Eru reknetaveiðar á undanhaldi?
Eru reknetaveiðar á undanhaldi?
ALLSHERJARÞING Sameinuðu þjóðanna kallar þær „afar skipulagslausar og skaðlegar.“ Alþjóðaumhverfis- og þróunarstofnunin IIED í Lundúnum lýsir þeim sem „verulegri ógnun við sjávarlíf.“ Sextán Kyrrahafsþjóðir fordæma þær sem „óréttlætanlega rányrkju.“ Ljóst er að reknetaveiðar sæta hörðum árásum um allan heim. Hvers vegna?
Reknet — net sem hanga lóðrétt í sjónum eins og tjöld og eru látin reka um hafið — hafa verið notuð á grunnsævi um þúsundir ára. Síðla á áttunda áratugnum jukust úthafsreknetaveiðar hins vegar svo gríðarlega að núna kembir floti yfir þúsund japanskra, taívanskra og suður-kóreskra skipa Kyrrahaf, Atlantshaf og Indlandshaf í leit að smokkfiski, úthafstúnfiski, hvíta merlingi og laxi. Með því að hvert skip leggur út risanet sem eru, að því er sumir telja, allt að 11 metra djúp og 50 kílómetra löng, svara sameinuð veiðinet alls flotans um 50.000 kílómetrum — og myndu ná umhverfis hnöttinn og meira en það, væru þau lögð enda við enda!
„Heltjöld“
Netin eru úr næloni, nánast ósýnileg og svo afkastamikil að þau gætu, að sögn fréttarits Alþjóðaumhverfis- og þróunarstofnunarinnar, IIED Perspectives, „gert út af við úthafstúnfiskveiðar á Suður-Kyrrahafi innan tveggja ára ef heldur fram sem horfir.“ Sjávarlíffræðingurinn Sam LaBudde segir að reknetaveiðar séu sem veiðiaðferð sambærilegar við „það að fella öll tré í heilum skógi til að ná í aðeins eina trjátegund, eða að fella eikartré aðeins til að ná í hneturnar.“ Í leiðinni sópar þessi stærsti fiskveiðifloti í heimi reyndar líka upp í tonnatali aukaafla svo sem túnfiski, gullinrafa, bláa merlingi, sverðfiski og regnbogasilungi sem er í búferlaflutningi.
Að sögn James M. Coe, vísindamanns við National Marine Fisheries Service í Bandaríkjunum, bendir margt til þess að Asíuflotinn veiði ólöglega mikið magn af laxi sem nær aldrei heim í upprunaár sínar í Norður-Ameríku til hrygningar.
Ekki bætir úr skák að otrar, selir, höfrungar, hnísur, hvalir, sæskjaldbökur og sjófuglar festast í þúsundatali í reknetunum, limlestast og drukkna. Engin furða er að vísindamenn skuli í vaxandi mæli líkja áhrifum reknetaveiða á lífríki hafsins við yfirborðsnámugröft þar sem mikil landspjöll eru unnin til að grafa verðmæt efni úr jörð, og tala um reknetin sem „heltjöld“!
