Vélhjól — hve hættuleg eru þau?
Vélhjól — hve hættuleg eru þau?
Eftir fréttaritara Vaknið! í Japan.
VÉLHJÓLIÐ hans Susumus rann mjúklega eftir veginum þegar hann sá skyndilega bifreið beygja inn á akreinina sem hann var á. Það næsta sem hann sá var þak á húsi er hann hentist upp í loftið. Hann kom niður á höfuðið og aðra öxlina. Sprunga í miðjum hjálminum gaf til kynna hve höggið hefði verið þungt. Hann lifði slysið af en annar fótleggurinn var brotinn og beygður eins og U.
Þetta vélhjólaslys var ekkert óvenjulegt. Kanadíska dagblaðið The Globe and Mail segir að á einu ári hafi 166.000 Bandaríkjamenn verið lagðir inn á spítala eftir vélhjólaslys. „Þar af dóu 4700,“ segir blaðið. „Margir fleiri hlutu varanleg örkuml.“ Blaðið segir að vélhjólaslysum hafi fjölgað um helming á Kanada á tíu árum. Og í Japan létust 2575 vélhjólamenn árið 1989. Af þeim voru yfir 70 af hundraði á aldrinum 16 til 24 ára og eru þá slys á reiðhjólum með hjálparvél ekki meðtalin.
Hvernig eru þessar tölur í samanburði við bifreiðaslys? Tryggingafélög halda því fram að í sumum löndum sé dánartíðni miðað við ekna vegalengd um nífalt hærri fyrir ökumenn og farþega vélhjóla en bifreiða. Hvað veldur þessari háu dánartíðni? Tímaritið Consumer Reports nefnir þrjár ástæður: (1) Það er erfiðara að sjá vélhjól en bifreið. (2) Vélhjól veitir ökumanninum litla eða enga vernd. (3) Vélhjól lætur öðruvísi að stjórn en bifreið — ef það rennur er hætt við að það fari á hliðina. Engin furða er að margir skuli telja vélhjól hættuleg. En sumir eru á öðru máli og segja vélhjól hafa ýmsa kosti. Hvað finnst þér?
Það er að sjálfsögðu erfitt að slá vélhjóli við sem hagkvæmu samgöngutæki. Sérlega eru þau sparneytin á eldsneyti. Consumer Report segir að meðalstórt vélhjól eyði 3,3 til 4,0 lítrum eldsneytis á hverjum 100 kílómetrum. Auk þess eru hjólbarðarnir aðeins tveir. Af öðrum kostum má nefna að það er lipurt í meðhöndlun, lítill vandi er að finna stæði handa því og verðið er lægra en á bifreið. En margir sem hefðu efni á að aka dýrri bifreið kjósa vélhjólið eigi að síður. Hvers vegna?
Helsta aðdráttaraflið
Flestir vélhjólaunnendur viðurkenna að helsta aðdráttarafl vélhjólanna sé spennan sem fylgir því að aka þeim. „Kannski er það hljóðið í þeim,“ segir einn vélhjólaunnandi. Drunurnar í ensku tveggja strokka hjóli, veinið í japönsku hjóli með margstrokka tvígengisvél eða malið í hjóli með margstrokka fjórgengisvél — allt er þetta eins og tónlist í eyrum vélhjólaunnenda.
Í hugum sumra vélhjólaunnenda er það frelsiskenndin sem heillar og finna að maður hafi fulla stjórn á hjólinu. Einn segir: ‚Það er spennandi að finna fyrir tækinu sem er undir manni, að vita að það svarar öllum duttlungum manns og skipunum, að halla sér í beygjunum og vita að það flytur mann örugglega á áfangastað.‘ Þetta sambland hljóðs, hraða og frelsiskenndar getur höfðað til þín líka. En þarna er hætta á ferðum. Þessi hrifning og spenna getur orðið að ástríðu.
