Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur talað frammi fyrir áheyrendahópi

Þú getur talað frammi fyrir áheyrendahópi

Þú getur talað frammi fyrir áheyrendahópi

MARÍA brosir þegar hún hugsar til fyrstu ræðunnar sem hún reyndi að flytja frammi fyrir fjölmennum áheyrendahópi. „Það leið yfir mig þegar ég var rétt byrjuð á ræðunni,“ segir hún.

Þótt sjaldan fari svona illa lýsir þetta atvik vel andúðinni sem margir hafa á opinberum ræðuflutningi. Sumum finnst það verra en dauðinn að þurfa að flytja ræðu! Það kom fram í könnun þar sem spurt var: „Hvað óttast þú mest?“ Eins og við var að búast voru margir lofthræddir og „fjárhagskröggur,“ „flug,“ „alvarleg veikindi“ og „dauði“ voru ofarlega á listanum. En efst — það sem menn óttuðust mest — var „að flytja ræðu frammi fyrir hópi manna“!

Jafnvel þekktir menn úr biblíusögunni voru í upphafi smeykir við að tala opinberlega. „Ég kann ekki að tala,“ sagði Jeremía, „því að ég er enn svo ungur.“ (Jeremía 1:6) Þegar Móse var fengið verkefni svaraði hann: ‚Ég er málstirður maður; ég bið þig að senda einhvern annan.‘ (2. Mósebók 4:10, 13) Þó urðu bæði Jeremía og Móse framúrskarandi ræðumenn og töluðu bæði frammi fyrir voldugum þjóðhöfðingjum og miklum mannfjölda.

Það getur þú líka. Opinber ræðumennska er hæfileiki sem leynist með öllum mönnum og allir geta þroskað. Eftirfarandi ráðleggingar geta hjálpað þér að sigrast á óttanum við að tala á opinberum mannfundi:

1. „Stimplaðu“ ekki sjálfan þig

„Ég er of feiminn.“ „Ég er of ungur.“ „Ég er of gamall.“ „Ég er of óöruggur með mig.“ Þetta eru dæmi um stimpla sem maður getur gefið sjálfum sér. Þeim er það sameiginlegt að hindra þig í að ná marki sem er vel innan seilingar fyrir þig.

Stimplar af þessu tagi verða oft nokkurs konar spádómar sem uppfylla sjálfa sig á þann hátt að sá sem stimplar sig „feiminn“ forðast í sífellu aðstæður þar sem hann myndi neyðast til að takast á við feimnina. Þetta hátterni sannfærir hann síðan um að hann sé í raun og veru feiminn. Þannig lendir hann í vítahring þar sem hann er sífellt að sannfæra sjálfan sig um að stimpillinn, sem hann hefur gefið sér, sé réttur. Sálfræðingur segir: „Ef maður heldur að maður geti ekki gert eitthvað . . . þá hegðar maður sér þannig og getur það ekki.“

Dr. Lynne Kelly við Hartford-háskóla í Bandaríkjunum fullyrðir að menn geti vanið sig á feimni. Það sem við venjum okkur á getum við vanið okkur af. Hið sama má segja um sviðshræðslu, það að vera óöruggur með sig og um aðrar hindranir í vegi opinberrar ræðumennsku.

2. Láttu taugaspennuna vinna með þér

Gamalreynd leikkona var einu sinni spurð hvort hún fyndi enn, eftir margra ára reynslu, til taugaspennu áður en hún kæmi fram. „Auðvitað,“ svaraði hún, „ég fæ enn fiðring í magann fyrir hverja sýningu. Með árunum hefur mér hins vegar tekist að hafa hemil á taugaspennunni.“

Markmiðið er því að ráða við taugaspennuna, ekki að losna algerlega við hana. Hvers vegna? Vegna þess að taugaspenna er ekki alslæm. Taugaspenna er tvenns konar. Önnur stafar af ónógum undirbúningi. Hin er af jákvæðara tagi. Sú tegund taugaspennu er góð fyrir þig vegna þess að hún kemur þér til að gera þitt besta. Þessi tegund taugaspennu sannar einfaldlega að þú hefur áhuga á því sem þú ert að gera. Reyndu eftirfarandi til að halda taugaspennunni í lágmarki:

