Hvað er það sem við köllum innsæi?
Hvað er það sem við köllum innsæi?
KVÖLD eitt árið 1893 kom skrifstofumaður hjá kolafyrirtæki í Detroit í Michigan í Bandaríkjunum auga á undarlega útlítandi farartæki aka með skarkala og látum eftir götunni. Það var gert úr hjólum af reiðhjóli og ýmsum aukahlutum. Skyndilega fékk hann hugdettu — leiftrandi innsæi. Hann hreinlega vissi einhvern veginn að þarna var á ferðinni uppfinning sem átti sér framtíð. Hann tók tafarlaust út allt sparifé sitt, eitt þúsund dollara, keypti sig inn í fyrirtæki uppfinningamannsins og lét háðsglósur sérfræðinga, sem héldu því fram að þetta kynlega tæki yrði aldrei sérlega vinsælt, sem vind um eyru þjóta. Um 30 árum síðar seldi hann hlutabréf sín í bifreiðasmiðjum Henrys Fords fyrir 35 milljónir dollara. Ekki verður annað sagt en að innsæi hans hafi borgað sig!
Hinn kunni vísindamaður Albert Einstein er annað dæmi um mann sem tók mark á skyndilegu innsæi. Hann fékk hugmynd — sem hann síðar kallaði bestu hugmynd ævi sinnar — sem leiddi til hinnar frægu, almennu afstæðiskenningar hans. Einstein taldi að innsæi hefði úrslitaþýðingu í uppgötvun náttúrulögmálanna. En ekki reyndist Einstein það alltaf ferð til fjár að fylgja hugdettum sínum. Hann játaði að einu sinni hefði tveggja ára erfiði verið unnið fyrir gýg er hann reyndi að vinna úr innsæi sem varð ekki að neinu.
Að sjálfsögðu leiðir innsæi ekki alltaf til frægðar og frama og það er ekki heldur sérsvið stórsnillinga og milljónamæringa. Fyrir flest okkar er innsæi eðlilegur hlutur daglegs lífs. Það getur átt einhvern þátt í mörgum ákvörðunum okkar: þeirri ákvörðun að vantreysta ókunnugum manni, þeim ásetningi að eiga ákveðin viðskipti, þeim grun að eitthvað sé að hjá vini sem hljómaði eitthvað undarlega í símanum.
Margir reiða sig þó á innsæi er þeir þurfa að taka miklu mikilvægari ákvarðanir, svo sem hvaða starf þeir eigi að velja sér, hvar þeir eigi að búa, hverjum að giftast og jafnvel hvaða trú þeir eigi að aðhyllast. Þegar innsæi á þessum sviðum reynist ekki farsælt getur kostnaðurinn orðið miklu hærri en jafnvirði tveggja ára vinnu, eins og hjá Einstein. Hvað er þá „innsæi“? Hvernig verkar það? Hve áreiðanlegt er það?
Unglingsstúlka, sem Philip Goldberg vitnar til í bók sinni The Intuitive Edge, svaraði spurningunni þannig: „Innsæi er það þegar maður veit eitthvað, en veit til dæmis ekki hvernig.“ Innsæi hefur formlega verið skilgreint sem „þekking sem kemur upp í huga einstaklings án þess að hann sé sér meðvitandi um að muna eftir henni eða rökhugsa“ eða „beinn skilningur óháður rökhugsun.“ Innsæi virðist vera einhvers konar stökk — beint frá vandamáli til lausnar. Við hreinlega vitum allt í einu svarið eða skiljum aðstæðurnar. Það merkir þó ekki að innsæi sé hið sama og skyndihvöt eða löngun.
