Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Köllun læknisins

Köllun læknisins

Köllun læknisins

FYRIR um það bil sjö árum lést tíu ára japanskur drengur, Dai Suzuki, af völdum umferðarslyss. Fjölmiðlar sökuðu foreldra hans um vanrækslu af því að þeir höfðu, í hlýðni við meginreglur Biblíunnar, ekki leyft að syni þeirra væri gefið blóð. Foreldrar Dais eru vottar Jehóva. Lögreglurannsókn leiddi í ljós að alls ekki hefði verið um að ræða vanrækslu af hálfu foreldranna.

Vottar Jehóva í Japan og annars staðar meta mikils viðleitni lækna til að bjarga mannslífum og eru samvinnuþýðir við lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk. Þeir notfæra sér nýjustu læknislyf og þiggja læknismeðferð að blóðgjöfum undanskildum. Þegar ákvörðun læknis stangast á við hollustu þeirra við meginreglur Biblíunnar hlýða þeir aftur á móti Guði. (Postulasagan 4:19) Boð Biblíunnar er skýrt: „Haldið yður frá . . . blóði.“ — Postulasagan 15:29.

Þess vegna velja vottar Jehóva læknismeðferð án blóðgjafar í stað þess að slaka til þar sem tryggð þeirra við boð Guðs á í hlut. Að vísu getur slík meðferð gert auknar kröfur til lækna, en sífellt fleiri læknar og spítalastjórnendur finna leiðir til að koma til móts við óskir votta Jehóva. Til dæmis sagði japanskt dagblað, Mainichi Shimbun, að upp á síðkastið séu „sumir spítalar farnir að gera allt sem þeir geta til að stöðva blæðingar og séu fúsir til að gera skurðaðgerðir án blóðgjafa.“

Í greininni kom fram að við Ageo Kosei-spítalann hafi verið gerðar 14 velheppnaðar skurðaðgerðir án blóðgjafa á vottum Jehóva frá 1989 til janúar 1992. Spítalinn leggur áherslu á formlegt samþykki byggt á vitneskju. Sé sjúklingurinn vottur er það stefna spítalans að ræða við hann um áætlaðan blóðmissi og hættuna sem fylgir skurðaðgerð án blóðgjafar. Að fenginni skriflegri yfirlýsingu frá sjúklingnum, þar sem hann leysir spítalann undan ábyrgð á hugsanlegu tjóni, gera læknar aðgerðina án blóðgjafa.

Hvað kom spítalanum til að taka við sjúklingum sem eru vottar og virða val þeirra á meðferð, jafnvel þótt aðrir spítalar hafi synjað þeim um meðferð? Mainichi Shimbun hafði eftir Toshihiko Ogane, forstöðumanni spítalans: „Köllun læknisins skyldar hann til að virða réttindi sjúklings til að taka lokaákvörðun og að gera sitt besta að því marki sem færni hans leyfir í meðferð sjúkdómsins. Formlegt samþykki byggt á vitneskju er afar þýðingarmikið frá þessum sjónarhóli.“

„Á móti hafa vottar Jehóva sett á fót spítalasamskiptanefndir í 53 borgum út um allt land til að hjálpa trúbræðrum sínum,“ heldur blaðið áfram. „Hlutverk þessara nefnda er að reyna að ná samkomulagi við spítalana um skurðaðgerðir án blóðgjafa.“ Árangurinn er sá að töluverður fjöldi háskólaspítala og annarra spítala er nú fús til að gefa vottunum kost á annars konar meðferð.

Sem stendur eru yfir 1800 læknar í Japan og yfir 24.000 í heiminum fúsir til samvinnu við vottana um það að veita þeim læknismeðferð án blóðgjafar. Yfir 800 spítalasamskiptanefndir hafa haft samband við lækna er líta á það sem „köllun læknisins“ að virða valfrelsi sjúklingsins.