Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Get ég í alvöru ánetjast áfengi?

Get ég í alvöru ánetjast áfengi?

Ungt fólk spyr . . .

Get ég í alvöru ánetjast áfengi?

ÞAÐ byrjaði þegar Jerome var níu ára. „Ég smakkaði á afgangsdrykkjum eftir boð sem var haldið heima, varð drukkinn og leið bara vel,“ segir hann. Hann vandi sig fljótt á að kaupa áfengi, fela það og drekka. Þó segir hann: „Ég áttaði mig alls ekki á því fyrr en ég var orðinn 17 ára að ég ætti við vandamál að stríða. Meðan aðrir voru að fá sér morgunverð drakk ég pela af vodka!“

Notkun og misnotkun áfengis vex með uggvænlegum hraða meðal ungs fólks um allan heim. Yfir tíu milljónir (eða helmingur) 13 til 18 ára skólanema í Bandaríkjunum fengu sér að minnsta kosti einu sinni í glas á síðasta ári. Um átta milljónir þeirra drekka vikulega. Bandarískir unglingar drekka yfir einn milljarð dósa af bjór og yfir 300 milljónir flaskna af vínblöndu á ári!

Biblían segir um áfenga drykki: „Hver sá, er drukkinn reikar, er óvitur.“ (Orðskviðirnir 20:1) Milljónir unglinga láta áfengi eigi að síður leiða sig út á hættubraut, líkt og Jerome. Hvers vegna er ofnotkun áfengis hættuleg? Hvernig er hægt að vita hvort maður er að ánetjast áfengi?

Áfengi og drykkjusýki

Áfengi virðist ósköp skaðlaust í fallegri flösku eða freyðandi bjórkollu, en bragð og útlit getur blekkt. Áfengi er vímuefni — meira að segja mjög sterkt.

Læknar segja að áfengi hafi slævandi áhrif á heilann og miðtaugakerfið og dragi úr líkamlegum viðbrögðum og virkni. Fullvaxinn maður, sem neytir áfengis í hófi, getur fundið fyrir skaðlausum, þægilegum áhrifum. „Vín . . . gleður hjarta mannsins,“ segir Sálmur 104:15. Of stór skammtur áfengis getur hins vegar valdið ölvun þar sem dregur úr sjálfstjórn huga og líkama. Það er hægt að verða háður áfengi eins og Jerome, að fara yfir hina hárfínu markalínu milli þess að langa í áfengi og þarfnast þess eða hafa sterka löngun í það. Hvers vegna gerist það? Líkaminn getur myndað þol fyrir áfengi ef það er notað í óhófi. Neytandinn verður þá að drekka æ meira magn til að finna áhrifin af því og áður en hann veit af er hann orðinn ánetjaður. Um leið og það gerist breytist líf hans verulega til hins verra. Nálega fimm milljónir bandarískra unglinga eiga við áfengisvandamál að stríða.

Hvers vegna þeir drekka

Á fjórða áratugnum voru bandarískir unglingar að meðaltali orðnir um 18 ára þegar þeir brögðuðu vín í fyrsta sinn. Núna er meðalaldurinn kominn niður fyrir 13 ár. Sumir byrja enn fyrr. „Ég var sex ára . . . þegar ég tók smásopa af bjór úr glasinu hans afa míns. . . . Mig svimaði!“ segir Charlotte en hún er alkóhólisti á batavegi. Því fyrr sem menn byrja, þeim mun meiri hætta er á því að verða háður áfengi.

Unglingar geta að sjálfsögðu einnig orðið fyrir miklum hópþrýstingi í þessa átt frá jafnöldrum sínum. Stundum eiga foreldrar þó nokkra sök á. Sumir drekka í óhófi, nota áfengi eins og hækju fyrir tilfinningalífið eða gorta jafnvel af því hve mikið þeir þoli. Bæklingur um drykkjusýki segir: „Þeir sem umgangast áfengi með ábyrgum hætti á fullorðinsárum koma yfirleitt úr fjölskyldum þar sem áfengi er meðhöndlað af raunsæi og skynsemi . . . þar sem áfengi er notað í hófi.“ a

