Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Alkirkjuráðið — vettvangur samvinnu eða sundrungar?

Alkirkjuráðið — vettvangur samvinnu eða sundrungar?

Alkirkjuráðið — vettvangur samvinnu eða sundrungar?

Eftir fréttarita Vaknið! í Ástralíu

ÞINGIÐ hófst þann 7. febrúar 1991 í hinu fagra umhverfi Landsháskólans í Kanberra, höfuðborgar Ástralíu. Talið er að 4000 leikmenn og um 316 kirkjuleiðtogar frá liðlega hundrað þjóðum hafi sótt þingið. Hin fyrri sex þing Alkirkjuráðsins höfðu verið haldin í ýmsum löndum á hér um bil 35 árum, hið fyrsta árið 1948 í Amsterdam.

Hvað er Alkirkjuráðið? Það er ekki yfirkirkja. Það er samtök kirkjufélaga og vettvangur skoðanaskipta þeirra í milli. Forsætisráðherra Ástralíu, Robert J. Hawke, flutti opinbert setningarávarp þessa sjöunda þings — þótt hann sé yfirlýstur efasemdamaður í trúmálum. Kjörorðin, sem þessu tveggja vikna þingi höfðu verið valin, voru í bænarformi: „Kom þú heilagi andi — endurnýja alla sköpun!“

Óvæntir atburðir á vettvangi heimsmálanna beindu hins vegar huga og væntingum þingfulltrúa frá endurnýjun af hendi heilags anda til stjórnmála og siðferði Persaflóastríðsins. Þessi sveifla í byrjun þingsins frá hinu andlega umfjöllunarefni kom Sir Paul Reeves, anglíkönskum erkibiskupi og fyrrverandi landstjóra Nýja-Sjálands, til að tjá ráðvillu sína: „Við höfum tilhneigingu, á þingum sem þessu, til að þrátta um völd sem kemur heilögum anda lítið við.“ Erkibiskupinn af Kanberra freistaði þess að koma með rök fyrir því að ósamkomulag hefði sitt gildi: „Eining er gjöf heilags anda. Heilnæm fjölbreytni er gjöf hins sama heilaga anda.“

David Gill, framkvæmdastjóri Ástralska kirkjuráðsins, lét einnig í ljós þær áhyggjur sínar að heilindi sjálfs Alkirkjuráðsins væru í hættu og nefndi að ráðið væri í vaxandi mæli orðið verkfæri baráttuhópa sem væru að leita sér að vettvangi til að viðra baráttumál sín.

Prestsvígsla kvenna — meiri sundrung

Hlutverk kvenna í kirkju samtíðarinnar var einnig á dagskrá, en konurnar voru harla óánægðar. Flestar þeirra litu svo á að hún væri undir karlaveldi. Lois Wilson frá Kanada lýsti því þannig önug í bragði: „Fnykurinn af stjórnmálum Alkirkjuráðsins nær til hæstu himna og ég held ekki að það sé það sem Jesús hafði í huga.“ Hvað olli þessari gremju hennar? Dagblaðið Canberra Times svaraði því svo: „Það hafði mikið verið grátið á kvennasalerninu yfir því að konur hefðu verið hræddar til undirgefni í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að þær tækju við útnefningu í miðnefnd ráðsins. Einni konunni hafði verið sagt að hún yrði sett út af sakarmentinu í kirkju sinni, til að freista þess að fá hana til að þiggja ekki tilnefningu.“

Hvað varð um hin andlegu kjörorð?

Sumir létu í ljós áhyggjur sínar yfir því að þingið hefði ekki lagt næga áherslu á hið biblíulega eða guðfræðilega eðli starfsemi sinnar. Það kemur ekki á óvart því að flest af helstu umræðuefnum á dagskrá þingsins voru af pólitískum toga. Í hinum prentuðu skýrslum þingsins fann lesandinn ekki nema eina stutta tilvísun til Biblíunnar.

Trúmálatímaritið National Outlook sagði að David Gill „endurómi hugsanir annarra sem hafi sótt síðustu þing Alkirkjuráðsins og hafi, eins og maður einn sagði nýverið, farið til þingsins með bjartar vonir en yfirgefið það þurrir og innantómir.“

Þegar þeir sem hungraði og þyrsti andlega komust í snertingu við Krist Jesú sneru þeir ekki til baka „þurrir og innantómir,“ öðru nær. Þeir fóru endurnærðir burt: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ — Matteus 11:28-30.