Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skilnaðagildran

Skilnaðagildran

Skilnaðagildran

ANDRÉS og Anna voru fyrirmyndarhjón. Anna var hæglátari og íhugulli en Andrés, en rólyndi hennar og glaðleg lund virtist eiga vel við persónuleika Andrésar sem var félagslyndari en hún og virtist búa yfir óþrjótandi orku og kímnigáfu. Augu hennar geisluðu þegar hann var nærri. Og engum duldist að hann sá ekki sólina fyrir henni.

Eftir sjö ár tók þó að hrikta í stoðum hjónabandsins. Andrés fékk nýtt og tímafrekt starf. Önnu gramdist hve upptekinn hann var af nýja starfinu og hve oft hann kom seint heim á kvöldin. Hún reyndi að „fylla upp í tómarúmið,“ eins og hún orðaði það, með því sökkva sér niður í sitt eigið starf. En áður en langt um leið var Andrés farinn að anga af víni þegar hann kom heim og gaf þá skýringu að hann hefði verið úti með samstarfsmönnum. Drykkjan jókst hjá honum og loks flutti Anna frá honum. Andrés sökk niður í þunglyndi. Eftir nokkra mánuði voru þau skilin.

Þessi saga hljómar kannski allt of kunnuglega í eyrum margra. Eins og við höfum séð hefur hjónaskilnuðum fjölgað stórlega í öllum heimshornum. Og því er ekki að neita að sumir hjónaskilnaðir eru óumflýjanlegir eða nauðsynlegir. Biblían bannar ekki hjónaskilnaði með öllu eins og margir halda. Staðlar hennar eru sanngjarnir og öfgalausir og leyfa lögskilnað á grundvelli hjúskaparbrots (Matteus 19:9), og meginreglur hennar leyfa einnig skilnað að borði og sæng í sérstökum tilvikum, svo sem þegar um er að ræða ofbeldi á heimilinu. a (Sjá Matteus 5:32; 1. Korintubréf 7:10, 11.) En slíkum forsendum var ekki til að dreifa hjá Andrési og Önnu.

Andrés og Anna voru kristin og höfðu áður litið á hjónabandið sem heilagt. En eins og við öll bjuggu þau í heimi sem prédikar harla ólíka siðfræði — þá að það megi farga hjónabandinu og að skilnaður sé leiðin til þess. Á hverju ári hefur þessi hugsunarháttur þau áhrif á þúsundir hjóna að þau skilja af tilefni sem er hvorki boðlegt né biblíulegt. Og margir uppgötva — um seinan — að hin „upplýstu“ og „nútímalegu“ viðhorf þeirra til hjónaskilnaðar hafa leitt þá í gildru.

Gildru? ‚Það er nú nokkuð fast að orði kveðið,‘ segja sumir. Þú álítur kannski, eins og margir gera nú til dags, að hjónaskilnaður sé einfaldlega siðmenntuð leið til að losna úr óhamingjusömu hjónabandi. En gerir þú þér grein fyrir að hjónaskilnaðir hafa sínar dökku hliðar? Og er þér ljóst hve lævíslega umheimurinn getur mótað afstöðu okkar til hjónaskilnaða — án þess að við verðum þess vör?

Framavon sem tálbeita

Hluti agnsins, sem lokkaði þau Andrés og Önnu út í hjónaskilnað, var sú freistandi hugmynd að þau myndu fá notið sín til fulls með því að komast áfram í starfi. Þau urðu fórnarlömb framakapphlaupsins, þess hugsunarháttar að starfsframi gangi fyrir öllu. En þau voru varla fyrstu fórnarlömbin. Tímaritið Family Relations sagði árið 1983: „Það að einstaklingurinn fái notið sín til fulls er orðið að kjörorði manna. Af því leiðir að skorið er hiklaust á hin nánu bönd við aðra fjölskyldumeðlimi og það tekur jafnvel að hrikta í stoðum hjónabandsins.“ Andrés var mjög hrifinn af nýja starfinu sínu og framavoninni sem fylgdi því. Hann tók að sér aukavinnu og var með vinnufélögunum eftir vinnutíma í þeim tilgangi að afla sér meiri virðingar og viðurkenningar. Samtímis var Anna blinduð af draumsýn sinni um frama í starfi með hjálp framhaldsmenntunar.

