Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hjálp handa uppkomnum börnum alkóhólista

Hjálp handa uppkomnum börnum alkóhólista

Hjálp handa uppkomnum börnum alkóhólista

„Ef maður elst upp í fjölskyldu alkóhólista verður maður að koma lagi á þann brenglaða lærdóm og greiða úr þeim tilfinningaflækjum sem það uppeldi hafði í för með sér. Hjá því verður ekki komist.“ — Dr. George W. Vroom.

ILLA særður hermaður liggur blæðandi á stríðsvellinum. Hjálp berst innan skamms og særði hermaðurinn er fluttur í skyndingu á spítala. Hann lifir en vandamál hans eru fjarri því að vera úr sögunni. Búa þarf um sár hans og hið sálræna áfall, sem þessi þolraun hafði í för með sér, getur fylgt honum svo árum skiptir.

Fyrir börn, sem eiga drykkjusjúkt foreldri, getur heimilið verið eins og stríðsvöllur þar sem frumþarfir mannsins sæta árásum. Sum börn sæta kynferðislegri misnotkun, öðrum er misþyrmt og mörg eru svelt tilfinningalega. „Þetta er sama, óstjórnlega skelfingin og getur gripið krakka þegar hann heyrir sprengjur falla eða vélbyssuskothríð í kringum húsið,“ segir ungur maður er hann lítur um öxl til bernskuáranna. Engin furða er að börn alkóhólista sýna oft sams konar einkenni og fyrrverandi hermenn sem tekið hafa þátt í bardaga — endurtekin kvíða- og þunglyndisköst, eiga erfitt með að mynda náin tilfinningatengsl og sýna stundum ofbeldishneigð.

Mörg börn standa að vísu af sér þessi sálrænu áföll og flytjast að heiman þegar þar að kemur, en þegar þau ná fullorðinsaldri bera þau sár sem eru að vísu ekki sýnileg en eru eigi að síður jafnraunveruleg og þrálát og sár hermannsins. „Ég er orðin sextug,“ segir Gloria, „en þau sálrænu áföll, sem fylgdu því að fæðast inn í fjölskyldu þar sem annað foreldranna var alkóhólisti, hafa enn áhrif á líf mitt.“

Hvað er hægt að gera til að hjálpa slíku fólki? ‚Deilið sorginni með þeim,‘ ráðleggur Biblían. (Rómverjabréfið 12:15, Phillips) Til að gera það verðum við að skilja hvernig sár það eru sem sambýli við alkóhólista skilja oft eftir.

„Ég átti aldrei neina bernsku“

Börn þarfnast góðrar aðbúðar, hlýju og stöðugrar ástúðar. Slíka athygli skortir oft í fjölskyldu alkóhólista. Í sumum tilvikum eiga sér stað hlutverkaskipti og til þess ætlast að barnið annist foreldrana. Albert var til dæmis fyrirvinna fjölskyldunnar 14 ára gamall! Ung stúlka, Jan að nafni, bar hita og þunga af heimilisstörfunum í stað drykkjusjúkrar móður sinnar. Hún sá líka mestan part um systkini sín — og hún var ekki nema sex ára gömul þegar hún þurfti að taka að sér þetta hlutverk!

Börn eru ekki fullorðið fólk og þau geta hreinlega ekki gegnt hlutverki fullorðinna. Þegar höfð eru endaskipti á hlutverkum foreldra og barna er eðlilegum þörfum barnanna ekki fullnægt, og það sýnir sig þegar þessi börn komast á fullorðinsár. (Samanber Efesusbréfið 6:4.) Fjölskylduráðgjafinn John Bradshaw segir: „Þau vaxa úr grasi og ná fullum líkamsþroska. Þau líta út og tala eins og fullorðnir en innra með þeim er óseðjandi lítið barn sem fékk þörfum sínum aldrei fullnægt.“ Slíkum einstaklingum er gjarnan innanbrjósts eins og kristnum manni sem segir: „Ég ber enn með mér botnlausar kvalir vegna þess að tilfinningalegum frumþörfum mínum var ekki fullnægt þegar ég var barn.“

