Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Við lifðum af sprengjutilræði morðingja

Við lifðum af sprengjutilræði morðingja

Við lifðum af sprengjutilræði morðingja

ÞAÐ leit út fyrir svalan miðsvetrardag að morgni sunnudagsins 21. júlí 1985 er vottar Jehóva og vinir þeirra tóku að streyma inn í ríkissalinn í Casula sem er úthverfi í vesturhluta Sydney í Ástralíu. Klukkan 9:35 hóf David Winder, sem var gestkomandi ræðumaður, erindi sitt um kristna hollustu. Rétt eftir klukkan tíu sátum við álút yfir biblíum okkar og fylgdumst með er hann las upphátt Jóhannes 6:68.

Hann lauk aldrei lestrinum. Gríðarleg sprenging kvað við og hann lá nær dauða en lífi á gólfinu. Vinur okkar, Graham Wykes, eiginmaður og faðir, lést samstundis. Margir aðrir særðust, sumir lífshættulega. Þetta tilefnislausa grimmdarverk á tilbeiðslustað gekk jafnvel fram af hinum harðneskjulega umheimi. Ástralir sátu vantrúaðir við sjónvarps- og útvarpstækin sín og fylgdust sem dáleiddir með fréttunum er þær bárust.

Fyrstu viðbrögð

Það var steinhljóð nokkur andartök eftir sprenginguna. Ég held að flest okkar hafi verið vönkuð og ráðvillt, horft óttaslegin í kringum okkur, ófær um að segja nokkuð eða átta okkur fyllilega á því að svona lagað skyldi geta gerst. Loftið var mettað ryki og lyktin og ástandið einna líkast stríðsvelli. Börn byrjuðu að gráta og einhver fóru að æpa af geðshræringu. Nærstaddur leigubifreiðarstjóri sagðist síðar hafa séð „óþekkjanlega stúlku, sem sennilega hafði fallegt andlit, borna út í sjúkrabíl með andlitið horfið að hálfu.“ a Þessi óþekkjanlega stúlka var Sue, eiginkona mín.

Sue missti meðvitund við það að einhver hlutur þeyttist frá ræðupallinum beint í andlitið á henni. Hljóðhimnurnar í mér sprungu á augabragði. Í eyrum mér hljómaði sprengingin eins og einhver hefði skrúfað frá þrýstilofti inni í höfðinu á mér — ég heyrði engan hvell, aðeins skyndilegt, óbærilegt hvæs og allt varð grátt. Við sátum á öðrum bekk en ræðumaðurinn stóð nánast ofan á sprengjunni sem hafði verið falin undir ræðupallinum er var úr timbri.

Ósjálfrátt hnipraði ég mig saman og bar hendur yfir höfuð mér af ótta við að brak myndi falla á mig. Næstu sekúndurnar voru eins og margar mínútur. Það rann upp fyrir mér að við höfðum orðið fyrir sprengjutilræði og ég var gripinn ónotatilfinningu því að Sue hafði hreinlega horfið í brakið og rykið. Ég hrópaði: „Susie, Susie!“ og spurningarnar þutu gegnum huga mér: ‚Var hún dáin? Hvað um David — og hina? Var ég meiddur?‘

Plötur úr loftklæðningunni, plaststólar, kurlað timbur, töskur og sundurtættar biblíur og tímarit lágu eins og hráðviði út um allt. Innan skamms byrjuðu ráðvillt andlit, mörg blæðandi og sum stráð flísum, að birtast innan um brakið. Flestir sem setið höfðu aftarlega í salnum voru ómeiddir að öðru leyti en því að hljóðhimnurnar höfðu skemmst.

Martröð eiginkonu minnar

Ég fann Sue þegar ég kom auga á stígvélin hennar þar sem þau stóðu út undan stórri en, sem betur fer, afar léttri loftplötu. Ég henti plötunni til hliðar en var alls ekki búinn undir það sem blasti við mér. Nef Sue var brotið og efri vörin sundurskorin langsum og hékk út á kinn. Framtennurnar voru mölbrotnar, og þegar ég sá hve augun og umhverfi þeirra voru illa farin óttaðist ég um sjón hennar. Hárið var í einni flækju, fullt af flísum og atað óhreinindum og blóði. Vinstri upphandleggur virtist illa skorinn. Mér létti þó við það að sjá að henni blæddi ekki mikið. Ég uppgötvaði síðar að þar hafði mér skjátlast. Ég lyfti höfði hennar og herðum upp úr brakinu og andartaki síðar kallaði hún nafn mitt veikri röddu. Ég reyndi að róa hana því ég hélt ranglega að hún áttaði sig á því sem gerst hafði. Sue sagði síðar: „Ég hélt að ég lægi heima í rúminu og hefði fengið martröð, og ég óskaði einskis heitara en að Peter vekti mig af henni.“ Hún virtist sveiflast milli meðvitundar og meðvitundarleysis. Ég vildi ekki víkja frá henni en þarfnaðist hjálpar.

