Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Konum sýnd virðing í daglegu lífi

Konum sýnd virðing í daglegu lífi

Konum sýnd virðing í daglegu lífi

HVAR á að hefja breytingarnar og hvernig til að konur geti notið meiri virðingar en nú er? Nú, hvenær og hvar verða fordómar og ranghugmyndir venjulega til? Á heimilinu og í skólanum á uppvaxtarárunum. Viðhorf okkar mótast að miklu leyti vegna áhrifa foreldranna. Hverjir geta þar af leiðandi haft sterk áhrif á framtíðarviðhorf ungra manna til kvenna? Augljóslega foreldrarnir. Einn lykill að lausn vandans er því rétt fræðsla sem nær inn fyrir veggi heimilisins og hefur áhrif á foreldrana.

Viðhorfin til kvenna

Að fordómarnir séu innprentaðir á heimilinu má sjá af frásögn Jennyar, giftrar konu er starfar sem ritari og er elst fjögurra systra. Hún segir: „Sem ungar konur vorum við okkur alltaf meðvitandi um að konur eru fleiri en karlar í Bandaríkjunum. Ef maður vill giftast verður maður þar af leiðandi að gera sig eftirsóknarverða.

Auk þess er konum innprentað að þær séu óæðri körlum. Stundum koma foreldrarnir manni jafnvel til að trúa að maður sé minna virði en strákarnir. Þegar einhver karlmaður kemur inn í líf manns lætur hann líka á sér skilja að konur séu óæðri körlum.

Og hvers vegna ætti sjálfsvirðing manns að byggjast aðallega á vaxtarlagi og fallegu útliti eða vöntun á því? Eru karlmenn dæmdir eftir þeim kvarða?“

Betty, gift í 32 ár og fyrrverandi verslunarstjóri, nefnir annað atriði: „Hvers vegna eru konur dæmdar eftir kynferði sínu frekar en reynslu, hæfni og gáfum? Ég fer ekki fram á meira en að karlmenn hlusti á hvað mér finnst. Lítið ekki niður á mig vegna kynferðis míns!

Það er allt of algengt að karlar líti á allar konur sem einfaldar eða heimskar — of einfaldar til að taka réttar ákvarðanir. Ég vil bara segja þetta: Komið fram við okkur eins og þið viljið láta koma fram við ykkur. Það breytir fljótt afstöðu ykkar!“ Hún er ekki að fara fram á annað en að karlmenn fari eftir gullnu reglunni: ‚Gerið öðrum það sem þið viljið að aðrir geri ykkur.‘ — Matteus 7:12.

Þessar konur benda á nokkur réttmæt atriði. Það ætti ekki að meta manngildi konu út frá ytra útliti hennar og persónutöfrum eða fordómum samfélagsins. Spænskt máltæki lýsir því þannig: „Fögur kona gleður augun; góð kona gleður hjartað. Ef sú fyrri er gimsteinn er sú síðari fjársjóður.“

Biblían tjáir sömu hugsun með öðrum orðum er hún segir: „Fegurð þín ætti ekki að ráðast af íburðarmikilli hárgreiðslu eða skarti og fínum fötum heldur innri persónuleika — hinum ófölnandi yndisleik rólyndis og mildi sem er afar dýrmæt í augum Guðs.“ Og á sama hátt og við ættum ekki að dæma bók eftir kápunni ættum við ekki að dæma fólk eftir kynferði sínu. — 1. Pétursbréf 3:3, 4, Phillips.

Að sýna virðingu á heimilinu

Margar konur, einkum útivinnandi eiginkonur og mæður, kvarta undan því að menn þeirra líti ekki á heimilisstörfin sem viðbótarvinnu og leggi ekki sitt af mörkum. Þetta er réttmæt aðfinnsla. Eins og Susan Faludi, sem áður er vitnað til, segir: „Konur njóta ekki heldur jafnréttis heima hjá sér þar sem þær þurfa enn að vinna 70 af hundraði heimilisstarfanna.“ Hvernig má bæta úr þessu ranglæti?

Enda þótt mörgum eiginmanni í sumum samfélögum geðjist líklega ekki að þeirri hugmynd, ætti að skipta heimilisstörfunum milli hjónanna á sanngjarnan hátt, ekki síst ef konan þarf líka að vinna úti. Að sjálfsögðu ber, þegar hjón skipta með sér verkefnum, að taka tillit til þess sem yfirleitt er starfsvettvangur karla — svo sem viðhald bifreiðarinnar, garðsins og hússins — sem krefst þó sjaldan jafnmikils tíma og konan fer með í heimilisstörfin. Sums staðar í heiminum ætlast eiginmenn jafnvel til að konan haldi bílnum hreinum, rétt eins og hann væri hluti af heimilinu!