„Það hlýtur að vera mér að kenna“

Róbert var ekki nema 13 ára þegar faðir lést af slysförum. „Ég reyndi að vera góður,“ segir Róbert og horfir í gaupnir sér. „Ég veit að ég gerði ýmislegt sem var honum á móti skapi, en ég var ekki slæmur krakki.“ Róbert var um langt árabil með þunga sektarkennd yfir ofdrykkju föður síns. Hann var orðinn 74 ára er hann sagði orðin hér að ofan!

Það er mjög algengt að börn kenni sjálfum sér um ef annað foreldranna er alkóhólisti. Sjálfsásökun fær barn til að ímynda sér að það ráði við aðstæðurnar. Eins og Janice segir: „Ég hélt að faðir minn myndi ekki drekka aftur ef ég væri betri.“

Veruleikinn er auðvitað sá að ekkert barn — eða fullorðinn — getur valdið, stjórnað eða læknað annan mann af áfengisfíkn. Ef annað foreldra þinna er alkóhólisti er það alls ekki þér að kenna, hvað sem þér hefur verið sagt eða einhver gaf í skyn við þig! Og ef til vill þarft þú að íhuga vandlega hvort þér finnst enn, eftir að þú ert uppkominn, að þú berir umfram það sem eðlilegt er ábyrgð á verkum og hátterni annarra. — Samanber Rómverjabréfið 14:12; Filippíbréfið 2:12.

„Ég get ekki treyst neinum“

Traust byggist á hreinskilni og heiðarleika. Umhverfi alkóhólistans byggist á leynd og afneitun.

Sem unglingur vissi Sara af því að faðir hennar væri alkóhólisti. Hún segir þegar hún rifjar upp þann tíma: „Ég var nóg fyrir mig að hugsa um orðið [alkóhólisti] til að vekja upp sektarkennd vegna þess að enginn annar í fjölskyldunni vildi segja það.“ Susan segir frá svipaðri reynslu: „Enginn í fjölskyldunni talaði nokkurn tíma um hvað væri að gerast, hve óhamingjusamir þeir væru eða hve reiðir þeir væru við [drykkjusjúkan stjúpföður minn]. Ég held að ég hafi bara látið eins og þessar aðstæður væru ekki fyrir hendi.“ Þannig er sá veruleiki að annað foreldranna sé alkóhólisti oft hjúpaður afneitun. „Ég lærði að sjá ekki suma hluti vegna þess að ég hafði séð nóg,“ segir Susan.

Það brýtur líka niður traustið hve ósamkvæmur alkóhólistinn er sjálfum sér. Hann var glaðvær í gær en er geðillur í dag. „Ég vissi aldrei hvenær reiðistormurinn skylli á,“ segir Martin sem nú er fullorðinn en átti drykkjusjúka móður. Ofdrykkjumaðurinn svíkur loforð, ekki vegna kæruleysis heldur einfaldlega vegna áfengisins. Dr. Claudia Black segir: „Alkóhólistinn er svo upptekinn af því að drekka að það gengur fyrir öllu. Allt annað er aukaatriði.“

„Ég fel tilfinningar mínar“

Þegar börn geta ekki deilt tilfinningum sínum með öðrum svo þægilegt sé læra þau að bæla þær niður. Þau fara í skólann „með bros á vör og hnút í maganum,“ segir í bókinni Adult Children — The Secrets of Dysfunctional Families, og þau voga sér ekki að segja nokkrum frá hvernig þeim líður af ótta við að opinbera leyndarmál fjölskyldunnar. Út á við er allt í stakasta lagi; hið innra krauma bældar tilfinningar.