Annar vottur, kona, nálgaðist okkur. Hún hafði fengið taugaáfall, vafalaust vegna þess hvílík sjón var að sjá konuna mína, og talaði samhengislaust. Ég benti henni með lausu hendinni að beygja sig niður að okkur þannig að ég gæti talað við hana. Hún einblíndi á Sue er hún beygði sig niður og rétti mér hönd sína. Við báðum stuttrar bænar saman og ákölluðum Jehóva um visku og styrk til að ráða við ástandið. Þegar við sögðum amen hafði hún náð fullri stjórn á sér, þótt augun væru enn flóandi í tárum. Ég bað hana að finna eitthvað sem hægt væri að nota sem kodda handa Sue.

Ótrúleg björgun

Ungur piltur, Paul Hahn, sat beint fyrir framan mig þegar sprengjan sprakk, í um tveggja metra fjarlægð frá píanóinu. Við sprenginguna hófst píanóið á loft og stór hluti úr því lenti á Paul og hjó burt allstórt stykki úr ofanverðu læri hans. Fallegar framtennur hans, nýkomnar úr tannspöngum, brotnuðu. Joy Wykes, sem missti mann sinn í sprengjutilræðinu, lá skammt frá, alvarlega slösuð á höfði og með sár annars staðar einnig. Tvær af dætrum hennar særðust líka.

Af þeim sem slösuðust alvarlega var þó undraverðast að ræðumaðurinn, David Winder, skyldi lifa af. Sprengingin þeytti honum og braki úr ræðupallinum upp í loftið gegnum gatið þar sem verið hafði þak nokkrum andartökum áður. Hann kom niður á nálega sama stað og hann hafði staðið. Hann var með meðvitund en í alvarlegu losti. Margir héldu að hann myndi aldrei geta gengið framar sökum þess að hann var limlestur á fótum og fótleggjum. Núna notar hann ökklaspelkur og getur gengið. Bútar úr fötum hans fundust á tröllatré í grenndinni. Ræðupúltið fannst í bakgarði í þriggja húsa fjarlægð frá ríkissalnum. Sökum miklis blóðmissis var David í alvarlegri lífshættu. Hann var fluttur með þyrlu á sjúkrahús.

Björgunarmenn koma á vettvang

Lögregla og sjúkralið virtust koma mjög skjótt á vettvang og eiga hrós skilið. Meðan áhöfn sjúkrabílanna sinnti hinum særðu var verkefni lögreglunnar næsta augljóst. Þar eð sprengingarinnar hafði orðið vart og hún heyst um næstu borgarhverfi tepptust göturnar sem lágu að ríkissalnum fljótlega af forvitnum áhorfendum í hundraðatali, og myndavélar fréttamanna gengu á fullu. Sumir af næstu nágrönnum okkar buðu vinsamlega fram hverja þá hjálp sem þeir gætu veitt.

Sjúkrabílarnir fylltust fljótt og tóku að ferja hina særðu á næstu spítala. Starfsfólk spítalanna var steini lostið yfir því sem gerst hafði. Margir vottar úr nágrenninu komu á spítalana til hughreysta og styðja trúbræður sína. David Winder og Sue voru flutt á spítala sem var sérstaklega búinn til að meðhöndla þá sem eru í losti. Um kvöldið lá ég á Liverpool-spítalanum þar sem ég var svæfður og læknar fjarlægðu flísar sem stungist höfðu djúpt inn í handlegg minn. Næsta dag vildi ég fá að sjá konuna mína, enda hafði ég vaxandi áhyggjur af henni. Mér var sleppt af spítalanum síðdegis, með semingi þó, til að ég gæti verið með Sue.

Deilan um blóðið kemur upp

Ég fann hana á gjörgæsludeildinni og ég gat ekki tára bundist er ég sá hana fyrst frá rúmgaflinum. Við mér blasti blátt og marið andlit sem var svo bólgið og afmyndað að það var óþekkjanlegt. Saumaraðir, tilsýndar líkt og litlir, svartir rennilásar, héldu andlitinu saman.

Sue sá ekkert af því að augu hennar og meira að segja augnalok voru sokkin af bólgu. Af andlitsbeinum hennar voru nefbein, efri kjálki, kinnbein og augntóftarbeinin brotin. Hættulegustu meiðslin voru hins vegar þau að hluti höfuðkúpunnar, bak við nefhrygginn, hafði færst aftur og sprengt slagæð. Meðan hún lá meðvitundarlaus undir braki hafði blóð streymt óséð niður í maga hjá henni. Blóðrauðinn hrapaði niður í sex. (Eðlileg tala hjá konum er um 14.)

