Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eru náttúruhamfarir refsing frá Guði?

Eru náttúruhamfarir refsing frá Guði?

Sjónarmið Biblíunnar

Eru náttúruhamfarir refsing frá Guði?

FILIPPSEYJAR hafa mátt þola tíðar náttúruhamfarir. Margir þarlendra manna hafa því velt fyrir sér hvort það sé Guð sem lætur þessar þrengingar koma yfir manninn til að prófreyna hann. Árið 1991 var spurt í blaðafyrirsögn eftir mestu eyðileggingu sem orðið hefur af völdum eldgosa á þessari öld: „Eldgos: Refsing frá Guði?“

Dálkahöfundurinn Nelly Favis-Villafuerte hélt því fram og skrifaði: „Í hugum kristinna manna, sem trúa á Biblíuna, er hins vegar aðeins ein skýring: Eldgosið í Pínatúbófjalli er enn ein áminning frá Guði um að til sé ógnþrunginn og almáttugur Guð sem ræður yfir málefnum og örlögum manna og þjóða.“ Í ljósi þessarar fullyrðingar er eðlilegt að spyrja:

Refsar Guð einstökum þjóðum eða byggðarlögum nú á dögum?

Guð hefur gert það áður fyrr; því verður ekki neitað. Dæmin, sem Biblían greinir frá, flóðið á dögum Nóa, eyðing Sódómu og Gómorru og tvívegis eyðing Jerúsalem, borgarinnar sem tengd var hinu mikla nafni alvalds Guðs, sýna að hann getur dæmt og refsað þeim sem æ ofan í æ skirrast við að halda sér við staðla hans. — 1. Mósebók 7:11, 17-24; 19:24, 25; 2. Kroníkubók 36:17-21; Matteus 24:1, 2.

En hvað um okkar daga? Kristur Jesús sagði fyrir að koma myndi ógæfutími yfir allan heiminn, eins og greint er frá í 24. kafla hjá Matteusi, 13. kafla hjá Markúsi og 21. kafla hjá Lúkasi. Í þessum köflum kom Jesús með spádómlega viðvörun um atburði og ástand er tengjast myndi endalokatíma þessa heimskerfis, þannig að hugsandi menn myndu gera sér ljóst að hann stjórnaði ósýnilegur á himnum. Þessir spádómar eru að rætast núna. Þó er rétt að nefna að með hverjum þeim dómi, sem getið er um hér á undan, gaf Jehóva Guð skýra, endurtekna viðvörun áður en eyðingin kom. (Amos 3:7) Þegar náttúruhamfarir verða nú á dögum koma aðvaranir hins vegar yfirleitt frá veraldlegum yfirvöldum og eru þá byggðar á vísindalegum athugunum.

Enn fremur upplýsir lærisveinninn Jakob okkur um þetta í fyrsta kafla bréfs síns í 13. versi: „Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.“ Eftir því sem mannkyninu hefur fjölgað hafa æ fleiri sest að á svæðum og stöðum þar sem hættur leynast. Krafan um landrými til búsetu og ræktunar hefur haft í för með sér að skógur hefur verið ruddur og það hefur stundum gert náttúruhamfarir verri en ella, svo sem af völdum stórrigninga og flóða.

Það er því ekki rétt að segja að náttúruhamfarir séu bein sending frá alvöldum Guði sem refsing til þeirra er búa á hamfarasvæðunum. Meira að segja er auðséð að fjöldi saklausra einstaklinga, svo sem ung börn, verða verst úti á þrengingatímum. En jafnvel þótt alvaldur Guð sé ekki valdur að slíkum hamförum má eigi að síður spyrja:

Getum við dregið lærdóm af?

Já, því að hjá þeim sem lifa á tjónasvæðunum reynir á það hve mikils þeir meta efnislegar eigur sínar í samanburði við lífið sjálft. Fólk hefur sett sig í óþarfa lífshættu, þegar náttúruhamfarir hafa dunið yfir, aðeins til að bjarga fáeinum, efnislegum eigum. Við þurfum að muna það sem Jesús sagði: „Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé.“ (Lúkas 12:15) Það er hægt að bæta upp eignatjón en ekki líftjón. — Matteus 6:19, 20, 25-34.

Náttúruhamfarir koma mönnum líka til að ígrunda hvernig þeir verji lífi sínu. Páll postuli hvatti kristna menn til að hafa gát á því hvernig þeir hagi sér: „Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.“ (Efesusbréfið 5:15, 16) Sérhver raun, sem mætir manninum í lífinu, er áminning um hve mikilvægt það sé að hafa sterka trú.

Þriðja lexían, sem við lærum af náttúruhamförum, er sú að við þurfum að þroska með okkur sterkari samkennd með öðrum, læra að setja okkur í þeirra spor. Á tjónasvæðum þurfum við að sýna þjáningarbræðrum okkar kærleiksríka umhyggju en ekki hafa það viðhorf að hver sé sjálfum sér næstur. Einkum þurfa þeir að gefa því gaum sem falin er sú ábyrgð að gæta annarra. Spámaðurinn Jesaja lýsti þeim sem hann kallaði ‚höfðingja‘ svo að þeir væru „hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ — Jesaja 32:1, 2.

Þegar náttúruhamfarir verða bjóðast mörg tækifæri til að sýna semkennd með öðrum og deila með þeim því sem við höfum, bæði í orði og verki. Til dæmis bauð eldgosið í Pínatúbófjalli og náttúruhamfarirnar, sem fylgdu í kjölfar þess, upp á ótal tækifæri til að hjálpa þeim sem urðu að flýja heimili sín. Marga skorti meira að segja daglegt viðurværi. Aðrir höfðu þá tækifæri til að sýna óeigingirni í verki með því að rétta hjálparhönd. En margir hafa eigi að síður velt fyrir sér:

Á mannkynið lokadóm yfir höfði sér?

Já, slíkur dómur er í vændum eins og skýrt kemur fram í orði Guðs. (Matteus 24:37-42; 2. Pétursbréf 3:5-7) Áður en þeim dómi er fullnægt þarf að aðvara fólk um allan heim eins og Jesús sagði í spádómi sínum: „En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ — Markús 13:10.

Einn og sérhver þarf því að spyrja sig: ‚Hvað ætla ég að gera?‘ Við hvetjum þig til að taka þér tíma til að kynna þér það sem Biblían hvetur okkur til að gera svo að við megum lifa af þá miklu þrengingu sem koma mun yfir heiminn.