Ætlar þú að fylgja læknisráð?
Ætlar þú að fylgja læknisráð?
Hver er ábyrgð læknisins þegar tóbaksreykingar eiga í hlut? Sú ein að meðhöndla þá sem eru sjúkir af völdum reykinga? Dr. Louis Sullivan, heilbrigðis- og tryggingaráðherra Bandaríkjanna, telur að læknar eigi að gera miklu meira en það. Hann skrifaði fyrir nokkru í The Journal of the American Medical Association: „Sú ábyrgð hvílir á lækninum að upplýsa sjúklinginn um áhrif reykinga á heilsu hans, að hjálpa þeim sem ekki reykja að byrja aldrei á því og að hjálpa reykingamönnum að hætta.“
Hvers vegna ættu læknar að blanda sér með þessum hætti í lífshætti sjúklinga sinna?
Dr. Sullivan segir: „Reykingar eru byggðar á valfrelsi, en þær eru slæmt val.“ Hann færir fram áhrifamikil sönnunargögn: „Árlega drepa reykingar næstum 400.000 Bandaríkjamenn; það svarar til ríflega 1000 manns á dag og meira en eins dauðsfalls af hverjum sex í landinu. Á hverju ári deyja fleiri Bandaríkjamenn úr sjúkdómum af völdum reykinga en féllu í síðari heimsstyrjöldinni.“
Sullivan nefnir einnig ýmsar ískyggilegar uppgötvanir í sambandi við konur: „Lungnakrabbamein er nú komið fram úr brjóstkrabbameini sem algengasta dánarorsök kvenna. Reykingakonum er þrefalt hættara við hjartaáfalli en konum sem aldrei hafa reykt, og reykingakonur hætta á heilsubrest og dauða af völdum lungnaþembu og annarra sjúkdóma af völdum reykinga. Meiri hætta er á að konur sem reykja missi fóstur en þær sem ekki reykja, ali undirmálsbörn og eins er meiri hætta á ungbarnadauða hjá þeim.“
Dr. Sullivan bendir á að enda þótt þessar hrikalegu staðreyndir blasi við sé enn þrýst töluvert á fólk um að reykja. Hann fordæmir „fyrirlitlegar“ sígarettauglýsingar sem beint er að minnihlutahópum. Hann lætur einnig í ljós ugg sinn yfir því með hve slóttugum hætti ungar, aðlaðandi fyrirsætur í björtu, sólríku umhverfi eru notaðar til að stinga því að unglingum að reykingar séu heilsusamlegar og spennandi. Veruleikinn er sá að breytist reykingatíðnin ekki gætu fimm milljónir núlifandi barna átt eftir að deyja úr sjúkdómum af völdum tóbaksreykinga. ‚Það er stórslys sem við verðum að koma í veg fyrir,“ segir dr. Sullivan til áminningar starfsbræðrum sínum.
Vafasamt er að læknar muni í raun koma í veg fyrir þetta stórslys. Eins og dr. Sullivan bendir á :„Því miður halda sumir læknar áfram að reykja og setja þannig sjúklingum sínum og starfsmönnum slæmt fordæmi, og senda öllum sem þekkja þá boðskap sem gengur í berhögg við gott heilsufar.“