Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Broddur dauðans fjarlægður

Broddur dauðans fjarlægður

Broddur dauðans fjarlægður

ÞAÐ er ekkert óvenjulegt að heyra talað um dauðann sem hann sé sjálfsagður eða eðlilegur. Samkvæmt Biblíunni er hann það alls ekki. Dauðinn er óvinur sem er tilkominn vegna syndarinnar. „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað,“ segir Biblían í Rómverjabréfinu 5:12.

Með því að það var ekki tilgangur Guðs að menn ættu að deyja sá hann í kærleika sínum fyrir undankomuleið. Hann lét son sinn deyja í okkar þágu og greiddi þar með samsvarandi lausnargjald til að vega upp á móti dauðarefsingunni. (Matteus 20:28; 1. Jóhannesarbréf 2:2) Hann hefur líka lofað jarðneskri paradís og algerlega nýrri stjórn yfir öllu mannkyni. Sú stjórn mun að fullu þurrka út áhrif syndar og dauða. (Lúkas 18:30) Biblían segir í Opinberunarbókinni 21:3, 4: „Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ En hvað um þá sem þegar eru dánir?

Þeir hafa von um upprisu — þá von að lifa aftur sem menn á jörð sem verður paradís, fullkomlega hraustir á huga og líkama. Já, „sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Sá sem Guð sendi til að endurleysa mannkynið, Jesús Kristur, fullvissar okkur enn fremur: „Því sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf, og ég mun reisa hann upp á efsta degi.“ — Jóhannes 6:40.

Það er þessi upprisuvon sem veitir mörgum styrk er hafa misst ástvin í dauðann. Þeir gera sér ljóst að ástvinir þeirra eru aðeins „sofnaðir“ dauðasvefni og þess vegna eru þeir „ekki hryggir eins og hinir, sem ekki hafa von.“ (1. Þessaloníkubréf 4:13) Þeir hlakka til þess njóta félagsskapar hans aftur í nýja heimskerfinu sem Guð hefur lofað. Þeir trúa á þann Guð sem huggar og veitir von. — Rómverjabréfið 15:4, 13; 2. Korintubréf 1:3; 2. Þessaloníkubréf 2:16.

Þess vegna eru útfarir hjá vottum Jehóva ólíkar útförum annarra trúfélaga. Til að verðskulda velþóknun Guðs forðast vottarnir hverjar þær athafnir sem stríða gegn orði hans, Biblíunni. Þeir forðast siði og venjur er byggja á trúarkenningum sem Biblían kennir ekki. Þeir tilbiðja aðeins hinn sanna Guð, Jehóva, og neita þar af leiðandi að láta fara fram tilbeiðsluathafnir sem beinast að hinum dánu. Og þeir nota ekki útförina sem tækifæri til að flíka fjárhag sínum eða stöðu því að þeir vita að Guð hefur vanþóknun á slíku. (1. Jóhannesarbréf 2:16) Útfarir þeirra eru látlausar og virðulegar og stuðla að því að sefa sorg þeirra sem horfa á bak ástvini. Ræða er flutt til minningar um hinn látna þar sem gerð er grein fyrir von Biblíunnar. Þeir syrgja, en ekki úr hófi fram.

Vottar Jehóva vita að bráðlega verður „síðasti óvinurinn,“ dauðinn, afmáður. Þá munu eftirfarandi orð rætast: „Dauðinn er uppsvelgdur í sigur. Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?“ — 1. Korintubréf 15:26, 54, 55.