Konur — eru þær virtar á heimilinu?
Konur — eru þær virtar á heimilinu?
„Ein af annarri hlutu konurnar hræðilegan dauðdaga. . . . Enda þótt þær hafi dáið með mismunandi hætti var undirrótin sú hin sama: Lögreglan í Quebec [í Kanada] segir að allar konurnar hafi verið drepnar af fyrrverandi eða núverandi eiginmanni eða elskhuga. Alls hefur 21 kona í Quebec verið drepin á þessu ári [1990] — allar fórnarlömb ofbeldisbylgju á heimilinu.“ — Maclean’s, 22. október 1990.
HEIMILISOFBELDI, sem sumir kalla „skuggahlið fjölskyldulífsins,“ hefur alvarlegar afleiðingar: sundraðar fjölskyldur og börn með brenglað viðhorf til þess hver séu eðlileg samskipti hjóna. Mikil togstreita verður hið innra með börnunum varðandi hollustu við foreldra sína þegar þau reyna að skilja hvers vegna pabbi er að lúberja mömmu. (Spurningin er sjaldnar sú hvers vegna mamma sé svona grimm við pabba.) Afleiðing heimilisofbeldis er oft sú að synirnir misþyrma eiginkonum sínum þegar þeir komast á fullorðinsaldur. Hið slæma fordæmi feðranna hefur í för með sér alvarleg sálfræðileg vandamál og skapgerðargalla.
Í riti útgefnu af Sameinuðu þjóðunum, The World’s Women — 1970-1990, segir: „Árásir karla á konur innan veggja heimilisins eru taldir þeir glæpir sem sjaldnast eru kærðir — að hluta til vegna þess að slíkt ofbeldi er skoðað sem þjóðfélagsböl, ekki glæpur.“
Hversu útbreitt er ofbeldi eiginmanna gegn eiginkonum í Bandaríkjunum? Skýrsla bandaríska þingsins, sem getið var í greininni á undan, segir: „Orðið ‚heimilisofbeldi‘ lætur kannski lítið yfir sér, en hátternið sem það lýsir er langt frá því að vera hættulaust. Skýrslur draga upp ógnvekjandi mynd af því hversu alvarlegt — já, jafnvel lífshættulegt — ofbeldi eiginmanna gagnvart
eiginkonum getur verið. Á bilinu 2000 til 4000 konur deyja árlega af völdum misþyrminar. . . . Ólíkt öðrum glæpum er misþyrming eiginkvenna ‚ólæknandi‘ ofbeldi. Það er linnulaus kúgun og síendurteknir líkamsáverkar.“Tímaritið World Health segir: „Ofbeldi gegn konum á sér stað í öllum löndum og á öllum efnahags- og þjóðfélagsstigum. Í mörgum menningarsamfélögum er það álitið réttur karlmannsins að lemja konuna sína. Allt of algengt er að vanabundið ofbeldi og nauðgun kvenna og stúlkna sé álitið ‚einkamál‘ sem öðrum kemur ekki við — hvorki dóms- né heilbrigðisyfirvöldum.“
Þetta ofbeldi heima fyrir getur auðveldlega breiðst út til skólanna. Þetta sýndi sig með atburðum sem áttu sér stað í blönduðum heimavistarskóla í Kenía í júlí árið 1991. The New York Times sagði frá því að „skólapiltar hafi nauðgað 71 unglingsstúlku og 19 stúlkur til viðbótar hafi dáið á einni nóttu sökum ofbeldis á heimavistinni sem sagt er að . . . lögreglan á staðnum og kennarar hafi látið afskiptalaust.“ Hver var orsök þessa kynferðislega ofbeldisæðis? „Þessi harmleikur undirstrikar hina viðurstyggilegu karlrembu sem drottnar yfir þjóðlífi Kenía,“ segir Hilary Ng’Weno, aðalritstjóri mest lesna tímarits Kenía, The Weekly Review. „Hlutskipti kvenna og stúlkna hér í landi er hörmulegt. . . . Við ölum drengina okkar þannig upp að þeir bera litla eða enga virðingu fyrir stúlkum.“
Hér erum við komin að kjarna málsins. Þetta heimsvandamál stafar af því að drengjum er oft innrætt í uppeldinu að líta á stúlkur og konur sem óæðri verur er þeir megi notfæra sér. Konur eru álitnar varnarlausar og auðvelt að ráða yfir þeim. Frá slíku viðhorfi er stutt skref í óvirðingu fyrir konum og hreina karlrembu, og jafnstutt skref í það að nauðga vinstúlku sinni. Og ekki má gleyma að „áhrif nauðgunar geta varað lengi; mörg ár og jafnvel alla ævi,“ þótt ofbeldisverkið taki ekki nema stutta stund. — Kvennaathvarf, fréttablað Samtaka um kvennaathvarf.
