Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ullin er undur

Ullin er undur

Ullin er undur

Eftir fréttaritara Vaknið! í Ástralíu

HVAÐ er þægilega hlýtt að vetri en furðulega svalt að sumri? Hvað er grófgerðara en bómull en gerir þó létt klæði? Hvað heldur hita á skíðamanninum og er draumaefni fatahönnuðarins? Hvað er hægt að teygja um nálega þriðjung af lengd sinni sem skreppur síðan saman í upprunalega lengd þegar því er sleppt?

Svarið við öllum þessum spurningum er ull — hin endingargóða og fjölhæfa ull. Já, reyfi sauðkindarinnar er hráefnið í eitthvert fjölhæfasta klæði sem til er.

Notuð um aldaraðir

Er fyrstu landkönnuðirnir komu til Suður-Ameríku sáu þeir að margir landsmanna, svo sem Perúmenn, klæddust fallegum flíkum úr alpakaull. Enn fyrr, á biblíutímanum, áttu menn stórar sauðafjárhjarðir og gerðu sér fatnað úr litaðri og sérstaklega meðhöndlaðri ull. — 2. Mósebók 26:1; 3. Mósebók 13:47.

Í nútímasögu ullarframleiðslunnar gegnir hið sterkbyggða merínósauðfé mikilvægu hlutverki, en það er bæði þekkt fyrir mikla og góða ull og fyrir að vera harðgert og þrífast við óblítt veðurfar. Þetta harðgera merínófé var kjörið fyrir hið þurra loftslag Ástralíu, eyjarinnar stóru hinum megin á hnettinum. Síðla á 18. öld nægði stofnendum hinnar nýju nýlendu ekki að vera sjálfum sér nógir með mat. Þá vantaði einhverja vænlega útflutningsvöru til að byggja efnahagslíf sitt á.

Þeir völdu ullina vegna þess að hún bókstaflega vex á fæti. Hægt var að láta sauðféð ganga nánast sjálfala langtímum saman og sáralítið vinnuafl þurfti til að framleiða ull í stórum stíl. Hún var auðveld í pökkun og fyrntist ekki við geymslu. Hún myglaði ógjarnan og hentaði því vel til flutnings sjóleiðina til Englands sem tók heila sex mánuði. Þá var það mikill kostur að ullin brann ekki svo glatt.

Uppistaðan í efnahagslífi Ástralíu

Í eina og hálfa öld eftir að fyrsta merínóféð kom til Ástralíu árið 1797 byggðist efnahagslíf landsmanna fyrst og fremst á ullarútflutningi. Eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, samfara hægt vaxandi iðnaði af öðrum toga og aukinni notkun gerviefna í stað ullar, dró úr vægi ullarframleiðslunnar í efnahagslífi þjóðarinnar. Á síðari helmingi síðasta áratugar varð þó mikill uppgangur í ullarframleiðslu Ástrala. Þá nam sauðfjáreign þeirra um 166 milljónum sauðfjár — yfir 10 sauðum á hvern landsmann, og árleg ullarframleiðsla náði 950.000 tonnum.

Árið 1990 voru uppgangstímarnir hins vegar á bak og burt og ullarverslunin hrunin. Eftirspurn eftir ull stórminnkaði og hinir 70.000 bændur Ástralíu sátu uppi með allt of margt sauðfé — um 20.000.000 of margt að sögn Lundúnablaðsins Sunday Correspondent.

Hvað er svona sérstakt við ullinna?

Ullin er fjölhæft efni og notagildi hennar margbreytilegt eins og sjá má af stuttu yfirliti yfir eiginleika hennar. Ullin vex á svipaðan hátt og mannshár og margar tegundir sauðfjár hafa löng ytri hár, nefnd tog, blönduð hinni fíngerðari ull, þelinu. Með kynbótum hefur toginu verið útrýmt hjá merínófénu þannig að þelið eitt, sem er svo eftirsótt, stendur eftir. Þótt ull sé grófgerðari en bómull eða hör má vefa úr henni létt klæði af ýmsu tagi sökum þess hve létt hún er í sér. Það eykur notagildi ullarinnar hve afbragðsvel hún tekur litun. Ef þú sérð unga konu með skærrauðan trefil sem blaktir léttilega í vindinum, þá gæti hann verið úr hreinni ull.

En hefur þú nokkurn tíma reynt að slíta ullarþráð með berum höndum? Hann er býsna sterkur, finnst þér ekki? Jú, það getur þurft á bilinu 15 til 30 gramma kraft til að slíta einn stakan ullarþráð — þannig að það þarf skæri til að ná í sundur ullarefni. Ullartrefjan er auk þess bylgjuð eða liðuð sem gerir hana einkar þjála, og þótt hún sé teygð sem nemur allt að 30 af hundraði lengdar sinnar skreppur hún saman í fyrri lengd þegar henni er sleppt. Það er þessi eiginleiki sem gerir að verkum að ull krumpast ekki þegar hún er þurr.

