Reiðin er dýru verði keypt
Reiðin er dýru verði keypt
ERT þú reiðigjarn? Átt þú vanda til að rjúka upp af minnsta tilefni? Lætur þú reiðina sjóða í þér svo dögum skiptir og stórmóðgast hvenær sem einhver lítilsvirðir þig? Ef svo er, þá er líklegt að þú sért ekki bara að gera þá sem eru í kringum þig fráhverfa þér heldur sért þú að drepa sjálfan þig með þinni eigin reiði.
Getur reiði í alvöru verið banvæn? Sá möguleiki er alls ekkert langsóttur, að því er segir í nýlegri frétt frá The New York Times News Service. Í fréttinni er til dæmis staðhæft að „langvinn reiði sé svo skaðleg líkamanum að hún jafnist á við eða sé enn hættulegri en sígarettureykingar, offita og mjög fituríkt fæði sem alvarlegur áhættuþáttur er geti dregið menn til dauða löngu fyrir tímann.“
Í fréttinni er vitnað í niðurstöður nokkurra vísindarannsókna þessu til stuðnings. Í einni rannsókninni voru nokkrir 25 ára gamlir háskólanemar látnir gangast undir persónuleikapróf til að mæla reiðistig þeirra við daglegar aðstæður. Vísindamennirnir könnuðu hvernig þessir nemendur voru á vegi staddir 25 árum síðar. Dánartíðni þeirra sem síst voru taldir reiðigjarnir var mjög lág. Einungis 4 af hundraði þeirra voru látnir fyrir fimmtugt. En þeim sem reiðigjarnastir voru farnaðist miður — 20 af hundraði þeirra voru látnir! Í annarri rannsókn kom í ljós að þeir sem metnir voru reiðigjarnastir voru með langtum meira af skaðlegu kólesteróli í blóði síðar á ævinni og voru því í verulegri hættu að fá hjartasjúkdóma.
Hvað um þá sem byrgja inni með sér reiði í stað þess að finna jákvæða leið til að takast á við vandamál sín? Dr. Mara Julius, farsóttafræðingur við University of Michigan, gerði könnun á hópi kvenna er náði yfir 18 ára tímabil. Hún komst að þeirri niðurstöðu að dánartíðni þeirra sem sýndu augljós merki langvinnrar, innibyrgðrar reiði eða fjandskapar væri um þrefalt hærri en hinna sem ekki ólu með sér slíka reiði. Hún sagði: „Fyrir margar konur virðist stöðug, bæld reiði valda meiri hættu á ótímabærum dauða en reykingar.“
Þúsundum ára áður en farið var að gera slíkar vísindarannsóknir varaði Biblían við reiði. „Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar,“ segir eitt versið. (Efesusbréfið 4:26) „Lát af reiði og slepp heiftinni,“ segir annað vers. (Sálmur 37:8) Enn athyglisverðara er að Biblían benti á tengsl milli tilfinningaástands og líkamsheilsu er hún fullyrti: „Rósamt hjarta er líf líkamans, en ástríða er eitur í beinum.“ — Orðskviðirnir 14:30.
[Mynd á blaðsíðu 14]
Útfararstjórinn kemur auga á reiðan mann og nýr saman höndunum því að þar er kominn væntanlegur „viðskiptavinur.“