Hugsaðu um ræðu þína sem samræður frekar en fyrirlestur. „Þetta er bara venjulegt tal og maður er sítalandi á hverjum degi,“ segir Charles Osgood sem er gamalreyndur ræðumaður. Sem hópur eru áheyrendur ‚einstaklingurinn‘ sem þú ert að tala við. Stundum á það við að slaka á og brosa. Því betur sem þér tekst að halda samræðuformi í ræðu þinni, þeim mun auðveldara átt þú með að slaka á. Stundum kalla þó efni og aðstæður á formlegri, alvarlegri og jafnvel kraftmeiri tón.

Mundu að áheyrendur eru á þínu bandi. Jafnvel þótt áheyrendur sjái á þér að þú ert taugaóstyrkur er afstaða þeirra yfirleitt jákvæð. Líttu því á áheyrendur sem vini. Þeir vilja þér vel. Hugsaðu um þá sem gesti þína og sjálfan þig sem gestgjafa. Í stað þess að hugsa sem svo að þér eigi að líða vel í návist áheyrenda skaltu segja við sjálfan þig að þeim eigi að líða vel í návist þinni. Þú getur dregið úr taugaspennunni með því að horfa á málið frá þessari hlið.

Einbeittu þér að boðskapnum, ekki sjálfum þér. Líttu á þig sem sendil með símskeyti. Sendlinum er lítill gaumur gefinn; það er símskeytið sem viðtakandi hefur áhuga á. Hið sama er uppi á teningnum þegar þú ert að flytja áheyrendahópi einhvern boðskap. Athyglin beinist fyrst og fremst að boðskapnum, ekki þér. Því áhugasamari sem þú ert um boðskapinn, þeim mun minni áhyggjur hefur þú af sjálfum þér.

Borðaðu ekki of mikið áður en þú flytur ræðuna. Þrautreyndur ræðumaður minnist þess að hafa einu sinni borðað þunga máltíð áður en hann átti að flytja tveggja klukkustunda ræðu. „Blóðið, sem hefði átt að streyma til heilans, var niðri í maga að kljást við kjöt og kartöflur,“ segir hann. Þung máltíð getur verið hinn versti óvinur þegar þú átt að flytja ræðu. Gættu þess líka hvað þú drekkur. Koffeín getur gert þig taugaóstyrkan, áfengi slævir skilningarvitin.

Vel má vera að þú finnir alltaf kvíðabylgju koma yfir þig þegar þú byrjar að tala frammi fyrir áheyrendahópi. Með reynslunni kemst þú hins vegar að raun um að taugaspennan í upphafi ræðu hverfur eins og dögg fyrir sólu skömmu eftir að þú ert kominn af stað með ræðuna.

3. Undirbúðu þig!

„Ræða er ferð á áfangastað og það þarf að kortleggja hana,“ sagði Dale Carnegie. „Ræða sem hefur enga stefnu skilar þér aldrei á áfangastað.“ Til að ná markmiði er nauðsynlegt að vera vel undirbúinn. Það kemur áheyrendum að engu gagni þótt ræðumaður hafi liðugan talanda. Hvernig er þá hægt að undirbúa sig?

Leitaðu og veldu úr. Sparaðu aldrei efnisleit og undirbúning. „Eina leiðin til að líða vel í ræðupúltinu er sú að vita hvað maður er að tala um,“ segir fjölmiðlafræðingurinn John Wolfe. Vertu sérfræðingur um viðfangsefni þitt. Safnaðu miklu meiri upplýsingum en þú getur hugsanlega notað. Veldu síðan úr efninu, skildu „hismið“ frá „hveitinu.“ Jafnvel „hisminu“ er ekki kastað á glæ því að það eykur traust þitt á þeim upplýsingum sem þú ákveður að nota.

Hugsaðu. Hugsaðu sífellt um viðfangsefnið. Veltu því fyrir þér allar stundir sem þér gefast yfir daginn. „Hugsaðu um það í sjö daga; láttu þig dreyma það í sjö nætur,“ sagði Dale Carnegie. Páll postuli hvatti Tímóteus: „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta.“ En áður en Páll skrifaði þetta sagði hann: „Stunda þetta, ver allur í þessu.“ Já, góður ræðumaður þarf fyrst að sökkva sér rækilega ofan í efnið. — 1. Tímóteusarbréf 4:15, 16.

