Biblían barðist gegn sjúkdómum á undan vísindunum
Biblían barðist gegn sjúkdómum á undan vísindunum
Algengt að óupplýst fólk vísi Biblíunni sjálfkrafa á bug, þegar minnst er á hana, og álíti hana ekki athygli verða. Það neitar að opna hug sinn þannig að það komist að raun um að nútímamenn hafa einungis nýlega uppgötvað eða eiga enn eftir að uppgötva það sem Biblían sagði fyrir þúsundum ára. Þetta á við um heimsatburði, stjórnmál, stjarnfræði, umhverfismál, náttúrusögu, lífeðlisfræði og sálfræði. Þetta á líka við um sjúkdóma.
BIBLÍAN er bók lífsins. Enginn annar texti eða ritsafn spannar yfir jafnmarga þætti lífsins. Lífið er nátengt góðu heilsufari, þannig að það ætti ekki að koma okkur á óvart að Biblían skuli innihalda fjölmargar frumreglur sem varða beinlínis heilsufar. Biblían nafngreinir marga sjúkdóma, svo sem líkþrá (holdsveiki), kýli (gyllinæð), vatnssýki (bjúg) og magaveiki. — 5. Mósebók 24:8; 28:27; Lúkas 14:2; 1. Tímóteusarbréf 5:23.
Biblían var ekki skrifuð fyrst og fremst sem fræðslurit um líkamlega sjúkdóma. Þær upplýsingar, sem hún veitir um þá, eru samt sem áður vísindalega nákvæmar og gagnlegar til íhugunar. Mannslíkaminn var undursamlegur í augum sálmaritarans til forna sem orti um hann: „Því að þú [Jehóva] myndaðir nýru mín; þú skýldir mér í kviði móður minnar. Ég vil lofa þig af því að ég er svo undursamlega gerður að ógn vekur. Verk þín eru undursamleg, það veit sál mín mætavel. Beinin í mér voru þér ekki hulin þegar ég var myndaður í leyni, ofinn í djúpum jarðar. Augu þín sáu mig jafnvel sem fóstur og í bók þinni voru allir hlutar þess skráðir, og dagarnir er þeir voru myndaðir, og þó var enn ekki einn einasti þeirra.“ — Sálmur 139:13-16, NW.
Jafnvel þótt fóstrið sé falið í myrkri móðurkviðarins sér Jehóva það myndast og beinin vaxa. „Myrkur og ljós eru jöfn“ fyrir honum. (Vers 12) Ekkert er hulið sjónum hans. Á máli læknisfræðinnar má lýsa því svo að legkakan skýli fóstrinu fyrir móðurinni þannig að líkami hennar hafnar því ekki sem aðskotahlut. Sá sannleikur, sem sálmaritarinn tjáir, er hins vegar ekki læknisfræðilegur heldur andlegur, það er að segja að Jehóva sér allt, jafnvel það sem hulið er í myrkri móðurkviðarins.
Allt frá getnaðarstund eru ,allir líkamshlutar skrifaðir niður‘ í erfðalykil hinnar frjóvguðu eggfrumu í móðurkviði. Og ‚dagarnir er þeir skyldu myndaðir‘ eru allir í sinni réttu röð og þeim er stýrt af hinum mörgu lífklukkum sem tifa í arfberunum.
Sálmaritarinn Davíð þekkti ekki öll þessi vísindalegu smáatriði en Jehóva, sem innblés honum að yrkja sálminn, gerði það því að hann hafði skapað manninn í upphafi. Æðri biblíugagnrýnendur afneita því að Davíð hafi
ort sálminn, en verða þó að viðurkenna að hann hafi verið ortur öldum fyrir fæðingu Krists.Í Biblíunni eru forvarnir í brennidepli
Sé litið yfir lögmálið, sem Guð gaf Ísrael fyrir milligöngu Móse 15 öldum fyrir fæðingu Krists, kemur í ljós að megináherslan á sviði heilsuverndar er lögð á forvarnir. Til dæmis segir í 5. Mósebók 23:13: „Þú skalt hafa spaða í tækjum þínum, og er þú þarft að setjast niður úti, þá skalt þú grafa holu með honum, moka því næst aftur yfir og hylja saurindin.“ Þetta lagaboð um að grafa mannasaur var viturleg forvörn gegn sjúkdómum sem flugur bera með sér, svo sem salmónellasýkingu, blóðsótt, taugaveiki og alls konar öðrum iðrakreppum sem enn í dag kosta þúsundir manna lífið á svæðum þar sem þessari meginreglu er ekki fylgt.
