Konum sýnd virðing í söfnuðinum
Konum sýnd virðing í söfnuðinum
BIBLÍAN setur guðræðislegar reglur um yfirráð þar sem Kristur er undirgefinn Guði, maðurinn Kristi og konan eiginmanni sínum. (1. Korintubréf 11:3) Að maðurinn skuli vera höfuð konunnar þýðir hins vegar ekki að hann eigi að vera harðstjóri. Forysta innan fjölskyldunnar á aldrei að byggjast á ofbeldi, hvorki líkamlegu, sálfræðilegu eða munnlegu. Yfirvald eiginmanns er auk þess afstætt og merkir ekki að eiginmaður geti hegðað sér eins og einræðisherra sem álítur sig óskeikulan. a Ef hjónin kunna að segja: „Fyrirgefðu, þú hafðir rétt fyrir þér,“ og vita hvenær það á við stuðlar það að gagnkvæmri og langvinnri uppbyggingu. En þessi orð, sem lýsa auðmýkt, geta svo auðveldlega staðið föst í hálsinum! — Kólossubréfið 3:12-14, 18.
Í heilræðum sínum til hjóna vekja kristnu postularnir Páll og Pétur æ ofan í æ athygli okkar á fordæmi Krists. Eiginmaður ávinnur sér virðingu með því að líkja eftir þeirri fyrirmynd sem Kristur gaf, því að „maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns.“ — Efesusbréfið 5:23.
Leiðbeiningar Péturs til eiginmanna eru afdráttarlausar: „Þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar.“ (1. Pétursbréf 3:7) Spænsk nútímaþýðing endursegir orð Péturs þannig: „Um eiginmenn: sýnið háttvísi í samlífi ykkar, sýnið eiginkonu ykkar tillitssemi.“ Þessi orð fela margt í sér, meðal annars tilfinninganæmi í samskiptum hjónanna. Eiginmaður ætti ekki að líta á konu sína einungis sem verkfæri til að fullnægja kynhvöt sinni. Eiginkona, sem hafði verið misnotuð kynferðislega sem barn, skrifaði: „Ég vildi bara óska að þið gætuð sagt meira um þann stuðning sem eiginmaður getur veitt konu sem hefur orðið fyrir þessari reynslu. Við eiginkonur þurfum flestar að finna fyrir ósvikinni ást og umhyggju, ekki að hafa á tilfinningunni að hlutverk okkar sé það eitt að fullnægja einhverjum líkamlegum þörfum eða vera ráðskona, án nokkurra tilfinningatengsla.“ b Hjónabandið var stofnað af Guði til að hjón gætu verið félagar og hjálparhellur hvors annars. Þau eiga að vinna saman og meta hvort annað mikils. — 1. Mósebók 2:18; Orðskviðirnir 31:28, 29.
Hvernig eru þær ‚veikara ker‘?
Pétur ráðleggur eiginmönnum einnig að virða konur sínar „sem veikari ker.“ (1. Pétursbréf 3:7) Hvað getur Pétur hafa átt við með því að konan sé ‚veikara ker‘? Yfirleitt hafa konur ekki sömu líkamsburði og karlar. Það má rekja til ólíkrar beina- og vöðvabyggingar. Hvað varðar innri siðferðisstyrk er konan hins vegar alls enginn eftirbátur mannsins. Konur hafa um áraraðir þolað aðstæður sem flestir karlmenn hefðu kannski ekki sætt sig við einu sinni um stuttan tíma — svo sem misþyrmingar ofstopafulls eða drykkjusjúks maka. Og hugsaðu um hvað konan má þola til að koma barni í heiminn, meðal annars klukkustundalangar fæðingarhríðir! Sérhver tilfinninganæmur eiginmaður, sem hefur verið viðstaddur það kraftaverk sem fæðing er, hlýtur að bera aukna virðingu fyrir konu sinni og innri styrk hennar eftir það.
Hannah Levy-Haas, gyðingakona sem var í fangabúðum nasista í Ravensbrück, skrifaði í dagbók sína árið 1944 um þennan innri siðferðisstyrk: „Mér finnst hræðilegt að sjá að karlmennirnir skuli vera miklu veiklundaðri en konurnar og þola þjáninar miklu verr en þær — líkamlega og oft einnig siðferðilega. Þeir ráða ekki við sig og sýna þvílíkan skort á siðferðisstyrk að það er ekki hægt annað en að aumka þá.“ — Mothers in the Fatherland eftir Claudia Koonz.