Kalla mætti marga karlmenn kvenhatara þótt ekki beiti þeir konur líkamlegu ofbeldi. Í stað líkamlegs ofbeldis beita þeir sálfræðilegum þvingunum eða ofbeldi. Í bók sinni, Men Who Hate Women & the Women Who Love Them, segir dr. Susan Forward: „Samkvæmt lýsingum maka sinna voru [þessir menn] oft aðlaðandi og jafnvel ástríkir, en þeir gátu umhverfst á augabragði yfir í að vera grimmir, aðfinnslusamir og móðgandi í framkomu. Hegðun þeirra spannaði breitt svið frá augljósri niðurlægingu og hótunum yfir í lúmskar og lævísar árásir sem birtust í stöðugri niðurlægingu eða mannskemmandi gagnrýni. Óháð stílnum var afleiðingin alltaf sú sama. Maðurinn tók völdin með því að kúga konuna. Þessir menn neituðu líka að taka nokkra ábyrgð á þeim áhrifum sem árásir þeirra höfðu á tilfinningar maka síns.“
Yasuko, a fíngerð japönsk kona sem nú hefur verið gift í 15 ár, sagði Vaknið! um lífsreynslu sína: „Faðir minn barði og misþyrmdi móður minni reglulega. Hann sparkaði í hana og sló hana, dró hana á hárinu og kastaði jafnvel steinum í hana. Og vitið þið hvers vegna? Vegna þess að hún vogaði sér að rísa öndverð gegn ótryggð hans. Í þjóðmenningu Japana hefur það verið talið fullkomlega eðlilegt að maður eigi sér hjákonu. Móðir mín var á undan sinni samtíð og neitaði að sætta sig við það. Eftir 16 ára hjónaband og með fjögur börn á framfæri fékk hún skilnað. Hún þurfti að sjá um sig sjálf án nokkurs barnalífeyris frá föður mínum.“
En jafnvel þegar ofbeldi gegn eiginkonu er kært til lögreglunnar hefur það oft ekki komið í veg fyrir að hefnigjarn eiginmaður myrti konu sína. Algengt er víða um lönd að lög nægi ekki til að vernda konu sem er ógnað og beitt ofbeldi. „Rannsókn leiddi í ljós að í meira en helmingi allra tilvika, þar sem maður myrti konu sína, hafði lögreglan verið kölluð á heimilið fimm sinnum á árinu á undan til að rannsaka ofbeldiskæru.“ (Skýrsla Bandaríkjaþings) Í fáeinum öfgakenndum tilvikum hefur kona myrt mann sinn til að komast hjá áframhaldandi misþyrmingu.
Ofbeldi á heimilinu, sem bitnar yfirleitt á konunni, birtist á marga mismunandi vegu. Á Indlandi fjölgaði kærðum heimanmundarmorðum (eiginmaður myrðir konu sína vegna óánægju með heimanmundinn frá foreldrum hennar) úr 2209 árið 1988 í 4835 árið 1990. Þessar tölur geta þó ekki talist fullnægjandi eða nákvæmar því oft er dauði eiginkonu afgreiddur sem slys — oftast þess eðlis að konan hefur af ásetningi verið brennd til bana með steinolíu sem notuð er til eldunar. Þar við má svo bæta þeim eiginkonum sem geta ekki lengur horfst í augu við eymdina heima fyrir og svipta sig lífi.
