Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Byrði dauðans gerð léttari

Byrði dauðans gerð léttari

Byrði dauðans gerð léttari

GREFTRUNAR- og útfararsiðir eru æði breytilegir eftir löndum og menningarsamfélögum. Víða setja yfirvöld ákveðnar reglur sem fylgja þarf um útfarir og greftrun. Trúarviðhorf fjölskyldunnar og samfélagsins ráða þó yfirleitt mestu. „Rannsóknir á siðum og venjum í tengslum við dauðann leiða í ljós að algengar hefðir í návist látinna eru nátengdar trúarhugmyndum manna,“ segir The New Encyclopædia Britannica.

Tökum útfarir hindúa á Indlandi sem dæmi. Líkið er búið til brennslu samkvæmt siðum viðkomandi sértrúarflokks. „Heilögu vatni,“ helst úr Gangesfljóti, er stökkt á gólfið. Hvítt lak er síðan breitt yfir og líkið lagt á það. Brennt er reykelsi með sætum ilmi í þeirri trú að það kalli hreina anda á vettvang. Mauk úr sandelviði og rautt duft er borið á andlit líksins. Líkið er baðað og síðan hulið hvítum dúk og blómum stráð yfir. Þá er líkið borið á bambusbörum með höfuðið á undan til brennslustaðarins. Þar er börunum snúið þannig að fæturnir snúi að bálstaðnum. Það á að gefa til kynna að hinn látni horfi nú fram veginn til framtíðartilveru. Elsti sonur hins látna kveikir í bálkestinum því að trúað er að ella finni „sál“ hins látna ekki frið. Að lokum er öskunni safnað saman og henni sáldrað yfir einhverja af hinum „helgu“ ám Indlands.

Á Papúa Nýju-Gíneu er siður að ættingjar séu í náinni snertingu við líkið, kyssi það, gráti yfir því, gefi því loforð og biðjist fyrirgefningar synda sem þeir drýgðu gegn hinum látna. Sorgin er áköf og aukið er á hana með því að söngla útfararsálma. Venja er að halda minnst tvær rausnarlegar veislur nokkru eftir andlátið til að heiðra „anda“ hins látna og aftra því að hann komi fram hefndum í einhverri mynd.

Trúin á ódauðleika sálarinnar birtist glögglega í útfararsiðum og -hefðum Afríkubúa. Nauðsynlegt er að friða hinn látna til að hann geri ættingjum sínum ekki mein. Miklu fé er eytt og margar fórnir færðar í von um að hinn látni muni sýna hinum lifandi velvild. Margir trúa á endurholdgun og halda að hinn dáni snúi aftur annaðhvort sem dýr er skuli heiðrað og dýrkað eða sem nýr fjölskyldumeðlimur gegnum konu sem er ófrísk á þeim tíma. Í frásögn frá Nígeríu segir: „Þannig er þess sérstaklega gætt, þegar líkið er klætt, að allt sé slétt og fellt. Til dæmis er því trúað að það muni koma fram sem fæðingargalli þegar einstaklingurinn endurholdgast, ef hendur hins látna liggja ekki beinar í líkkistunni. Dáinn maður, sem er ekki rétt klæddur, endurholdgast sem vitfirringur.“ Ótti við hina dánu og ímynduð yfirráð þeirra yfir hinum lifandi einkennir oft útfarir í Afríku.

Víða í sveitahéruðum Grikklands eru haldnar langar og flóknar trúarathafnir eftir mannslát. „Fyrstu fimm árin á eftir undirbúa og halda konur, sem eru skyldar hinum látna, margar minningarathafnir,“ segir tímaritið Science. „Sorgin verður einkennandi hlutverk eiginkvenna, mæðra og dætra. Þær heimsækja gröfina á hverju kvöldi til að kveikja á kertum, hreinsa legsteininn, tala við hinn látna, syngja sorgarljóð og gráta. Þær trúa að þær hjálpi sál ástvinar síns að komast til himna með því að halda þessa siði rétt í alla staði.“ Loks eru bein hins látna grafin upp og komið fyrir í sameiginlegu grafhýsi þorpsins.

