Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Alkóhólisti í fjölskyldunni

Alkóhólisti í fjölskyldunni

Alkóhólisti í fjölskyldunni

„Alkóhólismi innifelur alkóhólista . . . Þótt það sé aðeins einn alkóhólisti í fjölskyldunni er öll fjölskyldan fórnarlamb alkóhólismans.“ — Dr. Vernon E. Johnson.

LÍSA litla, fimm ára, lá sárkvalin í rúminu sínu. Hún hafði slasast tveim dögum áður þannig að annar fótleggurinn þurfti að vera í gifsi. En gifsumbúðirnar voru of þröngar og fótleggurinn var bólginn undan þrýstingnum. Lísa sárbændi foreldra sína um að fara með sig til læknis, en faðir hennar var með timburmenn og móðir hennar var eins og milli steins og sleggju og vissi varla hvort þeirra þarfnaðist hennar meir.

Eftir nokkra daga var fótleggurinn orðinn dofinn. Þegar dökk vilsa fór að drjúpa af tánni ruku foreldrar Lísu loks með hana á spítala. Er gifsumbúðirnar voru teknar af blasti við svo ófögur sjón að ein hjúkrunarkonan féll í ómegin. Drep var komið í fótlegginn svo að það þurfti að taka hann af.

Alkóhólismi og meðvirkni

Að baki þessum hörmulega atburði liggur annar og meiri harmleikur. Faðir Lísu var ofdrykkjumaður, alkóhólisti, og var sem slíkur ófær, bæði tilfinningalega og líkamlega, um að sinna dóttur sinni þegar hún þarfnast sárlega hjálpar hans. „Það liggur í eðli alkóhólismans að alkóhólistinn setur fjölskylduna sísta — á eftir áfenginu og öllu sem það krefst af honum,“ segir ráðgjafinn Toby Rice Drews.

En hvað um móður Lísu? Hún var líka ánetjuð á vissan hátt, ekki áfenginu heldur drykkjusjúkum eiginmanni sínum. Að jafnaði er maki ofdrykkjumannsins algerlega upptekinn af því að reyna að koma í veg fyrir að hann drekki, eða í það minnsta upptekinn af því að takast á við óútreiknanlegt hátterni hans. Makinn verður svo altekinn af vandamáli alkóhólistans að hann sýnir sömu ánetjunareinkenni — en án áfengisins. Þess vegna er oft sagt að fólk eins og móðir Lísu sé meðvirkt.

Bæði alkóhólistinn og hinn meðvirki láta óafvitandi stjórnast af einhverju eða einhverjum öðrum en sjálfum sér. Bæði láta afneitun blinda sig. Hvorugt þeirra er tilfinningalega tiltækt til að sinna börnum sínum. Bæði búa við sífelld vonbrigði því að á sama hátt og ofdrykkjumaðurinn hefur ekki hemil á drykkjunni hefur hinn meðvirki ekki hemil á ofdrykkjumanninum og hvorugt þeirra ræður við þau áhrif sem ofdrykkjan hefur á börn þeirra.

En alkóhólistanum og fjölskyldu hans eru þó ekki allar bjargir bannaðar. Greinin á eftir fjallar um hvað geti hjálpað þeim.