Sökktu þér niður í efnið uns sannfæringin um þýðingu þess og mikilvægi verður taugaóstyrknum yfirsterkari. Það var það sem gerði Jeremía kleift að segja um boðskap sinn: „Þá var sem eldur brynni í hjarta mínu, er byrgður væri inni í beinum mínum. Ég reyndi að þola það, en ég gat það ekki.“ (Jeremía 20:9) Og þetta var maðurinn sem áður hafði sagt: „Ég kann ekki að tala.“

Hugsaðu um áheyrendur þína. Vertu eins vel til fara og þú getur. Gættu þess að efnið, sem þú ætlar að bera fram, hæfi áheyrendum þínum. Íhugaðu hvernig þeir hugsa. Hver eru trúarviðhorf þeirra? Hvað vita þeir fyrir um efnið? Hvernig tengist efnið daglegu lífi þeirra? Í sama mæli og þú tekur tillit til þessara spurninga munu áheyrendur hlusta með athygli. Þeim mun finnast efnið sniðið fyrir sínar sérstöku þarfir.

Gerðu þitt besta

Heimur nútímans býður upp á hvers kyns hraðvirka upplýsingamiðlun sem hægt er að hugsa sér. Þó segir í bókinni Get to the Point: „Í flestum tilvikum eru áhrifaríkustu boðskiptin þau þegar maður talar við mann.“ Tillögurnar hér á undan ættu að hjálpa þér að ná tökum á slíkum boðskiptum. Í stað þess að láta þarflausan ótta halda aftur af þér uppgötvar þú að þú getur flutt ræðu fyrir áheyrendahópi!

[Rammi á blaðsíðu 25]

Æfingar sem róa taugarnar

Þegar aðstæður leyfa geta eftirfarandi æfingar dregið úr taugaspennu áður en þú stendur frammi fyrir áheyrendahópi.

● Hreyfðu fingurna og hristu hendur og handleggi. Lyftu öxlunum og láttu þær síðan falla. Endurtaktu þetta nokkrum sinnum.

● Hallaðu höfðinu fram og láttu það svo velta til beggja hliða.

● Hreyfðu kjálkana til beggja hliða. Galopnaðu munninn.

● Hummaðu lágt í háum og lágum tón til skiptis.

● Andaðu djúpt og hægt nokkrum sinnum.

[Rammi á blaðsíðu 26]

Bættu flutninginn

Aðlagaðu þig áheyrendafjölda: Ef áheyrendur eru margir þarf röddin að vera sterk og kraftmikil og handatilburðir áberandi.

Talaðu með líflegri röddu. Hugsaðu þér að leika á hljóðfæri með aðeins einni nótu! Rödd þín er hljóðfæri. Þú þreytir áheyrendur þína með tilbreytingarlausri röddu.

Gættu að hvernig þú stendur. Sértu hokinn ber það vitni um áhugaleysi. Sértu stífur lýsir það kvíða. Finndu hinn gullna meðalveg — vertu líflegur og vel vakandi, ekki áhugalaus og stífur.

Notaðu tilburði. Handatilburðir eru ekki bara áhersluatriði. Með tilburðum slakar þú á vöðvum, bætir öndun, stillir rödd og róar taugar.

Klæddu þig smekklega. Mundu að þú en ekki fötin þín eru að flytja boðskapinn. Það skiptir jafnmiklu (ef ekki meira) máli hvernig þú lítur út í augum áheyrenda þinna en þínum eigin.

Haltu augnasambandi. Þegar þú kastar bolta í boltaleik fylgist þú með honum til að sjá hvort annar grípi hann. Sérhver hugsun í ræðu þinni er eins og „bolti“ sem þú kastar til áheyrenda þinna. Viðbrögð þeirra — bros, vökul augu, höfuðhneiging — gefa til kynna hvort þeir hafa „gripið.“ Haltu góðu augnasambandi til að fullvissa þig um að hugmyndir þínar séu „gripnar.“