„Um leið og ég sá það vissi ég að ég yrði að eignast það,“ lýsir til dæmis miklu frekar löngun Jeremía 17:9.
heldur en innsæi. Innsæi getur virst líkt löngun á þann hátt að það virðist koma yfir okkur án skipulegrar, kerfisbundinnar rökhugsunar. Rætur þess eru hins vegar miklu síður tilfinningalegar eða dularfullar en þær langanir sem spretta upp í ‚svikulu‘ hjarta okkar. —Innsæi er greinilega ekki heldur eitthvert dularfullt sjötta skilningarvit. Eins og The World Book Encyclopedia segir: „Sumir kalla innsæi ranglega ‚sjötta skilningarvitið.‘ Rannsóknir sýna hins vegar að innsæi er byggt á reynslu, einkum reynslu einstaklinga sem búa yfir mikilli næmni.“ Einstaklingurinn safnar sér „sjóði minninga og mótandi áhrifa,“ segir alfræðibókin, þaðan sem hugurinn getur dregið fram „skyndileg hughrif sem nefnd eru innsæi eða ‚hugdetta.‘“
Innsæi er því ekki eitthvert dularfullt einkenni heldur eðlileg afleiðing þeirrar lífsreynslu sem einstaklingurinn hefur aflað sér. Tímaritið Psychology Today sagði ekki alls fyrir löngu: „Rannsóknarmenn hafa uppgötvað að fólk sem býr yfir innsæi hefur eitt sameiginlegt einkenni: Það er sérfræðingar á sérstöku . . . þekkingarsviði, og það á auðvelt með að notfæra sér þekkingu sína til að leysa vandamál á sínu sérsviði. Fólk virðist reyndar búa yfir innsæi einmitt vegna þess að það býr yfir sérfræðikunnáttu — og í sama mæli og það býr yfir henni.“ En hvers vegna getur sérfræðikunnátta leitt af sér innsæi?
Michael Prietula, aðstoðarprófessor í iðnaðarstjórnun, slær fram þeirri kenningu að samhliða aukinni þekkingu á einhverju málefni verði „smám saman breyting á því hvernig fólk hugsar og ályktar.“ Hugurinn raðar upplýsingum saman í samstæður. Þessi yfirgripsmiklu upplýsingamynstur gera huganum stundum kleift að hlaupa yfir hin hægvirkari greiningarskref og komast með innsæi strax að niðurstöðu, fá hugdettu. Að sögn Prietula batna hugdetturnar eftir því sem heilinn tengir saman fleiri af þessum upplýsingamynstrum.
Tökum hversdagslegt dæmi úr bókinni Brain Function: „Fylgstu með lásasmið er hann þreifar sig áfram með bognum vír inni í flóknum lás og opnar hann eins og eitthvert dularfullt innsæi stjórni honum.“ Innsæi lásasmiðsins er kannski dularfullt í augum áhorfanda þótt það sé í rauninni sprottið af áralangri reynslu. Öll beitum við þess konar innsæi. Þegar þú hjólar á reiðhjóli segir þú ekki meðvitað við sjálfan þig eitthvað í þessa veru: ‚Ég ætti víst að snúa framhjólinu agnarögn til hægri svo að ég missi ekki jafnvægið.‘ Nei, heilinn tekur slíkar ákvarðanir af innsæi sínu og byggir á þekkingu sem þú hefur aflað þér af reynslunni.
Innsæi Einsteins á sviði eðlisfræðinnar kom ekki heldur úr lausu lofti. Hann bjó yfir víðtækri sérfræðikunnáttu til að byggja á. En sérfræðikunnátta á einu sviði leiðir ekki sjálfkrafa til innsæis á öðru. Innsæi Einsteins hefði ekki hjálpað honum að gera við leka pípulögn.
Í hugum margra fara orðin „konur“ og „innsæi“ saman. Hafa konur þennan eiginleika í ríkari mæli en karlmenn? Og ef svo er, hvernig getur þá öflun sérfræðiþekkingar skýrt það?
