Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hjónaskilnaðir hin beiska uppskera

Hjónaskilnaðir hin beiska uppskera

Hjónaskilnaðir hin beiska uppskera

ÞAÐ eru hvorki lögfræðingarnir né vinirnir né fjölmiðlarnir né „sérfræðingarnir“ sem þurfa að taka afleiðingum hjónaskilnaða. Það eru hinir fráskildu sjálfir — og börn þeirra — sem taka út hinar endanlegu afleiðingar. a Hjónaskilnaður getur verið ótrúlega dýrkeyptur og því fer fjarri að hann hafi frelsi í för með sér.

Í bókinni The Case Against Divorce viðurkennir Diane Medved að hún hafi upphaflega ætlað sér að semja bók sem átti að vera „siðferðilega hlutlaus“ gagnvart hjónaskilnuðum. Hún fann sig hins vegar tilneydda að skipta um skoðun. Hvers vegna? Hún svarar: „Er ég tók að kynna mér málið uppgötvaði ég einfaldlega að skilnaðurinn sjálfur og eftirköst hans eru svo skaðleg — fyrir líkama, huga og anda mannsins — að í langflestum tilfellum er sú ‚lækning,‘ sem skilnaðurinn átti að vera, verri en ‚sjúkdómur‘ hjónabandsins.“

Anna, sem um var getið í greininni á undan, tekur í sama streng: „Ég hélt að skilnaðurinn yrði léttir. Ég hélt að ég yrði á grænni grein ef ég aðeins gæti losnað úr þessu hjónabandi. En áður en við skildum olli sársaukinn að minnsta kosti því að mér fannst ég vera lifandi. Eftir að ég skildi fannst mér ég ekki einu sinni lifandi. Tómarúmið var slíkt að mér fannst ég ekki vera til. Það var hræðilegt. Tómleikakenndin var ólýsanleg.“ Eftir að hjónaskilnaður er hjá gufa hin óljósu loforð um frelsi og spenning upp fyrir óbilgjörnum veruleika hversdagslífsins og baráttunni að hafa í sig og á.

Hinn blákaldi veruleiki er sá að jafnvel þar sem eru réttmætar ástæður fyrir skilnaði geta afleiðingar hans verið sársaukafullar og langvarandi. Það er því viturlegt af hverjum þeim, sem er að ígrunda það að stíga þetta róttæka skref, að fara fyrst eftir heilræði Jesú: ‚Reiknaðu kostnaðinn.‘ (Lúkas 14:28) Hver er þessi kostnaður, þessi kvalafullu eftirköst hjónaskilnaðar?

Tilfinningaleg og siðferðileg áhrif

Í niðurstöðum nýlegrar könnunar, sem birtar voru í tímaritinu Journal of Marriage and the Family, kom í ljós að hjónaskilnaðir eru tengdir óhamingju og þunglyndi. Fráskildu fólki er hættara við þunglyndi en öðru og þeim sem höfðu skilið oftar en einu sinni hætti enn oftar til þunglyndis. Félagsfræðingurinn Lenore Weitzman segir í bók sinni The Divorce Revolution að fráskilið fólk eða skilið að borði og sæng sé hlutfallslega flest meðal þeirra sem lagðir eru inn á geðdeildir spítala; og þeim sé hættara við veikindum, ótímabærum dauða og sjálfsmorði en öðrum.

Í könnun, sem náði til um 200 einstaklinga, komst Diane Medved að þeirri niðurstöðu að karlar og konur voru í tilfinningalegu ójafnvægi að meðaltali sjö ár eftir skilnað en sumir í áratugi. Hún uppgötvaði að eitt, sem hjónaskilnaður hafði ekki áhrif á, var hið óheilbrigða hegðunarmynstur sem leiddi til skilnaðarins í upphafi. Það er því engin furða að enn meiri hætta er á að annað hjónaband fari út um þúfur en hið fyrsta!

Skilnaður bætir alls ekki háttalag manna heldur hið gagnstæða; hann hefur oft stórskaðleg áhrif á siðferði fólks. Rannsóknarmenn hafa komist að því að eftir skilnað tekur við stutt „gelgjuskeið“ hjá flestum körlum og konum. Þau njóta hins nýfundna frelsis með því að lenda í einu ástarævintýrinu á fætur öðru, í þeim tilgangi að efla sjálfstraustið eða til að bægja frá sér einmanaleik. En félagsskapur við hitt kynið af þessum orsökum getur leitt til siðleysis með öllum þeim sorglegu afleiðingum sem það hefur. Og það getur verið sérstaklega alvarlegt áfall og skaðlegt fyrir börn að sjá foreldra sína hegða sér þannig.