Þessi tillaga um að hjón deili með sér heimilisstörfunum er á vissan hátt í samræmi við heilræði Péturs til eiginmanna um að búa „með skynsemi“ með eiginkonum sínum. (1. Pétursbréf 3:7) Meðal annars merkir þetta að eiginmaðurinn ætti ekki einfaldlega að vera ópersónulegur, tilfinningasljór sambýlismaður. Hann ætti að virða greind konu sinnar og reynslu. Hann ætti líka að bera skyn á þarfir hennar sem konu, eiginkonu og móður. Það krefst meira af honum en aðeins að vera fyrirvinna heimilisins sem kemur heim með launaumslagið; margar útivinnandi konur gera það líka. Hann þarf að skilja líkamlegar, tilfinningalegar, sálfræðilegar, kynferðislegar og, framar öllu öðru, andlegar þarfir hennar.

Enn þyngri ábyrgð hvílir á eiginmanni sem segist fylgja meginreglum kristninnar — sú að líkja eftir fordæmi Krists. Hann kom með mjög svo hlýlegt boð til allra sem ‚erfiði höfðu og þungar byrðar‘ og sagði: „Ég mun veita yður hvíld. . . . ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ (Matteus 11:28, 29) Hvílík áskorun á kristna eiginmenn og feður! Hver og einn ætti að spyrja sig: ‚Veiti ég konunni minni hvíld eða bæli ég hana niður? Er ég góðviljaður og viðmótsgóður eða hef ég tilhneigingu til að vera harðstjóri eða einræðislegur? Sýni ég ‚bróðurelsku‘ á kristnum samkomum en verð síðan óþolandi þegar ég kem heim? Enginn eiginmaður í kristna söfnuðinum ætti að líkjast klofnum persónuleika dr. Jekyll og Mr. Hyde úr sögu R. L. Stevensons. — 1. Pétursbréf 3:8, 9.

Það er því aldrei hægt að réttlæta þá lýsingu sem kristin kona, er hafði verið misþyrmt, gaf á eiginmanni: „Hinn karlmannlegi, kristni fjölskyldufaðir sem er svo vingjarnlegur í Ríkissalnum og kaupir gjafir handa öðrum en kemur fram við konuna sína eins og skítinn undir fótum sér.“ Tilhlýðileg virðing fyrir eiginkonunni býður ekki upp á kúgun og niðurlægingu. Að sjálfsögðu eru tvær hliðar á málinu því að eiginkona ætti líka að sýna manni sínum tilhlýðilega virðingu. — Efesusbréfið 5:33; 1. Pétursbréf 3:1, 2.

Dr. Susan Forward staðfestir þetta og segir: „Gott samband er byggt á gagnkvæmri virðingu.“ Það er því ábyrgð beggja hjónanna að vel gangi. Hún heldur áfram: „Það felur í sér umhyggju og næmi fyrir tilfinningum og þörfum hvors annars, svo og að kunna að meta það sem gerir hvort um sig svona sérstakt. . . . Ástríkum hjónum tekst að leiða ágreiningsmál sín farsællega til lykta; þau líta ekki á hvern árekstur sem bardaga er annaðhvort vinnst eða tapast.“ — Men Who Hate Women & the Women Who Love Them.

Biblían gefur eiginmönnum líka góð ráð í Efesusbréfinu 5:28: „Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig.“ Hvers vegna eru þessi orð sönn? Vegna þess að líkja má hjónabandinu við bankareikning sem hjónin hafa lagt jafnmikið inn á. Ef eiginmaðurinn misnotar eitthvað af fénu skaðar hann fjárhagsstöðu þeirra beggja. Á líkan hátt er maðurinn að vinna sjálfum sér tjón til skamms eða langs tíma litið ef hann vinnur konu sinni tjón á nokkurn hátt. Hvers vegna? Vegna þess að hjónaband hans er sameiginleg ‚fjárfesting.‘ Ef hann misnotar þessa ‚fjárfestingu‘ er það tjón beggja.

Ekki má gleyma einu mikilvægu atriði í sambandi við virðingu — það ætti ekki að krefjast hennar. Enda þótt hjónin skuldi hvoru öðru virðingu þurfa þau líka að ávinna sér hana. Kristur fékk ekki virðingu með því að reyna að halda fram stöðu sinni eða beita sínu mikla valdi. a Eins ávinna hjón sér virðingu með því að vera tillitssöm hvort við annað, ekki með því að nota tilvitnanir í Biblíuna sem barefli hvort á annað.