Sérstaklega er unga fólkið í hættu. „Maður verður hræddur þegar maður sér krappa beygju framundan,“ segir fyrrverandi meðlimur vélhjólagengis, „en spenningurinn samfara því að ná beygjunni á miklum hraða án þess að renna til er æsandi. Ég leitaði uppi sífellt krappari beygjur og fór þær á sífellt meiri hraða.“ Yoshio, sem var með vélhjóladellu, segir: „Ég fór út á hjólinu hvernig sem viðraði vegna þess að það það veitti mér sælukennd. Það var eins og fíkniefni fyrir mig.“ Og Susumu, sem áður er getið, segir: „Það skipti mig engu máli hvort ég dræpi mig eða ekki — ég varð að komast á hjólið.“ Hann var því kominn af stað á vélhjóli á nýjan leik áður en hann var laus við gifsumbúðirnar af brotna fætinum. Hann játar: „Ég var vélhjólafíkill.“
‚Ætti ég að aka vélhjóli?‘
Þú skalt því vega þessar hliðar öryggis og aðdráttarafls hverja gegn annarri þegar þú ígrundar hvort þú eigir að aka vélhjóli. Og ef þú ert kristinn og lætur þér annt um hreina samvisku og virðir Biblíuna ættir þú líka að íhuga nokkra ritningarstaði.
Orðskviðirnir 6:16, 17 telja til dæmis upp sjö hluti sem eru Jehóva andstyggð. Einn þeirra er „hendur sem úthella saklausu blóði.“ Lögmálið, sem gefið var Ísarelsþjóðinni til forna, segir okkur meira um viðhorf Jehóva til þess að úthella saklausu blóði. Lögmálið segir: „Hafi uxinn verið mannýgur áður og eigandinn verið látinn vita það, og geymir hann ekki uxans að heldur, svo að hann verður manni eða konu að bana, þá skal grýta uxann, en eigandi skal og líflátinn verða.“ (2. Mósebók 21:29) Við erum, með öðrum orðum, ábyrg fyrir eignum okkar.
Ef þú hyggst verða þér úti um vélhjól má því spyrja hvernig þú ætlir að nota það og hvers konar gerð þú ætlir að velja þér. Eitt af kraftmiklu, hraðskreiðu vélhjólunum sem oft koma við sögu þegar dauðaslys verða? Ef svo er má spyrja hvort þú sért laus undan blóðskuld ef þú lendir í slysi. Og hvað um þitt eigið líf, jafnvel þótt þú valdir ekki öðrum tjóni? Ert þú að sýna virðingu fyrir þeirri gjöf sem lífið er ef þú tekur hættulegar beygjur á miklum hraða aðeins vegna spenningsins sem fylgir því?
Þessi meginregla gildir einnig um viðhald vélhjólsins sem þú átt eða ætlar að eignast. Vélhjólið þitt getur svo að segja breyst í ‚mannýgt naut‘ ef þú gætir þess ekki að halda hemlunum í góðu lagi. Auk þess ættir þú að kanna ástand keðju og vélar í hvert sinn áður en þú notar vélhjólið. Og hvað um það að valda nágrönnunum óþægindum með hraðakstri og hávaða?
Ef þú ert vélhjólaunnandi er vélarhljóðið kannski eins og tónlist í eyrum þér, en það eru ekki allir sama sinnis. Svo mjög fer hljóðið í taugarnar á sumum að þeir grípa til ofbeldisverka. Að sögn dagblaðsins Nara Shimbun kastaði ævareiður Japani viðarbút í vélhjól sem ók framhjá. Ökumaðurinn, 16 ára meðlimur vélhjólagengis, lést. Dagblaðið Asahi Shimbun sagði frá öðrum manni sem strekkti reipi yfir slóð sem algengt var að vélhjólagengi færu um. Reipið lenti á hálsinum á ungum manni á
vélhjóli og kyrkti hann. Og þegar dagblaðið bauð lesendum sínum að tjá sig um hávaðamengun af völdum vélhjóla létu sumir í ljós samúð með þeim sem gripu til þessara aðgerða gegn vélhjólamönnunum.Biblían fordæmir að sjálfsögðu slík ofbeldisverk. Á hinn bóginn ættu vélhjólamenn ekki að skaprauna öðrum með því að aka um íbúðahverfi á vélhjólum án hljóðdeyfis, eins og vélhjólagengi gera stundum. Við ættum auðvitað að leggja okkur fram um að lifa samkvæmt því lögmáli sem Jesús Kristur gaf fylgjendum sínum: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ — Matteus 22:39.