Ellefti kafli 3. Mósebókar staðfestir í grundvallaratriðum að sjúkdómar geti borist með skordýrum, nagdýrum og ekki síst menguðu vatni. Þarna er að finna þögulan vitnisburð þess frumatriðis að örverur valdi sjúkdómum. Þarna var Biblían árþúsundum á undan Leeuwenhoek (1683) og Pasteur (19. öld). Hið sama mætti segja um sóttkvíun sem fyrirskipuð er í 13. kafla 3. Mósebókar þegar holdsveiki er annars vegar.
Í ákvæðum um mataræði, sem er að finna í 3. Mósebók 11:13-20, er lagt bann við því að menn noti ránfugla svo sem örn, gjóð og uglu sér til matar, og eins hræfugla svo sem hrafn og hrægamm. Hjá þessum fuglum, sem eru aftast í fæðukeðjunni, safnast upp eiturefni í miklu magni. Dýr sem eru framar í fæðukeðjunni taka til sín eiturefni í óverulegu magni, en hjá þeim sem eru nálægt enda keðjunnar safnast þau upp í miklu magni. Móselögin leyfðu að sum dýr, sem eru jurtaætur og ekki í fæðukeðju þar sem eiturefni safnast upp, væru höfð til manneldis. Bann lá við neyslu kjöts af sumum dýrum, sem geta borið sníkjudýr umlukin þolhjúp, svo sem þeim er valda hárormasýki.
Núna, 3500 árum eftir að Biblían lagði bann við misnotkun blóðs eins og fram kemur í Móselögunum, er að sannast að það er læknisfræðilega skynsamlegt. (1. Mósebók 9:4; 3. Mósebók 3:17; 7:26; 17:10-16; 19:26; 5. Mósebók 12:16; 15:23) Þetta bann er endurtekið í kristnu Grísku ritningunum í Postulasögunni 15:20, 29 og 21:25. Við lækningar er nú reynt að draga úr eða hætta með öllu notkun framandi blóðs við himnuskiljun hjá nýrnasjúklingum, við notkun hjarta- og lungnavéla og við skurðaðgerðir almennt. Lifrarbólga í sínum mörgu myndum, eyðni, cytomegaloveirusýking og ótal aðrir sjúkdómar, sem berast með blóði, eru óhugnanleg áminning til hinna veraldarvísu manna sem virða lög Guðs að vettugi.
Líkamsæfing er ein forsenda heilbrigðis og Biblían viðurkennir það. Kraftmiklar líkamsæfingar þrisvar í viku, þótt ekki sé nema 20 mínútur í senn, geta dregið úr hættunni á hjarta- og blóðrásarsjúkdómum. Líkamsæfing eykur háþéttnilípóprótín líkamans (HDL, kólesteról sem er honum til verndar), eykur brennsluhraða líkamans, lipurð hans og almenna vellíðan. Biblían viðurkennir að líkamsæfing hafi sitt gildi, þótt hún komi í öðru sæti á eftir því að þroska sinn andlega mann: „Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.“ — 1. Tímóteusarbréf 4:8.
Siðferðislög Biblíunnar eru besta verndin gegn samræðissjúkdómum sem voru vafalaust til á liðnum öldum þótt fræðimenn hafi ekki þekkt þá eða jafnvel boðið slíkt í grun svo öldum skipti. — 2. Mósebók 20:14; Rómverjabréfið 1:26, 27; 1. Korintubréf 6:9, 18; Galatabréfið 5:19.