Virðing á vinnustað

Þurfa karlmenn að líta á konur sem ógnun við karlmennsku sína? Í bók sinni, Feminism Without Illusions, segir Elizabeth Fox-Genovese: „Sannleikurinn er sá að margar nútímakonur eru að sækjast eftir því sama og karlmenn: að sjá sómasamlega fyrir sér, njóta lífsfyllingar í einkalífinu og spjara sig í heiminum án þess að valda of mörgum vandamálum.“ Ætti að líta á þessa löngun eða metnað sem ógnun við karlmennina? Hún heldur áfram: „Hvers vegna ættum við ekki að horfast í augu við það, þrátt fyrir allar þær breytingar sem orðið hafa á heiminum eða eiga eftir að verða, að það er og verður munur á körlum og konum og að hann getur verið til ánægju?“

Kristnir karlmenn í verkstjóra- eða yfirmannastöðum á vinnustað þurfa sérstaklega að virða mannlega reisn þeirra kvenna sem vinna með þeim og hafa hugfast að gift kona á aðeins einn mann sem „höfuð“ sitt samkvæmt Biblíunni, það er að segja eiginmann sinn. Aðrir geta gegnt umsjónarstarfi og verið virtir sem slíkir, en í biblíulegum skilningi er strangt til tekið enginn nema eiginmaðurinn „höfuð“ hennar. — Efesusbréfið 5:22-24.

Umræður á vinnustað ættu alltaf að vera uppbyggilegar. Þegar karlmenn taka að tala tvíræðum orðum eða koma með kynferðislegar dylgjur eru þeir ekki að sýna konum virðingu og ekki heldur að efla mannorð sitt. Páll skrifaði kristnum mönnum: „Frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þessi í stað komi miklu fremur þakkargjörð.“ — Efesusbréfið 5:3, 4.

Það ber líka vott um ónóga virðingu að flytja konu til í starfi án þess að taka mið af tilfinningum hennar. Jean, sem er hjúkrunarkona, segir: „Það væri svo indælt ef það væri talað við mann áður en maður er fluttur til í starfi. Það væri vissulega skynsamleg vinnusálfræði. Konur þarfnast umhyggju og þurfa að finna að tekið sé tillit til þeirra og þær séu virtar.“

Önnur hlið virðingar á vinnustaðnum er hindrunin sem sumar konur kalla „glerþakið.“ Þar er átt við þá „stofnanahlutdrægni sem kemur í veg fyrir að konur komist í háar stjórnunarstöður hjá einkafyrirtækjum.“ (The New York Times, 3. janúar 1992) Nýleg athugun á stöðu mála í Bandaríkjunum leiddi þannig í ljós að hlutfallslega fáar konur gegna yfirmannastöðum, eða frá 14 af hundraði á Hawaiieyjum og 18 af hundraði í Utah, upp í 39 af hundraði í Louisiana. Ef konur væru virtar til jafns við karla myndu stöðuhækkanir á veraldlegum vinnustað ekki byggjast á kynferði heldur hæfni og reynslu. Sharon Harlan, sem veitti könnuninni forstöðu, segir: „Það fer batnandi en . . . það standa enn margar hindranir í vegi kvenna.“

[Neðanmáls]

a Sjá Varðturninn 1. október 1989, bls. 19-29, „Sýndu kærleika og virðingu sem eiginmaður“ og „ . . . sem eiginkona.“

[Rammi á blaðsíðu 14]

Hvernig getur þú sem kona áunnið þér virðingu?

Varðveittu sjálfsvirðingu þína.

Taktu af öll tvímæli um hvað þú leyfir að sé sagt og gert í návist þinni.

Settu því viðeigandi mörk hvers konar hátterni og orðfæri þú sættir þig við.

Reyndu ekki að keppa við karlmenn í grófum munnsöfnuði og tvíræðum bröndurum. Það er ókvenlegt og hvetur karlmenn ekki til prúðmennsku.

Vertu ekki ögrandi í klæðaburði, óháð því hvað er í tísku. Klæðnaður þinn ber vitni um sjálfsvirðingu þína.

Ávinndu þér virðingu með fasi þínu. Sýndu karlmönnum þá virðingu sem þú ætlast til af þeim.

Daðraðu ekki.

Hvernig getur þú sem karlmaður sýnt konum virðingu?

Sýndu öllum konum virðingu. Láttu þér ekki finnast að þér standi ógn af sjálfsöruggri konu.

Vertu ekki óhóflega kumpánlegur við konu sem ekki er eiginkona þín með því að nota óviðkomandi og óviðeigandi gjæluorð.

Forðastu grófa brandara og tvíræðar augnagotur.

Hrósaðu ekki úr hófi og forðastu óviðeigandi snertingar.

Gerðu ekki lítið úr starfi hennar eða persónu.

Spyrðu, hlustaðu og skipstu á skoðunum á málefnagrundvelli.

Láttu í ljós að þú kunnar að meta starf konunnar.

Hjálpaðu konunni þinni við heimilisstörfin. Ef þér finnst það ekki samboðið virðingu þinni, hvað þá um hennar?

Vertu næmur á álagið sem konan þín þarf að bera ef þið búið hjá foreldrum þínum. Þú berð fyrst og fremst ábyrgð á henni og hún þarfnast stuðnings þíns (Matteus 19:5).