Þegar velja skal milli sona og dætra
Konum er mismunað allt frá fæðingu og jafnvel fyrr. Hvernig þá? Í viðtali við Vaknið! svaraði Madhu frá Bombay á Indlandi: „Þegar indverskum hjónum fæðist sonur vekur það fögnuð. Erfiðleikar móðurinnar eru hjá. Núna eiga foreldrarnir son til að annast sig í ellinni. Þetta er ‚ellitrygging‘ þeirra. Ef móðirin hins vegar elur dóttur er litið á hana sem mislukkaða manneskju. Það er eins og hún hafi fært heiminum enn eina byrði. Foreldrarnir munu þurfa að leggja fram háan heimanmund til að gifta hana. Haldi móðirin áfram að fæða stúlkubörn er hún einskis nýt.“ b
Indverska tímaritið Indian Express segir um stúlkur á Indlandi: „Það er ekki talið skipta verulegu máli fyrir framtíð fjölskyldunnar að þær komist á legg.“ Tímaritið vitnar í könnun í Bombay sem leiddi í ljós að „af 8000 fóstureyðingum í kjölfar kyngreiningar hafi 7999 fóstur verið kvenkyns.“
Elisabeth Bumiller segir: „Kjör sumra indverskra kvenna eru svo ömurleg að málstaður þeirra yrði gerður að baráttumáli mannréttindahópa ef bágindi þeirra fengju sömu athygli og bágindi sumra þjóðarbrota eða kynþáttaminnihlutahópa.“ — May You Be the Mother of a Hundred Sons.
Starf konunnar tekur aldrei enda
Það kann að hljóma eins og gömul tugga að starf konunnar taki aldrei enda, en þessi orð lýsa sannleika sem karlmönnum yfirsést oft. Kona með börn býr ekki við þann munað að hafa fastan vinnutíma frá klukkan átta til fimm eins og algengt er hjá karlmönnum. Hver þarf líklega að fara fram úr og hugga grátandi barn að nóttu? Hver þrífur, þvær og straujar? Hver matbýr og framreiðir matinn þegar maðurinn kemur heim úr vinnunni? Hver þvær upp eftir matinn og hver kemur börnunum í háttinn? Og víða um lönd má spyrja að auki: Hver er ætlast til að sæki vatn og vinni jafnvel á ökrunum með ungbarn á bakinu? Yfirleitt móðirin. Vinnudagurinn hjá henni er ekki bara 8 eða 9 stundir heldur frekar 12 til 14 stundir eða meira. En hún fær samt ekkert yfirvinnukaup — og of oft engar þakkir heldur!
Í Eþíópíu er gjarnan ætlast til þess að „konur vinni 16 til 18 stundir á dag og tekjustig þeirra er svo lágt að þær geta ekki framfleytt sjálfum sér og fjölskyldum sínum. . . . Hungur er daglegt brauð; í flestum tilvikum fá þær [konur sem safna og bera eldivið] einungis eina ófullkomna máltíð á dag og yfirleitt fara þær að heiman án þess að hafa fengið morgunverð.“ — Tímaritið World Health.
