Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lærðu að takast á við liðagigt

Lærðu að takast á við liðagigt

Lærðu að takast á við liðagigt

Eftir fréttaritara Vaknið! á Bretlandi.

David, 72 ára, á erfitt um hreyfingar. Afmyndaðir olnbogar og úlnliðir bera vitni um bæklandi sjúkdóm sem er allt of algengur meðal aldraðra.

Peggie, rúmlega hálfsjötug, á erfitt um gang. Hún þjáist einnig eins og sjá má á afmynduðum höndum hennar. Þó tekst henni að vinna sum húsverkin og hefur gaman af að hekla.

Isa hafði verið bundin við hjólastól í 37 ár og gat lítið séð um sig sjálf. Smitandi bros hennar bar eigi að síður vitni um undraverðan lífsþrótt.

DAVID, Peggie og Isa hafa öll orðið fyrir barðinu á liðagigt, sjúkdómi hrjáir um sex milljónir Breta. Að sögn Lundúnablaðsins The Times „tapast 88 milljónir vinnudaga“ af völdum þessa sjúkdóms ár hvert, „mun fleiri en af völdum verkfalla.“ Liðagigt er „stærsti, einstaki örorkuvaldur“ meðal Breta.

Þú getur orðið fórnarlamb liðagigtar hvar sem þú býrð. Ekkert heimssvæði er laust við sjúkdóminn. Læknirinn Vernon Coleman skrifar um þennan sjúkdóm: „Fáir sjúkdómar þjá jafnmarga . . . Fáir valda jafnmikilli kvöl og fötlun, og um fáa eru á lofti jafnmargar bábiljur og misskilningur.“ — Sjá rammagrein á bls. 22.

Það er ekkert undarlegt að mörgum liðagigtarsjúklingum, líkt og Davíð, þyki lífið þjakandi. Peggie, Isa og fleiri sætta sig aftur á móti við sjúkdóminn og eru jafnvel bjartsýnir. Hvernig er það hægt? Hvað um þig? Hvað getur þú gert til að takast á við liðagigt ef þú ert haldinn þeim sjúkdómi?

Ef þú ert fórnarlamb

Í fyrsta lagi skaltu fá sjúkdómsgreiningu snemma. „Ekki verður lögð nægilega þung áhersla á það,“ segir í bókinni The Arthritis Book, „að halda má sársauka og fötlun í lágmarki með því að greina sjúkdóminn snemma.“ Baráttan við liðagigtina er í sannleika „kapphlaup við tímann.“ Dr. Coleman tekur í sama streng: „Horfurnar stórbatna ef . . . meðferð er hafin snemma og af krafti.“

Dragðu ekki á langinn að leita læknis. Gakktu úr skugga um hvaða heilsuvandamál þú átt við að stríða. Ef það er liðagigt skaltu gera ráðstafanir til að hefja meðferð án tafar.

Baráttan við sársaukann

Fyrir þann sem þjáist af liðagigt skiptir miklu máli að draga sem mest úr sársaukanum. Í sumum tilvikum, þegar um slitgigt er að ræða, ráðleggja læknar fólki þó einfaldlega að umbera sársaukann. Hvers vegna? Vegna þess að kvalastillandi lyf bæla niður hin eðlilegu viðvörunarmerki líkamans. Sé þessum merkjum ekki sinnt getur það valdið óbætanlegu tjóni á liðum líkamans.

Einnig þarf að taka með í reikninginn hugsanlegar aukaverkanir slíkra verkjalyfja. Læknatímaritið The Lancet varar við því að „hættan á spítalavist vegna blæðandi ætissárs í maga . . . aukist verulega hjá þeim sem taka NANSAID-lyf [nonaspirin nonsteroidal anti-inflammatory drugs].“ Margir kjósa því að nota sem minnst af lyfjum. Sumum tekst að draga úr sársauka með því að einbeita sér að viðfangsefnum sem taka alla athygli þeirra. Tímaritið Nursing Mirror segir: „Beita má dægradvöl til varnar með því að beina athyglinni að öðru og einbeita sér að einhverju sem er óskylt sársaukanum.“

Þar með er ekki sagt að ráðlegt sé að forðast verkjalyf með öllu. Í sumum tilvikum getur það að deyfa ekki sársaukann dregið úr því að menn noti sársaukafull liðamót sem getur leitt til stirðnunar og visnunar og að lokum til þess að liðurinn verði ónothæfur. NANSAID og aspírín eru mikið notuð sem verkjastillandi lyf. Þau eru einnig notuð til að draga úr bólgu og þrota. Margir liðagigtarsjúklingar og læknar álíta bæði lyfin áhrifarík.

