Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fjarri heimahögum hét ég að þjóna Guði

Fjarri heimahögum hét ég að þjóna Guði

Fjarri heimahögum hét ég að þjóna Guði

SNJÓRINN lamdi okkur í andlitið. Ískaldur vindurinn hafði vaxið og nú var komið hvassviðri. Ökumenn flutningabílanna neituðu að aka lengra. „Allir út að ganga!“ Skipunin var stutt en svo hryssingsleg að enginn okkar vogaði sér að andmæla. Við gengum því síðustu þrjá kílómetrana til búða okkar í Síberíu — aumir, hraktir og haldnir heimþrá.

Við vorum um 150 talsins — þýskir stríðsfangar í gæslu 6 rússneskra varðmanna. Við urðum að halla okkur 45 gráður upp í vindinn, slíkur var stormurinn. Skyggnið var ekki meira en svo að við sáum næstu fimm menn á undan okkur. Af og til datt æðisgenginn mótvindurinn skyndilega niður með þeim afleiðingum að við duttum kylliflatir beint á andlitið!

Við náðum loks til búðanna, algerlega örmagna. Það var þessa nótt í Síberíu, þegar frostið fór niður í 50 stig, að ég gaf Guði það heit að ég skyldi finna einhverja leið til að þjóna honum ef ég kæmist einhvern tíma aftur heim til Þýskalands.

Erfiðleikar á stríðstímum

Ég fæddist í Berlín árið 1928. Ég innritaði mig í Hitlersæskuna þegar ég var um tíu ára gamall. Móðir mín vildi að ég léti fermast í kirkjunni þannig að hún lét mig sækja trúfræðslu. Því miður dó hún aðeins tveim dögum áður en ég fermdist. Ég var ákaflega einmana og tók að biðja oft til Guðs eins og best ég kunni og ræða við hann um vandamál mín.

Síðari heimsstyrjöldin var að færast í aukana og loftárásir voru gerðar á Berlín nánast á hverjum degi og hverri nóttu. Venjan var sú að fyrst kæmi flugvélasveit sem varpaði íkveikjusprengjum, yfirleitt forfórsprengjum. Þegar fólk — aðallega konur og börn — yfirgaf skýli sín til að slökkva eldana var það berskjaldað fyrir næstu flugsveit sem varpaði stórum sprengjum hlöðnum alvörusprengiefni er sprengdi það í tætlur.

Einn veturinn varpaði breski flugherinn sprengjum sem voru tímastilltar til að springa, ekki um leið og þær snertu jörð heldur kl. 19:00 að kvöldi þess 24. desember. Flugherinn vissi að fjölskyldur yrðu saman á aðfangadagskvöldi. Sú spurning leitaði sífellt á mig hvers vegna Guð leyfði svona hörmungar.

Árið 1944 ákvað ég að ganga í herinn. Við síðustu læknisskoðun var mér hins vegar tjáð að ég væri enn ekki nógu sterkur til að gegna herþjónustu og að ég skyldi koma aftur að sex mánuðum liðnum. Að lokum var ég kvaddur í herinn í marsmánuði árið 1945 en ákvað að mæta ekki.

Þrengingarnar hefjast fyrir alvöru

Síðari heimsstyrjöldinni lauk skömmu síðar, í maí 1945. Faðir minn hafði verið tekinn sem stríðsfangi og sá hluti Berlínar, sem við bjuggum í, var nú hernuminn af Sovétmönnum. Næstu mánuði urðum við að vinna hjá hernámsliðinu við að búa um vélar og annan búnað úr efnaverksmiðju sem senda átti til Rússlands. Þessi vinna gaf mér tækifæri til að kynnast nokkrum Rússum. Mér til undrunar uppgötvaði ég að þeir voru sams konar fólk og við og trúðu því að barátta þeirra hefði verði háð í þeim tilgangi að tryggja frið og betri heim.

Þann 9. ágúst 1945, um klukkan tvö síðdegis, staðnæmdist bifreið fyrir framan húsið okkar. Tveir rússneskir hermenn og einn maður í borgaralegum klæðum stigu út og fylgdu mér út í bílinn eftir að hafa fengið að vita hvað ég hét. Fjöldi annarra unglinga var leitaður uppi þennan sama dag. Loks var farið með okkur út í úthverfi í grenndinni. Flestir vorum við sakaðir um að tilheyra Werwolf-samtökunum sem enginn okkar hafði einu sinni heyrt um áður.

