Hvernig get ég haft hugrekki til að vera öðruvísi en hinir?
Ungt fólk spyr. . .
Hvernig get ég haft hugrekki til að vera öðruvísi en hinir?
„Stundum lætur þrýstingur frá félögunum mig gera það sem mér finnst vera rangt en af því að það er svo hallærislegt að gera það ekki læt ég undan.“ — John.
„HÓPÞRÝSTINGUR gerir vart við sig á öllum sviðum lífsins.“ Það er álit rithöfundarins Lesley Jane Nonkin. Félagarnir reyna að segja manni hvernig maður eigi að klæðast. Þeir setja reglur um það hvernig maður skuli ganga, tala og greiða sér. Þeir sem skera sig úr eiga ekki sjö dagana sæla. Vertu eins og hinir — eða vertu ekki með!
En kristnir unglingar láta ekki bara berast með straumnum í blindni. Þeir fylgja reglunni sem Jesús gaf í Jóhannesi 15:19 og ‚eru ekki af heiminum,‘ heimi óguðlegra manna. a En það kostar kjark og þor að tilheyra ekki heiminum. Það er ekki ósvipað því að vera á árabáti í ólgusjó. Þú ert á sjónum og hann er allt í kringum þig, en til að halda lífi verður þú að sjá um að það komist sem minnst af sjó í bátinn. Eins er það hjá unglingum meðal votta Jehóva; þeir reyna að koma í veg fyrir að óguðleg viðhorf heimsins seytli inn í líf þeirra.
Það er þó ekki alltaf auðvelt. Tökum Eiichiro, ungan vott í Japan, sem dæmi. Bæði meðal unglinga og fullorðinna í Japan gætir mjög sterks þrýstings til að vera eins og hinir. „Í skólanum gat ég ekki samviskunnar vegna tekið þátt í athöfnum sem tengdust þjóðartáknum og þjóðsöngvum,“ segir Eiichiro. „Ég gat ekki heldur lært sjálfsvarnaríþróttir því að þær stönguðust á við meginreglur Biblíunnar.“ (Sjá 2. Mósebók 20:4, 5 og Lúkas 4:8; Jesaja 2:4 og Lúkas 10:27.) Eiichiro skar sig því úr fjöldanum, stundum kannski svo að honum fannst það vandræðalegt.
Ungir vottar um allan heim eru undir svipuðu álagi. „Hátíðirnar eru verstar,“ segir kristinn unglingur. „Allir hinir krakkarnir spyrja: ‚Af hverju heldur þú ekki hátíðina?‘“ Einni stúlku á táningaaldri finnst eitt erfiðasta málið vera það hvort hún eigi að „fara út með strákum.“ Annar kristinn unglingur kvartar undan þrýstingi til að skemmta sér með hinum. Hann segir: „Það er alltaf verið að spyrja mann: ‚Ætlar þú ekki í teitið?‘“ Aðrir ungir vottar hafa sætt háðsglósum fyrir að skrópa ekki í tímum eða svindla ekki á prófum. Það er því auðséð að það kostar töluvert hugrekki að vera öðruvísi en hinir og það finnst ekki öllum unglingum þeir hafa það.
Unglingur skrifar: „Ég lifi tvöföldu lífi
— öðru í skólanum og hinu heima. Í skólanum er ég með veraldlegum krökkum, en þeir opna varla munninn án þess að blóta og ég er að verða alveg eins og þeir. Hvað á ég að gera?“ Svarið er ljóst: Byggðu upp hugrekki til að vera öðruvísi en hinir! En hvernig?Uppspretta ósvikins hugrekkis
Hugrekki er huglægur eða siðferðilegur styrkur til að horfast í augu við hættur, ótta eða erfiðleika. Það búa ekki allir yfir þessum styrk en allir geta ræktað hann. „Ekki gaf Guð oss anda hugleysis,“ skrifaði Páll, „heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.“ (2. Tímóteusarbréf 1:7) Já, Guð getur gefið þér þann styrk sem þarf til að láta ekki undan jafnöldrum þínum. — Filippíbréfið 4:13.
En hvernig færð þú þennan kraft? Ein leiðin er einfaldlega að biðja um hann. „Biðjið, og þér munuð öðlast,“ lofaði Jesús í Jóhannesi 16:24. Einkum ættir þú að vera með bæn á vörunum þegar þín er freistað til að láta undan. „Ég bið til Jehóva til að ná stjórn á huga mínum og hjarta,“ segir kristinn unglingur.
Hugrökk ungmenni fyrr á tímum
Önnur leið til að byggja upp kjark er sú að lesa og íhuga frásögur Biblíunnar af hugrökkum þjónum Guðs. Ert þú til dæmis feiminn við að láta aðra vita að þú sért einn af vottum Jehóva? Þá skaltu lesa frásöguna í 2. Konungabók 5:1-5. Hún segir frá ísraelskri stúlku sem hafði verið rænt en sagði öðrum hugrökk frá trú sinni. Aðra spennandi frásögu er að finna í Postulasögunni 4:20. Þar sögðu postularnir andstæðingum sínum djarfmannlega: „Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt.“ Ef þú kynnir þér þessar frásögur getur það örvað þig til að tala með sömu djörfung.