Eltingaleikurinn við tálbeitu starfsframans hafði tvíþætt áhrif. Í fyrsta lagi hafði hann í för með sér að Andrés og Anna höfðu minni tíma hvort handa öðru. Eins og Anna orðaði það: „Við drógumst hvort í sína áttina. Við hættum að rabba saman klukkan tíu á kvöldin eins og við vorum vön, hættum að setjast niður og tala út um hlutina. Hann var að undirbúa sig fyrir næsta vinnudag og ég líka. Samræður og skoðanaskipti stöðvuðust.“

Hin áhrifin sneru að hinum andlega þætti í lífi þeirra. Með því að láta vinnuna ganga fyrir voru þau að færa samband sitt við Guð í óæðra sæti á sama tíma og þau þörfnuðust hans mest. Sameiginlegt átak þeirra beggja í því að fylgja meginreglum Biblíunnar hefði getað hjálpað Andrési að ná tökum á áfengisvandamáli sínu og gefið Önnu styrk til að styðja mann sinn gegnum erfiðleikana.

En í stað þess að takast á við sambúðarvandamál sín fóru þau að líta á skilnað sem raunhæfan kost, jafnvel sem leið til að losna undan öllu álaginu. Eftir skilnaðinn varð sektarkenndin og skömmin slík að þau sögðu algerlega skilið við trú sína. Þau hættu að játa sig kristin.

„Sérfræðingarnir“ egna gildruna

Þegar hjón eiga í erfiðleikum sín í milli leita þau gjarnan til fjölskyldu- og hjónaráðgjafa ellegar bóka sem slíkir einstaklingar hafa samið. En því miður er sumum „sérfræðingum“ nútímans í hjúskaparmálum betur lagið að ýta undir skilnaði en stuðla að varðveislu hjónabandsins. Á síðustu áratugum hefur neikvæð afstaða „sérfræðinga“ til hjónabandsins svifið um loftið eins og sægur af hungruðum engisprettum.

Til dæmis segja sállæknarnir Susan Gettleman og Janet Markowitz í kvörtunartón í bókinni The Courage to Divorce: „Það er fáránleg en þrálíf skoðun að fráskilið fólk hafi vikið frá einhverju heilbrigðu fyrirbæri sem kallast ‚eðlilegt fjölskyldulíf.‘“ Þær kvarta sáran undan þeim „laga- og siðferðishömlum“ gegn hjónaskilnuðum er séu „byggðar á aldagömlum trúarreglum.“ Þær halda því fram að hjónaskilnaðir muni halda áfram uns ‚hjónabandið verði smám saman úrelt‘ og hjónaskilnaðir því „óþarfir.“ Þær mæla með bók sinni við lögfræðinga, dómara — og presta!

‚Hjónaskilnaðir eru ekki slæmir. Hjónaskilnaðir veita fólki frelsi. Tíðir hjónaskilnaðir eru ekki merki þess að eitthvað sé athugavert við þjóðfélagið heldur merki þess að eitthvað sé athugavert við þá hefð sem hjónabandið er.‘ Ófáir „sérfræðingar“ hafa prédikað þetta sjónarmið, einkanlega meðan kynlífsbylting sjöunda og áttunda áratugarins stóð sem hæst. Sumir þekktir sálfræðingar og mannfræðingar hafa jafnvel látið sér detta í hug nýverið að manninum sé „stýrt“ — af þróuninni, auðvitað — til að skipta um maka með nokkurra ára millibili. Með öðrum orðum eru ástarævintýri utan hjónabands og hjónaskilnaðir einungis eðlilegir.

