Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dauðinn — alheimsplága

Dauðinn — alheimsplága

Dauðinn — Alheimsplága

VERT ár deyja um 50 milljónir manna í heiminum. Það svarar til 137.000 á dag, 5700 á klukkustund, um 100 á mínútu eða yfir 3 manna á hverjum tveim sekúndum. Engin fjölskylda kemst undan þeirri plágu sem dauðinn er. Konungar og kotungar, ríkir og fátækir, karlar og konur — allir deyja.

„Í þessum heimi er ekkert öruggt nema skattarnir og dauðinn,“ sagði hinn frægi bandaríski útgefandi, uppfinningamaður og stjórnmálamaður Benjamin Franklin í bréfi til vinar árið 1789. En hann er ekki einn um að hafa bent á það. Um 2800 árum fyrir hans dag sagði hinn vitri Salómon konungur Ísraels til forna: „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja.“ Hann var þó einungis að staðfesta það sem sagt var um 3000 árum fyrir hans dag við fyrsta manninn á jörðinni: „Mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ — Prédikarinn 9:5; 1. Mósebók 3:19.

Þótt dauðinn hafi verið óumflýjanlegur út í gegnum sögu mannsins er hann enn mikill sorgarvaldur. Réttilega hefur verið sagt að okkur sé eðlilegt að þrá að lifa, ekki deyja. Þau bönd sem tengja okkur ættingjum og vinum eru sterk og við þráum að þau haldist. En þegar árin líða bresta þessi bönd eitt af öðru undan krafti dauðans. Afar okkar, ömmur, foreldrar og vinir deyja.

„Það er mjög sjaldgæft að menn verði eldri en 113 ára og enn hefur ekki sannast að nokkur hafi lifað fleiri en 120 afmælisdaga,“ segir í Heimsmetabók Guinness. Örn og Örlygur, 1985, bls. 10 Þar af leiðandi er enginn maður á lífi sem man eftir fæðingu Winstons Churchills (1874) eða Mohandas Gandhis (1869), kaupum Bandaríkjamanna á Alaska af Rússum árið 1867 eða morðinu á Abraham Lincoln árið 1865 — að ekki sé minnst á alla þá atburði sögunnar sem gerðust á undan þessum atburðum nítjándu aldar.

Þrátt fyrir öll afrek á sviði læknisfræði og vísinda er mannsævin enn álíka löng og Móse sagði endur fyrir löngu: „Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár, og dýrsta hnossið er mæða og hégómi, því að þeir líða í skyndi og vér fljúgum burt.“ (Sálmur 90:10) Þetta voru almenn aldursmörk. Móse varð sjálfur 120 ára.

Þótt margvíslegir erfiðleikar fylgi lífinu hefur dauðinn sérstakan sársauka og harm í för með sér. Oft hefur ástvinamissir slæm áhrif á heilsu þeirra sem eftir lifa og vitað er til að hann hafi jafnvel leitt til veikinda og dauða. Óháð því hver það er í fjölskyldunni sem deyr er missirinn alltaf mikill. Eins og sálfræðingur komst að orði: „Þegar foreldrar deyja glatar maður fortíð sinni. Þegar barn deyr glatar maður framtíð sinni.“ Oft megna orð ekki að lýsa þeirri sorg og harmi sem fylgir. Ekki bætir úr skák að dauðsfall hefur oft töluverð fjárútlát í för með sér. Þrýstingur í þá átt að fylgja ákveðnum greftrunasiðum getur aukið á sorgina.

Er nokkur leið til að draga að einhverju marki úr því álagi og þeim byrðum sem ástvinamissir hefur í för með sér?