Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Mótunarárin — það sem þú sáir núna uppskerð þú seinna

Mótunarárin — það sem þú sáir núna uppskerð þú seinna

Mótunarárin — það sem þú sáir núna uppskerð þú seinna

BARNSHEILINN drekkur í sig upplýsingar frá umhverfi sínu eins og svampur. Á tveim árum lærir barn flókið tungumál aðeins með því að hlusta á það. Ef barnið heyrir tvö tungumál töluð lærir það bæði. Auk þess að læra tungumál er barnsheilanum ásköpuð hæfni til að þroska tónlistargáfu, listhneigð, samhæfingu vöðva, siðferðisvitund og samvisku, trú og ást og tilbeiðsluhvöt. Hann bíður bara eftir áhrifum frá umhverfinu til að þroskast. Þá er líka innbyggð í barnsheilann stundaskrá yfir það hvenær þessi áhrif koma að sem mestu gagni, en það er á mótunarárunum.

Þetta ferli hefst strax við fæðingu. Fyrsta skrefið er tilfinningatengsl. Móðirin einblínir ástúðlega í augu barnsins, talar sefandi til þess, faðmar það og vaggar. Móðurtilfinningin ólgar upp þegar barnið einblínir á hana og finnur til öryggis hjá henni. Ef móðirin byrjar þá strax að gefa barninu brjóst þeim mun betra fyrir þau bæði. Þegar barnið sýgur örvar það mjólkurframleiðslu móðurinnar. Snertingin við barnið kemur af stað hormónamyndun sem dregur úr eftirblæðingum hennar. Móðurmjólkin inniheldur mótefni sem vernda barnið gegn sýkingum. Tilfinningatengsl myndast. Þetta er upphafið að ástríku sambandi — en aðeins upphafið.

Þetta tveggja manna spil breytist fljótt í þriggja manna þegar faðirinn bætist í hópinn, og það verður hann að gera. „Öll börn þarfnast . . . föður,“ segir dr. T. Berry Brazelton, „og sérhver faðir getur haft mikil áhrif. . . . Mæðurnar voru yfirleitt hæglátar og blíðar við börnin en feðurnir léku meira við þau, kitluðu og potuðu.“ Börnin svara þessari meðferð föðurins með gleðiópum; þau skríkja af ánægju, skemmta sér konunglega og heimta meira. Þetta er framhald þeirra tilfinningatengsla sem byrjuðu að myndast strax eftir fæðingu, ‚ástartengsl milli foreldra og barns sem er eðlilegast að mynda og hættast við að vanrækja á fyrstu átján ævimánuðum barnsins,‘ segir dr. Magid, einn höfunda bókarinnar High Risk: Children Without a Conscience (Mikil áhætta: Börn án samvisku). Ef þessi tengsl eru vanrækt segir hann að börn geti verið ófær um að þroska náin vináttutengsl og sýna kærleika er þau vaxa úr grasi.

Báðir foreldrar þroska tilfinningatengsl

Það hefur því úrslitaþýðingu að báðir foreldrar vinni saman að því að styrkja þessi kærleiksbönd, þessi tilfinninga- og vináttutengsl milli foreldra og barns, á mótunarárunum áður en skólaganga hefst. Kossaflóð og faðmlög ættu að koma frá báðum foreldrum. Já, pabba líka! Tímaritið Men’s Health frá júní 1992 segir: „Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar, sem staðið hefur í 36 ár og birtar voru í tímaritinu Journal of Personality and Social Psychology, segja faðmlög og líkamleg snerting við foreldrana sterklega til um hvort barnið verði í framtíðinni farsælt í vináttu, hjónabandi og starfi. Sjötíu af hundraði barna, sem áttu ástríka foreldra, spjöruðu sig vel í samfélaginu en aðeins 30 af hundraði barna sem áttu kuldalega og fáláta foreldra; og faðmlög föður reyndust jafnmikilvæg og faðmlög móður.“

Hvað fleira er hægt að gera? Til dæmis að sitja með barnið í ruggustól og halda utan um það. Lestu svo fyrir það meðan það finnur til öryggis í kjöltu þinni. Talaðu við það og hlustaðu á það, fræddu það um rétt og rangt og gættu þess að vera góð fyrirmynd og láta orð og athafnir fara saman. Og hafðu aldur barnsins alltaf í huga. Láttu kennsluna vera einfalda, hafðu hana áhugaverða, gerðu hana skemmtilega.