Tökum algengt dæmi. Ungbarn grætur. Reynd móðir, sem er önnum kafin í öðru herbergi, teygir sig eftir bleiu í stað þess að búa sig undir að gefa barninu að drekka. Hvers vegna? Hjá henni hefur þroskast innsæistilfinning
fyrir gráti barnsins. Hún veit hvers konar grátur tjáir ákveðnar þarfir og hverjar eru líklegastar á hverjum tíma. Á sekúndubroti, og án nokkurrar meðvitaðrar rökhugsunar, er hún fær um að meta þarfir barnsins og bregðast rétt við. Er eitthvert dularfullt sjötta skilingarvit þarna að verki? Nei, innsæi hennar er byggt á sérfræðikunnáttu hennar sem móður er hún hefur aflað sér í skóla reynslunnar. Nýbökuð móðir eða hjásæta yrði kannski ráðvillt í fyrstu við sömu aðstæður.Hugmyndin um innsæi kvenna einskorðast þó ekki við móðurhlutverkið. Margir hafa veitt athygli að oft virðast konur, bæði fljótar og af meira innsæi en karlar, geta áttað sig á ýmsum óljósum atriðum sem tengjast aðstæðum fólks. Vísindamenn eru ekki vissir um hvers vegna kynin virðast ólík að þessu leyti.
Sálfræðingurinn Weston Agor við University of Texas í El Paso komst að þeirri niðurstöðu út frá rannsóknum sínum að konur væru til jafnaðar innsærri en karlmenn, en jafnframt að þessi munur byggist meira á menningaráhrifum en sálfræðilegum einkennum. Aðrir sérfræðingar hafa líka komist að þeirri niðurstöðu að hið hefðbundna hlutverk kvenna þjálfi þær sem góða mannþekkjara. Mannfræðingurinn Margaret Mead orðaði það þannig: „Vegna aldalangrar þjálfunar sinnar í mannlegum samskiptum — því að það er það sem kvenlegt innsæi raunverulega er — geta konur lagt fram sérstakan skerf til sérhvers hópframtaks.“
Enda þótt innsæi kvenna sé óneitanlega óvissuatriði á sú skoðun vaxandi fylgi að fagna meðal sérfræðinga að innsæi sé afarnytsamlegt verkfæri jafnt fyrir karla sem konur. Í bók sinni The Process of Education segir sálfræðingurinn Jerome Bruner: „Það lofsorð, sem vísindamenn ljúka á þá starfsbræður sína sem geta sér orð fyrir innsæi, er skýrt merki þess að innsæi sé verðmætur eiginleiki í vísindum og að okkur beri að leitast við að rækta hann með nemendum okkar.“
Það eru þó ekki bara nemendur í vísindagreinum sem meta þennan hæfileika mikils og vilja rækta hann. Spurningin er sú hvort hægt sé að gera það. Óneitanlega hafa sumir hreinlega hlotið meira innsæi í vöggugjöf en aðrir, en þar eð innsæi virðist svo nátengt sérkunnáttu álíta sumir sérfræðingar að við getum
þroskað meðfætt innsæi okkar með því að gefa meiri gaum að því hvernig við lærum.Þegar þú til dæmis lest skaltu ekki láta þér nægja að innbyrða upplýsingar. Varpaðu fram spurningum. Leitaðu skýringa á öllu sem þú skilur ekki. Reyndu að draga saman meginatriðin og sjá niðurstöðurnar fyrir. Í stað þess að reyna að ná tökum á ótal smáatriðum skaltu hafa augun opin fyrir megineinkennum, flokkun og undirstöðuatriðum. Eins og Robert Glaser, prófessor í sálfræði, sér hlutina er „hæfnin til að gera sér grein fyrir þýðingarmiklum megineinkennum“ undirrót innsæis.
Að sjálfsögðu er innsæi ekki alltaf áreiðanlegur vegvísir. Hver verður til dæmis útkoman ef sú þekking, sem innsæið byggist á, er gölluð eða ófullkomin? Það er umhugsunarvert og gæti verið okkur hvati til að prófa vandlega nákvæmni þess sem við lærum. Fyrir nálega 2000 árum gaf Biblían það viturlega ráð. Það er orðað þannig í Filippíbréfinu 1:10: „Metið þá hluti rétt, sem máli skipta.“ — Sjá einnig Postulasöguna 17:11.
