vilt móta. Þú þarft að byggja upp þinn nýja mann með því að breyta þínum gamla manni. Þess vegna þarft þú að þekkja sjálfan þig vel. Getur þú skilgreint hvaða atferlisþáttum þú vilt breyta?

Það er erfitt að leggja rétt mat á eigin atferli og þess vegna þarft þú að hafa áreiðanlegan og trúverðugan staðal til viðmiðunar. Heilög Biblía er meðmælanleg til slíks. Með því að nota Biblíuna sérð þú sjálfan þig kannski í algerlega nýju ljósi. Vera má að þér líki ekki einu sinni það sem þú sérð, en þú mátt vera viss um það er raunsönn mynd.

Biblíunni hefur verið líkt við spegil og fólk er eindregið hvatt til að rýna í hana. „Ef einhver er heyrandi orðsins og ekki gjörandi, þá er hann líkur manni, er skoðar andlit sitt í spegli. Hann skoðar sjálfan sig, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig hann var. En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.“ (Jakobsbréfið 1:23-25) Sé Biblían rétt skilin og notuð er hún öflugt greiningartæki sem bæði brýtur til mergjar hvers konar persóna þú ert og dregur jafnvel fram hverjar eru áhugahvatir þínar og viðhorf. Þannig skrifaði Páll: „Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði . . . það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ Og orð Guðs gengur enn lengra með því að veita leiðsögn um það hvað sé í raun rétt og hvað sé í raun rangt. — Hebreabréfið 4:12; 5:14.

Biblían getur gert allt þetta fyrir þig vegna þess að hún er orð Jehóva, hins skarpskyggna og sanna Guðs. Að því er Sálmur 139 segir skoðar Guð þinn innri mann og greinir nákvæmlega hvað þú ert. Eins og 1. versið segir: „[Jehóva], þú rannsakar og þekkir mig.“ Guð hefur fylgst með þér frá getnaði. Hann gjörþekkir þig. Hann hefur látið skrifa athugasemdir í Biblíuna um mannlífið í öllu hugsanlegu samhengi. Þú finnur spegilmynd af sjálfum þér einhvers staðar á síðum hennar, annaðhvort jákvæða eða neikvæða.

Þannig getur þú lært að þekkja sjálfan þig — ef þú vilt.

2. skref: Ákveddu hvers konar persóna þú vilt vera.

Ef þú ætlar að breyta þér skaltu fullvissa þig um að það sé þess virði. Gakktu úr skugga um að það sé það sem þú vilt og að það sé betra en það sem þú hefur núna. Hvaða verðug atferlismarkmið ættir þú að setja þér? Hvar getur þú fengið bestu ráðin um æskileg hegðunareinkenni? Aftur er best að leita til Biblíunnar.

Biblían hvetur þig til að breyta þér til betri vegar, að tileinka þér ‚nýjan mann‘ eða persónuleika. Páll hvatti: „Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en . . . endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ (Efesusbréfið 4:22-24) Biblían sýnir þér hver þessi betri einkenni eru. Manstu eftir hinum fullkomna heimi sem við lýstum áður? Ef þig langar í raun og veru til að vera hluti af þeim heimi þarft þú að koma auga á nauðsyn þess að þroska þá eiginleika sem lýst er í Kólossubréfinu 3:12-17, eiginleika svo sem meðaumkun, góðvild, auðmýkt, mildi, þolinmæði, fúsleika til að fyrirgefa, kærleika, frið og þakklæti.

Eftir að hafa skyggnst í Biblíuna skaltu því setja þér markmið. Skrifaðu þau niður í forgangsröð. Leggðu þig fram við að ná þeim!

3. skref: Veldu þér verðuga fyrirmynd.

Atferli þitt mótaðist að verulegu leyti af því að þú tókst þér aðra til fyrirmyndar — vini, félaga, foreldra eða kennara.

Væri þá ekki ráð, eftir að þú hefur sett þér æskileg atferlismarkmið, að finna einhvern sem þig langar til að líkja eftir? Leitaðu síðan hjálpar þessa einstaklings. Orðskviður í Biblíunni gefur þetta viturlega ráð: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur.“ — Orðskviðirnir 13:20.

Biblían segir ævisögu manns sem er besta fordæmi okkar allra, Jesú Krists sjálfs. Lestu um hvernig hann hegðaði sér undir öllum kringumstæðum, um siðferðilega háttsemi hans, glöggskyggni hans og visku, reisn hans, hugulsemi og einstæða góðvild og umhyggju fyrir náunganum. Það hljómar einkar hressandi að lesa orð hans: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt“! — Matteus 11:28-30.

Milljónir manna í öllum löndum heims hafa nú þegar snúið sér til Krists Jesú sem fordæmis og gera sitt besta til að feta í fótspor hans, á sama hátt og hann framgekk eins og himneskur faðir hans, Jehóva Guð, fól honum. Þessar milljónir manna hafa fengið sig fullsaddar á slæmri hegðun heimsins í heild, hafa leitað hjálpar og leiðsagnar hjá næsta söfnuði votta Jehóva og hafa ekki orðið fyrir vonbrigðum. Í söfnuðum votta Jehóva er að finna fjölmarga einstaklinga sem taka sér Krist til fyrirmyndar og þeir sem vilja breyta persónulegri háttsemi sinni til betri vegar hafa fengið mikla hjálp til þess. Að sjálfsögðu eru vottar Jehóva ófullkomnir eins og allir aðrir menn, en þeir hafa jákvæðan, andlegan kraft sem knýr huga þeirra. — Efesusbréfið 4:23.

