Áskorun á foreldra
Áskorun á foreldra
Heimurinn er langtum siðspilltari en hann var. Auglýsingar með kynferðislegu ívafi eru alls staðar. Í söluturnum og matvöruverslunum eru seld tímarit er lýsa konum sem leikföngum. Rokklag hvetur til nauðgunar. Heimurinn er sannarlega siðspilltur eins og sjá má og heyra hvern dag.
PRÓFESSOR í fjölskyldurannsóknum, Greer Litton Fox, segir að í bandarísku sjónvarpi séu daglega sýnd eða gefin í skyn „um 40“ kynmök „frá klukkan hálftvö síðdegis til klukkan ellefu á kvöldin, þar af innan við fimm af hundraði milli hjóna.“ Í ljósi hinnar sterku hvatningar í fjölmiðlum til kynlífs er ekkert undarlegt að lesa megi um „stóraukna þungunartíðni meðal unglinga og stórskaðlegar afleiðingar hennar.“
Það er sannarlega áskorun á foreldra, sem vilja börnum sínum allt hið besta, að ala þau upp í þessum siðlausa heimi. Ekki svo að skilja að allir unglingar stundi kynlíf. Könnun sem gerð var í Danmörku árið 1989 sýndi að um helmingur 17 ára stúlkna höfðu haft kynmök — sem þýðir að helmingurinn hafði látið það ógert. Og margir unglingar, sem hafa haft kynmök, óska þess að þeir hefðu látið það ógert.
Stúlka skrifaði dálkahöfundinum Ann Landers: „Kynmök við Joe (fyrsta strákinn sem ég var skotin í) ollu mér vonbrigðum, þannig að ég prófaði þau aftur með Mike, síðan Neal og svo George. Ég veit ekki eftir hverju ég var að sækjast. Hvað sem það var fékk ég það ekki. Ég var búin að tileinka mér alls konar heimskulegar hugmyndir úr tímaritum, sápuóperum og kvikmyndum. Raunveruleikinn var allt öðruvísi.
Ef ég gæti talað við ungu stelpurnar sem lesa dálkinn þinn myndi ég segja þeim að kynlíf unglinga leysir engin vandamál; það skapar bara fleiri. Það veitir stúlku ekki þá tilfinningu að hún sé elskuð heldur lætur hana finnast hún vera ómerkileg. Ég myndi segja þeim að kynmök geri ekki stúlku að ‚meiri konu‘ heldur hið gangstæða.
Ef ég gæti talað til foreldra myndi ég hvetja þá til að brýna fyrir börnum sínum sjálfsvirðingu og háar siðferðiskröfur.“
Sannleikurinn er sá að ungt fólk, sem á náin tengsl við foreldra sína, finnur til öryggis innan fjölskyldunnar og er ánægt með hvernig því gengur, verður miklu síður siðleysi að bráð en þau ungmenni sem eru ekki í þeirri aðstöðu. Og til er samfélag töluvert yfir fjögurra milljóna manna um allan heim sem hjálpar ungu fólki að halda sér við langtum háleitara siðferði en gengur og gerist nú á tímum.
Hvernig getur þú, í ljósi þessara staðreynda, hjálpað börnum þínum að verjast hinu sívaxandi siðleysi í heimi nútímans? Hvernig getur þú hjálpað þeim að vera hamingjusöm og siðferðilega hreinlíf? Það er efni næstu tveggja greina.