Ágreiningur reis þegar í stað upp við skurðlækninn út af blóðgjöfum og settu málið loks í hnút. Hann sagði Sue að fyrst hún neitaði að heimila blóðgjöf, ef hennar væri þörf, væri hún að binda hendur hans. Sue fullvissaði hann um að við gerðum okkur bæði grein fyrir því og myndum „þiggja hverja aðra skynsamlega meðferð, en að sú afstaða okkar að ‚halda okkur frá blóði‘ væri ófrávíkjanleg.“ (Postulasagan 15:28, 29) Hann vildi ekki sætta sig við það.

Nú hófust linnulausar sálfræðilegar þvinganir. Sue var spurð hvort hún ætti börn. Þegar hún neitaði því var svarað: „Það er gott því að þau myndu eiga ljóta móður.“ Læknirinn talaði líka við Sue um þann möguleika að ég myndi skilja við hana út af andlitinu á henni. Hvernig brást hún við því? „Það var mjög erfitt. Ég var hins vegar staðráðin í því að láta þennan lækni ekki traðka á samvisku minni, þótt hann vildi á sinn hátt að ég gæti litið sem best út.“ Vægðarlaus áreitni hans út af blóðgjöfum jók einungis á spennuna og olli því að dýrmætur tími fór til spillis. Sú hluttekning og hlýja, sem einkenndi allt hjúkrunarliðið á þessu tímabili, var gerólík þessari framkomu. Þetta fólk ávann sér virðingu okkar.

Ellefu dagar voru liðnir frá sprengjutilræðinu. Nú var komið á það alvarlega stig að beinin voru að byrja að gróa saman á röngum stöðum. Sue þarfnaðist skurðaðgerðar og það fljótt! Á næsta stofugangi hrópaði læknirinn í reiðiuppnámi: „Ég snerti hana ekki!“ og gekk síðan burt. Þetta voru erfiðustu augnablik ævi okkar. Eftir á að hyggja reyndist það hins vegar blessun að skurðlæknirinn skyldi gefast upp á Sue.

Samvinnuþýður læknir

Vottur, sem er læknir, talaði máli okkar við lýtalækni sem féllst á að taka Sue til meðferðar og beita annarri tækni. Þótt það hafi ekki verið sú aðferð sem talin er læknisfræðilega æskilegust var deilan um blóðið altént úr sögunni. Þessi skurðlæknir reyndist bæði vinsamlegur og kurteis. Hann ávann sér virðingu okkar, því að hann var reiðubúinn að gera sitt besta án þess að nota blóð.

Um átta sentimetra langir stálpinnar voru skrúfaðir inn í brotin andlitsbeinin. Sálbrýr milli pinnanna héldu síðan beinunum á sínum stað þannig að þau greru rétt. „Það var ekkert spaug að sofa með brodda standandi út úr andlitinu í heilar sex vikur,“ viðurkennir Sue. Efri kjálkinn, sem var brotinn, var festur með vír við hinn neðri þannig að hann gæti gróið rétt. Ekki tókst að veita henni lyktarskynið á ný.

Sue hefur góða kímnigáfu og það sem meira máli skipti, hún gat hlegið að sjálfri sér, svo sem að þeirri tilhugsun að hún líktist ‚gangandi sjónvarpsloftneti.‘ En hún þurfti að hafa meira til að bera en gott skopskyn því að hún átti eftir að gangast undir skurðaðgerðir næsta tvö og hálft árið, meðal annars til að græða í hana hljóðhimnur og eins vegna mikilla tannviðgerða.

Það sem við höfum lært

Þessi lífsreynsla var mjög lærdómsrík fyrir okkur bæði; meðal annars lærðist okkur að meta mátt bænarinnar að verðleikum og eins hitt að Jehóva leyfir aldrei að við þjáumst meira en við getum borið. Sue trúði mér fyrir því að þegar deilan kom upp við fyrri skurðlækninn út af blóðinu hefði hún verið „mjög taugaóstyrk og leið yfir því að það skyldi þurfa að koma til svona árekstra. Í hvert sinn bað ég til Jehóva og það kom yfir mig alger ró sem var mjög styrkjandi. Ég hafði lesið um aðra votta sem höfðu orðið fyrir einhverju svipuðu, en núna fann ég fyrir því sjálf.“ Við erum öruggari með okkur núna í sambandi við hugsanlegar prófraunir framtíðarinnar, því að við höfum séð hvernig Jehóva hjálpar okkur við aðstæður sem hefðu áður dregið úr okkur kjarkinn.