Börn eru að eðlisfari forvitin, þau langar til að skoða allt og vita allt. Til að svala þessum þekkingarþorsta spyrja þau linnulausra spurninga. Hvaðan kemur vindurinn? Af hverju er himinninn blár? Af hverju verður hann rauður þegar sólin sest? Svaraðu spurningunum. Það er ekki alltaf auðvelt, en spurningar barnsins eru einstakt tækifæri fyrir þig til að hafa áhrif á huga þess, miðla því þekkingu og ef til vill kenna því að meta Guð og sköpunarverk hans að verðleikum. Er það skríðandi skordýr á laufblaði sem vekur hrifningu þess, eða fallegt blóm eða könguló að spinna vef sinn? Eða finnst því kannski bara gaman að róta í moldinni? Og gleymdu ekki að kenna barninu með því að segja því stuttar sögur eins og Jesús gerði með dæmisögum sínum. Þannig hefur barnið ánægju af kennslunni.

Algengt er að báðir foreldrar þurfi að vinna úti til að ná endum saman. Geta þeir lagt sig sérstaklega fram við að nota kvöldstundirnar og helgarnar með börnum sínum? Er mögulegt fyrir móðurina að vinna hálfan daginn til að eiga meiri tíma með börnunum? Einstæðir foreldrar eru fjölmargir nú á dögum og þeir verða að vinna úti til að sjá fyrir sér og börnum sínum. Geta þeir lagt sig fram við að helga þeim eins margar stundir og frekast er unnt um kvöld og helgar? Margar mæður neyðast til að vera að heiman frá börnum sínum. Þótt móðirin hafi góðar og gildar ástæður fyrir því skilur lítið barn það ekki og finnst kannski sem því sé ýtt til hliðar. Þess vegna þurfa foreldrar að leggja sig sérstaklega fram um að taka sér tíma til að sinna börnunum.

Sumir eru farnir að tala um „gæðatíma“ og eiga þá við að gæðin skipti meira máli en magnið. Uppteknir foreldrar eyða kannski 15 til 20 mínútum annan hvern dag með barni sínu, kannski klukkutíma um helgar, og kalla það gæðatíma. En er það nóg til að svala þörfum barnsins eða er tilgangurinn sá að friða samviskuna eða gefa móðurinni hugarró meðan hún sinnir sínum hugðarefnum en fullnægir ekki þörfum barnsins? En þú andmælir kannski: ‚Í fullri hreinskilni á ég svo annríkt að ég hef ekki slíkan tíma aflögu.‘ Það er mjög miður, sérstaklega fyrir þig og barn þitt, því að það er ekki hægt að stytta sér leið. Annaðhvort verður þú að finna þér slíkan tíma á mótunarárunum eða búa þig undir að uppskera kynslóðabil á unglingsárunum.

Það er ekki bara barnið sem getur hugsanlega beðið skaða af því að vera komið fyrir í dagvist heldur fara foreldrarnir líka á mis við ánægjuna af því að sjá barn sitt vaxa og þroskast. Barnið skilur ekki alltaf hvers vegna foreldrarnir eru ekki hjá því og því getur fundist það vanrækt, hafnað, yfirgefið, ekki elskað. Þegar kemur fram á táningaárin kann barnið að hafa myndað tryggðarbönd við jafnaldra sína í stað foreldranna sem hafa ekki tíma til að sinna því. Hugsast getur að barnið fari jafnvel að lifa tvöföldu lífi, öðru til að þóknast foreldrum sínum og hinu til að þóknast sjálfu sér. Orð, skýringar og afsakanir duga ekki til að brúa bilið. Í eyrum barns, sem var vanrækt á þeim árum sem það þarfnaðist foreldra sinna mest, hljómar tal þeirra núna um kærleika ekki mjög einlægt. Tal um væntumþykju núna hljómar ekki sannfærandi heldur innantómt. Líkt og trúin er kærleikurinn dauður án verka. — Jakobsbréfið 2:26.

Við uppskerum nú þegar það sem við höfum sáð

Eigingirni færist sífellt í aukana meðal ‚éghyggjukynslóðarinnar‘ og hún birtist ekki síst í því að við vanrækjum börnin okkar. Við eignumst þau og komum þeim svo fyrir í dagvistun. Sumar dagvistunarstofnanir geta verið ágætar fyrir börnin en sumar eru það ekki, einkum þegar yngstu börnin eiga í hlut. Þess eru jafnvel dæmi að dagvistunarstofnanir hafi verið sakaðar um kynferðislega misnotkun barna. Rannsóknarmaður sagði: „Það leikur enginn vafi á því að við munum eiga í svo alvarlegum vandamálum í framtíðinni að nútíminn mun líta út eins og saklaust teboð.“ „Teboð“ nútímans er nú þegar ógnvekjandi eins og tölur, sem dr. David Elkind lagði fram árið 1992, sýna:

„Offita barna og unglinga er 50 af hundraði tíðari en var fyrir tveim áratugum. Við missum um tíu þúsund táninga á ári af slysförum sem rekja má til fíkniefna eða áfengis, og þá eru ekki taldir þeir sem slasast eða örkumlast. Fjórði hver táningur drekkur í óhófi aðra hverja viku og tvær milljónir táninga eru alkólhólistar.