Heilbrigð hugsun
Ber að skilja þetta svo að þú eigir ekki að nota vélhjól? Nei, en þú þarft að hugsa skynsamlega. Fyrir marga er vélhjól þægilegt og hentugt samgöngutæki á viðráðanlegu verði. Í sumum löndum eru vélhjól hins vegar fyrst og fremst notuð til skemmtunar. Þau geta verið skemmtileg, en vertu varkár. Láttu ekki fíkn í hraða og vélarafl vera góðri dómgreind yfirsterkari.
Sumir sem lifðu fyrir vélhjólin sín hafa söðlað um og lifa nú fyrir það að þóknast Guði. Yoshio var til dæmis vanur að aka kraftmiklum vélhjólum en núna segir hann: „Þegar ég var á vélhjólinu spennunnar vegna var ég að þóknast sjálfum mér og engum öðrum. Núna nýt ég þeirrar ánægju að gefa, með því að starfa sem kristinn þjónn orðsins.“ Vitandi það að hann ræður ekki við sig ef hann sest upp á vélhjól ákvað hann að endurnýja ekki skírteinið sitt.
Fyrrverandi meðlimur vélhjólagengis í Hokkaido í Japan segir: „Ég var vanur að nota vélhjólið til að sýna mig. Ég var á kafi í fíkniefnum vegna hins slæma félagsskapar í vélhjólagenginu.“ En síðan fór hann að hugsa um framtíðina. Hann leitaði fyrir sér meðal nokkurra trúfélaga og fann loks sannleikann með því að nema Biblíuna með vottum Jehóva.
Og hvað um Susumu? Það er ekki lengur þungamiðja lífsins hjá honum að aka vélhjóli. Susumu, ásamt vélhjólaunnendunum tveim sem minnst er á hér á undan, þjónar nú í fullu starfi sem kristinn þjónn orðsins. Einn þeirra skipti á stóra vélhjólinu, sem hann átti, og skellinöðru sem hann notar til að komast leiðar sinnar er hann útbreiðir sannleika Biblíunnar meðal annarra.
Já, vélhjól getur verið hentugt samgöngutæki en það þarf að nota það skynsamlega og virða tilfinningar annarra.
[Rammi á blaðsíðu 28]
ÖRYGGISÁBENDINGAR HANDA ÞEIM SEM AKA VÉLHJÓLI
▪ Aktu með ítrustu varúð: Það þarf leikni og mikla samstillingu til að stýra, auka hraðann og hemla.
▪ Aktu ekki á miðri akrein: Þar safnast fyrir rusl og olía sem lekur úr bílum.
▪ Vertu vel búinn: Notaðu alltaf hjálm. Hanskar, góður jakki og stígvél vernda þig einnig.
▪ Aktu alltaf með ökuljósin kveikt: Aðrir ökumenn sjá þig betur.
▪ Settu endurskinsband á hjálminn: Þannig sést þú betur í myrkri.
▪ Aktu eins og þér stafi hætta af öðrum vegfarendum: Reiknaðu ekki með að bifreiðastjórar leyfi þér að hafa réttinn.
▪ Aktu ekki vélhjóli undir áhrifum áfengis eða lyfja.
▪ Veldu þér vélhjól sem þú ræður við.