Loftið, sem er innilokað milli ullartrefjanna, gefur ullinni einangrunargildi sitt og veldur því að hún er hlý að vetri og svöl að sumri. Ullin er einnig vatnsþolin þannig að rök ullarpeysa kælir ekki með því að þorna hratt, eins og verið getur með annars konar efni. Þegar öllu er á botninn hvolft gengur sauðféð í ullarreyfi í alls konar veðri en kvefast þó ekki.

Vissir þú að flókaefni — sem hentar til ótal nota allt frá gólfteppum upp í tennisbolta — er í rauninni ull sem er pressuð saman undir hita og þrýstingi? Og kambgarn, sem notað er í jakkaföt karla, dragtir kvenna og suma fíngerða kjóla, er gert úr ull sem spunnin er með sérstökum hætti.

Frá sauðkind til manns

Í löndum þar sem ull er framleidd í stórum stíl er rúningarskýlið óaðskiljanlegur hluti af landslaginu. Yfirleitt er sauðfé rúið einu sinni á ári en tvisvar á ári sums staðar þar sem loftslag er hlýtt.

Rúningarmenn í sauðfjárræktarlöndum eru harðgerir menn með vöðvastælta handleggi og sterkt bak. Þeir nota vélknúnar klippur og gera sér far um að ná reyfinu í heilu lagi. Reyndur rúningarmaður getur rúið um 200 kindur á dag. Hann byrjar á innanverðu læri og klippir ullina af kviðnum, og færir sig síðan upp á bak, herðakamb og háls og niður hinum megin. Besta ullin er af herðakambi og síðum sauðkindarinnar.

Ærnar eru frelsinu fegnar þegar þeim er sleppt úr skýlinu og gaman að sjá þær nýklipptar stökkva af kæti yfir því að hafa losnað við þunga yfirhöfnina.

Ullarreyfin eru síðan flokkuð. Flokkunarmennirnir standa við borð sem ná þeim í mitti og flokka ullina eftir því hve ljós hún er, hrokkin, hrein, fíngerð, mjúk og löng. Reyndur flokkunarmaður kemst gegnum um það bil 4,5 tonn af ull á viku. Ullin er síðan þvegin og þurrkuð og ullarfeitin unnin úr henni. Ullin er best sé sauðféð rúið lifandi.

Góð meðferð eykur endingu

Það þarf sennilega ekki að minna þig á að mölur elskar ull. Mölflugan verpir eggjum sínum þar sem nýklakin lirfan hefur nóg æti. Mest sækir mölurinn í ull sem er bragðbætt með svita eða einhverju sem hellst hefur niður í hana. Settu því aldrei óhreinar ullarflíkur inn í skáp til geymslu. Mölvarin ull veitir aukna vernd, sé hún fáanleg. Geymdu ullarflíkur í loftþéttum umbúðum ef þú notar þær ekki að staðaldri. Og jafnvel ullarföt, sem þú notar oft, hafa gott af burstun og viðrun.

Nútímatækni hefur komið að góðu gagni því að töluverður hluti ullarfata, sem seld eru, hafa verið meðhöndluð sérstaklega til að gera þau þolin fyrir myglu og skordýrum. Oft eru þau þæfð og eldþolin. Eigi að síður þarf að gæta varúðar við þvott. Margar þvottavélar eru með sérstaka stillingu fyrir ullarþvott. Ef þú hins vegar þværð ullarföt í höndum skalt þú kreista þau varlega niðri í vatninu sem ætti að vera volgt eða miðlungsheitt. Betra er að nota sérstaka lopasápu en venjulega sápu en ef lopasápa er ekki fáanleg skalt þú nota sápuspæni og láta þá leysast alveg upp áður en þú hefur þvottinn. Notaðu ekki venjuleg þvottaduft því að þau eru yfirleitt alkalísk og geta skemmt flíkina. Hafðu sama hitastig á skolvatninu og gættu þess vel að skola alla sápu úr með því að nota mikið af hreinu vatni. Vefðu blauta flíkina inn í handklæði og þrýstu vatninu úr henni.

Einn af kostunum við ullarföt er sá að það þarf sjaldan að pressa þau. Ef þú vilt hins vegar fá sérstaklega fallega áferð skaltu annaðhvort nota gufustraujárn eða pressa flíkina með rökum klút og straujárni, þó ekki fyrr en hún er orðin alveg þurr. Með léttum, hröðum strokum má koma í veg fyrir gljáann sem enginn vill sjá á ullarfötum, og það er betra að lyfta upp straujárninu og leggja niður á víxl en renna því yfir flíkina.

Ullin er undraverk

Þú hlýtur að fallast á það að ull sé hrífandi efni. Hún er efniviður endingargóðra hluta, allt frá tennisboltum upp í yfirhafnir. Landnemar Ástralíu tóku viturlega ákvörðun er þeir völdu sauðfjárræk sem atvinnugrein. Við megum vera þeim þakklátir fyrir það því að við njótum góðs af hlutum í nálega endalausri fjölbreytni sem unnir eru úr undraefninu ull.

[Myndir á blaðsíðu 22]

Fyrir rúningu

Rúningartími

Eftir rúningu

Afurðanna notið