„Afar vísindalega nákvæm bók“
Hippókrates var grískur læknir á fimmtu og fjórðu öld f.o.t. Hann er oft kallaður „faðir læknisfræðinnar,“ en margt af því sem Biblían segir um sjúkdóma var ritað af Móse, um þúsund árum á undan Hippókratesi. Fréttaritið The AMA News birti bréf frá lækni sem sagði: „Upplýstustu rannsóknamenn á sviði læknavísinda, sem skila bestu verki núna, eru að komast þeirri niðurstöðu að Biblían sé afar vísindalega nákvæm bók. . . . Staðreyndir lífsins, sjúkdómsgreiningar, meðferð og fyrirbyggjandi læknisráð, eins og þeim er lýst í Biblíunni, standa langtum framar og eru langtum áreiðanlegri en kenningar Hippókratesar sem eru margar hverjar ósannaðar enn og sumar verulega ónákvæmar.“
Dr. A. Rendle Short bendir á í bók sinni The Bible and Modern Medicine að hreinlætisreglur meðal þjóðanna umhverfis Ísrael til forna hafi verið mjög frumstæðar, ef þá nokkrar. Síðan segir hann: „Það er þeim mun furðulegra að í bók eins og Biblíunni, sem talin er vera óvísindaleg, skuli fyrirfinnast hreinlætislög, og jafnfurðulegt að þjóð, sem var nýsloppin úr þrælkun, oft yfirbuguð af óvinum sínum og flutt í útlegð af og til, skuli hafa svona viturlegar og skynsamlegar heilbrigðisreglur í lögbókum sínum.“
Geðvefrænir kvillar
Læknisfræðilega hefur Biblían reynst vera langt á undan sinni samtíð í því að viðurkenna hin geðvefrænu tengsl sumra heilsutruflana, löngu áður en læknisfræðin almennt gerði það. Enn fremur eru skýringar Biblíunnar á áhrifum hugans á líkamlega kvilla til fyrirmyndar að því leyti hve greinilegar þær eru. Orðskviðirnir 17:22 segja: „Glatt hjarta veitir góða heilsubót, en dapurt geð skrælir beinin.“ Taktu eftir því að hér er alls engin fordæming, aðeins greint frá staðreynd. Þarna er engin áminning um að segja buguðum manni að taka sér tak, eins og ekkert væri einfaldara.
Jákvæð viðhorf eru gagnleg; áhyggjur eru neikvæðar og skaðlegar. „Hugsýki beygir manninn, en vingjarnlegt orð gleður hann.“ (Orðskviðirnir 12:25) Fjórtánda vers 18. kafla Orðskviðanna er íhugunarvert: „Hugrekki mannsins heldur honum uppi í sjúkdómi hans, en dapurt geð, hver fær borið það?“ Þessi ritningargrein gefur í skyn að maður geti látið sinn andlega mann styrkja sig til að þola ákveðið sjúkdómsálag.
James T. Fisher, sem er sálfræðingur, hafði þetta að segja um sálfræðilegt gildi fjallræðu Jesú: „Ef safnað væri saman öllu því sem allir fremstu sálfræðingar hafa látið frá sér fara um andlega heilsufræði — ef það væri dregið saman og fágað og allt óþarft málskrúð strikað út — ef við tækjum allan kjarnann og skildum hismið eftir og ef færustu núlifandi skáld væru fengin til að tjá sem best þessi ósviknu brot hreinnar vísindaþekkingar, þá hefðum við í höndunum klaufalega og ófullkomna samantekt á fjallræðunni. Og hún stæðist illa samanburð við fjallræðuna.“ — A Few Buttons Missing, bls. 273 gIC júlí-sept 1983, bls. 7
Tilfinningar geta haft áhrif á líkamlegt ástand okkar, en það merkir þó ekki í sjálfu sér að ekki séu fyrir hendi raunveruleg líkamleg veikindi. Þess vegna er þýðingarmikið að reyna fyrst að leggja lið við að sinna líkamlegum þörfum einstaklingsins og í það allra minnsta viðurkenna veikindin, jafnhliða því að ýta undir jákvætt hugarfar og viðhorf sem mun hjálpa honum að halda út. Þetta er sérlega mikilvægt ef engin ákveðin meðferð er fáanleg í núverandi heimskerfi.
Eftir synd Adams varð dauðinn arfgengur veruleiki alls mannkyns. (Rómverjabréfið 5:12) Það er því yfirleitt ekki rétt að kenna andlegu ástandi einstaklingsins um sérstakan sjúkdóm sem hrjáir hann. Mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar tekið er á vandamálum þeirra sem eru ekki í góðu tilfinningajafnvægi.
Hlutverk læknisins
Hvaða afstöðu ætti kristinn maður að hafa til lækna og nútímalæknisfræði? Þegar við skoðum Biblíuna finnum við engan grundvöll fyrir því að stilla læknum upp á stall eða horfa til læknisfræðinnar sem einu vonarinnar um góða heilsu. Ýmislegt bendir til hins gagnstæða. Markús segir frá konu sem „hafði haft blóðlát“ í mörg ár og „hafði orðið margt að þola hjá mörgum læknum, kostað til aleigu sinni, en engan bata fengið, öllu heldur versnað.“ (Markús 5:25-29) Þessi algengi kvilli er oft meðhöndlaður með góðum árangri nú á dögum, en margir aðrir sjúkdómar eru enn ólæknandi og stöðugt eru að uppgötvast nýir sjúkdómar sem engin lækning finnst við.
