Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Um leið og auga er deplað

Um leið og auga er deplað

Um leið og auga er deplað

Þú ert nýbúinn að gera það aftur. Í gær gerðir þú það um 15.000 sinnum. Sennilega tókstu ekki eftir að þú gerðir það en þú hélst því áfram og verndaðir þar með tvær dýrmætustu eigur þínar. Um leið gafst þú kannski óafvitandi einhverja vísbendingu um hvernig heilinn í þér starfar. Hvað var það sem þú gerðir? Þú deplaðir augunum.

Heilbrigð augu eru viðkvæmustu og næmustu skynfæri líkamans. Mannsaugað er almennt álitið undursamlega hannað og hefur verið líkt við alsjálfvirka og sívirka þrívíddarkvikmyndatökuvél með sjálfvirkri fjarlægðarstillingu og litfilmu. Þegar myndavél er ekki í notkun er sett lok á viðkvæma linsuna, en augað gerir betur.

Stærstur hluti augnknattarins er varinn inni í augnatóftinni en um 10 af hundraði yfirborðsins er berskjaldaður fyrir andrúmsloftinu og öllu því ryki og rusli sem það feykir með sér. Líkaminn er búinn flóknu loki sem hægt er að draga fyrir og frá — augnlokinu — til að vernda augað fyrir þessari ógn. Það er gert úr þynnstu húð líkamans en styrkt hárfínum trefjastrengjum og rennur mjúklega yfir augað og frá aftur. Það tekur aðeins um tíunda hluta úr sekúndu að depla auga og það gerist um 15 sinnum á hverri mínútu.

En með þessari litlu athöfn, sem varla nokkur tekur eftir, er miklu áorkað. Þegar augnlokin lokast og opnast aftur draga þau þunna vökvahimnu yfir augað og hreinsa það vel. Um leið er ysta lag augans fægt. Þannig mætti líkja augnlokinu við linsulok sem jafnframt þvær linsuna og fægir hana. Þetta er býsna góður búnaður!

En eitt hefur lengi valdið vísindamönnum heilabrotum. Miðað við þann tíma, sem það tekur tárvökvann að leysast upp, myndi nægja að depla augum einu sinn til tvisvar á mínútu til að hreinsa þau og fægja. Hvers vegna deplum við þá augunum svona oft? Svarið virðist liggja í huga mannsins.

Vísindamenn hafa bent á tengsl milli hugsunarinnar og þess að depla augunum. Kvíðinn maður deplar til dæmis augunum oftar en ókvíðinn. Líklegt er að þú myndir depla augunum oftar en venjulega ef þú værir að reyna að fljúga þyrlu, sætir undir spurningum fjandsamlegs lögfræðings í réttarsal eða værir haldinn kvíðahugsýki. Ef þú værir fréttamaður sjónvarps væri þér kannski sagt að depla ekki augunum til að sjónvarpsáhorfendur fengu ekki á tilfinninguna að fréttirnar hefðu skotið þér skelk í bringu

Ef þú ert á hinn bóginn að einbeita sjóninni að einhverju, svo sem því að draga línu gegnum völundarhús, akstri um götur borgarinnar eða lestri skáldsögu, deplar þú augunum sjaldnar. Flugstjórar þurfa til dæmis að einbeita sér meira en aðstoðarflugmenn og depla augunum mun sjaldnar. Sérstaklega depla menn augunum sjaldan þegar þeir lenda í raunverulegri hættu og þurfa að skotra augunum með hraði frá aðalsjónsviðinu að útjaðri sjónsviðsins og til baka.

Það eru önnur tengsl milli heilans og þess að depla augunum. Að sögn kanadíska blaðsins The Medical Post benda rannsóknir til þess að ‚hvert depl kunni að eiga sér stað á því þýðingarmikla augnabliki þegar við hættum að sjá og byrjum að hugsa.“ Til dæmis er sennilegt að sá sem er að leggja eitthvað á minnið depli augunum um leið og hann er búinn að renna þeim yfir það efni sem hann ætlar að leggja á minnið. Þá benda athuganir til að við ákvarðanatöku „fyrirskipi heilinn að augunum skuli deplað þegar hann hefur tekið við nægum upplýsingum til að taka góða ákvörðun,“ segir The Medical Post, og bætir við: „Tilraunir benda til þess að það að depla augunum sé nokkurs konar stafsetningarmerki fyrir hugann.“

Það er nálega þrjú þúsund ár liðin síðan vitrum manni var blásið í brjóst að skrifa: „Ég er undursamlega skapaður.“ (Sálmur 139:14) Framfarir læknavísindanna á okkar dögum hafa einungis styrkt þá skoðun. Hugsaðu þér bara: Að fægja og smyrja flókna linsu, skrá einbeitingar- eða kvíðastig heilans og tefja innstreymi sjónskynjunar til heilans — með því einu að depla auga!