Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Öryrki verður virkur guðsdýrkandi

Öryrki verður virkur guðsdýrkandi

Öryrki verður virkur guðsdýrkandi

TVEIR af vottum Jehóva, sem voru að boða trú sína hús úr húsi í febrúar 1984, töluðu við konu í þorpinu Corcovada í Añasco á Púertó Ríkó. Þeir heyrðu hljóð innan úr húsinu og spurðu konuna hvort einhver væri veikur.

„Já,“ svaraði hún, „þetta er maðurinn minn. Hann hefur verið sjúklingur í 14 ár og kemur aldrei út úr herberginu sínu nema til að baða sig og borða.“

Vottarnir spurðu hvort þeir mættu tala við manninn. Konan sagði að hann vildi helst ekki tala við neinn, en vottarnir mættu fara inn til hans ef þeir vildu.

„Þegar við komum inn í herbergið,“ segir annar votturinn, „lá maðurinn í rúminu. Við fundum til meðaumkunar með honum strax og við sáum hvernig ástatt var fyrir honum. Hann var svo veikburða að hann skalf. Við sögðum honum frá ríki Guðs og voninni um að lifa í heimi án sjúkdóma og dauða. Tárin runnu niður kinnarnar á honum. Ég spurði hann hvort hann langaði til að búa í þessum nýja heimi þar sem enginn yrði sjúkur.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.

„Já,“ svaraði hann. „Við buðumst til að koma aftur og nema Biblíuna með honum. Hann samþykkti það og við komum aftur og héldum biblíunám með honum þar sem hann lá í rúmi sínu.

Eftir fáeinar heimsóknir stakk ég upp á því að hann settist upp í rúminu þannig að hann ætti auðveldara með að nema. Hann gerði það þótt hann gæti í fyrstu ekki setið uppi nema stutta stund í senn áður en hann fór að svima. Eftir að við höfðum numið saman nokkrum sinnum og honum jókst styrkur stakk ég upp á að námið færi fram í stofunni. Hann féllst á það og í hverri viku hjálpuðum við honum að ganga þangað.

Maðurinn tók góðum framförum í námi sínu, jafnvel þótt sjónin væri mjög léleg og hendur hans skylfu svo mikið að hann ætti erfitt með að halda á stækkunargleri. Hann sagði okkur að þau 14 ár, sem hann hefði verið sjúklingur, hefði hann ekki leitað læknis vegna þess að hann væri ófær um að fara út úr húsinu. Við gerðum því ráðstafanir til að fara með hann til læknis.

Gerð var skurðaðgerð á augum hans sem heppnaðist vel og fljótlega var hann farinn að lesa í Biblíunni án stækkunarglers. Jafnvel hendurnar hættu að skjálfa. Hann fór að ganga um húsið og að lokum þurfti hann ekki að fara í rúmið nema á nóttinni til að sofa. Skömmu síðar byrjaði hann að sækja kristnar samkomur í ríkissalnum okkar.

Kærleikur þessa fyrrverandi öryrkja til Jehóva og fyrirheita hans knúði hann loks til að tala við aðra um það sem hann hafði lært. Ekki leið á löngu áður en hann var farinn að taka þátt með okkur í þjónustunni hús úr húsi, nágrönnum hans og vinum til mikillar undrunar. Heilsan skánaði svo að hann gat jafnvel byrjað að vinna við búskapinn.“

Þessi frásaga var sögð á svæðismóti votta Jehóva í nóvember 1988 og maðurinn, Pedro Matínez, kom fram á sviðið. Að lokum gaf hann tákn um vígslu sína til Jehóva með niðurdýfingarskírn í nóvember 1989.