Í ljósi hættunnar er samt sem áður hyggilegt að afla sér eins glöggrar vitneskju og mögulegt er um ákveðna meðferð áður en hún er hafin. Kynntu þér áhættuna samfara henni. Ræddu málið við lækninn þinn.

Enda þótt mikill kuldi og raki valdi ekki liðagigt eða liðbólgu virðist loftslag hafa áhrif á sársaukann sem sjúklingar finna fyrir. Sumir hafa haft töluverða bót af því að flytjast búferlum í þurrt og hlýtt loftslag, en ef slík breyting kemur ekki til álita er um ýmsa aðra kosti að velja.

Dr. Frederic McDuffie, þekktur fyrir rannsóknir á liðagigt, segir að „heitir eða kaldir bakstrar geti einnig komið að gagni.“ Í einni athugun lögðu sjúklingar ísbakstur á þjáða hnéliði þrisvar á dag í 20 mínútur í senn í alls fjórar vikur. Þeir skýrðu frá minni sársauka samfara hreyfingum og auknum vöðvastyrk. Þeir urðu liprari í hreyfingum og sváfu betur. Hvers vegna? McDuffie segir að „kuldi dragi úr sársaukaboðum taugakerfisins.“

Því miður er oft gagnslaust fyrir einn það sem öðrum reynist vel. Mörgum liðagigtarsjúklingum finnst létt nudd gera sér gott. Isa sagði: „Þegar sársaukinn kvelur mig fæ ég manninn minn til að nudda svæðið hressilega. Mig kennir undan því en stundum dregur það úr sársaukanum.“

Hitameðferð er einnig talin hjálpa. Sumir læknar mæla með því að notaður sé hitapoki eða hitateppi til að draga úr sársaukanum. Gigtarsérfræðingurinn dr. F. Dudley Hart segir: „Hiti slakar á vöðvunum, dregur úr stirðleika og linar sársauka.“

‚Að nota eða glata‘

„Hreyfing . . . er eitthvað það mikilvægasta . . . í baráttunni við liðagigt,“ segir The Arthritis Helpbook. ‚Já, en hún er svo kvalafull,‘ segir þú. Það er að vísu rétt, en reyndu að finna hinn gullna meðalveg.

Gönguferðir, sund og hjólreiðar er vinsælasta líkamsræktin. Til að hún komi að raunverulegum notum þarf hún hins vegar að vera sniðin eftir sjúkdómi þínum. Ræddu málið við lækninn þinn eða sjúkraþjálfarann til að ganga úr skugga um hvers konar hreyfing hjálpi þér mest.

Þegar þú finnur til sársauka meðan á líkamsræktinni stendur skaltu taka þér stutta hvíld. Ef þeir liðir, sem sjúkdómurinn leggst á, eru heitir og bólgnir ættir þú að hætta líkamsrætinni í það skiptið — hún getur verið of erfið fyrir þig. Mundu að markmið þitt ætti að vera hreyfanleiki frekar en styrkur. Það að hreyfa liðinn eins og hann þolir að minnsta kosti tvisvar á dag getur stuðlað að því að halda honum liðugum.

Er lækning í sjónmáli?

„Lækning á liðagigt er ‚innan seilingar,‘“ sagði í fyrirsögn í Liverpoolblaðinu Daily Post þann 28. maí 1980. Í fréttinni sem fylgdi var hins vegar sagt að „engin tímasetning hefði enn komið fram.“

Rannsóknirnar halda enn áfram, yfir 12 árum síðar. Hvað liðagigt varðar beinist athyglin að því núna að finna lyf til að stýra „gölluðu“ genunum sem talin eru valda sjúkdómnum. Prófessor Ravinder Maini hjá enska Gigtarráðinu vonast til að þau verði komin á markað „eftir fimm til 10 ár.“

Sum af fórnanlömbum liðagigtar hafa kosið að láta setja í sig gerviliði í þeim tilgangi að endurheimta lipurðina og losna við kvalirnar. Ákveðið sérfæði hefur hjálpað sumum. Nálarstungur, smáskammtalækningar og beina- og liðskekkjulækningar eiga sér sína talsmenn á þessu sviði.

