Veittu þeim þá leiðsögn sem þau þarfnast
Veittu þeim þá leiðsögn sem þau þarfnast
HVERNIG geta börnin þín lært að verja sig fyrir sívaxandi siðleysi heimsins? Ekki með því að horfa á sjónvarpið sem einn hópur unglinga taldi vera fjórðu mikilvægustu heimild sína um kynferðismál. Ekki með hjálp skólanna þar sem kennslan endurspeglar breytilegt verðmætamat og siðferðisgildi þessa siðspillta heims. Og sannarlega ekki með því að hlusta á sögur skólafélaganna.
Eigi fræðsla um siðferðismál og fjölskyldulíf að vera árangursrík verður hún að byrja heima. Eins og áhyggjufullur kennari sagði: „Einhver verður að hafa hugrekki til að segja: ‚Hlustið nú á, krakkar. Það gerir ykkur ekkert mein að bíða.‘“
Hefur þú kennt börnum þínum það? Ert þú kannski stundum í vafa um að þú vitir hvernig þú eigir að kenna þeim, miðað við allt það efni um kynferðismál sem er í kringum okkur?
Áhrif fordæmisins
Fordæmi þitt hefur sterk áhrif á líf barna þinna, á sama hátt og foreldrar þínir höfðu áhrif á líf þitt með líferni sínu. Það sýnir ósköpin öll um það hve heitt þú elskar þau og um það hvers konar manneskjur þú vilt að þau verði.
Ef þú varst hrein mey eða hreinn sveinn þegar þú gekkst í hjónaband, þá getur þú sagt börnum þínum hve ánægður þú sért með það. Afi nokkur man vel þann dag fyrir nálega 60 árum þegar faðir hans sagði honum hve yndislegt það hafi verið að ganga í hjónaband í þeirri vissu að hann hefði ekki gerst sekur um neins konar siðlaust athæfi er gæti síðar varpað skugga á hjónaband hans. Þessar samræður höfðu mikil áhrif á það hvernig þessi afi lifði lífi sínu, og hann álítur að fordæmi hans sjálfs hafi haft sterk áhrif á líf barna sinna.
Ef börn þín vita hins vegar að líferni þitt var ekki til fyrirmyndar á þínum yngri árum ættir þú að fullvissa þig um að þau viti hvers vegna þú söðlaðir um. Ástæðan er ekki bara sú að þú hafir elst heldur líka að þú fannst betri lífsreglur til að lifa eftir.
Listin að hlusta
Foreldrar, sem hefur tekist giftusamlega við uppeldi barna sinna, hafa oft minnst á hve mikinn tíma þeir noti til að hlusta á börnin sín. Þeir vita hvað er að gerast í lífi barna sinna. Karen gerði sér far um að vinna í eldhúsinu eftir hádegið. Þannig gátu dætur hennar spjallað við hana, þegar þær komu heim, um það sem hafði gerst í skólanum þann daginn.
Erline var vön að bíða eftir að dætur hennar kæmu heim á kvöldin og hlusta á þær segja frá öllu sem þær höfðu gert. „Ef ég þurfti að aga þær,“ segir hún, „gat ég sinnt því síðar, en ég hefði aldrei vitað af því hefði ég ekki hlustað.“ Hún hélt þessari tjáskiptaleið við dætur sínar opinni gegnum skólaár þeirra og tilhugalíf. Með því að taka þér tíma til að vera með börnum þínum getur þú firrt þig mörgum erfiðleikum síðar.
