Hvers vegna að vera skírlífur?
Ungt fólk spyr . . .
Hvers vegna að vera skírlífur?
„MEYDÓMUR,“ segir rithöfundurinn Lesley Jane Nonkin, „er orðinn eins og barnatennur — hlutur sem maður losnar við áður en maður útskrifast úr skóla.“ Orð sem þessi eru dæmigerð fyrir hin undanlátsömu og ábyrgðarlausu viðhorf sem margt ungt fólk hefur til kynlífs. Unglingur sem hefur ekki haft kynmök er af mörgum álitinn forvitnilegt fyrirbæri, furðufugl. Í einni könnun meðal unglinga viðurkenndu piltar að þeim væri „mikið í mun“ að missa sveindóm sinn. Stúlkur, sem voru hreinar meyjar, sögðu að þeim fyndist þær „óeðlilegar.“
Eins og áður hefur komið hefur fram í þessu tímariti er það eigi að síður rétt í augum Guðs að fólk varðveiti hreinleika sinn. a Hann metur slíkan hreinleika mikils og fordæmir kynlíf fyrir hjónaband sem siðferðilega rangt og skaðlegt. (1. Þessaloníkubréf 4:3-8) Allt um það þarf að standast gífurlegt álag til að halda sér hreinum. Hvers vegna ættu unglingar að gera það? Hefur það einhverja kosti að vera hreinn sveinn eða hrein mey?
Leiðin til að vera elskaður?
Margir unglingar líta á kynlíf sem einfalda leið til að sýna ást — eða njóta ástar einhvers. Það er einungis eðlilegt að vilja vera elskaður, og unglingar hafa oft sérstaklega sterka þörf fyrir það. Bókin Coping With Teenage Depression segir: „Dvínandi trúnaðarsamband og umönnun í mörgum fjölskyldum kemur táningunum til að leita annars staðar eftir hlýju og trausti. Margt nútímafólk er á sífelldu spani og hefur lítinn tíma handa hverju öðru til að eiga trúnaðarsamtöl og gera eitthvað saman. . . . Ef táningurinn finnur ekki kærleika og umhyggju heima fyrir sér hann . . . kynlíf sem síðasta möguleikann á því að eiga náið samband við annan einstakling og sem sönnun fyrir því að hann sé elskaður og metinn að verðleikum.“
Þetta var reynsla ungrar stúlku sem heitir Ann. Hún segir: „Mörgu ungu fólki finnst það ekki elskað, kannski vegna þess að foreldrar þess sinna því ekki mikið. Það kemur að því að það þarf og langar til að vera elskað eða eiga náið samband við einhvern. Þannig fór fyrir mér. Ég leitaði ástar hjá einhverjum strák.“
Sönn ást eða kærleikur ‚hegðar sér hins vegar ekki ósæmilega og leitar ekki síns eigin.‘ (1. Korintubréf 13:4, 5) Innan vébanda heiðvirðs hjónabands þjónar kynlífið göfugum og fögrum tilgangi. (1. Mósebók 1:28; Orðskviðirnir 5:15-19) Utan hjónabands þjónar það oft litlu öðru hlutverki en að vera smyrl á sár tilfinningalífsins, flótti undan álagi, tilraun til að efla dvínandi sjálfstraust, viðbrögð við hópþrýstingi eða tækifæri til að njóta sumra af kostum hjónbandsins án þess þó að axla ábyrgðina sem fylgir því. Dr. Louis Fine kemst að þessari niðurstöðu: „Í flestum tilfellum er kynferðisleg athöfn unglings útrás fjandskapar, reiði og sjálfseyðileggingar; hún er ekki tjáning umhyggju, tilfinningar eða samkenndar.“ — „After All We’ve Done for Them“ — Understanding Adolescent Behavior.