Þegar kemur fram á fullorðinsár renna allar tilraunir til að fela tilfinningarnar undir ytri hjúp yfirleitt út í sandinn. Ef ekki er hægt að tjá tilfinningarnar með orðum geta þær brotist út líkamlega — sem magasár, sífelldur höfuðverkur og svo framvegis. „Tilfinningarnar voru bókstaflega að gera út af við mig,“ segir Shirley. „Ég var var með alla líkamlega kvilla sem til eru.“ Dr. Timmen Cermak segir: „Fullorðin börn taka á streitu með því að afneita henni, en það er ekki hægt að blekkja móður náttúru. . . . Líkami, sem haldið er uppspenntum svo árum skiptir, tekur að brotna niður.“

Að ná sér eftir bernskuárin

Uppkomin börn alkóhólista eru sterk; það að þau skuli hafa lifað af sálræn áföll bernskuáranna ber vitni um það. En það er ekki nóg aðeins að þrauka bernskuárin, því að þau þurfa að tileinka sér ný hugtök á samskiptavettvangi fjölskyldunnar. Þau geta þurft að takast á við sektar- og reiðitilfinningu og litla sjálfsvirðingu. Uppkomin börn alkóhólista verða að beina kröftum sínum að því að íklæðast því sem Biblían kallar ‚nýja persónuleikann‘ eða ‚hinn nýja mann.‘ — Efesusbréfið 4:23, 24; Kólossubréfið 3:9, 10.

Það er ekki auðhlaupið að því. LeRoy, uppkomið barn alkóhólista, baslaði í 20 ár við að framfylgja meginreglum Biblíunnar í sinni eigin fjölskyldu. „Þegar ég fékk allar hinar kærleiksríku leiðbeiningar frá Félaginu í Fjölskyldubókinni og öðrum ritum náði ég ekki að meðtaka heildarhugmyndina. a Afleiðingin var sú að mér tókst ólánlega til við að notfæra mér upplýsingarnar. . . . Án tilfinninga reyndi ég á vélrænan hátt að finna reglur og fara eftir þeim, líkt og farísearnir.“ — Sjá Matteus 23:23, 24.

Oft er ekki nóg að segja einstaklingum eins og LeRoy að „vera kærleiksríkari“ eða að „eiga tjáskipti“ eða að „aga börnin.“ Hvers vegna? Vegna þess að fullorðið barn hefur kannski aldrei kynnst þessum eiginleikum eða aðferðum og kann því ekki að tjá þá eða líkja eftir þeim. LeRoy leitaði ráðgjafar til að skilja þau áhrif sem ofdrykkja föður hans hefði haft á hann. Það ruddi andlegri framför hans braut. „Enda þótt þetta hafi verið mjög sársaukafullt æviskeið hefur það jafnframt verið tími mikils, andlegs vaxtar,“ segir hann. „Í fyrsta sinn á ævinni finnst mér ég vera farinn að þekkja nákvæmlega hvað kærleikur Guðs er.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:3.

Kristin kona, Cheryl, naut góðs af hjálp félagsráðgjafa sem var reyndur í fjölskyldumálum alkóhólista. Hún gerði einnig skilngingsríkan öldung að trúnaðarvini sínum. „Það var ekki fyrr en ég losnaði við öll smánarleg leyndarmál sem ég gat átt frið við Jehóva og sjálfa mig,“ segir hún. „Núna lít ég á Jehóva sem föður minn (sem ég gat aldrei gert áður) og mér finnst ég ekki lengur jafnsvikin yfir því að ég skyldi aldrei njóta þeirrar ástar og leiðsagnar míns jarðneska föður sem ég þarfnaðist.“

Amy, uppkomin dóttir alkóhólista, komst að raun um að það hjálpaði henni mikið að vinna að því að þroska ‚ávöxt andans.‘ (Galatabréfið 5:22, 23) Hún lærði einnig að trúa skilningsríkum öldungi fyrir hugsunum sínum og tilfinningum. „Hann minnti mig á hvers velþóknun ég vildi raunverulega sækjast eftir,“ segir Amy, „velþóknun Jehóva Guðs og Jesú Krists. Það að sækjast eftir kærleika þeirra og velþóknun er aldrei sjálfseyðandi.“