Einn af yngri piltunum hélt því fram að ég þekkti heimilisföng annarra unglinga. Ég neitaði því og var þá lokaður inni í dimmum, rökum kjallara ásamt þeim sem sagt hafði til mín. Tárin runnu niður kinnar mér er ég kraup á kné og bað til Guð — aleinn, kaldur og afar einmana í kjallaranum. Bænin virtist alltaf hjálpa mér. Þegar mér var hleypt út og leyft að vera með hinum piltunum höfðu sumir meira að segja á orði hve glaðlegur ég væri að sjá, þrátt fyrir það sem ég hafði mátt þola.

Um tveim vikum síðar vorum við látnir ganga til Cöpenick, bæjar þar skammt frá. Þar vorum við látnir sitja úti á harðri jörðinni. Það byrjaði að rigna. Loks voru piltarnir kallaðir inn í húsið fimm og fimm í hóp. Við heyrðum ópin í þeim sem voru kallaðir inn á undan okkur og sáum þá koma blæðandi út og halda uppi buxunum sínum. Beltin höfðu verið tekin af þeim og efstu buxnahnapparnir slitnir af þannig að þeir myndu missa niður um sig nema þeir héldu buxunum uppi. Þegar hópurinn, sem ég var í, var kallaður inn vissum við að eitthvað hræðilegt beið okkar.

Ég var ekki með belti heldur axlabönd. Þegar liðþjálfinn sá þau sleit hann þau af buxunum mínum og byrjaði að slá mig í andlitið með þeim. Um leið réðust tveir aðrir hermenn á mig, slógu mig og spörkuðu í mig. Mér fossblæddi úr munni og nefi. Kannski hefði ég verið drepinn ef aðrir hermenn hefðu ekki dregið mig burt.

Aftur vorum við lokaðir inni í kjöllurum og einungis leyft að fara á kamarinn einu sinni hvern morgun. Okkur voru skammtaðar aðeins tvær mínútur til að gera þarfir okkar. Hver sá sem vogaði sér að vera lengur átti á hættu að vera hrint í saurgryfjuna. Einn drukknaði þegar honum var hrint í gryfjuna.

Aðstæður mínar batna

Að fjórum dögum liðnum var okkur raðað á flutningabíla og farið með okkur í búðir í Hohen-Schönhausen. Við vorum um 60 talsins þar á aldrinum 13 til 17 ára, auk um 2000 fullorðinna. Pólsku fangarnir fengu það verkefni að skammta súpuna og þeir sáu til þess að okkur sem yngri vorum væri alltaf skammtað fyrst.

Síðan, þann 11. september 1945, í býtið um morguninn, lögðum við af stað fótgangandi til fangabúðanna í Sachsenhausen en þangað voru um 50 kílómetrar. Þeim sem létust á leiðinni var kastað upp á hestvagn, svo og þeim sem voru of veikburða til að ganga. Síðdegis tók að rigna. Loksins, síðla kvölds, komum við að hliði einna af ytri búðunum, holdvotir, gegnumkaldir og úrvinda. Næsta dag vorum við látnir ganga til aðalbúðanna. Tvö hundruð einstaklingar voru settir í hvern svefnskála.

Skammt frá Sachsenhausen var stór matvælageymsla í bæ sem kallaðist Velten. Þar voru fangarnir látnir hlaða hveiti og öðrum matvælum á járnbrautarlestir sem fluttu þau til Rússlands. Eftir að hafa unnið þar um hríð var ég valinn til að vinna sem sendill. Ég fékk það verkefni að sendast með niðurstöður læknisrannsókna frá rússnesku búðunum til rannsóknarstofunnar sem var alllangt frá. Það var kærkomin breyting!

Ég deildi herbergi með öðrum sendli og rússneskum hjúkunarmanni. Við fengum hrein rúmföt daglega og eins margar ábreiður og við vildum. Maturinn okkar var mun betri en ég hafði fengið og okkur var frjálst að fara hvert sem við vildum. Við sendlarnir tveir tókum því að rannsaka það sem verið höfðu fangabúðir nasista í Sachsenhausen.

Hinum megin í búðunum skoðuðum við gasklefana og líkbrennsluofnana. Ég gat varla trúað því sem nasistar höfðu gert. Ég var steini lostinn. Þótt ekki væri farið illa með mig dóu aðrir þýskir fangar hundruðum saman á hverjum degi í aðalbúðunum. Líkum þeirra var hlaðið á vagna og þeim síðan ekið burt til fjöldagrafar í skóginum.

