Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Uppeldi barna um allan heim — með kærleika, aga, fordæmi og andlegum lífsgildum

Uppeldi barna um allan heim — með kærleika, aga, fordæmi og andlegum lífsgildum

Uppeldi barna um allan heim — með kærleika, aga, fordæmi og andlegum lífsgildum

FORELDRAR í allmörgum löndum hafa sent inn frásagnir af farsælu uppeldi barna sinna allt frá bernsku út í gegnum unglingsárin. Allir þessir foreldrar eru vottar Jehóva og þess vegna leggja frásögur þeirra allra áherslu á nauðsyn þess að sinna vel þeim fjórum sviðum sem talin eru upp í titli þessarar greinar. Sá úrdráttur, sem fylgir hér á eftir, lýsir aðeins fáeinum af þeim ólíku uppeldisatriðum sem þeir lögðu rækt við.

Frá Havaji

„Eins og Biblían segir okkur er kærleikurinn allra eiginleika ‚mestur.‘ Kærleikur í öllum sínum myndum þarf að gagntaka heimilið og fjölskylduna. Við Carol áttum þennan guðlega eiginleika sameiginlegan í hjónabandi okkar. Samband okkar er náið. Okkur finnst ánægjulegt að vera saman. Ég get ekki lagt nægilega þunga áherslu á þá skoðun mína að hamingjusöm hjón séu undirstaða farsæls barnauppeldis.

Ég man enn þann dag í dag þær sterku tilfinningar sem ólguðu fram í hjarta mínu fyrstu dagana og vikurnar eftir að fyrsta barnið okkar fæddist. Það var stórkostlegt undur að ný mannvera skyldi vera orðin til. Ég man hve Carol var ánægð og hamingjusöm þegar hún var með Rakel litlu á brjósi. Ég var glaður hennar vegna, en ég fann líka til smágremju, örlítillar afbrýðisemi. Náin tengsl voru að myndast milli Carol og Rakelar, en hvað um mig? Mér fannst sem mér hefði verið ýtt — að vísu mjög mildilega en eigi að síður ýtt — út úr hringiðu fjölskyldunnar. Með hjálp Jehóva gat ég tjáð Carol tilfinningar mínar og áhyggjur og hún sýndi mér mikla samúð og studdi mig.

Eftir það gat ég komist nær barninu með því að hjálpa til við allt umstangið í kringum það, líka sumt af hinu óþægilega — það er einstæð lífsreynsla að þvo óhreina bleiu, að ekki sé meira sagt! Við höfum eignast fimm börn auk Rakelar. Rebekka er yngst, nú átta ára. Við höfum haft persónulegt einkabiblíunám með hverju einasta barni.

Eitt atriði enn varðandi barnauppeldi. Við Carol höfðum yndi af því að tala við börnin okkar allt frá því að þau fæddust. Við töluðum um allt mögulegt. Stundum töluðum við um Jehóva og hin fögru dásemdarverk hans. Stundum töluðum við um kjánalega og skrýtna hluti. Að sjálfsögðu vorum við að reyna að kenna þeim eitthvað, en þó ekki síður hreinlega að eiga saman þægilegar, saklausar ánægjustundir. Ég held að slík samtöl hafi átt mjög ríkan þátt í góðum tengslum okkar við börnin. Það leikur enginn vafi á því að þau áttu sinn þátt í að koma á þeim góðu samræðum og skoðanaskiptum sem við höfum átt í fjölskyldunni.

Jehóva hefur kennt okkur hve mikils virði andleg verðmæti eru, það að gefa af sjálfum okkur. Við Carol höfum aldrei haft mjög mikið af efnislegum gæðum, en við höfum í rauninni aldrei sóst eftir þeim eða saknað þeirra. Ef við hefðum eytt meiri tíma í að þræla fyrir peningum hefðum við ekki haft nægan tíma handa Jehóva og fjölskyldu okkar. Við völdum rétt.“ (Athugasemdir Carol fara hér á eftir.)