Kólossubréfinu 4:14 er Lúkas kallaður „læknirinn elskaði“ og er þar vafalaust vísað til andlegra eiginleika hans en ekki færni sem læknis. Ólíklegt verður þó að teljast að manni, sem beitt hefði óbiblíulegum eða siðferðilega röngum lækningaaðferðum, hefðu verið veitt þau sérréttindi að skrifa undir innblæstri hluta Heilagrar ritningar.
Biblían styður þó ekki hinar öfgarnar sem þeir fara út í er líta á hefðbundnar lækningaaðferðir sem lítils eða einskis virði. Sumir ýta lækninum af stallinum og stíga sjálfir upp á hann eða stilla þar einhverri stundartísku sem ekki á sér stoð í læknavísindunum. ÍÝmislegt bendir til þess að Lúkas hafi beitt lækningaaðferðum sem voru nútímalegar á þeim tíma, því hann notar orð og sjúkdómslýsingar sem benda til áhrifa frá Hippókratesi. Hippókrates var að vísu ekki alltaf nákvæmur en þó reyndi hann að gera læknisfræðina rökræna og fordæmdi hjátrú og gervitrúarlegar lækningakenningar. Eins hefði hin einfalda samlíking Jesú: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru,“ sem er að finna í Lúkasi 5:31, verið merkingarlítil ef ekki hefði verið viðurkennt að þeir sem hefðu reynslu á sviði lækninga væru einhvers megnugir í baráttunni gegn sjúkdómum.
Það er enginn biblíulegur grundvöllur fyrir þeirri öfgakenndu afstöðu að fordæma notkun sýklalyfja, sýklaeyðandi efna eða verkjalyfja þegar þeirra er talin þörf. Jeremía 46:11 og 51:8 segir frá smyrslum í Gíleað sem kunna að hafa verið bæði verkjastillandi og sýklaeyðandi. Engin biblíuleg eða kenningaleg atriði mæla gegn inntöku lyfja.
Stórfelld notkun sýklalyfja hefur þó ekki getað stemmt stigu við smitsjúkdómum sem berast með flugum, bitmýi og sniglum — sem eru algengasta dánarorsök í heiminum. Heilbrigðisstarfsmenn hafa þurft að hverfa aftur til frumreglna Biblíunnar um öruggan frágang saurs og skolps, verndun vatnsbóla, viðnám gegn skordýrum sem bera sjúkdóma og varúðarráðstafanir í sambandi við snertingu manna hver við annan og smitleiðina frá hönd til munns. Það er ekki lengra síðan en á áttunda áratugnum að hjúkrunarfræðingar og læknar voru aftur og aftur áminntir, með skiltum yfir handlaugum á súkrahúsum og rúmum sjúklinga, um að þvo sér um hendurnar — en það er langbesta leiðin til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma.
Varnaðarorð
Hver sá sem gefur öðrum læknisráð — hvort heldur það er læknir eða velviljaður en kannski illa upplýstur vinur — tekur á sig mikla ábyrgð hvenær sem hann ráðleggur sjúkum manni. Það er alvarlegur hlutur að gefa ráð sem er annaðhvort skaðlegt eða beinir athyglinni frá eða tefur fyrir því að leitað sé aðstoðar sem oft hefur reynst vel. Biblían varar jafnt lækna sem sjúklinga þeirra við skottulækningum og spíritisma sem örvæntingarfull leit að lækningu rekur menn stundum út í. Mundu hvað Orðskviðirnir 14:15 segja: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“
Eru meginreglur Heilagrar ritningar hentugar sem heilsuvernd nú á dögum? Varðandi heilsuvernd benti Móselögmálið fyrst of fremst á fyrirbyggjandi aðgerðir. Á sama hátt hefur sú afstaða nú á tímum að reyna að fyrirbyggja sjúkdóma reynst verðmætari en sú stefna að beina athyglinni öðru framar að sjúkdómunum sjálfum. Kjörorð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á sviði nútímalegrar heilsuverndar í þróunarlöndunum er þetta: „Betra er að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í.“
Kristinn maður ætti að tileinka sér heilbrigð langtímaviðhorf til heilsuverndar með það að markmiði að geta vegsamað Guð og eflt hið gleðilega starf Guðsríkis heill heilsu. Undir stjórn Guðsríkis mun fara svo sem Biblían heitir: „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ — Jesaja 33:24.
[Mynd á blaðsíðu 4]
„Beinin í mér voru þér ekki hulin þegar ég var myndaður í leyni“