Hjálpaðu þeim að vera skynsöm þegar þau velja sér maka
Hjálpaðu þeim að vera skynsöm þegar þau velja sér maka
VITA börnin þín hvers konar eiginleikum þau eiga að leita að í fari hugsanlegs maka og hvernig þau geta verið skynsöm í vali sínu? Það er mikilvægt að íhuga það og hjálpa þeim að velja viturlega, því að framtíðarhamingja þeirra er í húfi.
Víða um lönd gætir vaxandi þrýstings á sífellt yngri krakka að byrja að ‚vera saman‘ eða eiga stefnumót. „Foreldrar 10 ára krakka segja mér að það sé þrýst mjög fast á þá um að leyfa krökkunum að byrja saman,“ segir dr. Ronald W. Taffel, sálfræðingur í New York. „Foreldrar þurfa allt í einu að þjarka um mál sem þeir bjuggust ekki við að þurfa að takast á við fyrr en krakkarnir kæmust á gelgjuskeiðið.“
Hverjar eru líklegar afleiðingar ef þú lætur undan og leyfir krökkunum þínum að byrja að ‚vera með‘ einhverjum af hinu kyninu meðan þau eru ung að árum? The Journal of the American Medical Association segir: „Tíð stefnumót á unga aldri haldast í hendur við það að kynmök hefjast á unga aldri.“ Í Bandaríkjunum hafa birst fréttir í fjölmiðlum þess efnis að það „færist í vöxt að 10 til 14 ára stúlkur verði barnshafandi.“
Hvað getur þú gert til að hjálpa börnum þínum?
Kenndu þeim frá unga aldri
Foreldrar þurfa að innprenta börnum sínum jákvæða, kristna eiginleika og hjálpa þeim að þroska þá. Þeir þurfa líka að hjálpa þeim að bera kennsl á slíka eiginleika hjá væntanlegum maka sínum. Þegar barnið þitt fer að tala um að ‚vera með‘ eða eiga stefnumót við einhvern af hinu kyninu skaltu útskýra að það sé ekki bara saklaus skemmtun fyrir börn undir táningaaldi eða á fyrri hluta táningaaldurs. Sýndu þeim fram á að stefnumót séu fyrir fólk sem er orðið nógu gamalt til að leita sér að maka í fullri alvöru.
Sökum reynsluleysis eru börn ekki miklir mannþekkjarar og ættu að viðurkenna það fúslega. Indversk stúlka sagði einu sinni við hjúskaparráðgjafa: „Foreldrar okkar eru eldri og vitrari og það er ekki jafnauðvelt að blekkja þá eins og okkur. . . . Það er mikilvægt að maðurinn, sem ég giftist, sé hinn rétti. Ég gæti hæglega gert mistök ef ég ætti að finna hann upp á eigin spýtur.“ Unglingar geta tvímælalaust notið góðs af hjálp þeirra sem eru þeim eldri og reyndari.
Ungt fólk dæmir þann sem það hefur augastað á oft eftir mælistiku sem segir lítið um það hvort hann eða hún sé gott manns- eða konuefni. Piltar hrífast kannski af laglegu andliti eða fallegu vaxtarlagi — en hvað um framtíðina? Andlit og vaxtarlag breytast og
síðar mun pilturinn vafalítið vilja að konan hans sé þroskaður einstaklingur, skynsöm og fær um að axla ábyrgð. Stúlkur leggja oft mest upp úr því að pilturinn sé myndarlegur, fínn í tauinu og hnyttinn í tilsvörum, í stað þess að hugsa um að hann sé góðviljaður og elski Guð og náungann sem eru auðvitað mikilvægari eiginleikar.Hvað geta foreldrarnir gert? Hvernig væri að vekja athygli barna þinna á einhverjum sem þau þekkja og búa í hamingjuríku hjónabandi? Þú gætir bent á að sumt af þessu fólki hafi kannski ekki valið sér laglegasta eða myndarlegasta einstaklinginn í bænum heldur einhvern sem hafði góða eiginleika og hafði sama smekk, áhugamál og markmið og það.
Hví ekki að ræða þetta við börnin þín? Þegar Ann var 13 ára spurði móðir hennar hana hvaða eiginleika hún vildi að eiginmaður hennar myndi hafa. Þær ræddu málin og Ann tók saman lista yfir þá eiginleika sem hún mat mest. Og þetta var ekki óraunhæfur listi. Á honum stóð meðal annars að hann ætti að vera maður sem hún gæti borið virðingu fyrir og að smekkur hans og áhugamál ættu að fara saman við hennar. Ann er núna hamingjusöm amma og hún mælir enn með því að aðrir fylgi þessu fordæmi.