Ein milljón unglingsstúlkna í Bandaríkjunum verður barnshafandi á ári hverju sem er tvöfalt algengara en á Englandi sem er næst í röðinni meðal Vesturlanda. Sjálfsvíg unglinga hafa þrefaldast á síðastliðnum 20 árum og á bilinu fimm til sex þúsund unglingar svipta sig lífi á ári hverju. Talið er að ein af hverjum fjórum stúlkum á táningaaldri sýni að minnsta kosti eitthvert einkenni lystartruflunar, oftast strangan megrunarkúr. Af öllum aldurshópum eru manndráp næstalgengust meðal 14 til 19 ára unglinga.“

Við þessar uggvænlegu upplýsingar má svo bæta að yfir 50 milljónir barna eru drepin meðan þau enn eru í móðurkviði. „Teboð“ nútímans er hrikalegra en orð fá lýst. Með hrun fjölskyldunnar í huga sagði dr. Elkind: „Örar þjóðfélagsbreytingar eru stórskaðlegar fyrir börn og unglinga sem þarfnast stöðugleika og öryggis til að vaxa og þroskast eðlilega.“ Maður, sem hefur fjallað um hina eigingjörnu ‚éghyggju,‘ skrifaði í mótmælaskyni: „En enginn er fús til að segja hjónum: Hlustið nú á. Þið megið til með að halda hjónabandinu gangandi. Ef þið eigið börn, haldið þá hjónabandinu gangandi!“

Það kostar tíma að elska barn. Robert Keeshan, sem hefur leikið fyrir börn í bandarísku sjónvarpi undir heitinu „Kengúra kapteinn,“ varaði fyrir mörgum árum við þeim afleiðingum sem það gæti haft að nota ekki tíma með börnunum. Hann sagði:

„Með þumalputtann í munninum og brúðu í hendinni bíður lítil stúlka þess með nokkurri óþreyju að pabbi (eða mamma) komi heim. Hana langar til að segja frá einhverju sem gerðist í sandkassanum. Hún brennur í skinninu að segja frá spennandi atburðum dagsins. Stundin rennur upp og pabbi kemur heim. Hann er útkeyrður eftir erfiðan vinnudag og segir gjarnan: ‚Ekki núna, elskan. Ég er upptekinn. Farðu og horfðu á sjónvarpið.‘ Algengustu orðin á mörgum bandarískum heimilum eru: ‚Ég er upptekinn. Farðu og horfðu á sjónvarpið.‘ Já, en hvenær þá? ‚Seinna.‘ En þetta ‚seinna‘ kemur sjaldan . . .

Árin líða og stúlkan stækkar. Við gefum henni leikföng og föt. Við gefum henni föt með fínum vörumerkjum og hljómtæki en við gefum henni ekki það sem hana langar mest í — tíma okkar. Hún er orðin fjórtán ára, augnaráðið er glansandi, hún er komin út í einhverja neyslu. ‚Hvað er að, elskan? Talaðu við mig, segðu eitthvað.‘ En nú er það of seint, allt of seint. Kærleikurinn er genginn okkur úr greipum. . . .

Þegar við segjum við barn: ‚Ekki núna, einhvern tíma seinna;‘ þegar við segjum: ‚Farðu og horfðu á sjónvarpið;‘ þegar við segjum: ‚Ekki spyrja svona margra spurninga;‘ þegar við gefum ekki unga fólkinu okkar það eina sem það krefst af okkur, tíma okkar; þegar við sýnum barni ekki ást — þá stafar það ekki af því að okkur sé sama um það. Við erum einfaldlega of upptekin til að elska barn.“

Það kostar mikinn tíma

Hið ákjósanlegasta er ekki svokallaður „gæðatími“ í útmældum skömmtum heldur ríkulega útlátinn tími. Biblían, sem inniheldur margfalt meiri visku en allar bækur sem skrifaðar hafa verið um sálfræði, segir í 5. Mósebók 6:6, 7: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ Þú verður að innprenta börnum þínum hin sönnu verðmæti frá orði Guðs sem eru í hjarta þínu. Ef þú lifir eftir þeim mun barn þitt líkja eftir þér.