Fullnaðarlækning

Í Biblíunni er að finna loforð Jesú Krists þess efnis að þeir sem komi til hans með þunga áhyggjubyrði hljóti hvíld og hressingu. (Matteus 11:28-30) Enn fremur er Jehóva kallaður „Guð allrar huggunar, sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri.“ (2. Korintubréf 1:3, 4) Maureena segir: „Ég kynntist Jehóva sem Guði er myndi aldrei yfirgefa mig líkamlega, hugarfarslega eða tilfinningalega.“

Við lifum þann tíma sem Biblían kallar síðustu daga, tíma þegar margir — jafnvel innan fjölskyldunnar — myndu verða ‚lastmálir, kærleikslausir og grimmir.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:2, 3) En Guð heitir því að innan skamms muni hann koma á friðsömum nýjum heimi þar sem hann mun þerra öll tár og þurrka út alla sorg. (Opinberunarbókin 21:4, 5) Kristinn maður, sem ólst upp hjá drykkjusjúku foreldri, segir: „Við vonum að við munum öll bjargast saman inn í nýja heiminn þar sem við munum hljóta fullnaðarlækningu sem Jehóva einn getur veitt.“

SAGA KONU

„Ég er uppkomið barn alkóhólista. Faðir minn varð alkóhólisti þegar ég var átta ára. Hann varð ofbeldishneigður þegar hann drakk. Mér er minnisstæð sú skelfing sem greip alla fjölskylduna. Á þeim tíma sem ég átti að eiga hamingjurík æskuár lærði ég að bæla niður tilfinningar mínar, þarfir, langanir og vonir. Pabbi og mamma voru allt of upptekin af því að kljást við vandamál hans til að hafa nokkurn tíma aflögu handa mér. Ég var ekki þess virði fyrir þau að eyða tíma í mig. Ég fékk á tilfinninguna að ég væri einskis virði. Þegar ég var átta ára var því hlutverki þröngvað upp á mig að hætta að vera barn — að verða fullorðin í einu vetfangi og axla fjölskylduábyrgðina. Líf mitt var sett til hliðar um tíma.

Hátterni föður míns var svo skammarlegt að skömmin smitaðist yfir á mig. Ég reyndi að vera fullkomin í þeim tilgangi að bæta það upp. Ég gaf og gaf, reyndi að kaupa ást, fannst ég aldrei verðug skilyrðislausrar ástar. Líf mitt varð hrein uppgerð en tilfinningarnar voru frosnar. Mörgum árum síðar sögðu eiginmaður minn og börn að ég væri vélmenni og gerði allt vélrænt. Ég hafði stritað fyrir þau í 30 ár, fórnað tilfinningaþörfum mínum fyrir þeirra, gefið þeim eins og ég hafði alltaf gefið foreldrum mínum. Og þetta voru þakkirnar! Þetta var dýpsta sár sem hægt var að veita mér!

Í reiði, ráðvillu og örvæntingu afréð ég að komast að raun um hvað væri að mér. Þegar ég talaði við aðra sem höfðu alist upp á heimilum alkóhólista tóku að koma upp á yfirborðið alls konar innibyrgðar tilfinningar, atriði sem ég var löngu búin að gleyma, hlutir sem höfðu valdið mér tíðum þunglyndisköstum. Þetta var eins og að varpa af sér þungri byrði, lausn undan álagi dulinna tilfinninga. Hvílíkur léttir fyrir mig að uppgötva að ég var ekki ein, að aðrir hefðu líka gengið í gegnum og skildu þá sálarkvöl sem það var að alast upp á heimili alkóhólista!

