Horft á heiminn
Horft á heiminn
Í leit að nýrri heimsskipan
Í fyrsta sinn í liðlega 40 ár er verið að endurvekja Sameinuðu þjóðirnar sem sameiginlegt verkfæri friðar og öryggis. Þann 31. janúar var New York vettvangur sögulegs fundar hinna háu og voldugu og hinna smáu og fátæku er stjórnarleiðtogar settu fyrsta leiðtogafund öryggisráðsins. Þessi einstæði, eins dags fundur öryggisráðsins var haldinn til að leita að því sem leiðtogar veraldar hafa kallað nýja heimsskipan er skuli víkja úr vegi árekstrahættu kalda stríðsins. John Major, forsætisráðherra Breta, kallaði leiðtogafundinn „straumhvörf í sögu heimsins og Sameinuðu þjóðanna.“ Veraldarleiðtogar vilja efla friðargæsluhlutverk Sameinuðu þjóðanna. Þannig segir í yfirlýsingu leiðtogafundarins: „Aðilar ráðsins eru sammála um að frá stofnun Sameinuðu þjóðanna hafi heimurinn aldrei átt betri möguleika en nú á að koma á friði og öryggi á alþjóðavettvangi.“
Brengluð forgangsröð
Stjórnvöld margra þróunarlanda þyrftu ekki annað en að breyta fjárhagsáætlun sinni til að stórbæta hin ömurlegu lífsskilyrði fólks þar. Þetta kemur fram í hollenska tímaritinu Internationale Samenwerking (Alþjóðasamvinna). Blaðið, sem byggir niðurstöður sínar á nýlegri skýrslu Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, segir að „með því einu að frysta útgjöld til hermála“ gætu þróunarlöndin sparað yfir 10 milljarða dollara á ári. Slík fjárhæð, sem tímaritið kallar friðararð, myndi nægja til að greiða fyrir undirstöðumenntun, frumheilsugæslu, nægan mat og heilnæmt drykkjarvatn. En tímaritið bendir líka á að mörg ríki „eyði sem stendur að minnsta kosti tvöfalt meiru í vopn en menntun og heilsugæslu,“ og nefnir sem dæmi þjóðir í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku.
Kolkrabbinn er gæðablóð
Kolkrabbinn getur virst ógnvekjandi ásýndar, en að sögn tímaritsins African Wildlife er hann mesta gæðablóð. Kolkrabbinn ver sig að vísu ef á hann er ráðist en að eðlisfari er hann hlédrægur og meinlaus. Auk þess er hann býsna leikinn við að leysa þrautir. Vísindamenn freistuðu einu sinni tveggja kolkrabba með humri í lokaðri glerkrukku. Báðir lærðu þeir fljótt að skrúfa lokið af. Tímaritið segir síðan frá því hvernig einn kolkrabbi, sem var gæludýr, sá til þess að hann fengi mat sinn: „Hann var venjulega fóðraður áður en fjölskyldan borðaði kvöldmat. Þegar gleymdist að fóðra hann áður en fjölskyldan settist að matarborðinu hengdi hann sig með öllum sínum átta gripörmum á glerið og breytti hratt um lit til að draga að sér athygli. Ef það hreif ekki tók hann upp steinvölu af botni búrsins og bankaði þrákelknislega með henni í glerið uns honum var gefið.“
Borað í æðarnar
Læknar í Ástralíu nota óvenjulegt nýtt verkfæri til að hreinsa stíflaðar hjartaæðar, að sögn tímaritsins Asiaweek. Tækið, sem kallað er Rotablator, er með agnarsmáan haus þakinn smásæjum demantsögnum í þúsundatali. Hausinn snýst 190.000 snúninga á mínútu og sverfur burt kalkaðar æðastíflur. Svarfið er fíngerðara en svo að nokkur hætta sé á því að það stífli æðar í heilanum og valdi slagi. Blóðstraumurinn hreinlega sópar svarfinu burt með sér án nokkurrar hættu. Að sögn Asiaweek er tækið svo nákvæmt að „við kynningar á því hefur það verið látið sverfa rauf í skurnina á hráu eggi án þess að skemma innri himnuna.“
Tré án stofns
„Sem stendur höfum við enga allsherjarskýringu á þróun lífsins á jörðinni,“ segir Parísarblaðið Le Figaro-Magazine. Í umfjöllun um alþjóðaráðstefnu í Blois í Frakklandi, þar sem 200 vísindamenn í fremstu röð alls staðar að úr heiminum komu saman til að ræða um uppruna lífsins, segir tímaritið að „gamlar kenningar séu að hrynja.“ Tímaritið dregur þannig saman athugasemdir nokkurra vísindamanna: „Kenning Darwins getur skýrt vissan fjölda minni háttar breytinga en ekki aðalstig þróunarinnar, svo sem tilurð nýrra líffæra eða nýtt byggingarlag svo sem fugla eða hryggdýr.“ Steingervingafræðingurinn Robert Fondi sagði um þau gríðarstóru göt sem kenningin er undirlögð: „Ef við sjáum fyrir okkur ættartré þróunarinnar er ekkert til nema laufið og fáeinar greinar, en engir kvistir eða stofn. Þetta er tré sem getur ekki staðið!“
Biblíuþýðingum fjölgar
Að sögn Þýska biblíufélagsins voru hlutar Biblíunnar þýddir á 32