Þessar samlíkingar virðast fyllilega við hæfi. Í nýlegri skýrslu frá viðskiptaráðherra Bandaríkjanna segir að í aðeins þrem veiðiferðum hafi þrjú skip af slysni veitt ‚einn randhöfrung, 8 hnísur, 18 Alaskaloðseli, 19 hvítsíðunga [höfrungategund] og 65 snoðbaka [hvaltegund].‘
Í skýrslu, sem lögð var fyrir Sameinuðu þjóðirnar á síðasta ári, sagði að samfara veiðum 106 milljóna smokkfiska í reknet hafi Japanir drepið 39 milljónir fiska sem ekki voru nýttir. Af þeim hluta aflans, sem ekki var nýttur, má einnig nefna 700.000 hákarla,
270.000 sjófugla, 26.000 sjávarspendýr og 406 sæskjaldbökur sem eru í útrýmingarhættu.Sjávarlíffræðingar eru sannfærðir um að verði reknetaveiðunum haldið áfram eftirlitslaust sé „óhjákvæmilegt að þær þurrausi náttúruauðlind sem einu sinni var talin óþrjótandi.“ Ekki er ólíklegt að þegar sé orðið verulegt tjón. Árið 1988 sagði skipstjóri á fiskiskipi líffræðingnum LaBudde: „Við drepum ekki nándar nærri jafnmarga höfrunga og við gerðum.“ LaBudde segir þar um: „Það stafar sennilega af því að það eru ekki ýkja margir höfrungar eftir til að drepa.“
Alþjóðasamvinna í sjónmáli
Nýverið hafa hins vegar heyrst háværar raddir, allt frá Lundúnum til Washington og frá Alaska til Nýja-Sjálands, um aðgerðir gegn reknetaveiðum og gerðar hafa verið vissar ráðstafanir til að þvinga útgerðarmenn til að minnka flotana og fækka netunum fyrir fullt og allt. Nefnum dæmi: Nokkur Suður-Kyrrahafsríki samþykktu hina svonefndu
Wellington-ályktun (á Nýja-Sjálandi) sem heimilaði þeim að banna reknetaveiðar innan 200 mílna fiskveiðilögsögu sinnar og banna sínum eigin fiskimönnum að nota reknet nokkurs staðar á Suður-Kyrrahafi.Í desember 1989 var í einni af ályktunum Sameinuðu þjóðanna mælt með stöðvun reknetaveiða í stórum stíl á úthöfunum frá og með 30. júní 1992. World Watch-stofnunin sagði að verði reknetaveiðar ekki stöðvaðar eigi mannkynið „litla von um að vernda höfin handa komandi kynslóðum“ og bætti svo við: „Við verðum að ná umfangsmiklu alþjóðasamkomulagi.“ Suður-Kyrrahafsríki, sem standa að sameiginlegu fiskveiðiráði, lögðu til að sett yrði á laggirnar alþjóðanefnd um stjórn fiskveiða og hvatti fiskimenn til að taka upp ábyrgar veiðiaðferðir.
En hefur hinn alþjóðlegi þrýstingur einhver áhrif? Já, svo sannarlega!
Þann 26. nóvember 1991 féllust Japanir á að „hlíta banni Sameinuðu þjóðanna við notkun stórra fiskineta á norðurhluta Kyrrahafs sem vísindamenn kenna um stórkostlega eyðingu sjávarlífs.“ Ákvörðunin „setti niður deilu sem stefndi í að spilla enn frekar orðstír Japana á sviði umhverfismála.“ Japanir féllust á að minnka reknetaveiðar sínar um helming fyrir júní 1992 og hætta þeim með öllu fyrir árslok.
Daginn eftir sagði í ritstjórnargrein í The New York Times: „‚Sætur sigur í umhverfismálum í heiminum,‘ sagði sjávarlíffræðingur sem var í sjöunda himni yfir tilkynningu Japana á þriðjudag um að þeir myndu hætta reknetaveiðum sínum fyrir lok næsta árs [1992].“
Í frétt í tímaritinu Time þann 9. desember 1991 sagði að Taívan og Kóreska lýðveldið hafi gefið í skyn að þau myndu einnig hætta reknetaveiðum.
„Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu, þar er óteljandi grúi, smá dýr og stór.“ — Sálmur 104:25.
[Myndir á blaðsíðu 15]
Skip á reknetaveiðum.
[Rétthafi]
Ljósmynd: Steve Ignell, ABL
Beinagrind af sæotri flækt í glötuðu rekneti.
[Rétthafi]
Ljósmynd: T. Merrell
[Myndir á blaðsíðu 16]
Sjófuglar festast í reknetum og drepast.
[Rétthafi]
Ljósmynd: A. Degànge
Dallshnísa föst í rekneti
[Rétthafi]
Ljósmynd: N. Stone