Ann fékk að reyna sannleiksgildi þessara orða. „Ég varð ófrísk,“ segir hún. „Og þegar það gerðist rann upp fyrir mér að foreldrar mínir báru umhyggu fyrir mér og elskuðu mig. Það voru foreldrar mínir sem stóðu með mér á meðgöngutímanum — ekki strákurinn sem ég leitaði ástar hjá. Hann hvarf.“
Jafnvel þótt ekki hljótist alvarlegar afleiðingar af, svo sem þungun, getur slíkt samband auðveldlega skilið eftir tómleika- og sársaukakennd. Bókin The Private Life of the American Teenager segir: „Sumum [stúlkum] finnst þær tilneyddar þegar strákarnir, sem þær eru með, hóta að hætta með þeim nema þær fallist á að eiga við þá kynmök. Ef þær fallast á það finnst þeim oft sem þær hafi verið misnotaðar, einkum ef það slitnar upp úr sambandinu eða ef það heldur áfram einungis á kynferðislegum grundvelli.“
Undir giftingaraldri
Sumir segja að kynlíf geti styrkt böndin milli pilts og stúlku. Hins vegar má spyrja hvaða tilgangi það þjóni ef þau eru of ung til að giftast. Afleiðingin getur einungis orðið tilfinningakvöl þegar upp úr sambandinu slitnar sem er nánast óhjákvæmilegt. Í bók sinni How to Raise Parents minnir rithöfundurinn Clayton Barbeau á að „gelgjuskeiðið sé sá tími þegar maður er að þroska persónuleika sinn, að uppgötva hver maður er.“ Hann spyr: „Ef maður veit ekki hver maður er, hvernig getur maður þá elskað og þar með þekkt aðra manneskju?“
Kynlíf í tilhugalífinu stuðlar ekki heldur að marktækum tjáskiptum heldur hinu gagnstæða. Um leið getur sektarkennd hrakið hjónaleysin hvort frá öðru. (Rómverjabréfið 2:15) Stúlka viðurkennir: „Sektarkenndin jók bilið á milli okkar. Ég var reið [kærasta mínum] fyrir að láta mér líða svona ömurlega. Ég gat ekki einu sinni horfst í augu við foreldra mína, ég skammaðist mín svo.“ Annar unglingur segir með eftirsjá: „Ég kastaði frá mér öllu sem ég trúði á, lífsgildum mínum og hreinni samvisku — aðeins til þess að finnast ég vera elskuð.“
Clayton Barbeau hittir naglann á höfuðið þegar hann segir: „Mér finnst unglingar, sem leika sér með kynlíf, vera eins og ungbörn að leika sér með nítróglusserín.“
Lykillinn að hamingjusömu hjónabandi?
Sumir unglingar halda að reynsla af kynlífi sé góður undirbúningur undir hjónaband. Staðreyndirnar sýna allt annað. Svo eitt sé 1. Korintubréf 7:3; samanber Postulasöguna 20:35.
nefnt eru vandamál í kynlífi hjóna yfirleitt tengd tilfinningalegum erfiðleikum — ekki reynsluleysi í kynlífinu. Ef nokkuð hefur kynlíf fyrir hjónaband skaðleg áhrif á hjónaband. Það brýtur niður gagnkvæma virðingu og gerir samband tveggja einstaklinga fyrst og fremst að holdlegu sambandi; náin tilfinningatengsl eru vanrækt. Eins og bókin Building a Successful Marriage segir: „Kynmök fyrir hjónaband hljóta eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst að byggjast á holdlegum tengslum, að einkennast af eigingirni frekar en samkennd.“ Til langs tíma litið veldur eigingjörn afstaða til kynlífs óhamingju í hjónabandi.“ Hamingja í hjónabandi fæst aftur á móti með því að hjónin fylgi lífsreglum Biblíunnar og hugsi meira um það að gefa en að þiggja með eigingjörnu hugarfari. —Bókin Why Wait Till Marriage? bendir á annað vandamál: „Ekki er hægt að búast við að karlar og konur, sem hafa verið lauslát fyrir hjónabandið, breytist vegna einhvers kraftaverks þegar þau giftast. Með fáeinum undantekningum halda þau áfram að fylgja kynferðislegum hvötum sínum eins og fyrir giftingu.“ Bókin heldur áfram: „Ef tryggð í hjónabandi er þér mikilvæg skaltu gera þér ljóst að hún er tengd tryggð fyrir hjónaband.“ Það að varðveita sveindóm sinn og meydóm fram til hjónabands getur hjálpað þér að byggja upp þann siðferðisstyrk sem þarf til að hlýða boði Biblíunnar: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ — Hebreabréfið 13:4.