En allt of algengt er að hjón, sem skilja, hafi þegar tekið við þeim áróðri heimsins að menn skuli fyrst og fremst hugsa um sjálfa sig og sínar eigin þarfir. Þannig forherðir fólk sig gagnvart þeim sársauka sem það veldur þeim sem eru í kringum það — börnum sínum, foreldrum og vinum. Sumir gleyma líka að Guð getur fundið til sársauka í hjarta sér þegar við virðum staðla hans að vettugi. (Samanber Sálm 78:40, 41; Malakí 2:16.) Hjónaskilnaður getur líka verið grimmileg aðgerð, sérstaklega þegar hann fer út í lagaleg átök um forræði barna og skiptingu eigna.

Fjárhagshörmungar

Lenore Weitzman bætir við að skilnaður geti einnig haft í för með sér „fjárhagshörmungar“ fyrir konur. Samkvæmt könnun hennar hröpuðu lífskjör bandarískra kvenna að meðaltali um heila 73 af hundraði við skilnað. Ráðstöfunarfé til kaupa á lífsnauðsynjum, svo sem mat og húshitun og til húsnæðismála, minnkaði um helming.

Lenore Weitzman hafði búist við að skilnaðalöggjöf nútímans væri konum til verndar en í staðinn reyndust konur örvilnaðar og örvæntingarfullar eftir skilnað. Heil 70 af hundraði kvenna, sem hún talaði við, sögðust hafa stöðugar áhyggjur af því hvernig þær ættu að láta enda ná saman.

Í bókinni Lífskjör og lífshættir á Íslandi eftir Stefán Ólafsson kemur fram að einhleypir foreldrar kvarta mest allra þjóðfélagshópa undan því að hafa lent í erfiðleikum með að greiða hin venjulegu útgjöld fjölskyldunnar, til dæmis fyrir mat, ferðir og húsnæði. Um 70% þeirra sögðust hafa lent í slíkum erfiðleikum árið 1987. Eins kemur fram að einstæðir foreldrar eru líklegri en aðrir þjóðfélagshópar til að hafa notið fjárhagsaðstoðar frá sveitarfélagi eða félagsstofnun.[1]

Ungur maður, sem við skulum kalla Tómas, segir frá þeirri breytingu sem átti sér stað þegar foreldrar hans skildu en hann var þá átta ára: „Við áttum alltaf mat eftir að pabbi fór, en allt í einu varð dós af gosi orðin munaður. Við höfðum ekki efni á nýjum fötum. Mamma þurfti að sauma allar skyrturnar á okkur. Á myndum frá þeim tíma erum við krakkarnir veikluleg og eymdarleg að sjá.“

Þar eð algengast er að mæður fái forræði barna sinna og feður standa ekki alltaf í skilum með lögbundið, umsamið eða úrskurðað barnameðlag — sem hrekkur hvort eð er ekki til að ala önn fyrir börnunum — eru konur yfirleitt verr settar fjárhagslega en karlar. En karlar hagnast ekki beinlínis heldur á skilnaðinum. Bókin Divorced Fathers segir að lögfræði- og málskostnaður vegna skilnaðarmáls geti numið helmingi af nettóárstekjum mannsins. Skilnaður er líka erfið tilfinningaraun fyrir eiginmenn og feður. Það er mikið kvalræði fyrir margan föður að verða ekki annað en gestur í lífi barnanna sinna.

Varðveittu hjónaband þitt!

Það kemur því varla á óvart að í könnun meðal fólks, sem verið hafði fráskilið í eitt ár, skyldi 81 af hundraði eiginmanna/feðra og 97 af hundraði eiginkvenna/mæðra viðurkenna að það kunni að hafa verið mistök að skilja og að þau hefðu átt að leggja sig betur fram við að láta hjónabandið ganga. Æ fleiri „sérfræðingar“ eru líka sem óðast að snúa við blaðinu og hverfa frá þeim léttúðugu viðhorfum til hjónabands sem þeir áður aðhylltust. Dagblaðið Los Angeles Times sagði nýverið: „Eftir að hafa horft upp á árangur síðastliðinna 25 ára leggja margir fjölskyldu- og hjónaráðgjafar . . . sig meira fram við að bjarga hjónaböndum.“