„Ég held að brjóstagjöf stuðli mjög að því að mynda sterkt band milli barna og mæðra þeirra. Maður eyðir miklum tíma í að faðma barnið og halda á því þannig að það verður ekki hjá því komist að mynda sterk tengsl. Móðirin getur aldrei vikið frá barninu lengur en tvær til fjórar stundir í senn. Við Ed höfum alltaf verið mjög stíf á því að skilja börnin okkar ekki eftir hjá barnfóstrum. Ég hef alltaf viljað geta kennt börnunum mínum sjálf og sjá þau vaxa úr grasi. Ég vann því ekki úti meðan börnin voru lítil. Ég held að það hafi hjálpað þeim til að gera sér grein fyrir hve mikils virði þau voru okkur. Besta leiðin til að mynda náin tengsl við börnin er sú að vera með þeim. Það getur ekkert komið í staðinn fyrir það að vera með þeim í eigin persónu. Það geta engir efnislegir hlutir komið í staðinn fyrir mann sjálfan.

Táningaárin voru erfið aðeins af því að ég þurfti að aðlaga mig því að börnin voru að stækka. Það var svolítið erfitt að sætta sig við það, að uppgötva að þau þörfnuðust mín ekki eins mikið og áður og að þau voru að verða sjálfstæð. Unglingsárin eru ógnvekjandi tími og þau reyna á alla þá kennslu, ögun og mótun sem maður hefur unnið að. Það er of seint að byrja á slíku þegar börnin eru komin á táningaaldur. Þá er of seint að fara að kenna þeim siðferðisreglur, mannkærleika og sérstaklega kærleika til Jehóva. Slíkt þarf að innræta allt frá fæðingu.

Maður hefur 12 ár til að ljúka verki sínu áður en þessi örlagaríku táningaár renna upp. En ef maður hefur lagt hart að sér við að framfylgja meginreglum Biblíunnar, þá uppsker maður líka gleði og frið þegar þau ákveða að þau vilji þjóna Jehóva af öllu hjarta.“ — Edward og Carol Owens.

Frá Simbabve

„Börn eru ‚gjöf frá Jehóva‘ eins og Biblían segir í Sálmi 127:3. Að hafa það hugfast hefur hjálpað okkur sem foreldrum að gera allt sem við gátum til að annast þessa gjöf. Eitt af því sem við fjölskyldan lögðum sérstaka áherslu á var að gera hlutina í sameiningu — biðja saman, nema Biblíuna saman, tilbiðja saman, vinna saman, heimsækja vini saman, leika saman.

Stundum þurfti að beita aga. Einu sinni kom sonur okkar, sem þá var kominn á unglingsaldur, seint heim. Við vorum áhyggjufull. Hann gaf loðin svör. Við fundum á okkur að eitthvað var að, en við ákváðum að salta málið til morguns. Um miðnætti var bankað á svefnherbergishurðina. Það var sonur okkar með tárvot augu.

‚Pabbi og mamma, ég hef verið andvaka síðustu fjóra klukkutímana, bara af því að ég hlustaði ekki á ykkur þegar þið notuðuð Biblíuna til að vara mig við slæmum félagsskap. Eftir skólann í dag lögðu nokkrir krakkar fast að mér að koma með sér í sund og einn af strákunum kaffærði mig. Ég hefði drukknað ef annar strákur hefði ekki komið mér til bjargar. Þeir hlógu að mér og kölluðu mig raggeit. Ég kom beint heim en svo beið ég fyrir utan húsið af því að ég fann til sektarkenndar. Ég skammast mín fyrir að hlusta ekki á ykkur þegar þið vöruðuð mig við slæmum félagsskap, eins og fram kemur í Biblíunni.‘ — 1. Korintubréf 15:33.

Hann snökti og við táruðumst líka. Við vorum ánægð að hann skyldi hafa lært sína lexíu, en við öguðum hann líka til að innprenta honum þetta enn betur. Önnur Mósebók 34:6, 7 sýnir að Jehóva er miskunnsamur og fyrirgefur syndir, en ‚hann lætur þeirra þó ekki með öllu óhegnt.‘“ — David og Betty Mupfururirwa.

Frá Brasilíu

„Ég er ekkja og þarf að ala drenginn minn upp ein míns liðs. Auk þess vinn ég úti sem kennari. Það er ekki auðvelt að fræða og aga börn. Til þess þarf samhangandi kennslu, öfgalausan aga og gott fordæmi af hálfu foreldranna. Það var erfitt fyrir mig að vera ákveðin en jafnframt skilningsrík. Ég þurfti að þroska með mér listina að hlusta, einkum að hlusta með hjartanu. Það er þýðingarmikið að tala saman og skiptast á skoðunum, ekki bara að tala heldur að draga barnið inn í samræðurnar, fá fram tilfinningaleg viðbrögð. Ég reyndi að láta hann finna að hann væri hluti fjölskyldunnar með því að láta hann taka þátt í fjármálastjórn heimilisins. Þegar rafmagnsreikningur eða vatnsreikningur barst eða verðhækkun varð á fötum eða skófatnaði ræddum við þessi mál saman.