Flestar jarðarfarir í Japan fara fram að hætti Búddhatrúarmanna. Eftir að líkið hefur verið þvegið og klætt er það hulið hvítum dúk og hnífur lagður á brjóst þess til að bægja frá illum öndum. Meðan kerti og reykelsi brenna fer prestur með sútrur (vers úr helgiritum Búddhatrúarmanna) yfir líkinu og gefur hinum látna nýtt nafn að hætti Búddhatrúarinnar sem greiða þarf háa fjárhæð fyrir í hlutfalli við stafafjölda. Líkið er síðan lagt í ómálaða trélíkkistu. Vakað er yfir líkinu heila nótt eða hálfa til að syrgja hinn látna og biðja sálinni hvíldar. Um leið og presturinn þylur sútrur skiptast syrgjendurnir á að brenna ögn af reykelsi. Svipaðir siðir eru viðhafðir daginn eftir við útförina frammi fyrir altarinu þar sem kistan stendur ásamt mynd af hinum látna og öðrum trúarlegum munum. Líkið er síðan brennt eins og lög kveða á um. Um nokkurn tíma eftir útförina er brennt reykelsi af og til og prestur fer með sútrur uns álitið er að sálin hafi misst áhrif sín yfir málefnum manna og bræðst saman við sál forfeðranna í alheimsnáttúrunni.

Gerðu óskir þínar kunnar

Í stað þess að draga úr því álagi sem fylgir ástvinamissi hafa útfararsiðir af þessu tagi oft enn meiri byrðar í för með sér. Ein þeirra er kostnaðurinn. Íburðarmikil útför er ekki ódýr. Prestar ætlast yfirleitt til ríflegrar greiðslu eða fjárframlags fyrir þjónustu sína. Rausnarlegar veislur og tilkomumiklar athafnir kosta líka skildinginn. Stundum er jafnvel þrýst á um að ganga lengra en hinn látni óskaði eða láta fara fram athafnir sem samræmdust ekki trú hans. Ættingjar eða vinir hins látna geta gert mikið veður út af því ef útförin á ekki að vera samkvæmt hefðbundnum siðum samfélagsins. Ef þú hefur einhverjar óskir um það hvernig útför þú viljir fá er skynsamlegt að setja þær á blað og fá undirskrift þína vottfesta.

Japönsk húsmóðir lærði þessa lexíu þegar faðir hennar dó 85 ára að aldri. Hann hafði beðið um einfalda minningarathöfn að fjölskyldunni einni viðstaddri. Fyrir vikið sætti hún mikilli gagnrýni þeirra sem aðhylltust hefðbundna útför. Síðar skrifaði þessi kona Tókíódagblaðinu Asahi Shimbun: „Hversu rökrétt sem manni sjálfum finnst að hafa útförina öðruvísi en gengur og gerist er best að ræða það í hversdagslegum samræðum við fjölskyldu sína og fá samþykki hennar. Einnig er mikilvægt að setja óskir sínar á blað þannig að eftirlifandi ættingjar hafi svar við gagnrýninni.“

Ekki síst er þetta mikilvægt fyrir þann sem hefur sterkar trúarskoðanir er stangast á við staðbundna hefð. Kristinn maður í Japan óttast kannski að ættingjar hans, sem ekki eru kristnir, hneigi sig í tilbeiðslu- og lotningarskyni frammi fyrir líkkistu hans eða mynd við útför hans eins og þeir myndu gera fammi fyrir altari Búddhatrúarmanna. Hann gæti því tekið fram í skriflegum fyrirmælum sínum að lík hans skuli brennt, eftir að hann hafi verið kvaddur á heimili sínu, og að síðan skuli haldin einföld minningarathöfn þar sem hvorki sé mynd af honum né skrínið með ösku hans. Til að afstýra vandræðum mætti gera ættingjunum grein fyrir því fyrirfram.