ný tungumál árið 1991, samkvæmt skýrslum Sameinuðu biblíufélaganna. Biblíutextar eru því fáanlegir núna á alls 1978 tungumálum, að því er segir í þýska dagblaðinu Wetterauer Zeitung. (Önnur heimild nefnir 1982 tungumál.) Í heild hefur Biblían verið þýdd á 322 tungumál, kristnu Grísku ritningarnar á 758 og aðrir hlutar Biblíunnar á 898. Í Afríku eru biblíutextar fáanlegir á 566 tungumálum. Í Asíu er talan 490, í Ameríku 411, á Kyrrahafseyjum 321 og í Evrópu 187.Óáreiðanlegir stjörnuspámenn
Snemma árs 1991 safnaði Félag vísindalegra rannsókna á dulvísindum í Þýskalandi saman 152 spám 27 stjórnuspámanna, og síðan var lagt mat á spárnar í lok ársins. Wetterauer Zeitung skýrði frá því að 103 spár hefðu verið „alrangar.“ Til dæmis spáðu stjörnuspámenn kjarnorkuslysi og því að lækning fyndist við alnæmi árið 1991. Þær 14 spár, sem rættust, voru mjög almennt orðaðar. Aðrar voru of ógreinilega orðaðar til að hægt væri að dæma um nákvæmni þeirra og sumar jafnvel mótsagnakenndar. Á hinn bóginn hafði enginn stjörnuspámaður sagt aukatekið orð um nokkra stórviðburði ársins 1991. „Ef aðeins einn stjörnuspámaður hefði vitað hvað hann var að gera,“ sagði formaður samtakanna, „hefði hann til dæmis séð fyrir afsögn Gorbatsjovs og hnignun Sovétríkjanna.“
Tæknin vinnur gegn sjálfri sér
Nálega fjórðungur þeirra Bandaríkjamanna, sem féllu í Persaflóastríðinu, og 15 af hundraði særðra urðu fyrir skotum frá eigin hersveitum. Í fyrri stríðum urðu innan við 2 af hundraði fallinna Bandaríkjamanna fyrir kúlum sinna eigin manna. Að stórum hluta til má tekja vandann til aukinnar notkunar hátæknivopna. Með háþróuðum vopnabúnaði geta skriðdrekar og þyrlur skotið með mikilli nákvæmni á skotmörk í allt að átta kílómetra fjarlægð. Þótt þessi tækni geti dregið úr hættunni á gagnárás ræður nútímatækni ekki við það að greina milli vina og óvina þegar stutt er á milli fjarlægra farartækja — einkum í hröðum hernaði og slæmu skyggni.
Öryggi hjólreiðamanna
Á síðastliðnu ári létust um 710 hjólreiðamenn af slysförum í vesturhluta Þýskalands og 64.000 slösuðust. Að sögn dagblaðsins Rheinische Post, sem gefið er út í Düsseldorf, stýrði vísindamaðurinn Dietmar Otte rannsókn á 1200 reiðhjólaslysum sem náðu yfir fimm ára tímabil. Í um helmingi þeirra höfðu orðið meiðsli á höfði. Otte telur að hjólreiðahjálmar hefðu getað dregið úr meiðslum í helmingi þessara slysa eða komið með öllu í veg fyrir þau. En hjálmar geta verið enn áhrifaríkari vörn er það. Í skýrslu í JAMA (The Journal og the American Medical Association) kom fram að frá 1984 til 1988 hafi reiðhjólaslys í Bandaríkjunum valdið höfuðmeiðslum nærri milljón sinnum. Þar af voru 2985 banaslys. Að sögn JAMA „hefði mátt koma í veg fyrir allt að eitt banaslys á dag og einn höfuðáverka á 4 mínútna fresti . . . ef allir hjólreiðamenn hefðu notað hjálma.“ Hjálmar eru sérstaklega mikilvægir fyrir börn því að þeim er hættara við alvarlegri höfuðmeiðslum en fullorðnum.
Harmleikur í Svartahafi
„Um aldaraðir gaf Svartahaf af sér svo mikið höfrungaskinn og kavíar og fisk að engum datt í hug að slík gnótt gengi til þurrðar,“ segir The New York Times. En nú er öldin önnur. Bæði notar hvert einasta iðjuver og borg við ströndina Svartahaf sem skolpþró og auk þess flytja yfir 60 ár úrgang frá 160 milljónum manna í Svartahaf. Fjórar þær stærslu — Dóná, Dnépr og Dnéstr — renna um svæði sem viðurkennt er að séu meðal þeirra menguðustu í heimi og bera þaðan með sér eiturefni. Ofveiði hefur líka haft sitt að segja ásamt marglyttumegð sem étur hrogn og seiði fiska. Afleiðingin er sú að einungis 5 af 26 nytjafisktegundum, sem nóg var af árið 1970, finnast nú í veiðanlegu magni og selir eru horfnir með öllu. „Jafnvel þótt við stöðvuðum alla mengun eins og fyrir kraftaverk,“ segir líffræðingurinn Júvenaly Saitsev, „væri ógerlegt að snúa aftur til sjötta áratugarins. Náttúran hefur sín lögmál.“
Bólusett börn
Á heimsmælikvarða eru 4 börn af hverjum 5 núna bólusett gegn sex hættulegum sjúkdómum: barnaveiki, mislingum, mænusótt, stífkrampa, berklum og kíghósta, að því er Alþjóðaheilbrigðismálstofnunin segir. Fyrir tíu árum var hlutfallið 1 á móti 5. Núna er bjargað lífi þriggja milljóna barna ár hvert með bóluefnum sem kosta aðeins um 60 krónur á hvert barn. Eigi að síður deyja enn um tvær milljónir barna ár hvert af völdum sjúkdóma sem hægt væri að fyrirbyggja, að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.