Dauðarokk — hver er boðskapurinn?
Dauðarokk — hver er boðskapurinn?
SÍÐHÆRÐUR ungur maður með tryllingslegt augnaráð stendur frammi fyrir stórum, syngjandi og æpandi aðdáendahópi. Hann tekur upp fötu með dýrablóði og innyflum og skvettir úr henni yfir fyrstu áheyrendaraðirnar. Aðdáendurnir hlæja, smyrja á sig blóðinu og henda innyflunum hver í annan. Að sögn Flórídablaðsins St. Petersburg Times átti þetta atvik sér stað á rokktónleikum hljómsveitar sem kallar sig Deicide sem merkir ‚guð drepinn.‘ Þessi tónlist er kölluð dauðarokk og á að vera öfgakenndasta tegund þungarokks. Á síðustu árum hafa vinsældir hennar aukist, bæði í Flórída og um allan heim, allt frá því að hljómsveit sem kallar sig Death gaf út hljómplötu sem nefndist Scream Bloody Gore.
Hljómsveitin Deicide er undir forystu yfirlýsts Satansdýrkanda sem segist hafa hatað Guð síðan hann lenti í bílslysi þar sem hann fékk ör er líkist bókstafnum J. Hann þykist viss um að stafurinn standi annaðhvort fyrir Jesús eða Jehóva. Hann segist heyra raddir sem hvetja hann til að drepa sig og hefur brennt satansmerki á enni sér.
Jafnvel hinar hefðbundnari þungarokkshljómsveitir boða lítið skárri boðskap. Tímaritið Time sagði frá því að tvær metsöluplötur þungarokkshljómsveitarinnar Guns N’ Roses hafi selst í meira en einni og hálfri milljón eintaka á þrem dögum, þrátt fyrir „látlausa karlrembu og ofbeldistón í textunum“ og „útlendingahatur, kynþáttahatur, kvalalosta og sjálfspíningarhvöt.“ Þá er fjallað um notkun munns við samfarir og manndráp og blótsyrði notuð grimmt. Nokkrar verslanakeðjur hafa neitað að selja hljómplöturnar.
Þungarokk, svo og sum rapptónlist, hefur sætt vaxandi gagnrýni upp á síðkastið. Þessi gagnrýni er ekki aðeins frá bókstafstrúarmönnum á vettvangi trúmálanna og ofuríhaldssamra stjórnmálahópa. Hún kemur líka frá Læknafélagi Bandaríkjanna (AMA) og Barnalækningaakademía Bandaríkjanna hefur einnig varað við því hve hættulegur boðskapur beggja þessara tónlistartegunda sé. Að sögn tímaritsins American Health sagði AMA: „Líkamlegri og tilfinningalegri heilsu barna og unglinga, einkum þeirra sem eru sérstaklega viðkvæmir, getur stafað veruleg hætta af boðskap vissrar tegundar rokktónlistar.“
Er þessi tónlist í raun og veru svona hættuleg? Nú, líttu á sex algeng stef í rapptónlist og þungarokki sem AMA telur geta verið hættuleg: fíkniefnaneysla og misnotkun áfengis, sjálfsmorð, ofbeldi, satansdýrkun, kynferðisleg misnotkun og kynþáttahatur. Getur hvatning til einhvers slíks verið uppbyggjandi? — Samanber Orðskviðina 6:27, 28; Filippíbréfið 4:8.