Það er mikilvægt að hrósa einlæglega fyrir allt sem vel er gert. Eftir því sem tækifæri gáfust sýndi ég honum fram á gildi þess að fylgja lögum Guðs og meginreglum. Einu sinni, eftir að hafa leiðbeint honum nokkrum sinnum, þurfti ég að beita hinum bókstaflega vendi. Mér fannst það afskaplega erfitt en árangurinn var mjög góður. Á gelgjuskeiðinu gengur upp og niður hjá okkur en við sjáum gildi fræðslu og aga. Hann segir mér frá persónulegum vandamálum sínum og tilfinningum.

Ég verð að halda mér vakandi fyrir því að halda uppi góðum skoðanaskiptum. Ég reyni því að verða ekki svo upptekin af veraldlegri vinnu minni að ég hafi ekki alltaf tíma fyrir son minn. Þegar vandamál koma upp reyni ég að hlusta með mikilli athygli, og með hjálp Jehóva sigrumst við á þeim. Ég læt hann líka vita að mér verða á ýmis mistök. Einhverju sinni var ég afar reið og sagði honum að ‚halda sér saman.‘ Hann sagði mér að það bæri vott um kærleiksskort að segja einhverjum að ‚halda sér saman.‘ Hann hafði nokkuð til síns máls. Við töluðum lengi saman þetta síðdegi.“ — Yolanda Moraes.

Frá Kóreu

„Ég framfylgdi meginreglum Biblíunnar af kappi. Fimmta Mósebók 6:6-9 sat djúpt í hjarta mínu, þannig að ég reyndi að vera eins mikið og ég gat með börnum mínum, byggja upp náin tengsl við þau, innræta þeim meginreglur orðs Guðs í huga og hjarta. Ég bauð líka trúboðum í fullu starfi og meðlimum Betelfjölskyldunnar í heimsóknir til að gefa börnum mínum tilfinningu fyrir þjónustu í fullu starfi.

Hið fyrsta, sem foreldrar ættu að gera þegar börn valda erfiðleikum, er að sýna ávexti andans. Það er auðvelt að komast í uppnám við börnin og missa stjórn á skapi sínu. Við foreldrar verðum samt sem áður að vera þolinmóðir og til fyrirmyndar í hegðun okkar. Það er mikilvægt að virða börnin og gefa þeim tækifæri til að gera grein fyrir máli sínu. Ef ekki liggja fyrir skýr merki um ranga breytni eigum við að treysta þeim og alltaf að byggja þau upp. Þegar nauðsynlegt er að aga barn á að byrja á því að rökræða við það, vekja athygli á hvað það gerði rangt og benda á hve vanþóknanleg hegðun þess hafi verið Jehóva og foreldrum þess. Þá fyrst á aginn að koma. Oft sögðu synir mínir við mig eftir að þeir voru agaðir: ‚Pabbi, ég skil ekki sjálfan mig, ég veit ekki hvers vegna ég var óhlýðinn. Það var svo heimskulegt.‘ Þau kunna að meta foreldra sem láta sér nógu annt um þau til að aga þau.

Foreldrar þurfa að vera vakandi fyrir fyrstu merkjum um ranga breytni. Þegar elsti sonur minn var í þriðja bekk miðskóla heyrði ég háværa rokktónlist frá herberginu hans. Ég uppgötvaði að hann hafði gengið í agalið nemenda (hópur fyrirmyndarnemenda í eldri bekkjum sem leiðbeina öðrum nemendum) og hafði orðið fyrir veraldlegum áhrifum. Ég komst að því að hann hafði fiktað við reykingar, vegna stöðugs þrýstings meðlima í liðinu og sökum forvitni. Við rökræddum saman um það hve hættulegt það væri að reykja og sonur minn komst sjálfur að þeirri niðurstöðu að hann ætti að segja sig úr liðinu og gerði það. Til að fylla í tómarúmið sem myndaðist við það að hætta þátttöku í óheppilegu skólastarfi skipulögðum við heilnæma afþreyingu með fjölskyldunni og einstaklingum úr söfnuðinum.