Þessi reynslufrásaga bendir okkur á að það er engin ástæða til að mismuna konum vegna þess eins að þær hafa kannski ekki sömu líkamsburði og karlmenn. Edwin Reischauer skrifaði: „Nú á dögum er yfirleitt viðurkennt að konur búi yfir meiri vilja- og sálarstyrk en karlmenn.“ (The Japanese) Þessi styrkur getur komið að góðum notum í kristna söfnuðinum þar sem þroskaðar konur geta hjálpað öðrum konum sem eru undir miklu tilfinningaálagi. Stundum er auðveldara fyrir konu, sem hefur verið misþyrmt, að leita til þroskaðrar konu til að létta á hjarta sínu en til karlmanns. Ef þörf krefur má leita frekari ráða hjá kristnum öldungi. — 1. Tímóteusarbréf 5:9, 10; Jakobsbréfið 5:14, 15.
Það fer í taugarnar á mörgum konum þegar viðbrögð þeirra eru afgreidd með þeirri alhæfingu að þau séu bara tilfinningaleg, „það standi
illa á hjá henni í mánuðinum.“ Kristin kona, Betty að nafni, sagði: „Við vitum, eins og Pétur postuli skrifaði, að við erum á vissum sviðum ‚veikari ker‘ og viðkvæmari að líffræðilegri gerð. Það merkir hins vegar ekki að verkstjóri eða yfirmaður þurfi að vera niðurlægjandi eða óviðeigandi föðurlegur og gera ráð fyrir að öll kvenleg viðbrögð séu tengd tíðahringnum. Við erum vitsmunaverur og viljum að það sé hlustað á okkur með virðingu.“Það eru ekki allar konur tilfinningasamar, ekkert frekar en allir karlmenn séu það ekki. Koma ætti fram við hvern mann sem einstakling. Betty, sem vitnað var til á undan, sagði Vaknið!: „Ég kæri mig ekki um að vera dregin í dilk eftir kynferði mínu. Ég hef séð karlmenn skæla og vera mislynda og það eru til konur sem geta verið mestu hörkutól. Karlmenn ættu því að hlusta á okkur fordómalaust án þess að hugsa um kynferði okkar.“
Hvað þarf til að breyta ástandinu?
Sumir segja að það nægi ekki til að breyta ástandinu til hins betra að konur berjist fyrir jafnrétti, né sé það nóg að karlmenn sýni konum einhvers konar táknræna virðingu. Karlmenn verða, óháð þjóðmenningu og umhverfi, að skoða þátt sinn í vandanum og spyrja sig hvað þeir geti gert til að gera lífið ánægjulegra og betra fyrir konur. — Matteus 11:28, 29.
Rithöfundurinn og skáldkonan Katha Pollitt skrifaði í tímaritið Time: „Að sjálfsögðu misþyrma, nauðga eða depa fæstir karlmenn. Það þýðir þó ekki, eins og allt of margir þeirra virðast halda, að þeir séu alsaklausir af ofbeldinu gegn konum. Eitt og sérhvert okkar á í sínu daglega lífi þátt í að móta þau lífsgildi og þær hugmyndir samfélagsins sem skilgreina takmörk hins leyfilega. . . . Ég er að tala um það að karlmenn líti alvarlega í eigin barm og bjóði fordómum sínum og forréttindum byrginn og taki á sig sanngjarnan hluta ábyrgðarinnar á klúðrinu sem við eigum í.“
En jafnvel þótt karlmenn um allan heim gerbreyttu afstöðu sinni til kvenna yrði þó ekki bætt fyllilega úr ranglætinu sem þjakar mannkynið. Hvers vegna? Vegna þess að karlar beita ekki bara konur ranglæti og hrottaskap heldur einnig karla. Stríð, ofbeldi, morð, dauðasveitir og hryðjuverk eru enn daglegt brauð víða um lönd. Það sem mannkynið þarfnast er algerlega nýtt stjórnkerfi fyrir alla jörðina og menntun handa öllu mannkyni. Og það er það sem Guð hefur heitið að koma á með himnesku ríki sínu. Þá fyrst munu allir menn — karlar, konur og börn — njóta raunverulegs réttlætis og jafnréttis. Þá fyrst verður gagnkvæm virðing milli karla og kvenna tryggð. Biblían orðar þetta þannig í Jesaja 54:13: „Allir synir þínir [og dætur] eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“ Já, viðeigandi menntun um réttlátar meginreglur Jehóva mun skapa nýjan heim þar sem gagnkvæm virðing ríkir.
[Neðanmáls]
a Sjá greinina „What Does Subjection in Marriage Mean?“ í Varðturninum (enskri útgáfu) þann 15. desember 1991, bls. 19-21.
b Sjá Vaknið! (enska útgáfu) þann 8. október 1991, bls. 3-11 og 8. apríl 1992, bls. 24-7.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Oft getur þroskuð kona gefið gagnleg ráð.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Maður getur sýnt konu sinni virðingu meðal annars með því að taka þátt í húsverkunum.