Dag einn fundum við krítartöflu þar sem taldir voru upp hinir ýmsu fangaflokkar sem verið höfðu í fangabúðunum á tímum Hitlers. Á listanum voru meðal annarra vottar Jehóva. Ekki bauð mér í grun þá að einn góðan veðurdag myndi ég fá þau sérréttindi að verða einn þeirra sjálfur.

Ill meðferð á ný

Hinar bættu aðstæður mínar stóðu ekki lengi. Liðsforingi stöðvaði mig og krafði mig svars við því hvers vegna ég hefði stolið einhverjum sjúkravörum. Ég svaraði honum að ég hefði ekki hugmynd um hvað hann væri að saka mig um en hann trúði mér ekki og ég var settur í einangrun. Klefinn var lítill, ég fékk sáralítinn mat og engar ábreiður þótt vetur væri. Svo var mér skyndilega hleypt út á 11. degi.

Það kom mér á óvart, þegar ég gekk út, að ungur hermaður, sem var á vakt við hlið aðalbúðanna, heilsaði mér hlýlega. Áður hafði hann verið mjög kuldalegur við mig, en núna tók hann utan um mig og sagði á bjagaðri þýsku að Gestapo hefði drepið foreldra hans og að hann hefði verið í þýskum fangabúðum. Hann sagðist vita að ég væri saklaus.

Skömmu síðar var okkur, sem vorum hraustastir í hópi fanganna, sagt að við yrðum sendir annað til að vinna. Þann 30. janúar 1946 var okkur hrúgað í járnbrautarvagna með grófgerðum efri og neðri hillum. Í hverjum vagni voru 40 fangar sem þýddi að það var þröngt raðað á hillurnar. Það var erfitt að sofa á nóttunni því að ef einn velti sér á hina hliðina þurftu allir að gera það.

Alls konar sögur voru á kreiki um það hvert ferðinni væri heitið en þær reyndust allar rangar. Á fyrsta viðkomustað var 500 föngum úr öðrum búðum bætt í hópinn. Þaðan í frá fengum við í daglegan matarskammt hart brauð ásamt saltsíld og dálítilli heitri súpu. Annan hvern dag fengum við lítinn bolla af tei. Flestir mannanna reyndu að slökkva þorstann með því að sleikja hrímaða veggi járnbrautarvagnanna. Í útjaðri Moskvu vorum við sendir í steypibað og aflúsun. Ég held að ég hafi drukkið heila fötu af vatni þann dag.

Áfram til Síberíu

Þann 6. mars 1947 komum við til Prokopjevsk í Síberíu. Hinir borgaralegu íbúar voru sambland víða að úr Sovétríkjunum. Alls staðar var djúpur snjór, sums staðar jafnhár girðingunum. Skálarnir voru hálfgrafnir niður í jörðina til að veita vernd gegn fimbulkulda vetrarins. Það var þar sem hópurinn okkar lenti í þeim lífsháska sem ég lýsti í upphafi.

Fyrsta árið í Síberíu var erfitt. Alvarleg blóðkreppusótt braust út í búðunum. Allmargir létust. Ég var einnig þungt haldinn og um tíma örvænti ég um að ég næði mér. Einn kostur við það að vera í búðunum var sá að við fengum okkar dagskammt af brauði en flestir Rússanna, sem bjuggu í Prokopjevsk, urðu að standa klukkustundum saman í biðröð í kuldanum, og stundum gengu birgðir til þurrðar áður en þeir fengu nokkuð.

Haustið 1949 kom sendinefnd liðsforingja frá Moskvu til að fara yfir upprunalegan framburð okkar og ákveða hvað skyldi gera við okkur. Ungur liðsforingi, uppfullur af ættjarðarást, yfirheyrði mig. Hann virtist hata alla Þjóðverja. Ég var þakklátur fyrir að fá ekki fangelsisdóm. Þeir okkar, sem ekki voru dæmdir til fangavistar, voru fluttir til Stalinsk, sem nú heitir Novokúsnetsk, þar sem við vorum látnir vinna við byggingu orkuvers.

