Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Konur — eru þær virtar nú á tímum?

Konur — eru þær virtar nú á tímum?

Konur — eru þær virtar nú á tímum?

SUMUM karlmönnum kemur það ef til vill spánskt fyrir sjónir að þessi spurning skuli borin fram. Þegar við hins vegar kynnum okkur hvers konar meðferð konur hafa sætt í aldanna rás og hvernig farið er með þær nú á dögum í öllum heimshornum nægja fáeinar, einfaldar spurningar til að gefa okkur vísbendingu um svarið.

Hverjir hafa yfirleitt verið fórnarlömb og hverjir kúgarar í mannlegum samskiptum? Hvort hafa karlar eða konur oftar sætt ofbeldi í hjónabandi? Hverjum hefur verið nauðgað bæði á friðar- og stríðstímum? Hvort hafa drengir að stúlkur verið oftar misnotuð kynferðislega sem börn? Eru það karlar eða konur sem hafa mátt sætta sig við að vera álitnir annars flokks borgarar? Hverjum hefur verið neitað um kosningarétt og hverjir haft lakari möguleika til menntunar? Karlar eða konur?

Þannig mætti halda endalaust áfram að spyrja, en staðreyndirnar tala sínu máli. Í bók sinni, May You Be the Mother of a Hundred Sons, segir Elisabeth Bumiller um reynslu sína frá Indlandi: „Hin ‚dæmigerða‘ indverska kona, sem svarar til 75 af hundraði hinna fjögur hundruð milljóna kvenna og telpna á Indlandi, býr í þorpi. . . . Hún kann hvorki að lesa né skrifa, þótt hún vildi það gjarnan, og hefur sjaldan ferðast lengra en 30 kílómetra frá fæðingarstað sínum.“ Þessi mismunun hvað varðar menntun einskorðast ekki við Indland heldur gætir hennar um allan heim.

Þessa mismunar gætir enn í Japan, eins og mörgum öðrum löndum. Að sögn The Asahi Yearbook fyrir árið 1991 eru 1.460.000 karlar í fjögurra ára háskólanámi í Japan en aðeins 600.000 konur. Vafalaust geta konur um allan heim borið vitni um að þær hafi lakari tækifæri til menntunar en karlar. ‚Menntun er fyrir drengi,‘ er viðhorfið sem þær hafa þurft að horfast í augu við.

Í nýlega útkominni bók sinni, Backlash — The Undeclared War Against American Women, spyr Susan Faludi ýmissa viðeigandi spurninga um stöðu kvenna í Bandaríkjunum. „Ef bandarískar konur njóta fulls jafnréttis [á við karla], hvers vegna eru þá tveir þriðju allra fullvaxta fátæklinga konur? . . . Hvers vegna er enn þá langtum líklegra að þær búi í verra húsnæði en karlar og njóti engra sjúkratrygginga, og hvers vegna eru tvöfalt meiri líkur á að þær fái engin eftirlaun en karlar?“

Konur hafa að langstærstum hluta þjást mun meira en karlar. Þær hafa mátt þola ómælda auðmýkingu, svívirðingu, kynferðislega áreitni og virðingarleysi af hendi karla. Þessi illa meðferð takmarkast engan veginn við hin svonefndu þróunarlönd. Dómsmálanefnd bandaríska þingsins tók nýlega saman skýrslu um ofbeldi gegn konum. Þar komu fram ýmsar óhugnanlegar upplýsingar. „Á 6 mínútna fresti er konu nauðgað; á 15 sekúndna fresti er kona lamin. . . . Engin kona er undanþegin ofbeldisglæpum í þessu landi. Af öllum núlifandi bandarískum konum munu þrjár af hverjum fjórum verða fórnarlömb að minnsta kosti eins ofbeldisglæps.“

Hversu margar konur búa við heimilisofbeldi? „Ekki er með nokkru móti hægt að svara þessari spurningu með fullri vissu. Else Christensen (danskur sálfræðingur sem hefur unnið að rannsóknum í dönskum kvennaathvörfum) segir að giskað sé á að í Danmörku sé fjöldi kvenna sem býr við stöðugt ofbeldi eiginmanna sinna/sambýlismanna meiri en 10.000. Samkvæmt því ættu fleiri en 450 íslenskar konur að búa við sama ástand. Annars staðar hefur verið giskað á að 2% kvenna búi við ótta og niðurlægingu vegna ofbeldis eiginmanns/sambýlismanns.“ (Ofbeldi gegn eiginkonum — hvað — hvernig — hvers vegna?, bæklingur gefinn út af Samtökum um kvennaathvarf.) Árið 1991 dvöldust 217 konur og 116 börn einhvern tíma í kvennaathvarfinu í Reykjavík og í ár stefnir í að konurnar verði á fjórða hundrað.

Hér á eftir virðum við fyrir okkur sumar þeirra aðstæðna þar sem konur hafa mátt þola lítilsvirðingu af hendi karla. Í tveim síðustu greinum þessarar greinasyrpu er síðan fjallað um hvernig karlar og konur geta sýnt hverju öðru virðingu á öllum sviðum lífsins.