Sjónvarpið hefur einnig sterk áhrif á börn og unglinga. Átján ára bandarískur unglingur hefur að jafnaði séð 75.000 drykkjusenur í sjónvarpi — 11 á dag. Þar sem áfengisauglýsingar eru leyfðar eru þær úthugsaðar til að koma þeirri hugmynd inn hjá fólki að áfengi sé aðgöngumiði að skemmtun og rómantík, til dæmis með því að sýna kynæsandi fyrirsætur drekka áfengi í æsilegum samkvæmum. Áfengisblöndur eru gjarnan framleiddar með ávaxtabragði og gefnar nöfn sem auðvelt er að muna. Auglýsingarnar hrífa. Um hverja helgi fara um 454.000 unglingar í Bandaríkjunum á fyllirí. Bandaríski landlæknirinn sagði af því tilefni að margir þeirra séu „nú þegar orðnir alkóhólistar og afgangurinn sé sennilega vel á veg kominn með að verða það.“

Sumir unglingar byrja að drekka sökum kvíða og óróa hið innra með sér. Kim segir hvers vegna hún drakk bjór ótæpilega: „Ég notaði [áfengi] til að komast í betra skap og auka sjálfsvirðinguna.“ Ef unglingur er feiminn eða sjálfsvirðing hans á lágu stigi getur það verið freistandi lausn að drekka. Sumir drekka til að gleyma einhverjum sársaukafullum veruleika lífsins, svo sem misþyrmingu eða vanrækslu af hálfu foreldra. Hvers vegna byrjaði Ana að drekka? „Ég naut aldrei þeirrar ástúðar sem ég þarfnaðist.“

Hver sem ástæðan er fyrir því að unglingur byrjar að drekka getur komið að því að hann eigi sífellt erfiðara með að hafa hemil á drykkju sinni. Þegar svo er komið uppgötvar hann kannski að hann er orðinn alkóhólisti. Ert þú byrjaður að drekka? Farðu þá yfir spurningalistann á næstu síðu undir yfirskriftinni „Síðan þú byrjaðir að drekka . . . “ Vera má að niðurstaðan komi þér á óvart.

Áfengi — hættulegt unglingum!

Biblían varar þá „sem sitja við vín fram á nætur“ við því að áfengið spýti „að síðustu . . . eitri sem naðra.“ (Orðskviðirnir 23:29-32) Höggormseitur getur valdið hægu og kvalafullu líkamstjóni eða dauða. (Samanber Postulasöguna 28:3, 6.) Eins getur langvarandi ofnotkun áfengis drepið þig smám saman. Hún getur skemmt eða eyðilagt ómissandi líffæri svo sem lifur, bris, heila og hjarta. Á vaxtar- og þroskaskeiði líkama og huga er sérstaklega mikil hætta á slíkum skemmdum sem eru oft óbætanlegar.

Misnotkun áfengis getur jafnvel verið enn skaðlegri fyrir tilfinningalíf þitt en líkama. Áfengi getur aukið sjálfstraust þitt um stund, en það er falskt sjálfstraust því að áhrifin hverfa alltaf aftur. Á meðan hægir þú mjög á hugar- og tilfinningaþroska þínum. Í stað þess að hætta drykkju og horfast í augu við veruleikann ‚færðu þér annan.‘ Eftir að hafa haldið sér þurrum í 11 mánuði segir Peter sem er 18 ára: „Ég neyðist til að læra að horfast í augu við tilfinningar mínar og finna nýjar leiðir til að takast á við aðstæður sem áfengið fleytti mér gegnum áður. Ég held að félags- og tilfinningaþroski minn sé svona eins og hjá þrettán ára krakka.“

Svo er það hættan sem fylgir því að aka undir áhrifum áfengis. Algengasta dánarorsök ungs fólks í Bandaríkjunum er umferðarslys sem rekja má til áfengis. Áfengisnotkun tengist líka manndrápum, sjálfsmorðum og drukknun — öðrum algengustu dánarorsökum ungs fólks.

