Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfin í hættu

Höfin í hættu

Höfin í hættu

Á MEÐALÁRI er sturtað 130 milljónum lítra af olíu í heimshöfin. Þessi tala, þótt stór sé, innifelur ekki einu sinni stórslysin, sem stundum verða, svo sem Exxon Valdez-mengunarslysið út af strönd Alaska árið 1989, eða hina ógurlegu olíumengun á Persaflóa í janúar síðastliðnum þegar um 160 milljónir lítra streymdu út í sjóinn á dag!

En maðurinn hendir fleiru en olíu í hafið. Í Norðursjó, út af strönd Þýskalands, eru mengunarefni frá iðjuverum að ná eitrunarstigi sem sérfræðingar kalla svo. Í 200 kílómetra fjarlægð frá ströndinni er yfirborðslag sjávar mengað banvænu efni sem notað er í skipamálningu. Þetta eins millimetra yfirborðslag sjávar er mikilvægur klakstaður fiskhrogna, auk þess að vera heimkynni örvera sem eru aðalfæða margra sjávarlífvera.

Sunnan Evrópu hafa vísindamenn uppgötvað að yfirborðslag Miðjarðarhafs er líka fullt af mengunarefnum, olíu og skolpi. Mengað yfirborðslag er sérlega hættulegt fyrir sjávarspendýr, svo sem hvali, því að þau þurfa að koma upp á yfirborðið með reglulegu millibili til að anda. Þannig deyja árlega um 6000 sjávarspendýr í Miðjarðarhafi, aðallega af völdum mengunar. Á einu tímabili skolaði höfrungum í hundraðatali upp á strendur Miðjarðarhafs — allt upp í 50 dýr á viku aðeins á Frakklandsströnd. Veira hafði lagst á þessar glæsilegu skepnur. Vel má vera að mengun hafi átt sinn þátt í að veikja mótstöðuafl höfrunganna gegn veirunni. Haffræðingurinn Jean-Michel Cousteau aðvaraði: „Ef mengun getur drepið höfrunga getur hún líka drepið okkur.“

Sumum geta þótt slíkar spár ógnvekjandi, en sannleikurinn er sá að mannkyni stafar margvísleg hætta af mengun nú þegar. Til dæmis uppgötvuðu björgunarmenn að mengun torveldaði þeim leit að fólki eftir flugslys út af strönd Nýfundnalands. Í þetta skipti var það plastrusl sem tálmaði björgunarstarfi, því að svo mikið plastrusl var á víð og dreif um hafið að björgunarmenn gátu ekki greint milli braks úr flugvélinni og plastruslsins. Þeir fundu engan á lífi eftir flugslysið.

Þetta er sorgleg saga. En hugsaðu nú aðeins: Ef þessi mengun hryggir mennina, hversu miklu sárari hlýtur hún að vera fyrir hann sem skapaði „hafið og allt, sem í því er.“ (Nehemía 9:6) Sá tími hlýtur að nálgast ört er hann mun „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ — Opinberunarbókin 11:18.

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 29]

Mike Baytoff/Black Star