Skoðanir eru æði ólíkar á því hver sé hin rétta meðferð. Læknisfræðin hefur stimplað sumar þeirra „skottulækningar“ vegna þess eins að viðkomandi meðferð er talin óhefðbundin en ekki vegna þess að hún sé gagnslaus. Engu að síður er liðagigtarsjúklingum boðið upp á alls konar svokallaðar lækningar sem er vafasamt að hafi nokkurt gildi.

Enn sem komið er kann læknisfræðin ekki ráð til að lækna þennan bæklandi sjúkdóm. Það er því viturlegt að vega og meta öll atriði vandlega þegar þú ert að velja þér meðferð. Eftir að þú hefur gert það skaltu halda þig við það sem reynist þér best.

Hvernig aðrir geta hjálpað

Ef þú átt ættingja eða vin sem þjáist af liðagigt getur þú gert ýmislegt til að hjálpa honum að takast á við þær hömlur sem sjúkdómurinn setur honum. Hvernig?

Peggie býr ein en börnin hennar eru mjög hjálpleg. Þau halda nánu sambandi bæði símleiðis og bréfleiðis. Þegar dætur hennar, sem búa erlendis, koma í heimsókn hjálpa þær henni fúslega að prýða heimilið og vinna önnur húsverk sem eru orðin henni um megn. Ömmubarn hennar, sem er á táningaaldi, kemur vikulega til að annast hin þyngri þrif á heimilinu.

Eiginkona Davids leggur sig meira fram við að annast hann en áður. Hún hefur fengið leiðbeiningar frá hjúkrunarkonu á vegum sveitarfélagsins um hvernig hún geti hjálpað honum með persónulegt hreinlæti. David líður betur og þau geta gert meira saman en áður.

„Ég get gert fæst af því sem annað fólk gerir,“ sagði Isa skömmu fyrir dauða sinn. Það var því mikils virði fyrir hana að eiginmaður hennar skyldi annast hana með ástúð og umhyggju, þvo henni, klæða og jafnvel setja upp á henni hárið.

Liðagigtarsjúklingar meta yfirleitt mjög mikils hvert það sjálfstæði sem þeir njóta enn þrátt fyrir sjúkdóm sinn. Ættingjar og vinir ættu að forðast að spilla því. Það sem mest ríður á að veita þeim er „raunhæf samúð og hughreysting,“ að sögn dr. Harts. Gerðu eitthvað fyrir sjúklinginn sem hann getur ekki gert sjálfur. Stuttar heimsóknir, uppörvandi orð og hjálp við húsverk og innkaup eru mest metin.

Þroskaðu með þér bjartsýni

‚Það er hægara sagt en gert fyrir þann sem er með liðagigt,‘ segir þú kannski. Það er að vísu rétt, en margt veltur á því hvernig þú, ættingjar þínir og vinir sjá framtíðina fyrir sér.

Tökum Peggie og Isa sem dæmi. Isa sagði: „Ég er hætt að hafa áhyggjur af fötlun minni.“ Í staðinn leituðu hún og Peggie færis að hjálpa öðrum. Peggie tekur sér tíma til að heimsækja nágranna sína og uppörva þá. Með hjálp barna sina og barnabarna vann Isa fullt starf við það að segja öðrum frá fyrirheitum Biblíunnar. Peggie er ein af vottum Jehóva og það var Isa einnig.

Já, Peggie og Isa sóttu mikla hughreystingu í það fyrirheit Biblíunnar, sem uppfyllist bráðlega, að ‚enginn borgarbúi muni segja: „Ég er sjúkur.“‘ (Jesaja 33:24) Það verður mikill gleðidagur fyrir þá sem þjást af liðagigt!

[Rammagrein á blaðsíðu 22]

Gigt eða liðagigt?