Siu, sem er frá Hong Kong og hefur verið gift í 20 ár, segir: „Í hinu kínverska umhverfi hafa karlmenn haft tilhneigingu til að gera lítið úr konum og litið á þær sem heimilishjálp og útungunarvélar eða farið út í hinar öfgarnar og litið á þær sem gyðjur, leikföng eða einungis kynverur. En í rauninni viljum við konur láta koma fram við okkur sem vitsmunaverur. Við viljum að karlmenn hlusti á okkur þegar við tölum en hegði sér ekki eins og við séum útstillingarbrúður.“
Engin furða er að bókin Men and Women skuli segja: „Alls staðar, jafnvel þar sem konur eru mikils metnar, eru störf karlmanna metin meir en störf kvenna. Það skiptir ekki nokkru minnsta máli hvernig þjóðfélagið deilir hlutverkum og verkefnum milli kynjanna; þau sem tilheyra karlmönnum eru óumflýjanlega talin meira virði í augum alls samfélagsins.“
Staðreynd málsins er sú að hlutverk konunnar á heimilinu er yfirleitt tekið sem sjálfsagður hlutur. Þannig segir í formálsorðum The World’s Women — 1970-1990: „Lífsskilyrði kvenna — og framlag þeirra til fjölskyldunnar, fjárhagsins og heimilisins — hafa yfirleitt verið ósýnileg. Margar hagskýrslur hafa verið skilgreindar með hugtökum sem lýsa aðstæðum og framlagi karla, ekki kvenna, eða einfaldlega horfa fram hjá kynferði. . . . Stór hluti af störfum kvenna er enn ekki álitinn hafa nokkurt efnahagslegt gildi — og er jafnvel ekki mældur.“
Árið 1934 lét norður-ameríski rithöfundurinn Gerald W. Johnson í ljós eftirfarandi viðhorf til kvenna á vinnustað: „Kona fær oft að vinna karlmannsverk en eru sjaldan greidd karlmannslaun. Ástæðan er sú að það er ekki hægt að hugsa sér nokkra vinnu sem einhver karlmaður getur ekki skilað betur en kona. Mestu kjólameistarar og hattarar eru karlmenn. . . . Mestu matreiðslumeistararnir eru undantekningarlaust karlmenn. . . .
Það er staðreynd að sérhver vinnuveitandi er fús til að greiða karlmanni hærra kaup en konu fyrir sömu vinnu vegna þess að hann hefur ástæðu til að ætla að maðurinn skili henni betur af hendi.“ Þótt þessi orð kunni að hafa verið sögð í gamni enduróma þau mismunun sinnar samtíðar og eru enn í gildi í hugum margra karlmanna.Virðingarleysi — vandamál um allan heim
Sérhver þjóðmenning hefur skapað sér sín eigin viðhorf, hlutdrægni og fordóma gagnvart hlutverki kvenna í samfélaginu. En spurningin, sem svara þarf, er þessi: Er konum sýnd tilhlýðileg virðing með þessum viðhorfum eða endurspegla þau aldalanga yfirdrottnun karlmanna sem rekja má til þess að karlmenn hafa yfirleitt meiri líkamsburði en konur? Ef konur eru meðhöndlaðar eins og þrælar eða eitthvað sem má ráðstafa að eigin geðþótta, hvar er þá virðingin fyrir mannlegri sæmd þeirra? Þjóðmenning flestra landa hefur rangsnúið hlutverki konunnar og troðið á sjálfsvirðingu hennar að meira eða minna leyti.
Af mörgum dæmum sem nefna mætti skulum við taka eitt frá Afríku: „Jórúba-konur [í Nígeríu] verða að látast vera fáfróðar og auðsveipar í návist manna sinna, og þegar þær bera fram mat er þess krafist af þeim að þær krjúpi við fætur manna sinna.“ (Men and Women) Sums staðar í heiminum getur þessi undirokun birst á aðra vegu — að konan þurfi að ganga í vissri fjarlægð á eftir eiginmanni sínum eða þurfi að ganga meðan hann ríður hesti eða múldýri, eða þá því að hún þurfi að bera byrðar en maðurinn ekkert, eða verði að borða ein sér og svo framvegis.