Því sagði í grein í virtu læknatímariti: „Ljóst er að skírlíft fólk á betri möguleika á hamingjusömu hjónabandi vegna þess að það hefur oft til að bera aðra mannkosti, svo sem sterkari skyldutilfinningu og á auðveldara með að bíða með að fá óskir sínar uppfylltar, láta sér umhugaðra að fylgja reglum og aðra svipaða eiginleika.“ Þeir sem farga sveindómi sínum eða meydómi í flónsku sinni þurfa því margs að iðrast. b Stúlka sagði: „Ég er 14 ára og er búin að glata meydómi mínum. Ég iðrast þess innilega af öllu hjarta og sálu. Það kvelur hjarta mitt af því að mig langaði til að vera sú ósnortna kona sem væntanlegur eiginmaður minn myndi þrá.“
Forðastu að beita sjálfan þig ranglæti
Að síðustu ættir þú að íhuga enn einn kost sem fylgir því að vera hreinlífur. Biblían sýnir að þeir sem virða lög Guðs að vettugi „beita sjálfa sig ranglæti sem laun ranglætisins.“ (2. Pétursbréf 2:13, NW) Hvernig beita menn sjálfa sig ranglæti með kynlífi fyrir hjónaband? Taktu til dæmis eftir því sem sagði í grein í tímaritinu Seventeen: „Rannsóknarmenn á sviði alnæmisrannsókna segjast hafa vaxandi áhyggjur af aukinni útbreiðslu alnæmisveirunnar meðal táninga.“ Þrátt fyrir hina miklu umræðu um þennan banvæna sjúkdóm sýndu niðurstöður einnar könnunar eigi að síður að „einungis um þriðjungur [unglinga sem spurðir voru] höfðu breytt kynlífshegðun sinni af ótta við sjúkdóminn.“
Slíkir unglingar gera sér ekki heldur grein fyrir því að siðlaus hegðun getur enn fremur leitt til þungunar, fjölmargra annarra samræðissjúkdóma auk alnæmis, tilfinningalegs áfalls, brennimerktrar samvisku og — það sem verst er — hún getur eyðilagt samband þeirra við Guð. Beittu ekki sjálfan þig ranglæti. Orðskviðirnir 14:16 segja: „Vitur maður óttast hið illa og forðast það.“ Láttu ekki blekkjast af goðsögninni um „öruggt kynlíf.“ Hvað Guð varðar er eina örugga og viðeigandi kynlífið innan vébanda hjónabands. Varðveittu hreinleika þinn fram til hjónbands. Láttu ekki aðra koma þér til að skammast þín fyrir það eða telja þig á að kasta því frá þér.
[Neðanmáls]
a Sjá Vaknið! apríl-júní 1992.
b Þeir sem hafa orðið fyrir nauðgun eða kynferðislegri misnotkun sem börn geta sótt hughreystingu í þá vitneskju að Guð lítur enn á þá sem ‚hreina og flekklausa.‘ (Filippíbréfið 2:15) Hver sá sem stundaði saurlifnað áður en hann komst til þekkingar á meginreglum Biblíunnar getur líka sótt hughreystingu í þá vitneskju að þeir hafi „laugast“ í augum Guðs vegna trúar sinnar á lausnarfórn Jesú. (1. Korintubréf 6:11) Kristinn maður, sem hefur fallið í siðleysi en síðan iðrast í einlægni og náð sér, getur einnig orðið hreinn frammi fyrir Guði. Ástríkir og skilningsríkir makar hafa oft verið fúsir til að fyrirgefa undir slíkum kringumstæðum.
[Mynd á blaðsíðu 28]
Margir, sem fyrirgera siðferðilegum hreinleika sínum, finnst þeir misnotaðir.