Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Eftirhreytur kalda stríðsins

Þótt kalda stríðið sé á enda fóru hernaðarútgjöldin í heiminum árið 1990 eigi að síður yfir 900 milljarða dollara (50 billjónir ÍSK) og höfðu aukist að raungildi um ríflega 60 af hundraði frá árlegu meðaltali áttunda áratugarins. Þessar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu World Priorities sem er hópur rannsóknarmanna í Washington, D.C., í Bandaríkjunum. Í ársskýrslunni World Military and Social Expenditures 1991 er einnig komist að þeirri niðurstöðu að hlutfall óbreyttra borgara í hópi fallinna í styrjöldum hafi stokkið úr 74 af hundraði á níunda áratugnum upp í allt að 90 af hundraði árið 1990. Höfundur skýrslunnar, Ruth Leger Sivard sem er hagfræðingur að mennt, segir þessa fjölgun óbreyttra borgara í hópi fallinna koma til af sífellt banvænni vopnum. „Hin svokölluðu hefðbundnu vopn eru nú að nálgast litlar kjarnorkusprengjur hvað eyðileggingarmátt varðar,“ segir hún. Í skýrslunni segir einnig að enginn einstakur aðili valdi jafnmikilli mengun og herir heims; í Bandaríkjunum skilji herinn eftir sig meiri eiturefni en fimm stærstu efnaframleiðendur landsins samanlagt.

Blóðgjöf ekki „lífgjöf“

Bjarga blóðgjafir í raun og veru mannslífum? Sérfræðingar gerast æ efagjarnari á að svo sé. Yfirlæknir blóðmeinafræðideildar Sydney Royal North Shore-spítalans í Ástralíu fjallar í Medical Journal of Australia um áhyggjur manna af öryggi blóðgjafa. Hann telur vera tengsl milli krabbameins, sýkinga og blóðgjafa. Brisbane-blaðið Courier-Mail hefur eftir þessum kunna lækni: „Blóðgjöf var áður skoðuð sem lífgjöf, en nú hefur dæmið snúist við og almennt álitið að skurðaðgerð án blóðgjafar og það að forðast blóðgjöf kunni að vera lífgjöf. Ný gögn, sem benda til að blóðgjöf við skurðaðgerð kunni að auka hættuna á að krabbamein taki sig upp aftur og valda sýkingum eftir skurðaðgerð, eru áhyggjuefni.“

Verðmæt er kartaflan

„Evrópsku landvinningamennirnir gengu með þá hugmynd í kollinum er þeir komu til Ameríku að auðæfi landsins væru fólgin í málmum og dýrum steinum. Þrjár aldir urðu að líða áður en efnahagslegt gildi kartöflunnar ‚uppgötvaðist,‘“ segir Eduardo H. Rapoport við Háskólamiðstöðina í Bariloche í Argentínu í viðtali við brasilíska tímaritið Ciência Hoje. Kartöflur eru ein mikilvægasta og næringarríkasta matvara sem til er og innihalda fjölmörg vítamín. Uppskeruverðmætið nemur því tugmilljörðum króna ár hvert. Rapoport bætir við: „Heildaruppskeruverðmætið í heiminum ár hvert er margfalt meira en verðmæti alls gulls og silfurs sem Spánverjar fluttu frá Ameríku.“

Fyrir einnar stundar vinnu

Í könnun, sem gerð var nýverið, voru borin saman vinnulaun verkamanna úr 159 mismunandi starfsstéttum og af 49 ólíkum þjóðfélagsstigum um heim allan. Niðurstöðurnar birtust í franska dagblaðinu Le Monde. Könnunin, sem gerð var á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, leiðir í ljós hve gífurlega mismunandi kaupmáttur vinnulauna getur verið á mismunandi stöðum. Sem dæmi má nefna að vefari í Súdan, veitingaþjónn á Srí Lanka, spunamaður í Júgóslavíu, strætisvagnastjóri í Banglades og bakari í Mið-Afríkulýðveldinu þurfa að vinna í liðlega þrjár klukkustundir til að geta keypt aðeins tæpt kílógramm af hrísgrjónum. Skrifstofumaður í Frönsku Pólýnesíu eða smiður í Svíþjóð geta hins vegar keypt að minnsta kosti níu kílógrömm af hrísgrjónum fyrir aðeins einnar stundar vinnulaun.

Eyðni — mun „geisa í áratugi“

„Er annar áratugur eyðnifaraldursins gengur í garð eru bæði vísindamenn og talsmenn eyðnisjúklinga búnir að gefa upp sína björtu von um að ná mætti tökum á faraldrinum á skömmum tíma,“ segir The New York Times. „Þessar vonir runnu út í sandinn þegar leitin að áhrifaríku lyfi reyndist langtum erfiðari en haldið var í fyrstu, og tilraunir til að finna upp bóluefni gegn eyðni brugðust sífellt vegna flókinna varna veirunnar. Sérfræðingar segjast nú halda að eyðniplágan muni geisa í áratugi.“ Reiknað hefur verið út að árið 2000 muni um 40 milljónir manna vera búnar að sýkjast af eyðniveirunni. Enda þótt vísindamenn hafi einangrað veiruna, rannsakað prótín hennar og klónað gen hennar, og hafi búið til lyf til að draga eitthvað úr þjáningum eyðnisjúklinga, er sjúkdómurinn enn jafnbanvænn.