Auk þessa getur misnotkun áfengis haft stórskaðleg áhrif á fjölskyldulíf, vináttubönd, skólanám og andlegt hugarfar. Biblían orðar það þannig: „Sýndu mér mann sem drekkur of mikið . . . og ég skal sýna þér mann sem er vansæll og hefur sjálfsmeðaumkun, alltaf til vandræða og síkvartandi. Augu hans eru blóðhlaupin og hann er með sár sem hann hefði getað forðast. . . . Þér líður eins og þú sért úti á hafi, sjóveikur, að sveiflast hátt uppi í reiða á veltandi skipi.“ (Orðskviðirnir 23:29-34, Today’s English Version) Þetta er sú hlið drykkjunnar sem er aldrei sýnd í glansmyndum sjónvarpsins.

Hvers vegna að byrja?

Af þessum orsökum leyfa fjölmargar þjóðir ekki að unglingar neyti áfengis fyrr en þeir ná ákveðnum aldri. Ef þú ert kristinn er nauðsynlegt fyrir þig að hlýða slíkum lögum, því að Guð fyrirskipar þér að ‚hlýða yfirvöldum.‘ (Rómverjabréfið 13:1, 2) Jafnvel þótt unglingar séu vanir að neyta áfengis þar sem þú býrð má vel spyrja hvort það sé þér í raun og veru fyrir bestu að byrja að neyta áfengis á þessu æviskeiði. Eins og 1. Korintubréf 6:12 segir er allt „leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt.“ (1. Korintubréf 6:12) Ert þú viss um að þú kunnir að nota áfengi í hófi?

Þegar félagarnir bjóða þér bjór eða annað áfengi getur auðvitað verið freistandi að smakka til að vita hvernig það bragðast. Mundu samt að það er verið að bjóða þér efni sem getur orðið vanabindandi. Guðræknir unglingar á biblíutímanum, svo sem Daníel, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, voru nógu hugrakkir til að bjóða yfirvöldunum í Babýlon byrginn og afþakka mat og vín sem hinn heiðni konungur Babýlonar lét skammta þeim en var spillandi fyrir þá. Þú getur líka haft hugrekki til að segja nei! — Daníel 1:3-17.

Það kemur að því að þú verður nógu gamall — lagalega, hugarfarslega, tilfinningalega og líkamlega — til að neyta áfengis, ef þú vilt. Eigi að síður er skynsamlegt af þér að vera hófsamur og forðast það að ánetjast áfengi. Margir unglingar eru nú þegar ánetjaðir. Við fjöllum síðar um hvað þeir geti gert til að hætta drykkjunni.

[Neðanmáls]

a Í sumum þjóðfélögum er börnum og unglingum yfirleitt leyft að drekka áfengi með mat. Þótt það sé siður er eigi að síður hyggilegt af foreldrum að hugleiða alvarlega hvað sé best fyrir börn þeirra og láta ekki almennar venjur stjórna öllum ákvörðunum sínum.

[Rammi á blaðsíðu 23]

SÍÐAN ÞÚ BYRJAÐIR AÐ DREKKA . . .

◻ Áttu aðra vini eða færri vini?

◻ Er heimilislífið erfiðara?

◻ Áttu erfitt með að sofa eða ertu niðurdreginn eða kvíðinn?

◻ Þarftu að fá þér í glas til að þér líði vel á meðal fólks?

◻ Ertu óánægður með þig eða leiður eftir að hafa drukkið?

◻ Lýgur þú um áfengisnotkun þína eða reynir að leyna henni?

◻ Verður þú skömmustulegur eða reiður ef einhver minnist á drykkjuvenjur þínar?

◻ Hafa þér einhvern tíma verið gefin ráð í sambandi við drykkju þína eða einhver haft hana í flimtingum?

◻ Heldur þú að það sé í lagi fyrir þig að drekka bjór eða létt vín vegna þess að þau eru ekki sterk?

◻ Hefur þú hætt eða misst áhugann á tómstundaiðju eða íþróttum sem þú hafðir gaman af áður?

Ef þú svaraðir fleiri en tveim spurningum játandi getur það bent til þess að þú eigir við alvarlegt áfengisvandamál að stríða. Ef svo er væri skynsamlegt af þér að leita hjálpar þegar í stað.

Heimild: THE REGENT HOSPITAL, New York, NY.

[Mynd á blaðsíðu 22]

Margir drykkjusjúklingar byrjuðu að misnota áfengi ungir að árum.