Hjálp handa dauðvona fólki á tækniöld
Hjálp handa dauðvona fólki á tækniöld
KONAN, sem sjálf var læknir, var nýbúin að ganga gegnum sársaukafulla lífsreynslu. Hún hafði horft upp á ömmu sína, 94 ára, deyja á gjörgæsludeild spítala eftir krabbameinsuppskurð sem „hún hafði aldrei viljað.“
„Þegar ég tárfelldi við jarðarförina, var það ekki af því að amma mín væri dáin því að hún hafði lifað langa, hamingjuríka ævi,“ sagði læknirinn. „Ég grét vegna þess sársauka sem hún hafði mátt þola og vegna þess að óskir hennar höfðu ekki verið virtar. Ég grét vegna móður minnar og systkina hennar, vegna missis þeirra og saknaðar.“
En hvaða möguleikar eru á því að hjálpa fólki sem er jafnalvarlega sjúkt og þessi kona? Læknirinn heldur áfram:
„Mest grét ég þó vegna sjálfrar mín: vegna þeirrar yfirþyrmandi sektarkenndar sem sótti á mig fyrir að geta ekki hlíft henni við kvöl og niðurlægingu, og vegna þess hve skelfilega vanmegnug ég sem læknir var að lækna og ófær um að lina þjáningar. Í námi mínu hafði mér aldrei verið kennt að sætta mig við dauðann. Sjúkdómar voru óvinur — sem berjast átti gegn með öllum ráðum við hvert fótmál. Dauðinn var ósigur, misheppnan; langvinnur sjúkdómur var sífelld áminning um getuleysi læknisins. Mynd hinnar smágerðu ömmu minnar, þar sem hún starði á mig skelfdum augum tengd öndunarvél gjörgæsludeildarinnar, ásækir mig enn þann dag í dag.“
Orð þessarar elskuríku dótturdóttur lýsa í hnotskurn þeirri flóknu siðfræði-, læknisfræði- og lögfræðideilu sem nú er háð í réttarsölum og á spítölum um allan heim: Hvað er best á okkar háþróuðu tækniöld fyrir þá sem eiga sér enga lífsvon lengur?
Sumir líta svo á að beita skuli öllum ráðum læknisfræðinnar til hjálpar hverjum þeim sem sjúkur er. Það er viðhorf samtaka bandarískra lækna og skurðlækna: „Skyldur læknis gagnvart sjúklingum, sem eru í dái, sljóir eða þroskaheftir, ráðast ekki af batahorfum þeirra. Læknir verður ávallt að vinna að vellíðan sjúklingsins.“ Það merkir að veita skuli alla þá læknishjálp og læknismeðferð sem kostur er. Telur þú að það sé alvarlega sjúkum manni alltaf fyrir bestu?
Mörgum þykir þetta vafalaust lofsverð afstaða. Reynsla síðastliðinna fjögurra áratuga af tækniþróaðri læknismeðferð hefur hins vegar vakið upp nýtt og ólíkt sjónarmið. Árið 1984 komst starfshópur tíu reyndra lækna að niðurstöðu sem birt var í grein er þótti marka tímamót. Hún nefndist „Ábyrgð læknis gagnvart dauðvona sjúklingum.“ Þar sagði: „Ráðlegt er að draga úr herskárri læknismeðferð á sjúklingum með ólæknandi sjúkdóma, ef slík meðferð dregur einungis erfitt og óþægilegt dauðastríð á langinn.“ Fimm árum síðar birtu sömu læknar grein undir sama titli sem var kölluð „Endurmat.“ Þar var fjallað um sama vandamál og kveðið enn skýrar að orði: „Margir læknar og siðfræðingar . . . hafa því
komist að þeirri niðurstöðu að það sé siðferðilega rétt að hætta næringar- og vökvagjöf til sumra deyjandi, dauðvona eða varanlega meðvitundarlausra sjúklinga.“Við getum ekki yppt öxlum og látið sem athugasemdir af þessu tagi séu einungis fræðilegar vangaveltur eða rökræður sem komi okkur eiginlega ekkert við. Fjölmargir kristnir menn hafa staðið frammi fyrir sársaukafullum ákvörðunum á þessu sviði. Eigum við að láta halda lífinu í dauðvona ástvinum okkar með hjálp öndunarvélar? Ætti að veita dauðvona sjúklingi næringu í æð eða með öðru óvenjulegu móti?
Það er ekki auðvelt að taka afstöðu til spurninga af þessu tagi. Þótt þú viljir auðvitað hjálpa sjúkum vini eða ættingja er líklegt, ef þú verður að taka afstöðu til þessara spurninga, að ýmsar fleiri kalli á svör: ‚Hvað hafa kristnir menn sér til leiðsagnar? Hvar geta þeir leitað hjálpar? Og það sem þýðingarmest er: Hvað segir Biblían um málið?‘