Hvers vegna þarf ég að vera öðruvísi en hinir?
Ungt fólk spyr. . .
Hvers vegna þarf ég að vera öðruvísi en hinir?
„ÞAÐ er erfitt að vera öðruvísi en hinir,“ sagði kristinn unglingur. Ef þú er sjálfur kristinn skilur þú eflaust nákvæmlega hvernig honum er innanbrjósts. Líkt og flest ungmenni vilt þú vera vel liðinn og njóta viðurkenningar annarra. Vandinn er sá að oft er ekki hægt að ávinna sér viðurkenningu jafnaldranna nema með því að vera eins og þeir — í tali, klæðaburði og háttum. Unglingur, sem vogar sér að vera frábrugðinn fjöldanum, hættir á áreitni, einelti eða félagslega útskúfun.
Unglingar meðal votta Jehóva eru þess vegna í erfiðri aðstöðu. Það eitt að þeir skuli vera kristnir gerir þá ólíka öðrum unglingum. Það kemur ekki til af því að þeim finnist þeir yfir aðra hafnir eða telji sig betri en aðra. Hins vegar veldur biblíulegt uppeldi þeirra því að siðferðisstaðlar þeirra eru í mörgu ólíkir því sem gengur og gerist meðal jafnaldra þeirra. Afstaða þeirra til trúarlegra hátíða, ættjarðarathafna og þess að vera með hinu kyninu gerir þá oft að þyrni í auga jafnaldra sinna. a
Ung stúlka, sem er vottur, kallar það að vera öðruvísi en hinir „það erfiðasta við að vera kristin.“ Annar unglingur segir: „Krakkarnir líta niður á mann. Ég hef verið kallaður rola og aumingi mörgum sinnum.“ Að auki krefjast kristnir foreldrar þínir kannski að þú sért ekki aðeins ólíkur hvað varðar siðferði heldur líka í klæðaburði, hártísku og tónlistarsmekk.
Þjónar Guðs skera sig úr!
‚Hvað er að því að vera eins og hinir krakkarnir?‘ spyrð þú kannski. Nú, það að skera sig úr fjöldanum hefur einkennt þjóna Guðs allt frá öndverðu. Á sínum tíma útvaldi Guð Ísraelsmenn sem ‚eiginlega eign‘ sína. (2. Mósebók 19:5) Það þýddi að þeir væru ólíkir öllum öðrum þjóðum. Í 3. Mósebók 18:3 gaf Guð þessi fyrirmæli: „Þér skuluð ekki gjöra að háttum Egyptalands, þar sem þér bjugguð, og þér skuluð ekki gjöra að háttum Kanaanlands, er ég mun leiða yður inn í, né heldur skuluð þér breyta eftir setningum þeirra.“
Egyptar til forna voru djúpt sokknir í auvirðilega tilbeiðslu á dýrum. Líf þeirra var gagnsýrt trúnni á ódauðleika sálarinnar. Sifjaspell var algengt. Kanaanland var líka gagnsýrt skurðgoðadýrkun, siðspillingu, blóðsúthellingum, barnafórnum og vændi. „Saurgið yður ekki með nokkru þvílíku,“ aðvaraði Guð síðan. „Fremjið enga af þessum viðurstyggðum.“ — 3. Mósebók 18:24-26.
Jehóva studdi þessar áminningar með löggjöf sem snerti nálega öll svið lífsins — mataræði 3. Mósebók 11), hreinlæti (5. Mósebók 23:12, 13) og kynlíf (3. Mósebók 18:6-23). Í lögmálinu voru meira að segja ákvæði um klæðaburð og hártísku! ‚Þeir skulu gjöra sér skúfa á skaut klæða sinna frá kyni til kyns,‘ sagði Jehóva, ‚og festa snúru af bláum purpura við skautskúfana.‘ (4. Mósebók 15:38) Karlmenn áttu að ganga með alskegg og var bannað að ‚skerða skeggrönd sína.‘ (3. Mósebók 19:27; 21:5) Gyðingar áttu að hlýða þessu lagaboði hvort sem þeim líkaði að vera með skúfa á klæðafaldi sínum eða ekki og hvort sem þeim líkaði að vera skeggjaðir eða ekki.