Það er erfitt að ímynda sér hve mörgum hjónaböndum slíkar hugmyndir hafa spillt. En margir aðrir sérfræðingar hvetja til hjónaskilnaða með öllu lúmskari hætti. Diane Medved segir í bók sinni The Case Against Divorce að hún hafi fundið um 50 bækur í bæjarbókasafninu sínu sem að minnsta kosti ‚hvetja lesandann gegnum hjónaskilnað,‘ ef þær mæla ekki beinilínis með skilnaði. Hún aðvarar: „Þessar bækur leiða fólk lipurlega út í einhleypi og hampa ‚nýfengnu frelsi‘ þess rétt eins og það . . . sé besta leiðin til lífsfyllingar.“

Önnur áhrif

Auðvitað er margt annað en „sérfræðingar“ á villubraut sem hvetur beint eða óbeint til hjónaskilnaða. Fjölmiðlarnir — sjónvarp, kvikmyndir, tímarit og ástarsögur — leggjast oft á eitt við að heyja linnulaust áróðursstríð gegn hjónabandinu. Stundum flytja fjölmiðlar þann boðskap að utan hins leiðigjarna hversdagsleika hjónabandsins sé endalaus spenningur, ánægja og lífsfylling, og að við endann á geislandi regnboga einhleypis og frelsis bíði annar maki, langtum fremri þeim sem heima situr.

Það eitt að vera tortrygginn gagnvart þessum niðurrifshugmyndum er tæpast nægileg vernd gegn þeim. Eins og Diane Medved segir: „Maður sér kvikmynd og jafnvel þótt maður þykist veraldarvanur er maður undir áhrifum hennar. Maður kemst ekki hjá því — samspil persónanna og söguþráðurinn er spunninn þannig að áhorfandinn fái samúð með aðalpersónunni (daðurgjörnum eiginmanni?) og andúð á þorparanum (geðillri eiginkonu?). . . . Maður er kannski ekki persónulega sáttur við það sem maður sér en sú vitneskja ein að aðrir eru það, sem ýtt er undir á ótal aðra vegu í siðmenningu okkar, brýtur niður ásetning manns og öryggi.“

Atferli annarra manna hefur óneitanlega áhrif á okkur. Og hafi boðskapur fjölmiðlanna áhrif á okkur, hvað þá um þá sem við veljum okkur að vinum? Biblían kemur með þessa viturlegu aðvörun: „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) Gott hjónaband er einhver besti ‚siður‘ sem við getum haft. Við getum spillt honum ef við gerum að vinum okkar þá sem virða ekki hjónabandið. Mörg hjón hafa verið leidd lipurlega út í hjónaskilnað vegna þess að þau trúðu slíkum „vinum“ fyrir sambúðarvandamálum sínum — og þeir höfðu kannski, sumir hverjir, kosið hjónaskilnað án þess að nokkuð réttlætti það.

Aðrir eru of fljótir að leita ráða hjá lögfræðingi þegar spenna myndast í hjónabandi þeirra. Þeir gleyma að réttarkerfi margra landa er velsmurð vél ætluð til að auðvelda hjónaskilnaði. Þegar öllu er á botninn hvolft græða lögfræðingar á skilnaðarmálum en ekki sáttum hjóna.

En þér er kannski spurn hvort það kunni ekki að vera eitthvað til í því sem allir þessir lögfræðingar, fjölskylduráðgjafar, hjónaráðgjafar, félagsráðgjafar, fjölmiðlafólk og jafnvel vinir og kunningjar, sem hafa tiltölulega milda afstöðu til hjónaskilnaða, segja. Geta svona margir haft rangt fyrir sér í jafnmikilvægu máli? Þeirri spurningu má svara með því að líta á nokkur af eftirköstum hjónaskilnaða.

[Neðanmáls]

a Sjá Varðturninn (enska útgáfu) þann 15. júlí 1989, bls. 8-9; 15. maí 1988, bls. 4-7; íslensku útgáfuna þann 1. september 1989, bls. 24-26.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Sumum fjölskyldu- og hjónaráðgjöfum er betur lagið að ýta undir hjónaskilnaði en stuðla að varðveislu hjónabandsins.