Mikilvægt er fyrir kristinn mann að hafa í huga boð Biblíunnar um að ‚giftast aðeins í Drottni.‘ (1. Korintubréf 7:39) Sá sem er „í Drottni“ er vígður, skírður kristinn maður sem leggur sig fram við að taka þátt í sama starfi og Jesús vann. Það hefur oft sorglegar afleiðingar þegar þeirri áminningu er ekki sinnt að giftast aðeins í Drottni. Þú skalt því gæta þess að sýna börnunum þínum fram á mikilvægi þess að leita sér að maka aðeins meðal þeirra sem fylgja sömu siðferðisreglum og andlegum meginreglum og þau og geta því hjálpað þeim að innprenta þær þeim börnum sem þau kunna að eignast.
Búðu þau undir að leysa vandamál
Þegar þú hefur komist að þeirri niðurstöðu að börnin þín séu orðin nógu gömul til að stofna til sambands við einhvern af hinu kyninu skaltu leggja áherslu á það við þau að það sé skynsamlegt að kynnin fari fram á almannafæri, svo sem á veitingahúsum, söfnum, skemmtigörðum eða listasöfnum þar sem þau geta talað saman og kynnst hvoru öðru án þess að vera einangruð frá öðru fólki. Hjálpaðu þeim að skilja hvers vegna það sé miklu viturlegra heldur en að eyða tímanum ein saman í bifreið sem lagt er á fáförnum stað eða í einrúmi annars staðar. Það er líka mikilvægt að kenna þeim að þegar þau komi heim af stefnumóti sé skynsamlegt að kveðjast við dyrnar og bjóða ekki hinum aðilanum inn,
nema þá að þið, foreldrarnir, séuð heima og á fótum.Varaðu börnin þín við hugsanlegum hættum. Frétt ein segir frá skólastúlku sem bauð piltinum, sem hún hafði verið úti að borða með, inn á herbergi til sín til að dansa og tala saman. Þótt hann væri ósæmilega áleitinn heimtaði hún ekki að hann færi. Þegar hún hreyfði andmælum baðst hann afsökunar en reyndi svo aftur að táldraga hana. Í fréttinni segir: „Að síðustu gerði hann út um málið“ með því að nauðga henni. Það var sorglegur endir!
Sjáðu því til þess að börnin þín viti hvernig þau geti verið einörð og ákveðin ef einhver svo mikið sem ýjar að siðlausum athöfnum. Þau ættu að flýja af vettvangi á sama hátt og hinn ungi Jósef flýði ágenga konu Pótífars. (1. Mósebók 39:7-12) Þau ættu að vita að hin gatslitnu orð: „Ef þú elskar mig gerir þú það,“ eru algeng aðferð hjá þeim sem er að reyna að draga annan á tálar. Hver sá sem notar þessi orð er sennilega vanur því að gera það og snúa síðan baki við fórnarlambi sínu og leita sér að nýju. Sonur þinn eða dóttir ætti að vita að einarðlegt og ákveðið nei er besta svarið við siðlausri áleitni.
Gættu þess að kenna dóttur þinni að forðast aðstæður þar sem hún ætti á hættu að vera nauðgað. Leggðu áherslu á hve nauðsynlegt það sé að hún þekki vel hvern þann ungan mann sem hún fer út með og að þið, foreldrar hennar, kannist líka við hann. Ef börnin þín búa ekki lengur í grennd við þig, gættu þess þá að þau leiti upplýsinga hjá kristnum umsjónarmanni um þann sem þau eru að stofna til kynna við. Mundu að til eru einstaklingar sem sigla undir fölsku flaggi, þykjast vera kristnir og lauma sér inn í söfnuðinn, alveg eins og gerðist á fyrstu öldinni. — 2. Pétursbréf 2:13-15, 17, 18.
Enn fremur þarftu að kenna sonum þínum að sannir karlmenn traðki ekki vísvitandi á tilfinningum annarra. Þeir skýla öðrum og vernda þá. Sannir karlmenn eru herrar hvata sinna, ekki þrælar. Þeir ættu að koma fram við hitt kynið með virðingu, eins og þeir myndu koma fram við mæður sínar eða systur. — 1. Tímóteusarbréf 5:1, 2.