Við höfum stundum verið spurð hvers vegna Jehóva leyfi að sprengjutilræði eigi sér stað í ríkissal og að bróðir farist í því. Út í gegnum mannkynssöguna, og eins á okkar tímum, hafa margs kyns grimmdarverk verið framin gegn þjónum Guðs. Ef Jehóva hefði sett skjólgarð kringum þá, eins og Satan fullyrti að hann hefði sett kringum Job, þá hefði mátt efast um að tilefni þeirra með því að þjóna Guði væri rétt. Við höfum ekkert tilefni til að ímynda okkur að við getum ekki orðið fyrir tjóni — að Guð muni alltaf bjarga okkur, jafnvel undan ‚tíma og tilviljun.‘ Það að við skulum sætta okkur við þjáningar, eða jafnvel það að týna lífi fyrir trú okkar eða af öðrum sökum, gefur til kynna að trú okkar sé ósvikin og óeigingjörn — ekki tækifærissinnuð. — Prédikarinn 9:11; Jobsbók 1. og 2. kafli; Matteus 10:39.

Bræðralag í verki

Á þessum erfiða tíma reyndust andleg trúsystkini okkar „tryggari en bróðir.“ (Orðskviðirnir 18:24) Sue segir: „Sumir ættingja minna komu flugleiðis um 4000 kílómetra veg til að vera með mér fyrstu tvær og erfiðustu vikurnar. Það var ómetanleg hughreysting að ættingjar og vinir skyldu sitja hjá mér því að ég fékk tíðar martraðir.“ Kort, bréf, símskeyti og blóm frá hugulsömum bræðrum og systrum, bæði hérlendis og erlendis, streymdu til okkar. Við vorum sannarlega þakklát fyrir þessi „gullepli í skrautlegum silfurskálum.“ (Orðskviðirnir 25:11) Frábær vitnisburður hlaust af. Þetta var sannarlega bræðralag í verki.

Sue bætir við: „Okkur var líka veitt hagnýt hjálp. Nánir vinir úr hópi vottanna gerðu safa úr járnauðugum ávöxtum og grænmeti. Okkur fannst að okkur væri skylt að styðja læknana, úr því að við fórum fram á að þeir virtu óskir okkar, og hvað mig varðaði fól það í sér að byggja upp blóðið. Mér var líka gefið járn.“ Mörg okkar urðu býsna leikin í að gera fljótandi fæðu úr heilli máltíð og Sue má eiga það að hún varð jafnleikin í að drekka hana. (Hefur þú nokkurn tíma reynt að sjúga steik, kartöflur og grænmeti gegnum rör?) „Árangurinn af öllu þessu varð sá að blóðrauðinn hjá mér skaust upp um þrjú stig fyrir aðgerðina, nýja skurðlækninum mínum til mikillar ánægju,“ segir Sue.

Þolinmæði, kærleikur, bæn og hjálp anda Guðs, svo og tíminn og skynsamlegt mataræði, hefur allt samanlagt stuðlað að því að Sue hefur náð sér vel. Sum meiðslin hafa skilið eftir sig arf sem einungis Guðsríki mun bæta þegar þar að kemur. Andlit Sue er eilítið breytt í augum þeirra sem þekkja hana vel, en skurðlækni hennar til lofs eigi að síður. Í mínum augum er hún enn falleg.

Já, von okkar sem votta Jehóva er sannarlega sérstök. Hún getur fleytt okkur gegnum hvaða prófraunir sem vera skal. Og í stað þess að veikja söfnuðinn andlega hefur þessi eldraun styrkt böndin innan hans. Áhugasamur vinur, sem var í ríkissalnum á tilræðisdaginn, viðurkennir með brosi á vör að hann hafi verið ‚sprengdur inn í sannleikann.‘ Að sjá með eigin augum þessa grimmilegu árás á friðelskandi fjölskyldur gerði hann enn ákveðnari í að halda biblíunámi sínu áfram.

Enn sem komið er hefur enginn verið ákærður fyrir sprengjutilræðið, þótt lögregluna gruni ákveðinn mann öðrum fremur, að því er sagt er hefnigjarnan morðingja sem hataði vottana. Sannanir eru hins vegar ekki nægar til að ákæra hann. Hann hefur verið tengdur fjölmörgum öðrum glæpum.

Núna, liðlega sex árum síðar, höldum við Sue áfram að njóta þeirra sérréttinda að þjóna við útibú Varðturnsfélagsins í Ástralíu. Það var okkur sérstakt gleðiefni þegar vígður var nýr, hraðbyggður ríkissalur sem var reistur dagana 22. til 24. júní 1990 á næstu lóð við gamla salinn þar sem sprengjan sprakk. Kristinn kærleikur hefur yfirunnið blint hatur eins manns. — Frásaga Peters og Sue Schulz.

[Neðanmáls]

a The Sydney Morning Herald, 27. júlí 1985.

[Myndir á blaðsíðu 9]

Nýleg mynd af Peter og Sue Schulz.

Sue Schulz með andlitið í skorðum.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Nýr og stærri ríkissalur.