En hvað getur þú gert ef börnin þín eru ekki sérlega skrafhreifin? Ef svo er getur þú spurt þig að því hvort þau séu þannig að eðlisfari eða hvort viðbrögð þín áður hafi verið
þess eðlis að þau séu hrædd við að tala opinskátt við þig. Getur þú byggt aftur upp trúnaðartraust þeirra með því að leggja þig sérstaklega fram við að sýna þeim áhuga? Getur þú auðveldað þeim að bera upp við þig smáu atriðin núna og kannski hin alvarlegri síðar?Mikilvægar aðvaranir
Þú þarft að vara börnin þín við afleiðingum siðleysis. Þau ættu til dæmis að vita að það er engin fullkomlega örugg getnaðarvörn til, hvað svo sem þau kunna að hafa heyrt sagt um hið gagnstæða. Afleiðingarnar eru oft ótímabærar þunganir og samræðissjúkdómar, þó svo að getnaðarvarnir séu notaðar. Að sögn bandarísku samtakanna Planned Parenthood duga smokkar ekki sem getnaðarvörn í 12 af hundraði tilvika og veita ef til vill enn minni vernd gegn alnæmisveirunni.
Mörg ungmenni virðast sannfærð um að þau geti aldrei orðið neinni ógæfu að bráð. En samræðissjúkdómar, þeirra á meðal alnæmi, getur borist með fólki sem er algerlega einkennalaust enn þá og veit ekki einu sinni að það er að smita aðra. Margir slíkir sjúkdómar, sem hrjá ungt fólk nú á tímum, geta valdið ófrjósemi, fæðingargöllum, krabbameini og jafnvel dauða.
Sem dæmi má nefna að 40 milljónir Bandaríkjamanna eru nú taldir ganga með aðeins einn af þessum samræðissjúkdómum, áblásturssótt (herpes), sem er enn sem komið er ólæknandi. Sýktar mæður geta smitað börn sín. Þessi saklausu börn geta síðan orðið þroskaheft, beðið varanlegt tjón á miðtaugakerfi eða dáið af völdum alvarlegrar sýkingar í innri líffærum. Það er hræðilegt gjald fyrir von um skammvinnan unað!
Og það er ekki einu sinni víst að hin siðlausu kynmök, sem ollu smitinu, hafi verið ánægjuleg. Rannsóknarmaður, sem hefur spurt fjölda unglinga, segir að „það sé tvöfalt algengara að kynlífsreynsla unglingsstúlkna hafi verið neikvæð en jákvæð.“ Foreldrar þurfa að leggja áherslu á það við börnin sín að kynlíf — þessi dásamlega leið skaparans til að fylla okkar fögru jörð fólki — ætti ekki að hefjast í leynum utan vébanda hjónabands.
Fræðsla sem er sérstaklega mikilvæg
Börnin þín þurfa að vita að það er aðeins ein örugg leið til að forðast þau vandamál sem fylgja kynlífi fyrir hjónaband, og hún er sú að fylgja hinum margreyndu meginreglum sem Guð setti. Hvaða meginreglum? Ekkert kynlíf fyrir hjónaband og síðan ævilöng tryggð við einn lífsförunaut sem æskilegast er að hafi aldrei haft kynmök við annan en maka sinn heldur.
Meginástæðan fyrir því að forðast siðleysi er hins vegar ekki sú að það hafi vandamál í för með sér heldur sú að skapari okkar segir að það sé rangt. Biblían hvetur: „Haldið yður frá frillulífi.“ „Flýið saurlifnaðinn.“ Hvers vegna? Vegna þess að þeir sem halda áfram að stunda slíkt „munu ekki Guðs ríki erfa.“ — 1. Þessaloníkubréf 4:3; 1. Korintubréf 6:9, 10, 18.
Lífið verður hamingjusamara og farsælla hjá þeim sem fylgir meginreglum Guðs en hinum sem gerir það ekki. Það verndar okkur gegn samræðissjúkdómum, óæskilegum þungunum, vandamálum einstæðra foreldra og þeirri kvöl að vera yfirgefinn af þeim sem hafa misnotað okkur í eigingjörnum tilgangi.
Í meira en 2500 ár hafa orð spámanns Guðs til forna reynst sönn: „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ — Jesaja 48:17, 18.
En hvernig geta þessar siðferðisreglur samræmst þeim nútímasið að ungt fólk eigi stefnumót? Það er næsta umræðuefni okkar.