Loksins heim aftur

Í marsmánuði 1950 vorum við sendir aftur til Þýskalands og þann 28. apríl sameinaðist ég loksins fjölskyldu minni á ný. Þótt það væri mjög gleðilegt að vera aftur kominn heim voru erfiðleikarnir ekki á enda. Þar eð ég hafði haft tengsl við Hitlersæskuna um skamma hríð fóru hin kommúnísku yfirvöld í Austur-Þýskalandi með mig eins og stuðningsmann nasista og skömmtuðu mér aðeins helming þess matar og fatnaðar sem aðrir fengu. Ég flutti því frá Austur-Berlín til Vestur-Berlínar eftir að hafa verið heima í aðeins þrjár vikur.

Ég var ekki búinn að gleyma því heiti mínu að ég skyldi finna einhverja leið til að þjóna Guði ef ég kæmist einhvern tíma aftur heim til Þýskalands. Oft stóð ég fyrir framan kirkju en gat ekki fengið mig til þess að ganga inn. Trúarbrögðin höfðu valdið mér vonbrigðum þannig að ég ákvað að halda bara áfram að biðja til Guðs í einrúmi og biðja hann að vísa mér á leið til að þjóna honum.

Ég kvæntist Tilly og við eignuðumst son sem við nefndum Bernd. Þá, vorið 1955, fór vinnufélagi, sem var einn af vottum Jehóva, að tala við mig um Guð. Ég missti þó fljótlega samband við hann er við fluttumst skyndilega úr landi. Ég hafði sótt um innflutningsleyfi til Ástralíu og við héldum þangað með litlum fyrirvara er okkur barst símskeyti þess efnis að umsókn okkar hefði verið samþykkt og við skyldum vera ferðbúin til að sigla frá Bremerhaven eftir þrjá daga.

Nýtt land og nýtt líf

Við settumst loks að í Adelaide. Þar knúði þýskumælandi vottur dyra hjá okkur síðla árs 1957. Við vorum himinlifandi. Við tókum góðum framförum í reglulegu biblíunámi okkar. En eftir allt sem við Tilly vorum búin að ganga gegnum verð ég, til að vera alveg hreinskilinn, að segja að í byrjun höfðum við fyrst og fremst áhuga á því að vera frjáls undan kúgun. Núna vorum við komin til Ástralíu þar sem sólin skein, og okkur fannst við vera frjáls eins og fuglinn og nutum þess. En við uppgötvuðum fljótt að jafnvel þar er ýmiss konar kúgun, efnahagsörðugleikar og annað álag sem fylgir lífinu.

Við vorum innilega þakklát fyrir að fræðast um meginástæðuna fyrir því. „Allur heimurinn er á valdi hins vonda,“ segir Biblían. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Þar af leiðandi hlutu að vera vandamál óháð því í hvaða landi við bjuggum. Það veitti okkur líka mikla ánægju að skilja merkingu bænarinnar sem ég hafði beðið svo oft: „Til komi þitt ríki.“ Við skildum að ríki Guðs er raunveruleg stjórn, himnesk, og að Kristur Jesús hafði verið settur í hásæti sem konungur þess ríkis árið 1914. Það var hrífandi að læra að Guðsríki hefði þegar tekið til starfa — að það hefði gert Satan og illa anda hans útlæga frá himnum og að bráðlega, í mikilli þrengingu, yrði jörðin hreinsuð af allri illsku. — Matteus 6:9, 10; Opinberunarbókin 12:12.

Núna vissi ég hvernig ég átti að halda heit mitt við Guð. Ég byrjaði því að standa við þetta heit þann 30. janúar árið 1960 er ég lét skírast til tákns um að ég væri vígður honum, og Tilly fylgdi mér í því að vígjast Guði.

Við höfum nú, í liðlega 30 ár, notið margvíslegrar blessunar í þjónustunni við Guð. Bernd er nú sjálfur fjölskyldumaður og þjónar einnig sem öldungur í kristna söfnuðinum. Árið 1975 seldum við húsið okkar þannig að við værum frjáls til að flytjast búferlum og þjóna þar sem væri meiri þörf fyrir votta til að prédika fagnaðarerindið. Árið 1984 þáði ég boð um að vera umsjónarmaður mótshallar votta Jehóva í Adelaide.

Það er okkur hjónunum mikið gleðiefni að ég skyldi geta haldið loforðið sem ég gaf Guði þegar ég var í Síberíu, fjarri heimili mínu, fyrir meira en fjórum áratugum. Við trúum að hinn innblásni orðskviður hafi ræst á okkur mörgum sinnum: „Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ (Orðskviðirnir 3:6) — Frásaga Gerd Fechner.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Með Tilly, eiginkonu minni.