Manstu eftir orðskviðnum sem nefndur var í byrjun greinarinnar á undan? Hann var svona: „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ (Orðskviðirnir 22:6) Því aðeins reynist hann sannur að barninu hafi verið innprentað rétt gildismat, það er að segja að því hafi verið innrætt það og það sé hluti af hugsanagangi þess og innstu tilfinningum, því sem það er innst inni. Það gerist aðeins ef foreldrarnir hafa ekki bara kennt barninu þetta gildismat heldur líka farið eftir því sjálfir.

Barnið hefur tileinkað sér það sem sitt lífsviðhorf. Það er orðið hegðunarmynstur þess og er hluti af því sjálfu. Gangi það gegn þessu lífsviðhorfi núna er það ekki að ganga gegn því sem foreldrarnir kenndu heldur því sem það er sjálft orðið. Þá væri barnið ekki sjálfu sér trútt heldur væri að afneita sjálfu sér. (2. Tímóteusarbréf 2:13) Innst inni vill barnið ekki gera sjálfu sér þetta. Þess vegna eru tiltölulega litlar líkur á að það ‚víki af þessum vegi‘ sem er orðinn hluti af því sjálfu. Láttu þess vegna börnin þín tileinka sér góða hegðun með því að fylgjast með fordæmi þínu. Kenndu því vinsemd með því að sýna vinsemd, góða siði með því að stunda þá, mildi með því að vera mildur, heiðarleika og sannsögli með því að gefa fordæmið.

Fyrirkomulag Jehóva

Fjölskyldan var frá upphafi fyrirkomulag Jehóva fyrir manninn. (1. Mósebók 1:26-28; 2:18-24) Eftir sex þúsund ára sögu er hún enn viðurkennd besta umgjörðin bæði fyrir börn og fullorðna. Bókin Secrets of Strong Families (Leyndardómur sterkra fjölskyldna) staðfestir það og segir:

„Kannski blundar innst inni með okkur einhvers konar viðurkenning á því að fjölskyldan sé hornsteinn siðmenningarinnar. Kannski vitum við ósjálfrátt að þegar allt kemur til alls eru það ekki peningar, frami, frægð, glæsilegt hús, landareign eða efnislegar eignir sem skipta máli — heldur fólkið í lífi okkar sem elskar okkur og annast. Það sem raunverulega skiptir máli er fólkið í lífi okkar sem er okkur bundið og við getum reitt okkur á til stuðnings og hjálpar. Hvergi er betri vettvangur til að rækta þann kærleika, stuðning, umhyggju og ábyrgðartilfinningu sem við öll þráum en innan fjölskyldunnar.“

Þess vegna er mikilvægt að leggja sig vel fram og nota tímann vel til að sá góðu uppeldi á mótunarskeiði barnanna. Uppskeran verður eftir því — hamingjusamt heimilislíf bæði fyrir þig og börn þín. — Samanber Orðskviðina 3:1-7.

[Rammi á blaðsíðu 10]

Hvers konar foreldri er ég?

„Ég fékk hæstu einkunn í tveim greinum,“ hrópaði litli drengurinn kátri röddu. „Af hverju ekki í fleiri greinum?“ spurði faðirinn um hæl. „Mamma, ég er búin að þvo upp,“ kallaði stúlkan úr dyragættinni. „Fórstu út með ruslið?“ spurði móðir hennar rólega. „Ég er búinn að slá garðinn,“ sagði hávaxni drengurinn, „og ég setti sláttuvélina inn í skúr.“ „Klipptirðu limgerðið líka?“ spurði faðirinn um leið og hann yppti öxlum.

Börnin í næsta húsi virðast glöð og ánægð. Sams konar orðaskipti áttu sér stað þar en viðbrögð foreldranna voru önnur.

„Ég fékk hæstu einkunn í tveim greinum,“ hrópaði litli drengurinn kátri röddu. „Mikið er ég ánægður að þú skyldir standa þig svona vel,“ svaraði faðirinn stoltur. „Mamma, ég er búin að þvo upp,“ kallaði stúlkan úr dyragættinni. „Mikið var það indælt af þér,“ svaraði móðirin blíðlega og brosandi. „Ég er búinn að slá garðinn,“ sagði hávaxni drengurinn, „og ég setti sláttuvélina inn í skúr.“ „Ég er stoltur af þér,“ svaraði faðirinn hinn ánægðasti.

Börn verðskulda eitthvert hrós fyrir sín daglegu störf. Mikið veltur á þér að þau séu hamingjusöm.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Faðirinn vinnur með móðurinni að því að byggja upp tilfinningatengsl við barnið.

[Mynd á blaðsíðu 8]

Ímyndunaraflið fær lausan tauminn: Drengur hleypur með útrétta handleggi. Í huganum er hann flugvél í háloftunum. Stór pappakassi verður að húsi. Kústskaft verður að fótfráum gæðingi. Stóll verður að ökumannssæti í kappakstursbíl.