Annar ókosturinn við innsæi er sá að tilfinningar geta haft áhrif á það. Þess vegna getur verið hættulegt að reiða okkur einvörðungu á innsæi þegar við tökum alvarlegar ákvarðanir eða leggjum mat á fólk. Sálfræðingurinn Evelyn Vaughan aðvarar: „Ef miklar tilfinningar eru bundnar einhverju er hætt við að innsæi manns sé ekki treystandi, nema maður geti séð tilfinningar sínar í réttu samhengi.“ Ótti, reiði, öfund og hatur — þetta eru sterkar tilfinningar sem geta, þótt þær sem slíkar séu ekki innsæi, haft áhrif á og jafnvel brenglað innsæi okkar. Tökum sem dæmi tvo menn sem hafa lengi haft megna óbeit hvor á öðrum. Þegar nýr misskilningur kemur upp milli þeirra veit hvor um sig hreinlega af innsæi sínu að hinn ber illar hvatir í brjósti. Biblían varar okkur hins vegar við því að dæma með þessum hætti ‚eftir ytra útliti.‘ — 2. Korintubréf 10:7.
Önnur kennd, dramb, getur komið okkur til að leggja of mikla áherslu á innsæi okkar, rétt eins og það hafi eitthvert sérstakt gildi í samanburði við dóm og skoðanir annarra. Við gætum tekið skyndiákvarðanir án þess að ráðfæra okkur við þá sem þær snerta. Drambsemi gæti komið okkur til að halda okkur þrjóskufull við innsæisákvörðun, þrátt fyrir sárindi sem við höfum valdið öðrum eða gegn vel úthugsuðum ráðleggingum þeirra. Enn sem fyrr hefur Biblían viturleg ráð fram að færa: „Sá sem þykist vera nokkuð, en er þó ekkert, dregur sjálfan sig á tálar.“ — Galatabréfið 6:3.
Loks getur það að reiða sig um of á innsæi leitt til andlegrar leti. Það er ekki hægt að stytta sér leið í öflun þekkingar, skilnings og visku; reglufast, markvisst nám er eina leiðin. Vitur maður grípur því ekki fyrstu hugdettu sem hann fær heldur byggir upp þekkingarsjóð þangað sem hann getur sótt skilning, dómgreind — og oft innsæi líka.
Þegar allt kemur til alls er innsæi í rauninni aðeins verðmætur eiginleiki þegar það er samstillt mesta hugsuði alheimsins — skaparanum. Hann er uppspretta nákvæmrar þekkingar og sannrar visku og hann vill að við söfnum okkur þessari mikilvægu þekkingu. Í gegnum Biblíuna gefur hann okkur í gæsku sinni aðgang að hugsunum sínum, tilfinningum og vitneskju um verk hans. Er við lærum að nota slíka þekkingu í lífi okkar ‚temjum‘ við skarpskyggni okkar, innsæi þar á meðal. — Hebreabréfið 5:14.
Aflaðu þér því sérkunnáttu á þessu þekkingarsviði um skaparann og son hans. (Jóhannes 17:3) Þú getur aldrei fundið verðugara viðfangsefni. Það er engin betri þekkingarlind til sem hægt er að byggja innsæi á.
[Innskot á blaðsíðu 16]
Einstein lagði mikið upp úr innsæi.
[Innskot á blaðsíðu 17]
Innsæi er ekki eitthvert dularfullt sjötta skilingarvit.
[Innskot á blaðsíðu 17]
Hafa konur í reynd til að bera meira innsæi en karlar?
[Innskot á blaðsíðu 19]
Innsæi er ekki öruggur leiðarvísir þegar það byggist á gallaðri eða ófullkominni þekkingu.
[Mynd á blaðsíðu 18]
Innsæi móðurinnar segir henni hvers barnið hennar þarfnast þegar það grætur.