Öll fáum við tök og verki af og til. Við afgreiðum málið kannski sem svo að við séum bara með „smágigt.“ Í læknisfræðinni er gigt almennt samheiti yfir 200 eða fleiri kvalafulla kvilla, þótt aðeins um helmingur geti flokkast sem liðbólga eða liðagigt. Af fjórum algengum tegundum liðagigtar má nefna:

Slitgigt er yfirleitt sjúkdómur aldraðra og einkennist af því að liðbrjósk rýrnar, beinið við liðjaðarinn stækkar og liðhimnan, sem framleiðir liðvökva, breytist. „Þegar við náum 65 ára aldri mega 80 prósent okkar búast við slitgigt í einum eða fleiri liðum, og fjórðungur okkar þarf að þola meiri eða minni háttar sársauka og fötlun af völdum hennar.“ — New Scientist.

Liðagigt (langvinn) einkennist yfirleitt af bólguþrota í allmörgum liðum og liðhimnum þeirra, og rýrnun vöðva og beina umhverfis liðinn. Stundum getur þetta stafað af meiðslum. „Getur byrjað á hvaða aldri sem er en er þrefalt algengari hjá konum en körlum.“ — Nursing Mirror.

Hryggikt „leggst á hrygginn og hefur fyrst og fremst í för mað sér staurbak. . . . algengara hjá körlum en konum.“ — 101 Questions and Answers About Arthritis.

Þvagsýrugigt er arfgeng tegund liðbólgu sem einkennist af of mikilli þvagsýru í blóði sem hefur í för mér sér bráða liðbólgu, yfirleitt í einum lið, og síðan fullt sóttarhlé. „Um tuttugfalt algengara hjá körlum en konum.“ — Nursing Mirror.

[Rammagrein á blaðsíðu 23]

SÉRFÆÐI GEGN LIÐAGIGT?

Eftirfarandi glefsur úr bókum og fréttum tala skýru máli um mikinn skoðanamun meðal sérfræðinga. Hver og einn verður því að vega þær og meta og taka síðan persónulega ákvörðun.

„Það sem skiptir máli er hvað þú borðar ekki. . . . Borðaðu ekki: Kjöt í nokkurri mynd, ekki heldur seyði, alls enga ávexti, mjólkurafurðir . . . eggjarauðu, edik eða nokkra aðra sýru, pipar . . . í neins konar mynd, sterk krydd, súkkulaði, þurrglóðaðar hnetur, áfenga drykki, einkum létt vín, gosdrykki . . . íblöndunarefni af hvers kyns tagi, geymsluefni, kemísk efni, sérstaklega mónónatríumglútamat.“ — New Hope for the Arthritic, 1976.

„Besta hugsanlega mataræði liðagigtarsjúklings er heilnæmt fæði sem inniheldur nauðsynleg næringarefni — prótín, kolvetni, fitu, vítamín og steinefni — sem neytt er á föstum matmálstímum með hæfilegu millibili. Fæðið ætti að innihalda ferska ávexti, blaðgrænmeti og heilkorn ef sjúklingurinn hefur ekki ofnæmi fyrir því.“ — Arthritis — Relief Beyond Drugs, 1981.

„Liðagigt af völdum ofnæmis er sjaldgæf en kemur þó fyrir þar sem sjúklingur hefur ofnæmi fyrir hveiti (glúten) eða mjólkurafurðum (osti) eða öðrum efnum. Ef grunur leikur á slíku getur verið heppilegt að halda dagbók um mataræði sitt og skoða síðan hvers hefur verið neytt þá daga sem liðbólgan blossar upp eða versnar.“ — 101 Questions and Answers About Arthritis, 1983

„Sérfæði handa liðagigtarsjúklingum er ekki til. Engin vísindaleg rök eru fyrir því að vítamín, steinefni, fita eða kolvetni geti gert liðagigtarsjúklingum gott eða illt. Ef sjúklingar kjósa að reyna sérfæði, svo sem jógúrt, lífrænt ræktað grænmeti, grænmetissafa, basískt fæði eða súrt fæði, þá gerir það þeim sennilega ekkert illt.“ — The Arthritis Book, 1984.

„Vísindamenn hafa uppgötvað að fiskur og magurt kjöt, samhliða fiskolíum, dregur úr stirðleika og sársauka í liðamótum af völdum liðagigtar.“ — The Sunday Times, Lundúnum, 1985.

Um eitt eru heimildarmenn sammála: Gættu þess að halda líkamsþunganum í skefjum, ella gerir þú aðeins illt verra, einkum hvað snertir mjaðmar-, hnjá- og ökklaliði.