(Ímyndaðu þér nú að þér væri sagt að þú yrðir að vera með skegg og klæða þig á ákveðinn hátt. Myndir þú ekki taka það óstinnt um sem skerðingu á persónufrelsi þínu? Samt sem áður þjónaði lögmál Guðs þýðingarmiklum og gagnlegum tilgangi. Jehóva sagði til skýringar: „Þannig skuluð þér muna öll mín boðorð og breyta eftir þeim og vera heilagir fyrir Guði yðar. Ég er [Jehóva] Guð yðar.“ (4. Mósebók 15:38-41) Ákvæðin um klæðnað voru áhrifamikil, sýnileg áminning til Gyðinga um að þeir væru ólíkir öðrum — þjóð sem var helguð Jehóva. Ákvæðin um mataræði voru þeim bæði heilsuvernd og hjálpuðu þeim líka að hafa ekki félagslegt eða trúarlegt samneyti við þá sem ekki voru Gyðingar. Það var nánast ómögulegt fyrir þá að hafa samneyti við mann af heiðinni þjóð án þess að brjóta eitthvert lagaboð Guðs. Móselögin voru þannig nokkurs konar ‚veggur‘ sem hélt þjóð Guðs aðskilinni frá öðrum þjóðum. — Samanber Efesusbréfið 2:14.
Kristnir menn verða að vera öðruvísi en hinir
Kristnir menn eru „leystir undan lögmálinu“ og njóta því mikils frelsis til að taka eigin ákvarðanir. (Rómverjabréfið 7:6) Samt sem áður sagði Jesús fylgjendum sínum: „Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.“ (Jóhannes 15:19) Jesús var ekki að segja að kristnir menn yrðu að yfirgefa reikistjörnuna jörð. (Samanber 1. Korintubréf 5:10.) Hann átti einfaldlega við að þeir yrðu að vera aðgreindir frá „heiminum“ — þeim hluta mannkyns sem er fjarlægur Guði. Hvers vegna? Vegna þess að „allur heimurinn er á valdi hins vonda,“ eins og Jóhannes postuli sagði síðar. — 1. Jóhannesarbréf 5:19.
Leiddu nú hugann að sumum unglinganna sem þú þekkir í skólanum. Hvað um hugsunarhátt þeirra, hegðun, tal og tónlistar- eða fatasmekk? Sýnist þér þessir unglingar láta staðla Guðs ráða gerðum sínum — eða láta þeir stjórnast af reglum sem settar eru af ‚guði þessarar aldar,‘ Satan djöflinum? (2. Korintubréf 4:4) Ef hið síðarnefnda er rétt getur þú ímyndað þér hvílík vandræði þú ert að koma þér í ef þú hegðar þér, talar eða ert jafnósnyrtilegur í útliti og margir þeirra! Þú ert að minnsta kosti að draga stórlega úr áhrifamætti þeirrar fullyrðingar þinnar að þú sért vottur Jehóva. Það sem verra er, þú ert að setja þig í þá hættu að lúta í lægra haldi fyrir slæmum áhrifum.
„Vinir manns hafa mikil áhrif á mann,“ viðurkennir ung kona sem Kim heitir. „Þegar ég var í skóla var ég ekki nógu sterk í kristinni trú þannig að ég átti fullt af veraldlegum vinum. En það var ekki heppilegt fyrir mig því að ég fór út í alls konar ósóma.“ En þú þarft ekki að gerast sekur um alvarlega synd til að spilla sambandi þínu við Guð. Taktu vel eftir því sem Biblían segir í Jakobsbréfinu 4:4: „Vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.“
Vilt þú í alvöru taka þá áhættu að verða óvinur Guðs? Auðvitað ekki! Þá skaltu láta skýrt í ljós að þú sért ekki hluti af heiminum. En til þess þarft þú að gera meira en aðeins að forðast fíkniefni og siðleysi.