Láttu börnin þín aldrei gleyma þessari grundvallarreglu Biblíunnar: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) Börnin þín ættu því að gera sér ljóst að þau þurfa að forðast félagsskap við hvern þann sem lifir ekki siðferðilega hreinu lífi. Allt frá barnæsku ættir þú að innprenta þeim að enda þótt aðrir menn sjái ekki hvað þau eru að gera sér Guð alltaf til þeirra og hann mun gjalda sérhverju okkar eftir verkum okkar. — Rómverjabréfið 2:6.
Siðferðilegt hreinlífi í siðlausum heimi
Sérfræðingar í heiminum barma sér yfir því að þeir „kunni lítil ráð til að letja ógifta unglinga þess að hefja kynlíf.“ Kristnir foreldrar vita að það er hægt. Með því að innræta börnum sínum kærleika til Guðs og ósvikna virðingu fyrir lögum hans gefa foreldrar þeim þær varnir sem þarf til að standast freistingar þessa siðlausa heims og lifa siðferðilega hreinu lífi. Milljónasamfélag votta Jehóva sker sig úr fyrir það að halda sér fast við hina háleitu siðferðisstaðla orðs Guðs. Jafnvel alfræðibókin New Catholic Encyclopedia segir að kröfur þessa hóps „um siðferði og hjónaband séu mjög strangar.“ — 7. bindi, bls. 864.
Ungt fólk meðal votta Jehóva, sem lifir siðferðilega hreinu lífi, veit að það er elskað og mikils metið, ekki aðeins af foreldrum sínum heldur einnig kristnum bræðrum sínum um víða veröld. Það hefur jákvæða sjálfsmynd, tekur þátt í samkomum safnaðarins, þroskar með sér hæfileika til að kenna öðrum og tekur þátt í biblíufræðslu. Það lifir samkvæmt siðferðiskröfum Guðs, nýtur sjálfsvirðingar og á fyrir sér bjarta framtíð í réttlátum nýjum heimi Guðs. — 1. Jóhannesarbréf 2:17; Opinberunarbókin 21:3, 4.
[Rammi á blaðsíðu 26]
Hvernig velur þú þér maka?
Bókin Spurningar unga fólksins — svör sem duga kemur með afbragðstillögur um hvernig ungt fólk geti kynnst þeim sem það kynni að hafa áhuga á að giftast. a Bókin sýnir að nauðsynlegt sé að þekkja bæði styrk og veikleika einstaklingsins og kynnast því hvernig hann er í raun og veru. Hvernig er hægt að gera það?
Í fyrstu getur þú gefið einstaklingnum auga. Hvernig hegðar hann sér? Hvernig kemur hann fram við aðra? Hvernig talar hann við foreldra sína eða aðra úr fjölskyldunni? Allt skiptir þetta máli því að það gefur vísbendingar um hvernig ætla megi að komið verði fram við þig.
Í óformlegum samræðum getur þú komist að því hvort áhugamál og markmið hans eða hennar fara saman við þín. Þú getur ef til vill líka komist að raun um hvernig aðrir hugsa um þennan einstakling.
Það er gott að þú komist að raun um hvers konar persóna hinn einstaklingurinn er, kynnist hugsunum hans, hugmyndum og innri manni. Hvernig bregst hann við álagi? Hverjir eru vinir hans? Hvernig er fjölskylda hans og hvernig eru innbyrðis samskipti hennar?
Með því að vinna með hinum einstaklingnum getur þú fengið betri mynd af eiginleikum hans. Gefðu þér nægan tíma til að hin lakari persónueinkenni fái tækifæri til að koma í ljós. Síðan segir þessi ágæta bók um ungt fólk sem hefur fylgt þessum góðu heilræðum: „Þau geta gengið í hjónaband með opin augu, þess fullviss að þau geti leyst ágreiningsmál sem upp koma. Farsælt tilhugalíf hefur búið þau undir farsælt og hamingjusamt hjónaband.“ — Kaflar 29-32.
[Neðanmáls]
a Þessi bók er gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., útgefanda þessa blaðs. Hún er ekki fáanleg á íslensku.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Aðlaðandi útlit getur haft sterkt aðdráttarafl en góðir persónueiginleikar skipta meira máli.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Það er skynsamlegra að kynnin eigi sér stað á almannafæri en þar sem enginn annar er nærri.