Önnur hrífandi saga segir frá Daníel og félögum hans þrem, þeim Sadrak, Mesak og Abed-Negó. Á unglingsaldri voru þeir teknir til fanga og fluttir til Babýlonar ásamt fjölda annarra ungmenna sem voru af heldra fólki komnir. Konungur Babýlonar ætlaði að þjálfa þá til ábyrgðarstarfa við stjórnina. Í þeim tilgangi að hjálpa þessum unglingum að samlagast babýlonskum lífsháttum voru þeim gefin babýlonsk Daníel 1:7, 8.
nöfn og kennd tunga og hættir Babýloníumanna. Eins var reynt að snúa þeim frá gyðinglegum háttum með því að gefa þeim ‚mat frá konungsborði.‘ —Í augum Babýloníumanna var þetta hinn mesti sælkeramatur en í augum guðhræddra Gyðinga var mataræði Babýloníumanna trúarlega ógeðfellt. Þó virðast flestir hinna hernumdu unglinga hafa fallið fyrir freistingunni — allir nema Daníel og félagar hans. Þú getur rétt ímyndað þér þann þrýsting sem þeir hafa orðið fyrir frá jafnöldrum sínum af hópi Gyðinga! Hvernig brugðust þeir við slíkum þrýstingi? Lestu sjálfur hina trústyrkjandi frásögu í 1. kafla Daníelsbókar. Kannski getur hún hjálpað þér að hafa það hugrekki sem þarf til að segja nei ef einhver skyldi bjóða þér fíkniefni eða áfengi!
„Verið hugrökk“
Það er ekki nóg bara að lesa um hugrekki. Til að byggja upp það hugrekki sem þarf til að standast hópþrýsting þarft þú daglega að fylgja leiðbeiningum Páls til karla og kvenna í söfnuðinum í Korintu: „Verið staðföst í trúnni; verið hugrökk og verið sterk.“ — 1. Korintubréf 16:13, The Jerusalem Bible.
Tökum dæmi: Skiptir þú um föt eða breytir um hárgreiðslu þegar þú ert ekki í sjónmáli foreldra þinna eða annarra í kristna söfnuðinum, til að líta út eins og unglingar í heiminum, eða heldur þú þig ófrávíkjanlega við mælikvarða kristninnar? „Ég neita að elta hvert einasta tískufyrirbæri,“ segir hugrökk kristin stúlka.
Þá kemur önnur spurning: Ert þú nægilega hugrakkur til að segja bekkjarfélögum þínum að þú sért einn votta Jehóva? Ertu með biblíuna þína og biblíurit með þér í töskunni ef skólinn þinn leyfir það? Ef þróunarkenningin, þjóðernisathafnir eða spurningin um blóðgjöf kemur upp í bekknum, ert þú þá ‚reiðubúinn að svara hverjum manni sem krefst raka hjá þér fyrir voninni sem í þér er‘? (1. Pétursbréf 3:15) Eða situr þú kannski þögull og kvíðinn við borðið þitt? Jesús Kristur sagði: ‚Þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð mun ég einnig blygðast mín fyrir.‘ — Markús 8:38.
Hugrakkur kristinn unglingur skammast sín ekki fyrir biblíulega von sína heldur miklast af henni. (Samanber Hebreabréfið 3:6.) Eiichiro, japanska piltinum sem áður er getið, lærðist það. Hann var oft spurður hvers vegna hann tæki ekki þátt í þjóðernisathöfnum eða sjálfsvarnaríþróttum. Var það honum í óhag að vera öðruvísi en aðrir? „Nei,“ svarar hann, „ég fór að líta á það allt sem áskorun. Ég þurfti nefnilega að undirbúa mig vel til að verja gerðir mínar og varð að reiða mig á hjálp Jehóva. Þannig reyndust ókostirnir, til langs tíma litið, vera mér til góðs.“
Lærðu að tala þegar freistingar mæta þér. Orðskviðirnir 1:10-15 segja: „Son minn, þegar skálkar ginna þig, þá gegn þeim eigi. Þegar þeir segja: ‚Kom með oss! . . .‘ son minn, þá haf ekki samleið við þá, halt fæti þínum frá stigum þeirra.“ Þetta þýðir auðvitað ekki að þú þurfir að vera með einhverja siðaprédikun. Í bók sinni How to Say No and Keep Your Friends segir félagsráðgjafinn Sharon Scott að stundum sé best bara að fara, afþakka boðið — eða einfaldlega látast ekki heyra það. Stundum áttu þó ekki annarra kosta völ en að segja þína skoðun og láta aðra vita hvers vegna þú getir ekki verið með þeim. Sharon Scott ráðleggur festu og einbeitni: „Láttu ekki eins og þér standi á sama . . . Haltu augnasambandi. . . . Talaðu með ró og festu.“
Eftir sem áður má vel vera að þú verðir fyrir stríðni og háði vegna afstöðu þinnar. Margir munu þó innst inni dást að þér. Mike segir: „Margir af strákunum vita að ég er vottur og þeir virða mig fyrir það. Ef þeir ætla að tala um eitthvað slæmt segja þeir: ‚Mike, við ætlum að fara að ræða málin þannig að þú mátt fara ef þú vilt.‘“ Ekki munu samt allir unglingar sýni þér slíka virðingu. Hins vegar gleður þú Guð með framkomu þinni. (1. Pétursbréf 4:3-6) Þess vegna segir kristinn unglingur: „Hafðu ekki áhyggur af því hvernig hinir krakkarnir hugsa um þig!“ Það er álit Guðs sem skiptir máli og hann blessar þig ef þú hefur hugrekki til að vera öðruvísi en hinir.
[Neðanmáls]
a Sjá greinina „Hvers vegna þarf ég að vera öðruvísi en hinir?“ í Vaknið! frá október-desember 1992.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Notar þú tækifærin sem þér gefast til að segja frá trú þinni?