Hvernig maður er öðruvísi
Tökum fatasmekk þinn sem dæmi. Fötin sem þú klæðist segja sitthvað um það hver þú sért, hvað þú aðhyllist og hvað þú trúir á. Ólíkt því sem var hjá Gyðingum býður kristnin hins vegar upp á að einstaklingseðli og valfrelsi njóti sín.
En þýðir það að þú eigir að elta hvert einasta tískufyrirbæri sem upp kemur?Kristna stúlku langaði til að vera í rifnum gallabuxum í skólanum eins og þá var í tísku. Að sjálfsögðu vill enginn vera gamaldags í klæðaburði. En það er viturlegt af foreldrum þínum að banna þér að vera subbulega, ögrandi, framandi eða hneykslanlega til fara. Hvaða hugmyndir myndu aðrir gera sér um þig ef þú klæddist þannig? Ung stúlka, Jeffie, uppgötvaði það þegar hún lét klippa sig samkvæmt stundartísku. „Ég hélt bara að það væri ‚öðruvísi,‘“ segir hún, „en þá fór fólk að spyja mig: ‚Ertu í alvöru vottur Jehóva?‘ og það var vandræðalegt.“
Öfgalausar leiðbeiningar eru gefnar í 1. Tímóteusarbréfi 2:9 þar sem kristnir menn eru hvattir til að klæðast „með blygð og hóglæti.“ Það er yfirleitt hægt að vera látlaus og smekkvís í klæðaburði án þess að virðast áberandi gamaldags. Íhaldssemi í klæðaburði er að vísu ekki líkleg til að gera þig að eftirsóttustu persónu í heimi, en hún mun hjálpa þér að skera þig úr — og það hefur í för með sér að þú ávinnur þér velþóknun Guðs.
Hvað um tónlistarsmekk þinn? Tónlist fyllir velflestar vökustundir margra unglinga. Innan hóflegra marka getur tónlist verið ánægjuleg og uppbyggjandi. Önnur Mósebók 32:17-22 sýnir hins vegar að tónlist getur líka vakið upp ýmsar auvirðandi hvatir og fýsnir. Og stór hluti af tónlist nútímans er hreinlega óhæf fyrir kristna menn. Rapp og þungarokk er til dæmis vinsælt en stór hluti þess — ef ekki stærstur — snýst um siðlaust kynlíf, uppreisn, ofbeldi og jafnvel spíritisma. Fylgir þú fjöldanum í vali þínu á tónlist eða hefur þú hugrekki til að vera vandfýsinn í vali þínu?
Já, það kostar hugrekki að vera öðruvísi en hinir. Þegar þú neitar að láta kunningja þína og skólafélaga ráða því hvað þú velur þér til skemmtunar, hvernig þú talar og hvernig þú klæðist er óhjákvæmilegt að það veki viðbrögð. Jesús aðvaraði: „Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum.“ (Jóhannes 15:19) Það að vera öðruvísi en hinir getur verið eitthvað það erfiðasta sem þú þarft að gera — en það er alls ekki ómögulegt. Það er sú stefna sem samræmist stöðlum Guðs. Hún gefur þér sjálfsvirðingu og hreina samvisku. Spurningin er: Hvernig getur þú byggt upp hugrekki til að vera öðruvísi en hinir? Um það verður fjallað í næsta tölublaði Vaknið!
[Neðanmáls]
a Ítarlegri umræðu um þessi atriði er að finna í bæklingnum Skólinn og vottar Jehóva (ekki fáanlegur á íslensku), gefinn út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 20]
Unglingur, sem gætir þess ekki að vera frábrugðinn jafnöldrum sínum, gerir sjálfum sér erfitt fyrir að vera kristinn.