Að síðustu vil ég taka fram að það þýðingarmesta sem foreldrar geta gert er að setja gott fordæmi. Ég hafði alltaf sagt drengjunum mínum tveim að ég vildi að þeir þjónuðu Guði í fullu starfi sem prédikarar fagnaðarerindisins. Þegar yngri drengurinn minn lauk skóla gat ég sagt upp starfi mínu í silkiverksmiðjunni og gerst þjónn orðsins í fullu starfi. Drengirnir tveir sáu einbeitni mína og gerðu það líka. Eftir að hafa setið í fangelsi um tíma vegna hlutleysisafstöðu sinnar hófu báðir þjónustu í fullu starfi og gegna henni enn.“ — Shim Yoo Ki.

Frá Svíþjóð

„Við höfum alið upp sjö börn, fimm drengi og tvær stúlkur. Þau eru öll uppvaxin núna og mjög starfsöm við prédikun fagnaðarerindins um Guðsríki. Allt frá unga aldri sóttu börnin safnaðarsamkomurnar og fóru með okkur út í þjónustuna á akrinum. Skref fyrir skref lærðu þau að prédika — hringja dyrabjöllum, heilsa, segja til nafns, bjóða boðsmiða, smárit eða tímarit. Þau byrjuðu öll að flytja nemendaræður í Guðveldisskólanum ung að árum.

Stundum komu upp alvarleg vandamál sem þurfti að taka á. Þá er þýðingarmikið fyrir foreldrana að vera kærleiksríkir og þolinmóðir — ekki hrópa og kalla eða rífast. Vandamál voru leyst með því að rökræða um hlutina og leggja áherslu á viðhorf Jehóva. Við kenndum þeim að fara með peninga. Þegar þau stækkuðu unnu þau við blaðburð, mótekju, garðyrkju og fleira. Með því að heimsækja afa sína og ömmur langt í burtu kynntust þau vandamálum aldraðra og lærðu að setja sig í spor þeirra.

Á 30 ára brúðkaupsafmælinu okkar fengum við eftirfarandi bréf:

‚Til elskuríkra foreldra okkar:

VIÐ ÞÖKKUM YKKUR FYRIR ALLT SEM ÞIÐ HAFIÐ GERT! Fyrir kærleikann sem þið úthelltuð yfir okkur, hina ósviknu trú sem þið innrættuð okkur, hina stórkostlegu von sem þið hafið gefið okkur — þetta verður hvorki þakkað með orðum né metið til fjár. Við vonum samt að þetta litla kort sýni ykkur hve mikils við metum ykkur, kæri pabbi og mamma. [Undirritað] Börnin ykkar.‘

Er við lítum um öxl yfir öll þessi ‚20 ára verkefni‘ finnum við til djúprar þakkarkenndar í garð Jehóva, föður okkar á himnum, sem hefur verið svo miskunnsamur við okkur.“ — Bertil og Britta Östberg.

Ýmsar ábendingar frá foreldrum

„Brjóstagjöf er aðferð Jehóva til að koma barninu í nána, líkamlega snertingu við móðurina, en faðirinn getur lagt sitt af mörkum með hjálp ruggustóls. Ég hafði mikið yndi af því að halda börnunum okkar í fanginu og rugga þeim í svefn á nálega hverju kvöldi.“

„Sem faðir gat ég ekki haft börnin okkar á brjósti, en ég hafði náin, líkamleg tengsl við þau með því að baða þau á kvöldin. Það voru skemmtilegar stundir, bæði fyrir mig og þau!“

„Endrum og eins hef ég tekið hvert og eitt af börnum okkar, eitt síns liðs, út með mér að borða. Þau hafa yndi af því að fá að vera ein með pabba sínum.“

„Er árin liðu veittum við börnunum smám saman aukið frelsi og ábyrgð. Ef maður heldur á samanpressuðum gormi í hendi sér verður maður að lina takið hægt og hægt til að hann fljúgi ekki út í buskann.“

„Sýndu mikla ástúð. Það hefur ekkert barn dáið úr faðmlögum og kossum — en án þeirra geta tilfinningar þeirra dáið.“

„Verið þolinmóð, brjótið þau ekki niður. Nauðið ekki í þeim í sífellu. Látið þau byggja upp sjálfsvirðingu. Hrósið þeim fjórum sinnum fyrir hvert eitt skipti sem þið gagnrýnið þau.“

„Gefðu þeim þitt besta til að þau nái fram sínu besta.“

[Mynd á blaðsíðu 9]

Ung börn eins og Rebekka þarfnast ósvikinnar ástúðar.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Það stuðlar að sterkum fjölskylduböndum að taka sér tíma til að gera hlutina í sameiningu.