4. skref: Sæktu þann styrk sem þú þarft.

Það er hughreystandi fyrir þá sem vilja breyta sér að hjálpin er innan seilingar. Hinum ‚nýja manni‘ er svo lýst að hann sé „skapaður eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ (Efesusbréfið 4:24) Þetta tryggir að ofurmannleg hjálp er fáanleg frá Guði sjálfum handa þeim sem óska hennar. Hvernig getur þú fengið hjálp Jehóva Guðs?

Ein besta hjálpin er einkabæn. Gegnum bænina höfum við aðgang að mikilvægri ráðgjafarþjónustu hans sem ræður yfir þeim krafti er við þurfum til að breyta vegum okkar. Bænin gefur okkur tækifæri til að tala frjálsmannlega og óhindrað við Guð hvenær sem er, jafnvel á neyðarstund. Slíkur aðgangur að raunverulegum og umhyggjusömum Guði er langtum verðmætari en nokkur hjálp sem menn geta veitt og kemur tafarlaust að notum. Því gat Jóhannes postuli skrifað: „Þetta er sú djörfung, sem vér höfum til hans: Ef vér biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hans oss.“ (1. Jóhannesarbréf 5:14) Og orð spámannsins Jesaja eru uppörvandi: „Leitið [Jehóva], meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur! Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til [Jehóva], þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega.“ — Jesaja 55:6, 7.

Biblíunám styrkir líka og endurnærir og hjálpar okkur að hafa markmiðin í brennidepli. Biblíunám gefur okkur nauðsynlegan kraft til að keppa að því marki sem við höfum sett okkur. Enn fremur vekur það með okkur óbeit á fyrri háttsemi. Með því að viða að sér þekkingu á Biblíunni og efni hennar dag hvern verður auk þess lítið rúm fyrir rangar og villandi upplýsingar frá fjölmiðlum og fræðslukerfum heimsins.

Kristnar samkomur í ríkissal votta Jehóva bjóða bæði upp á menntun í stöðlum Biblíunnar og hópstuðning og gagnkvæma hvatningu til bættra hátta. Þessi stuðningur safnaðarins hefur verið mörgum hjálp til að að breyta atferli sínu. Væri ekki ráð að ræða um slíka hjálp við þann sem þú fékkst þetta tímarit hjá?

5. skref: Gefstu ekki upp þótt þú hrasir.

Margir hafa reynt að breyta háttarlagi sínu en misst kjarkinn er þeir hrösuðu á bataveginum. Sumir hafa hreinlega gefist upp af þeim sökum. Slíkir einstaklingar hugsa oft sem svo að nú sé öll von úti úr því að það sem þeir álitu einu vonina brást þeim. Síðan gefa þeir sig kannski heiminum á vald. Oft eru þeir þá verr á vegi staddir en þeir voru áður en þeir byrjuðu að reyna að breyta sér.

Haltu áfram að fullvissa þig um að það sé þess virði að leggja af vissa, óæskilega breytni. Páll postuli talaði um sitt fyrra atferli og líferni sem sorp. (Filippíbréfið 3:8) Ef þú hrasar á hinum siðferðilega batavegi eða hnýtur um einhverja hindrun, stattu þá upp aftur og haltu áfram í átt að markinu. Misstu ekki móðinn! Haltu baráttunni áfram! Það er þess virði!

Mundu að ytri áhrif, sem þú réðst ekki við á þeim tíma, þröngvuðu upp á þig mörgum af háttum þínum og einkennum. Þessi áhrif eru enn að verki. Ætlar þú að láta þau þröngva þér í sitt mót? Ekki það? Gefstu þá aldrei upp!

Milljónum manna af alls kyns menningaruppruna — jafnvel glæpamönnum og fólki sem var djúpt sokkið í siðleysi — hefur tekist að söðla um í lífi sínu. Þeir hafa lifað eftir breyttum og betri lífsstöðlum fram á þennan dag, margir hverjir svo áratugum skiptir, og varðveitt aðdáunarverða ráðvendni og góða breytni. En þeir þakka Guði þann styrk og áhugahvöt sem til þurfti. Eins og Páll postuli sagði: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ — Filippíbréfið 4:13.

Þeir sigra í þeirri baráttu sem þarf að heyja til að gera það sem rétt er. Þú getur líka breytt þér ef þig langar til þess í raun og veru, og þú getur fengið að lifa í nýjum heimi Guðs. — Sálmur 37:29; 2. Pétursbréf 3:13.

[Mynd á blaðsíðu 23]

1. skref: Lærðu að þekkja sjálfan þig.

[Mynd á blaðsíðu 24]

2. skref: Ákveddu hvers konar persóna þú vilt vera.

[Mynd á blaðsíðu 24]

3. skref: Veldu þér verðuga fyrirmynd.

[Mynd á blaðsíðu 25]

4. skref: Sæktu þann styrk sem þú þarft.

[Mynd á blaðsíðu 25]

5. skref: Gefstu ekki upp þótt þú hrasir.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Þeir sem breyta sjálfum sér geta líka erft breytta jörð.