Kostnaðarhliðin

Allt fram á miðja síðustu öld dóu langflestir á sínu eigin heimili í návist vina og ættingja. Börn voru ekki útilokuð frá því að koma nálægt dánarbeðinu og þannig kynntust þau dauðanum. Allt hefur þetta breyst í iðnríkjum heims. Deyjandi fólk er oftast flutt á spítala og lagt kapp á að lengja líf þess. „Í stað þess að skynja dauðann sem eðlilegt fyrirbæri líta nútímalæknar á hann sem illan eða framandi, sem ósigur allra sinna lækningafræðilegu úrræða, stundum nánast sem persónulegan ósigur,“ segir The New Encyclopædia Britannica. „Barist er gegn sjúkdómum með öllum tiltækum vopnum, oft án þess að nægilegt tillit sé tekið til sjúklingsins — stundum jafnvel án tillits til þess hvort hann er enn einhver ‚persóna‘ yfirleitt.“

Útfararkostnaður á Íslandi getur legið einhvers staðar á bilinu 75.000 til 160.000 krónur. Frágangur grafar, svo sem legsteinn, er þá ekki meðtalinn. Oft gleyma menn að samúðarfullur útfararstjóri rekur sína starfsemi í þeim tilgangi að hafa tekjur af. „Hagnaðarvonin er sprelllifandi innan útfararþjónustunnar,“ segir tímaritið Changing Times, „og eins og á öllum öðrum sviðum verslunar og viðskipta á kaupandinn á hættu að óprúttinn sölumaður blekki hann, svindli á honum eða smyrji um of á reikninginn. Hættan er raunar meiri því að flestir eru að kaupa í fyrsta sinn, þeir eru beygðir af sorg og verða að hafa hraðann á.“

En það er hægt að vera undirbúinn, meðal annars með því að leggja sjálfur fyrir til útfararinnar. Margir kaupa líftryggingu. Það er sérstaklega mikilvægt að hjón upplýsi hvort annað um fjármál sín. Eins getur verið skynsamlegt að gera erfðaskrá. Líkurnar á að hjón deyi samtímis eru ekki miklar. Í flestum tilvikum lifa konur menn sína. Oft eru eiginkonur lítið inni í slíkum málum sem þá eykur á sorg þeirra og hugarkvöl. Þar eð dauðann getur borið óvænt að garði skaltu ekki slá því á frest að ræða þessi mál við fjölskyldu þína.

Tekist á við sorgina

Sá sem misst hefur ástvin í dauðann þarf að takast á við mikinn sársauka. Hann þarf að fá að gráta og syrgja uns hann getur sætt sig við orðinn hlut. Það er einstaklingsbundið hve lengi sárasta sorgin er að ganga yfir. Sumir sætta sig tiltölulega fljótt við missinn en aðrir þurfa ár eða meira. Einstaka maður kemst aldrei yfir sorgina. Hvernig er hægt að vinna úr sorg sinni?

Mikilvægt er að einangra sig ekki frá vinum eða þjóðfélagi. Að koma hinu daglega lífi aftur á réttan kjöl og halda sambandi við vini og ættingja símleiðis eða með heimsóknum er nauðsynlegt til að ná sér upp úr sorginni. Enda þótt það sé stundum gott að vera einn ætti það ekki að verða að venju. Hjálpaðu fólki að eiga samband við þig með því að eiga sjálfur frumkvæðið.

Maður sem missti fimm nána ættingja á aðeins þrem árum, þeirra á meðal móður sína og 41 árs eiginkonu eftir langa baráttu við krabbamein, ráðlagði: „Ég hef vissulega fengið minn skerf af sorginni. Stundum grét ég. En maður verður að vera raunsær. Maður verður að sætta sig við lífið eins og það er, ekki eins og maður vildi að það væri. Maður verður að aðlaga sig mótlætinu og sætta sig við dauðann í stað þess að syrgja endalaust.“

Mikilvægt er að styðja og uppörva þá sem syrgja. Því miður finnst okkur flestum við vera ófær um það og vita ekki hvað við eigum að segja. Okkur finnst jafnvel vandræðalegt að sjá aðra komast í geðshræringu. Þess vegna höfum við tilhneigingu til að sniðganga hinn sorgmædda — einmitt þegar hann þarfnast okkar mest. Sumir hafa jafnvel verið sakaðir um að forða sér yfir götuna og ganga hinumegin aðeins til að þurfa ekki að mæta syrgjandi einstaklingi og tala við hann! Ekkja sagði: „Ég var ein í sorg minni. Ég hafði brennandi þörf fyrir að tala en enginn vildi hlusta.“