Barnalæknar taki á misnotkun sjónvarps

„Það er áríðandi að barnalæknar láti meira til sín taka í sambandi við sjónvarpsnotkun,“ segir í tímaritinu Pediatrics sem bætir síðan við: „Þeir ættu að uppfræða foreldra um skaðsemi ofbeldis í sjónvarpi og annars efnis sem ekki er við hæfi barna.“ Í könnun, sem gerð var í Kanada nýverið á sjónvarpsvenjum 311 fjölskyldna, kom í ljós að allar áttu að minnsta kosti eitt sjónvarpstæki. Á 16 af hundraði heimilanna var kveikt á sjónvarpinu allan daginn. Þeir sem að rannsókninni stóðu nefndu að „fjöldi barna horfi á sjónvarpið án nokkurra takmarkana af hendi foreldra sinna og horfi á ofbeldisatriði á áhrifagjörnum og viðkvæmum aldri.“ Barnalæknar voru hvattir til að vara foreldra við hættunni samfara misnotkun sjónvarps.

Þróunarkenningin fyrir rétti

Phillip Johnson, prófessor í afbrotarétti við University of California í Berkeley í Bandaríkjunum, hefur lengi hrifist af því með hvaða hætti líffræðingar verja þróunarkenninguna. Þeir virðast verja kenninguna af slíkri kreddufestu að Johnson ákvað að kanna „hvaða veika bletti þeir væru að reyna að verja.“ Niðurstöður rannsókna hans er að finna í bókinni Darwin on Trial er dagblaðið The Adramento Bee lýsir sem „markvissri lögfræðirannsókn á rökfræðinni og sönnunargögnunum að baki þróunarkenningunni.“ Dagblaðið dregur niðurstöðuna saman í þessum orðum: „Darwin fellur á prófinu.“ Johnson staðhæfir að hann hafi fundið marga fræðimenn, þeirra á meðal líffræðinga, sem þori ekki að andmæla þróunarkenningunni opinberlega. Hann sagði í viðtali við San Francisco Chronicle: „Eitt sem ég hef lært af þessu er að það þurfi ekki fangabúðir og leynilögreglu til að koma sér upp bókstafstrú undir yfirskini menntunar og koma í veg fyrir að hún sé gagnrýnd. Það er nóg að segja að fólk muni hlægja að manni og maður muni glata orðstír sínum. Það hefur gífurleg áhrif meðal háskólamanna.“

Vanmáttur stjórnvalda

Í nýlega útkomnni skýrslu fordæmir Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna vanmátt stjórnvalda í baráttunni gegn fátækt. Franska dagblaðið Le Monde vitnaði í skýrsluna og sagði að sum þróunarlöndin „eyði að minnsta kosti tvöfalt meiru til hermála en til heilbrigðis- og menntamála.“ Þar var einnig bent á að „hernaðarútgjöld hafi hækkað þrefalt hraðar í þróunarlöndunum en iðnríkjunum.“ Í skýrslunni segir að „þeir fjármunir, sem eytt var á tíu dögum í Persaflóastríðinu, hefðu nægt til að bólusetja hvert einasta barn í heiminum næstu tíu árin gegn sjúkdómum sem auðvelt er að verjast með bólusetningu.“

Hlutskipti kvenna á Norðurlöndum

„Hlutskipti kvenna er hvergi betra en á Norðurlöndum,“ að því er segir í vikuritinu The European sem gefið er út í Lundúnum. Þessi orð féllu í tilefni af skýrslu Sameinuðu þjóðanna um lífsgæði kvenna í samanburði við lífsgæði karla í liðlega 160 löndum. Tekið var mið af atriðum svo sem réttindum kvenna, frelsi, jafnrétti, atvinnutækifærum, launum, heilsugæslu, hamingju í hjónabandi og félagslegu umhverfi. Finnland var efst á listanum, þá Svíþjóð og síðan Danmörk. Í Evrópu voru Portúgal og Írland fjærst jafnrétti kynjanna. Neðst á lista Sameinuðu þjóðanna var Kenía þar sem konur mega búast við að lifa aðeins hálfa ævi miðað við karla.

Átak gegn reykingum

Ástralir fengu nýlega hrós frá talsmanni ráðgjafarnefndar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksreykingar og heilbrigði, fyrir framtakssemi í baráttunni gegn tóbaksreykingum. Reykingar eru nú með öllu bannaðar í innanlandsflugi og almennum flutningatækjum í borgum, svo og öllum spítölum og kvikmyndahúsum. Nú er þrýst á yfirvöld einstakra ríkja Ástralíu að banna reykingar á veitingahúsum. Í könnun, sem gerð var fyrir skömmu, kom í ljós að 92 af hundraði veitingahúsagesta í Viktoríuríki voru hlynntir slíku banni. Dagblaðið The Australian sagði að lögfróðir menn væru þeirrar skoðunar að hver sá matargestur, sem verði fyrir skaðlegum heilsuáhrifum af reykingum annarra meðan hann matast, hafi lagalegan rétt til að lögsækja veitingamanninn.

Evrópuþjóðir kunna að feta í fótspor Ástralíumana. Stjórnarskrárréttur Ítalíu, sem fer með æðsta túlkunarvald stjórnarskrárinnar, hefur nýverið viðurkennt að menn hafi rétt til að krefjast skaðabóta „vegna tjóns sem þeir hafi orðið fyrir vegna svonefndra óbeinna reykinga.“ Rétturinn staðfesti að úr því að stjórnarskráin tryggi „réttinn til heilbrigðis“ sé hver sá sem reykir á almannafæri að brjóta gegn „grundvallarbanni og almennu banni við því að spilla heilsu annarra“ og gæti verið skyldaður til að bæta fórnarlambinu skaðann. „Bæturnar,“ sagði rétturinn, eru tengdar „öllu því tjóni sem gæti hugsanlega hindrað einstaklinginn í að njóta sín sem maður.“