Það er auðvitað hægur vandi fyrir „sérfræðingana“ að snúa við blaðinu. Þeir þurfa ekki annað en að afsaka sig og byrja að raula nýtt lag. Þær þúsundir manna, sem hafa fylgt ráðleggingum þeirra, eiga snöggt um erfiðara uppdráttar. Fórnarlömb hjónaskilnaða geta þó dregið dýrmætan lærdóm af biturri reynslu sinni, svo sem þá er fram kemur í Sálmi 146:3, 4: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt. Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.“

Vinir, fjölskyldu- og hjónaráðgjafar, lögfræðingar og fjölmiðlafólk eru ekkert annað en ófullkomnir menn. Hvers vegna ættum við að reiða okkur einvörðungu á þá þegar við þörfnumst ráðlegginga um hjónabandið? Væri ekki skynsamlegra að leita fyrst til Jehóva Guðs, höfundar hjónabandsins? Meginreglur hans breytast ekki eftir því úr hvaða átt vindurinn blæs hjá mennskum „sérfræðingum.“ Þær hafa haldið gildi sínu um þúsundir ára og duga enn í dag.

Andrés og Anna gerðu sér líka grein fyrir því nokkru eftir að þau skildu. Þeim varð ljóst að skilnaður þeirra hafði verið hræðileg mistök. Til allrar hamingju var það ekki um seinan fyrir þau. Þau náðu saman á ný og giftust aftur. Og þau tóku að breyta hugsunarhætti sínum. „Ég gerði mér ljóst,“ sagði Andrés, „að ég var siðferðilega gjaldþrota og þarfnaðist hjálpar. Í fyrsta sinn um árabil bað ég til Guðs út af því. Ég vildi gera það sem var rétt þannig að ég varð að hætta því sem ég var að gera og hafna öllum þeim siðferðisgildum sem ég hafði tekið upp eftir heiminum. Ég vildi þau ekki framar.“

Anna tekur undir orð hans: „Ástæðan fyrir því að við getum verið saman núna, með þessa hræðilegu fortíð að baki, er sú að við vildum í rauninni bæði vera á réttum kili gagnvart Jehóva. Og við þráðum heitt að láta hjónabandið heppnast.“ Það þýðir ekki að allt hafi verið leikur einn síðan. „Við höfum sífellt gát á sambandi okkar núna. Og ef öðru okkar finnst eitthvað vera að fara úrskeiðis tölum við um það.“

Andrés og Anna eru núna að ala upp tvö yndisleg börn. Andrés er safnaðarþjónn í einum safnaða votta Jehóva. Að sjálfsögðu er ekki allt alfullkomið. Ekkert hjónaband getur verið fullkomið í þeim gamla heimi sem við búum í, því að það er samband tveggja ófullkominna einstaklinga. Þess vegna varar Biblían okkur við því að hjónabandið hafi haft ákveðna ‚þrengingu‘ í för með sér alla tíð síðan syndin kom inn í heiminn. (1. Korintubréf 7:28) Það má því aldrei stofna til hjónabands í einhverju fljótræði. Hver sá sem hyggst ganga í hjónaband ætti að taka sér góðan tíma til að kynnast tilvonandi maka sínum. Og þegar hjónaband hefur verið stofnað er það sjaldan betra en sú viðleitni sem lögð er í að gera það farsælt.

Ljóst er þó að hjónaskilnaður er ekkert gamanmál heldur. Þegar skilnaður er talinn nauðsynlegur eða óhjákvæmilegur getur Guð vissulega veitt okkur þá hjálp sem við þörfnumst til að halda út gegnum þá erfiðleika sem geta fylgt í kjölfarið. En við skulum ekki búast við að okkur verði hlíft við afleiðingunum ef við sýnum þá flónsku að fylgja heiminum í því að lítilsvirða þá heilögu ráðstöfun sem hjónabandið er. Stattu því vörð um hjónaband þitt. Í stað þess að vera tilbúinn til að leggja á flótta ef allt gengur ekki sem skyldi skaltu hafa það hugarfar að þú viljir takast á við vandamálin og leysa þau. Reyndu að gera við brýrnar en ekki brenna þær að baki þér. Leitaðu raunhæfra lausna í orði Guðs á vandamálum hjónabandsins. b Þar finnur þú lausnirnar — og þær duga.

[Neðanmáls]

a Fjallað var um áhrif hjónaskilnaða á börn í Vaknið! apríl - júní 1991.

b Sjá Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt, útgefin af Watchtower Bible & Tract Society of New York, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Varðveitið hjónaband ykkar með því að taka ykkur tíma til að gera hlutina saman sem fjölskylda.