Aðrir hlaupa til og styðja syrgjandi einstakling rétt eftir dauðsfallið en hverfa svo jafnskjótt aftur. „Það getur tekið vikur eða mánuði fyrir þann sem misst hefur ástvin að komast yfir fyrsta áfallið. Það er þá sem stuðningur er mikilvægastur og minnst af honum að fá,“ segir Patricia Minnes sem er prófessor í sálfræði. Og það eru mistök að halda að þeir sem virðast ekki niðurbrotnir af sorg séu kaldlyndir og kærleikslausir, afneiti missinum eða hafi sigrast á honum. Sumir búa ósköp einfaldlega yfir meiri innri styrk en aðrir til að bera sorg sína, en þeir þarfnast líka hughreystingar og stuðnings.

Það er því ómetanlegt þegar vinir koma til skjalanna og aðstoða syrgendurna við að ganga frá málum, svo sem skjölum og pappírum. Það er mikil hughreysting að hafa traustan vin með skýra hugsun sér við hlið þegar gerðar eru ráðstafanir í sambandi við útför. Það er mikils metið þegar einhver hjálpar til við að annast börnin og sinnir þörfum gestkomandi ættingja og vina. Það er hugulsamt af vinum og nágrönnum að koma með mat dag eftir dag og bjóðast til að vinna húsverkin eða fara með syrgendurna hvert sem þeir vilja. Það er ómetanlegt fyrir þá að eiga einhvern að sem þeir geta rætt við um tilfinningar sínar. Það er örvandi að heyra hughreystingarorð og finna hlýlega snertingu. Það fylgir því notaleg tilfinning þegar einhver spyr hina sorgmæddu, jafnvel mánuðum eftir ástvinamissinn, hvernig þeim líði og talar hlýlega við þá.

En mesta hjálpin er þó fólgin í því að eiga sér framtíðarvon. Er um einhverja von að ræða?

[Innskot á blaðsíðu 18]

„Maður verður að sætta sig við lífið eins og það er, ekki eins og maður vildi að það væri.“

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 21]

Hvað eigum við að segja börnunum?

Segið þeim sannleikann á þann hátt sem þau geta skilið. Talið um dauðann og það að deyja og forðist að tala undir rós. Ef þú segir: „Afi er farinn,“ eða „Við höfum misst afa,“ býst barnið kannski við að afi komi aftur. Hjálpaðu barninu að skilja að dauðinn er raunverulegur og svaraðu spurningum þess í samræmi við Biblíuna. Barn getur kynnst dauðanum gegnum náttúruna. Þú getur skýrt fyrir barninu að dýr, fuglar og skordýr deyi. Vertu þolinmóður og leiðréttu rangar hugmyndir sem barnið kann að hafa fengið gegnum kvikmyndir eða sjónvarp. Sé barninu skýlt algerlega fyrir þeim veruleika sem dauðinn er getur það vakið reiði þess eða ótta við hið óþekkta.

Litlu barni getur fundist það bera ábyrgð á dauðsfallinu, einkum ef það hefur verið reitt við hinn dána. Hjálpaðu því að forðast sektarkennd með því að koma því í skilning um að dauðinn er ekki því að kenna.

Óttinn við að verða einn og yfirgefinn er mjög raunverulegur hjá börnum sem hafa misst annað foreldri sitt. Róaðu þau eins og kostur er og láttu þau vita að þau verði elskuð og um þau annast. Barn getur líka fundið til reiði. Ef því er sagt að Guð hafi tekið foreldri þess getur það fengið hatur á Guði. Það er hjálp í þessu efni að þekkja sannleika Biblíunnar. Hughreystu barnið og veittu því ást þína og stuðning.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Styddu og hughreystu þá sem horfa á bak ástvini í dauðann.