Ég leitaði til hóps sem kallaðist Uppkomin börn alkóhólista og tók að notfæra mér meðferð hans. Handbækur hjálpuðu mér að breyta röngum viðhorfum. Ég hélt dagbók í þeim tilgangi að grafa upp fleiri tilfinningar, tilfinningar sem höfðu legið grafnar í mörg ár. Ég hlustaði á segulbönd með efni til sjálfshjálpar. Ég fylgdist með umræðuþætti í sjónvarpi í umsjón manns sem var sjálfur uppkomið barn alkóhólista. Bókin Feeling Good frá University og Pennsylvania School of Medicine hjálpaði mér að byggja upp sjálfsvirðingu og breyta röngum hugsunarhætti mínum.

Nýja hugsanamynstrið varð að sumu leyti verkfæri handa mér, fullyrðingar sem hjálpuðu mér að takast á við lífið og samskipti við annað fólk. Af því sem ég lærði og notaði mér má nefna: Það skiptir ekki máli hvað kom fyrir okkur heldur hvernig við lítum á eða skynjum það sem gerðist. Það á ekki að frysta tilfinningar hið innra heldur þarf að rannsaka þær og tjá á uppbyggilegan hátt eða losa sig við þær. Setningin: ‚Leiktu sjálfa þig inn í réttan hugsunarhátt,‘ var annað verkfæri. Sé athöfn endurtekin getur hún myndað ný mynstur í heilanum.

Langmikilvægasta verkfærið er orð Guðs, Biblían. Frá henni og frá söfnuðum votta Jehóva, ásamt öldungum þeirra og öðrum þroskuðum vottum, hef ég fengið bestu andlegu lækninguna, og ég hef lært að bera réttan kærleika til sjálfrar mín. Ég hef líka lært að ég er einstök persóna með einstaklingseðli, að það er enginn til í alheiminum sem er eins og ég. Mikilvægast af öllu er það að ég veit að Jehóva elskar mig og að Jesús dó fyrir mig eins og aðra.

Núna, einu og hálfu ári síðar, held ég að ég geti sagst vera um 70 prósent betri. Fullnaðarlækning fæst ekki fyrr en í nýr réttlætisheimur Guðs er kominn í stað þessa núverand illa heims og guðs hans, Satans djöfulsins.“

SAMANTEKT

Biblían segir: „Ráðin í hjarta mannsins eru sem djúp vötn, og hygginn maður eys þar af.“ (Orðskviðirnir 20:5) Sá sem veitir hjálp þarf að búa yfir góðri dómgreind ef honum á að takast að draga fram úr djúpum vötnum hjartans það sem þjakar niðurdreginn einstakling. ‚Margir ráðgjafar‘ hafa mikið gildi ef þeir hafa næma dómgreind til að bera. (Orðskviðirnir 11:14) Eftirfarandi orðskviður sýnir líka gildi þess að leita ráða hjá öðrum: „Járn brýnir járn, og maður brýnir mann.“ (Orðskviðirnir 27:17) Þegar þeir sem eiga við erfiðleika að glíma tjá sig geta þeir „uppörvast saman.“ (Rómverjabréfið 1:12) Og til að framfylgja þeim fyrirmælum Biblíunnar að ‚hughreysta ístöðulitla‘ þarf sá sem hughreystir að skilja orsök og afleiðingar þess þunglyndis sem þjakar einstaklinginn. — 1. Þessaloníkubréf 5:14.

[Neðanmáls]

a Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt, útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Innskot á blaðsíðu 8]

Börn alkóhólista sýna oft sams konar einkenni og fyrrverandi hermenn sem tekið hafa þátt í bardaga!

[Innskot á blaðsíðu 10]

Umhverfi alkóhólistans byggist á leynd og afneitun.

[Innskot á blaðsíðu 10]

Þau fara í skólann „með bros á vör og hnút í maganum.“

[Innskot á blaðsíðu 11]

„Núna lít ég á Jehóva sem föður minn (sem ég gat aldrei gert áður).“

[Innskot á blaðsíðu 12]

Langmikilvægasta verkfærið er orð Guðs, Biblían.

[Mynd á blaðsíðu 9]

„Tilfinningarnar voru bókstaflega að gera út af við mig.“