Í bók sinni The Japanese segir Edwin Reischauer sem er fæddur og uppalinn í Japan: „Karlrembuviðhorfin blasa við í Japan. . . . Tvískinnungur í kynferðismálum, þar sem karlinn er frjáls en konan ófrjáls, er enn algengur. . . . Enn fremur er til þess ætlast að giftar konur séu miklum mun trúrri en karlar.“
Kynferðisleg áreitni er algeng í Japan eins og í mörgum öðrum löndum, einkum í troðfullum neðanjarðarlestum á háannatíma. Yasuko frá Hino, sem er úthverfi Tókíó, sagði Vaknið!: „Sem ung kona þurfti ég að ferðast daglega milli vinnustaðar
í Tókíó og heimilis. Það var svo vandræðalegt vegna þess að sumir karlmenn notfærðu sér aðstæðurnar til að klípa og þukla hvar sem þeir gátu. Hvað gátum við konurnar gert? Við urðum bara að þola það. En það var niðurlægjandi. Á háannatímanum á morgnana var sérvagn fyrir konur, þannig að sumar gátu að minnsta kosti umflúið þessa niðurlægingu.“Sue, sem bjó í Japan, greip til sinna ráða til að losna við þessa óæskilegu athygli. Hún sagði háum rómi: „Fúsakenæ de kúdasæ!“ sem merkir: „Hættu þessu flangsi!“ Hún segir: „Þetta vakti strax athygli og viðbrögð. Enginn vildi láta niðurlægja sig frammi fyrir öllum hinum. Skyndilega snerti mig ekki einn einasti maður!“
Virðingarleysi fyrir konum innan veggja heimilisins er augljóslega vandamál um allan heim. En hvað um stöðu kvenna á vinnumarkaðinum? Njóta þær meiri virðingar og viðurkenningar þar?
[Neðanmáls]
a Viðmælendur blaðsins hafa óskað nafnleyndar. Nöfnum er því breytt í þessum greinum.
b Eiginmenn ganga nánast alltaf út frá því sem gefnum hlut að það sé konunni að kenna ef barnið reynist vera stúlka. Þeir taka ekkert mið af erfðalögmálinu. (Sjá rammann til vinstri.)
[Rammi á blaðsíðu 6]
Hvað ræður kynferði barns?
„Kynferði ófædds barns er ákvarðað á getnaðarstund, og það er sáðfruma föðurins sem ræður úrslitum. Allar eggfrumur, sem kona framleiðir, eru kvenkyns í þeim skilningi að þær innihalda X-litning eða kven-kynlitning. Aðeins helmingur sáðfrumna karlmannsins ber X-litning en hinn helmingurinn ber Y-litning sem er karl-kynlitningurinn.“ Ef tveir X-litningar sameinast verður barnið stúlka, ef Y-karllitningur sameinast X-kvenlitningi verður barnið drengur. Það er því erfðaefni í sáðfrumu karlmannsins sem ræður því hvort barnið verður drengur eða stúlka. (ABC’s of the Human Body, gefið út af Reader’s Digest.) Það er órökrétt af karlmanni að ásaka konuna sína um að ala aðeins stúlkubörn. Það er engum að kenna, heldur hreint happdrætti.
[Rammi á blaðsíðu 8]
Gríðarlega umfangsmikill harmleikur
Elizabeth Fox-Genovese segir í bók sinni Feminism Without Illusions: „Fullt tilefni er til að ætla að margir karlmenn . . . freistist í vaxandi mæli til að beita líkamskröftum sínum á því eina sviði þar sem þeir gefa þeim enn greinilega yfirburði, það er að segja í persónulegum samskiptum sínum við konur. Ef þessi grunur minn er réttur, þá erum við að horfa á gríðarlega umfangsmikinn harmleik.“ Og þessi gríðarlega umfangsmikli harmleikur nær til þeirra milljóna kvenna sem líða daglega fyrir hendi yfirgangssams eiginmanns, föður eða einhvers annars karlmanns — karlmanns sem „stenst ekki kröfur sanngirni og réttlætis.“
„Í þrjátíu ríkjum [Bandaríkjanna] er það enn í meginatriðum löglegt fyrir eiginmann að nauðga eiginkonu sinni, og aðeins tíu ríki hafa lög sem heimila handtöku vegna ofbeldis á heimilinu . . . Konur, sem eiga ekki um annað að velja en að flýja, uppgötva að það er ekki mikil lausn heldur. . . . Þriðjungur þeirrar einnar milljónar kvenna, sem leita skjóls undan ofbeldi ár hvert, finna ekkert.“ — Inngangur bókarinnar Backlash — The Undeclared War Against American Women eftir Susan Faludi.
[Mynd]
Heimilisofbeldi er skuggahlið fjölskyldulífsins hjá milljónum fjölskyldna.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Hundruð milljóna búa hvorki við rennandi vatn, skolplögn né rafmagn á heimilinu — ef þær þá eiga heimili.